Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 15:16:52 (1912)

1996-12-05 15:16:52# 121. lþ. 36.14 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega fagna því að allshn. skuli hafa afgreitt þetta mál með svo skjótum hætti og að sú leið skuli hafa verið farin þ.e. að styrkja frv. og flýta gildistökunni. Ég hygg að atburðir undanfarinna mánaða hérlendis og erlendis eigi sinn þátt í því að við fáum þessa löggjöf. Ég held, því miður, að margir hér á landi átti sig ekki á því að við erum að fást við alþjóðlegt fyrirbæri, sögulegt fyrirbæri því að þegar heimildir eru skoðaðar hefur meðferð sem þessi á börnum tíðkast frá örófi alda, þó auðvitað hafi komið til ný tækni eins og ljósmyndir, kvikmyndir, vídeómyndir og nú síðast internetið sem gerir dreifingu á barnaklámi miklu auðveldari.

Ég held að eftirlitið með barnakláminu sé kannski erfiðasti hlutinn af öllu þessu dæmi. Hvernig á að fylgjast með því að klám sé ekki flutt inn? Hvernig á að fylgjast með því að það sé ekki framleitt? Það er býsna erfitt mál því að þetta tilheyrir einmitt þeim kima samfélagsins sem er undir yfirborðinu og kemur sjaldnast í ljós. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni og ég hygg að það liggi líka að baki hjá allshn. að notkun á börnum við gerð klámmynda og hvers konar kynferðisleg misnotkun á börnum í klámmyndagerð er með allra verstu glæpum sem tíðkast í okkar samfélagi og annars staðar. Ég ítreka að ég fagna því hve skjótt er brugðist við. En það þarf auðvitað að fylgja þessu máli miklu betur eftir.

Ég veit að í allshn. var rætt nokkuð um internetið og hvernig hægt væri að stemma stigu við útbreiðslu kláms og barnakláms en ég hygg að það sé mjög erfitt viðureignar bæði vegna þess að oft er mjög flókið að finna slíkt efni. Ég get upplýst það að við kvennalistakonur gerðum fyrir nokkrum vikum tilraun til að skoða hvað við fyndum og yfirleitt gerðist það að brautin lokaðist. Það þurfti einhvers konar áskrift, númer til þess að geta haldið áfram. Menn eru því að nota og selja klám á þennan hátt. Það er því býsna flókið að finna þetta og menn þurfa að hafa netföng þeirra sem eru að framleiða og dreifa.

Mig langar til að fá það upplýst í þessari umræðu hjá hv. formanni allshn. eða öðrum allsherjarnefndarmönnum sem hér eru hvort fyrir liggi einhver vitneskja um magn barnakláms sem er í umferð. Hafa menn einhverja hugmynd um hversu mikið er um barnaklám hér á landi og hvernig því er dreift fyrir utan internetið? Í fréttum í morgun var sagt frá því að lögreglan tók klámmyndir á myndbandaleigu hér í borg í sína vörslu og þegar farið var að skoða þær kom í ljós að unglingsstúlkur voru þar í hlutverkum. Ef það er svo að slíkar myndir eru á myndbandaleigunum þarf auðvitað að hafa eftirlit með því með reglulegu millibili því að þær fara alltaf í umferð aftur á einhvern hátt. En spurning mín er þessi: Hvaða vitneskju hafa menn um magn og dreifingu kláms hér á landi?

Í framhaldi af þessu tel ég líka að við þurfum mjög að auka rannsóknir á þessu sviði. Mér vitanlega hafa ákaflega litlar rannsóknir farið fram á klámi og umfangi kláms og öðru sem því er tengt, að maður tali nú ekki um t.d. vændi barna, sem er því miður orðið algengt í öðrum löndum, t.d. í Danmörku. Það er ótrúlega mikið um vændi barna bæði drengja og stúlkna. Ég veit ekki hvort slíkt finnst í einhverjum mæli hér. Það hefur verið nefnt að það sé til í tengslum við eiturlyfjaneyslu en ég held að það sé líka mjög mikilvægt að auka rannsóknir og þar með að auka þekkingu okkar á stöðu mála.

Allra síðast vil ég taka undir það sem kemur fram í nál. allshn. um nauðsyn þess að fræða þá, sem kanna þessi mál og fá þau til meðferðar hjá dómstólum, um eðli kláms og afleiðingar þess að börn séu misnotuð á þennan hátt. Ég tel það vera afar brýnt en allra síðast, hæstv. forseti, segi ég enn og aftur að mér finnst mjög gott að þetta mál skuli komið inn í þingsali og vonandi taka lögin gildi nú um áramótin.