Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:06:38 (1958)

1996-12-10 14:06:38# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hreyfir hér mjög alvarlegu máli sem við öll þekkjum sem hér erum í þingsal. Og öll erum við viljug til að ganga til verka til að koma í veg fyrir ofbeldi sem svo sannarlega er í þjóðfélaginu, ekki bara hjá ungu fólki heldur hjá fullorðnu fólki eigi síður. Það er ekkert eitt úrræði sem leysir þann vanda sem við stöndum frammi fyrir heldur mörg samverkandi úrræði sem verða að koma til greina. Það er þess vegna sem ríkisstjórn Íslands ákvað að ganga í þessi mál á þann hátt að byggja upp nýja stefnu í áfengis- og vímuefnamálum, auka löggæslu og koma að þessum málum frá mörgum sjónarhólum, því það er nauðsynlegt. Það eru fulltrúar úr ekki færri en sex ráðuneytum sem munu sitja í áfengis- og vímuefnaráði en frv. um það verður vonandi að lögum hér hið allra fyrsta. Það er mjög mikilvægt einmitt að þessir mörgu samverkandi þættir vinni saman. Við höfum ýmis úrræði varðandi lausn þessara mála en þurfum að leysa þau í sameiningu.

Hér er spurt að því sérstaklega hvort rétt sé að hækka sjálfræðisaldur. Ég tel að það komi mjög vel til greina að hækka sjálfræðisaldur upp í 18 ár. Ég veit að það hefur verið vandamál þar sem börn innan við 18 ára aldur koma t.d. mjög illa haldin á slysavarðstofu. Ef þau eru 16 ára þarf ekki að hringja heim til þeirra eða þau geta svolítið ráðið því sjálf. Það veldur vandamálum og þess vegna finnst mér mjög vel koma til greina að hækka sjálfræðisaldurinn.

Það hefur ýmislegt verið gert til þess að styrkja þau úrræði sem fyrir hendi eru og eins og fram hefur komið hér hefur verið lögð sérstök aukafjárveiting til barna- og unglingageðdeildarinnar einmitt til þess að styrkja hana í störfum sínum.