Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:18:47 (1963)

1996-12-10 14:18:47# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að þetta hafi verið gagnleg umræða þótt stutt sé. Það er sannarlega verið að reyna að vinna að úrbótum á þessu vandamáli. Vistunarúrræðum hefur verið fjölgað verulega. Það er verið að stórefla forvarnastarf.

Menn hafa talað um aga og agaleysi og sjálfsagt er nokkuð til í því. Ég held að það sé líka ástæða til að huga að fjölskyldunni í þessu sambandi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að styrkja stöðu fjölskyldunnar í þjóðféaginu þannig að hún veiti unglingunum meira aðhald, meiri hlýju en raun ber vitni í allt of mörgum tilfellum.

Það þýðir ekkert að ætla skólanum að ala börnun upp einn. Foreldrarnir og forráðamenn þurfa að koma að því verki líka. Ég tel að það sé mjög ofmælt að segja að þjóðfélagið sé andstætt unglingum. Þjóðfélagið vill allt fyrir unglinga gera. Það að vísu lukkast ekki allt saman jafn vel en ég tel að almenningsálitið og þjóðfélagið í sjálfu sér sé ekki andstætt unglingum, síður en svo.

En hverju búast unglingarnir við? Hvað sjá þeir fyrir sér? Ef þeir fara í bíó, þá sjá þeir endalaust ofbeldi sem og í sjónvarpi. Auglýsingar kvikmyndahúsanna keyra alveg um þverbak. Maður opnar ekki svo fyrir fréttirnar að maður þurfi ekki að horfa á eina eða tvær mínútur af morðum og hryðjuverkum. Þetta er það sem kvikmyndahúsin telja trekkja, þetta er það sem þau eru að benda fólki á og þetta tel ég að sé mislukkuð markaðshyggja.