Brunatryggingar

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:28:07 (1838)

1996-12-04 20:28:07# 121. lþ. 35.10 fundur 75. mál: #A brunatryggingar# (umsýslugjald) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:28]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 48/1994, um brunatryggingar, með síðari breytingum. Nefndin sendi frv. til umsagnar til nokkurra aðila og fékk á sinn fund aðila eins og getið er um í nál.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frv. Fyrri breytingin er sú að lokamálsliður 1. gr. frv. falli brott. Þar er verið að mæla svo fyrir að fella brott málslið um að eigi skuli greiðast þóknun vegna innheimtu umsýslugjalds. Með þessu er nefndin ekki að leggja til að félögin eigi að fá þóknun fyrir innheimtuna, heldur þvert á móti er það afstaða nefndarinnar að ekki beri að greiða þóknun fyrir innheimtu á slíkum skatti frekar en af öðrum sambærilegum sköttum sem vátryggingafélög innheimta fyrir ríkið enda hefur fram til þessa einungis verið greidd þóknun fyrir innheimtu á viðlagatryggingargjaldi.

Þá er enn fremur gerð tillaga af hálfu nefndarinnar um breytingu á 2. mgr. 4. gr. laganna og hún orðist svo:

,,Séu brunatryggingariðgjöld og önnur gjöld og skattar sem ákvörðuð eru sem hlutfall af brunabótamati og innheimtast eiga samhliða innheimtu iðgjalda, svo og matskostnaður, eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga er heimilt að krefjast nauðungarsölu á hinni vátryggðu eign án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Önnur gjöld og skattar samkvæmt þessari málsgrein eru brunavarnargjald, umsýslugjald, forvarnargjald, viðlagatryggingargjald og álag á viðlagatryggingargjald.``

Hæstv. forseti. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að tryggja að eignir séu tryggðar og að kröfuhafar og veðhafar lendi ekki í því að eignir sem þeir eiga kröfur í séu ótryggðar og því geti kröfuhafar orðið fyrir því að ógreidd gjöld leiði til að eignir sem brenna séu ótryggðar og því verði veðin að engu.

[20:30]