Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:02:16 (1659)

1996-12-02 18:02:16# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki efnislega í umfjöllun ræðumannsins, en ég ætla þó að geta þess að ég var með væntingar um að Alþb. tæki undir með okkur í þessu góða máli og að Alþb. mundi taka þátt í umræðunni og vilja vera með okkur í að skoða þessi mál. Ég á dálítið erfitt með að skilja af hverju það er svona ríkur þáttur hjá Alþb. þegar við erum að tala um mál sem okkur eru mikilvæg að koma fyrst og fremst með hnútukast en skoða ekki efnislega það sem þarna er á ferð. Ég held að ég geti fullyrt fyrir hönd okkar allra að ekki muni standa á okkur að skoða þessi mál með Alþb. ef til þess kemur að við eigum möguleika á að ná þessari tillögu í gegnum nefnd og fá til þess stuðning stjórnarflokkanna. Margt af því sem þarna er að finna hefur átt hljómgrunn hjá heilbrrh. í hennar ræðum á þessu þingi.

Ég get alveg tekið undir það að heilsugæslustöðvarnar eru gott mál og sérstaklega ætla ég að taka undir með hv. þm. varðandi Akureyri. Ég hef skoðað og farið í gegnum þá uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Hún er til fyrirmyndar. Ég get líka nefnt að á sínum tíma var heimilishjálp og heimahjúkrun í Kópavogi mjög vel byggð upp. Það var ótrúlegt að bera saman kostnaðinn við stofnanavist og heimaþjónustu hjá t.d. Kópavogi og öðrum stöðum sem fyrst og fremst nýttu stofnanaþjónustu af því að hún var byggð þar upp. Heimaþjónustan var það sem fólkið vildi og kostnaðurinn lenti á sveitarfélaginu meðan stofnanaþjónustan lenti hjá ríkissjóði að mestum hluta. Þetta hefur oft skapað ójafnvægi sem hefur gert það að verkum, eins og við þekkjum, að stjórnsýslustigin hafa verið að kasta á milli sín verkefnunum. Þess vegna er svona mikilvægt að setja fram stefnu sem er til hagsbóta fyrir neytandann, í þessu tilfelli sjúklinginn eða þann sem höllum fæti stendur. Ég held að við ættum að sameinast um það, hv. þm.