Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:04:13 (1957)

1996-12-10 14:04:13# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), GL
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:04]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Auðvitað er ástandið í þjóðfélaginu hvað varðar unglinga óviðunandi og á því þarf að finna bót. En bótin er ekki fólgin í því að fjölga meðferðarheimilunum. Bótin er fyrst og fremst fólgin í því að breyta aðstæðum í þjóðfélaginu þannig að þjóðfélagið sé ekki andstætt unglingunum. Hvernig þjóðfélag viljum við sjá þannig að unglingarnir alist upp í sátt við þjóðfélagið, beri virðingu fyrir þeim lögum og þeim reglum sem þar eru settar? Við þurfum að breyta þjóðfélaginu þannig að það sé vænt þessum unglingum.

Nú er það svo að þeir unglingar sem eru að alast upp, búa margir hverjir við þá stöðu að foreldrarnir eru atvinnulausir eða hafa mjög lágar tekjur og í reynd blasir lítið annað við þessum unglingum heldur en svipað ástand. Þetta fólk hefur oft á tíðum ekki þrek og efni til þess að ganga menntaveginn, lendir í lægstu launastigum þjóðfélagsins og er í raun og veru dæmt til þess að verða undirmálsfólk. Það eru þessar aðstæður sem gera það að verkum m.a., herra forseti, að ástandið hvað varðar unglinga er með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er alveg sama hversu mörgum meðferðarheimilum verður komið á fót meðan undirstaða þjóðfélagsins er jafnröng og jafnskökk og hún er í dag, þá höldum við áfram að ala upp unglinga sem verða nánast til vandræða eins og raun ber vitni. Þess vegna hlýtur öll umræðan að snúast um það að breyta þjóðfélaginu unglingum í hag.

Við getum líka gert fleira, herra forseti. Við getum unnið að því að reyna að hefta aðgengi unglinga að vímuefnum og áfengi. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni hvernig unglingar geta nálgast þessi efni nánast hindrunarlítið eða hindrunarlaust og hlýtur að kalla á að hæstv. dómsmrh. (Forseti hringir.) beiti sér fyrir því að löggæsla verði efld í þessum efnum.