Störf fjárlaganefndar

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:05:54 (1920)

1996-12-09 15:05:54# 121. lþ. 37.96 fundur 134#B störf fjárlaganefndar# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:05]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Í starfsáætlun þingsins var gert ráð fyrir starfsháttabreytingum á Alþingi. Umræður um stórmál eins og fjárlög fengu ákveðna dagsetningu; 5. desember sl., 2. umr. Skipulögð var sérstök starfsvika nefnda þingsins. Skipulags- og hugmyndafræði á bak við áætlun fyrir störf þingsins er til fyrirmyndar. Ég vil þakka þá stjórnsemi.

Virðulegur forseti þingsins gerði skilmerkilega grein fyrir því við þingsetningu að ætlunin væri að koma í veg fyrir óeðlilegar vökur og of langa þingfundi á síðustu dögum fyrir jól. Ég tel að allir aðilar hafi staðið að vinnunni við fjárlagagerðina af fullum heilindum nema ríkisstjórn Íslands. Ef hún væri í vinnu hjá einkafyrirtæki væri búið að segja henni upp fyrir ráðleysi og dáðleysi. Ríkisstjórnin hefur haldið fjárln. í aðgerðaleysi tvær síðustu helgar þannig að ágætur formaður nefndarinnar, sem ekki er verið að sakast við hér, hefur orðið að aflýsa fyrirhuguðum fundum og vísa nefndarmönnum heim til músastigagerðar.

Herra forseti. Ég mótmæli þessum starfsháttum ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Ég mótmæli því að aðgerðir sem fyrirhugað er að grípa skuli til skuli berast fjárlaganefndarmönnum gegnum fjölmiðla í véfréttastíl. Það er talað um aðhaldsaðgerðir sem nema 3--4 milljörðum kr. Það er tiplað á málum eins og einkavæðingu fríhafnar í Leifsstöð, frestun stækkunar stöðvarinnar, sölu á Sementsverksmiðjunni og sölu á Áburðarverksmiðjunni. Það er talað um niðurskurð í vegaframkvæmdum, niðurskurð viðhalds á eignum ríkisins, samdrátt í fjárfestingum og nýbyggingum. Öll þessi atriði eru deilumál og þurfa gaumgæfilega meðferð og umsögn fjölmargra aðila.

Herra forseti. Skipulag hefur verið gott á störfum fjárln. en ég mótmæli enn og aftur sleifarlagi hæstv. ríkisstjórnar íhalds og Framsóknar sem nú situr.