Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:19:13 (2004)

1996-12-10 21:19:13# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:19]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hefði e.t.v. ekki kvatt mér hljóðs í þessari umræðu ef ekki hefði legið fyrir sú brtt. sem er á þskj. 79 og með tilliti til þess að allgóð samstaða er um þetta mál og þær tillögur sem hér liggja fyrir, bæði upphaflega frv. sem og breytingartillögur meiri hluta allshn. við málið nú við 2. umr. þess.

Vissulega er það svo, virðulegur forseti, að varðandi svo víðtækt mál og stóran lagabálk eins og umferðarlögin eru, þá eru álitamálin mörg. Ég neita því ekki að ég hef vissulega efasemdir um að í öllum atriðum hafi menn hitt naglann á höfuðið við lagasetninguna, bæði fyrr og nú við þær breytingar sem meiri hluti allshn. er að leggja til, en ég tel mig þó ekki hafa forsendur í þessu máli til að hafa uppi harðar skoðanir í aðra átt og hvað þá að fara að leggja til ákveðnar breytingatillögur við málið. Aðaltilefni þess að ég kveð mér hér hljóðs eru breytingartillögur á þskj. 79.

Áður en ég kem að þeim, virðulegur forseti, vil ég þó leyfa mér að nefna eitt eða tvö atriði sem varða þau efni sem verið er að gera breytingar við þar sem ég hef vissar efasemdir. Það er í fyrsta lagi varðandi ökuhraða þungaflutningabíla með tengivagni sem gert er ráð fyrir samkvæmt 3. gr. frv. að verði hækkaður frá því sem verið hefur og smávegis breytingatillögu miðað við þungaforsendur er að finna í breytingatillögum í áliti allshn. um málið því að nefndin er óskipt í því, þó er einn nefndarmanna með fyrirvara, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.

Ég hef haft af því verulegar áhyggjur á undanförnum árum hvernig umferð þungaflutningabíla hefur margfaldast um þjóðvegi landsins miðað við þær bágu forsendur sem eru í raun fyrir því að hleypa þessari miklu umferð upp eins og hefur gerst stjórnlítið, að segja má, og langt umfram það sem okkar frumstæða vegakerfi miðað við það sem gott þykir erlendis er bært að taka við. Ég lagði fram fyrirspurnir til tveggja ráðherra um þetta efni á síðasta þingi og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um þessar fyrirspurnir þegar hún skýrði sinn fyrirvara við þetta atriði í frv. Svörin sem þá fengust í þessum efnum, bæði varðandi slys sem orðið hafa og tjón á fólki, bæði dauðaslys og önnur slys, styrkja mig í þeirri skoðun að þarna séum við í rauninni á mjög hættulegri braut í sambandi við þungaumferð á þjóðvegum landsins og alveg sérstaklega að því er snertir hraða þessara tækja sem þar um ræðir. Þeir sem aka þjóðvegina vita, og ég vænti þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. mundi einnig taka undir með mér um það, að það er ekki heiglum hent oft og tíðum að mæta, hvað þá að fara fram úr þessum ökutækjum, þessum þungaflutningabílum með tengivagna, sem því miður eru oft og tíðum yfir eðlilegum hraðamörkum og ég má fullyrða yfir lögmætum hraða. Reglur hafa verið settar um það að koma við tryggara eftirliti í þessum efnum og það er sannarlega tímabært. Ég tel raunar að það þurfi að fara mun betur ofan í þetta mál allt saman og hyggst beita mér fyrir því að hér á Alþingi komi fram mál sem leiði til mun rækilegri skoðunar í þessum efnum heldur en gerst hefur.

Ég minni jafnframt á í þessu sambandi að hér er um að ræða algerlega rangsnúna þróun að því er snertir flutninga á vörum út frá umhverfissjónarmiðum vegna þeirrar gífurlegu orkusóunar sem þarna er um að ræða miðað við það sem hægt væri að ná ef menn notuðu þá kosti sem hægt væri að koma við á eylandi eins og okkar með því að nýta þá kosti sem því fylgja. Ég geri mér vissulega ljóst að það er ekkert einfalt mál að snúa þessari þróun við. En fyrst er að horfast í augu við veruleikann í þessum efnum og greina vandann sem þessu fylgir, þá á ég bæði við varðandi umhverfisþætti málsins, hina gífurlegu mengun sem þessu fylgir og orkueyðslu, það gífurlega slit á þjóðvegum landsins og þann óheyrilega kostnað sem óhjákvæmilegt verður að leggja í á næstu árum vegna þessarar umferðar, umferðar sem veldur miklum meiri hluta af slitinu sem verður á þjóðvegakerfi landsins miðað við heildarumferðarþunga. Og síðan auðvitað nauðsynlegar öryggisráðstafanir til þess að koma í veg fyrir eins og kostur er óhöpp og slys af þessum völdum.

Ég ætla ekki að fara ítarlegar út í þessi efni. Ég þarf að víkja að brtt. á þskj. 79 vegna þess að það er sannarlega þörf á að koma að þeim efnum. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. hlýði á mál mitt, bið um að honum gert viðvart með ósk um að hann verði viðstaddur síðari kafla minnar ræðu. Ég hefði gjarnan viljað ná eyrum fleiri flutningsmanna, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., Hjálmars Jónssonar, sem er einn af meðflm. og hefur tekið þátt í umræðunni og varið þessa tillögugerð.

Eitt er nú það að hafa þá skoðun, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) Nei, ég bið velvirðingar á þessu. Virðulegur forseti. Mér er gert viðvart um það og ég bið velvirðingar á því að hv. þm. er vissulega ekki tillögumaður heldur nafni hans, hv. 7. þm. Reykn. Það er þá öðruvísi en skráð er á þingskjali því að hv. 2. þm. Norðurl. v. er skýrt tíundaður sem tillögumaður á þskj. 79 um breytingartillögur sem þar er að finna. Ég þarf því ekki að leiðrétta það þó að hér hafi komið ábendingar um það, en hv. þm. kann að hafa fallið frá þessu sjónarmiði eða fylgja áliti meiri hluta nefndarinnar sem andmælir þessum breytingartillögum og batnandi manni er best að lifa má segja, um það efni.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að hann hefur þegar kallað eftir viðkomandi hv. þm. en hann er sennilega vanur því að vera eftirsóttur.)

Ég þakka, virðulegur forseti.

[21:30]

Eitt er það að hafa þá skoðun að í landinu sé einhver þögull meiri hluti sem kjósi að aka langt umfram þau hraðamörk sem lögleg eru í landinu varðandi umferðarhraða. Það er sjónarmið sem menn geta túlkað og haft uppi á Alþingi Íslendinga að þannig sé þetta. Menn geta hugsanlega slegist í hóp með þeim þögla meiri hluta á vegum úti í trausti þess að ekki verði hróflað með þeim og þeir þurfi ekki að standa reikningsskil sinna gerða. En annað er það að flytja á Alþingi tillögu þá sem er að finna á þskj. 79 um breytingar á hraðamörkum á umferð í landinu og fylgja þeim málflutningi eftir með þeim hætti sem hér er gert af 1. flm., hv. 5. þm. Norðurl. v. Ég undrast það mjög satt að segja hversu langt er gengið, hversu langt er seilst. Tæpast er hægt að segja í rökstuðningi, nær er að segja í rökleysu þegar reynt er að verja þennan tillöguflutning. Þetta kemur mér satt að segja á óvart frá hv. 5. þm. Norðurl. v. því mér hefur fundist að hv. þm. leitaðist við í mörgum málum að hafa uppi alveg þokkalegan rökstuðning fyrir sínu máli. Ég vil nefna það líka að ég hef setið í bíl með hv. 5. þm. Norðurl. v. undir stýri í útlöndum. Mér hefur liðið alveg bærilega og ég hef ekkert tekið eftir því að þar hafi verið geyst fram úr því sem eðlilegt er. Lýsing hv. þm. á því hvernig mönnum ber að haga sér þegar ekið er yfir Holtavörðuheiði suður af líklega, ef miðað er við þá jöklasýn sem fram var dregin, fannst mér alveg með fádæmum, hvernig þar var haldið á máli. Það er mikið alvörumál þegar fram eru settar hér á þingi tillögur af þessu tagi sem varða líf og heill þegna landsins í bókstaflegri merkingu og fylgt eftir með þeirri rökleysu og, mér liggur við að segja strákskap, virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort sú íslenska þykir hæfa hér í stól, en ég leyfi mér að taka mér það orð í munn og það einnig þrátt fyrir meðflutning af hálfu hv. 4. þm. Reykn. sem einnig er flutningsmaður á tillögunni, sem er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég vil þá aðeins rökstyðja þetta álit og þá einkunn sem ég vel þessum tillöguflutningi. M.a. hv. 1. flm. þessara brtt. dró fram að það lægi fyrir niðurstaða úr könnun sem styddi málstað hv. þm. og annarra sem að brtt. standa. Þar var vitnað til yfirlitskönnunar úr Morgunblaðinu sl. sunnudag, frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, til að halda því fram að banaslysum í umferðinni hefði fækkað fjórfalt sem sýndi að það væri nú aldeilis óhætt að gefa í. Hv. þm. hefur því miður ekki haft fyrir því að kanna bakgrunn þeirra talna sem eru eftir hafðar í þessu efni. Þar liggur að baki sá dapri sannleikur að á sl. 20 árum hefur alveg snúist við sú þróun sem varðar tölu látinna og slasaðra í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar. Fjöldi þeirra sem látast á þjóðvegum landsins hefur orðið mun meiri hlutfallslega af heildartölu látinna á þessu tímabili. Litið til síðustu þriggja ára eru tölurnar þær að af 52 sem hafa látist í umferðarslysum hérlendis eru það aðeins 4 sem hafa farist innan þéttbýlis en hinir 48 hafa farist á þjóðvegunum, utan þéttbýlis. Það eru hinar köldu staðreyndir í þessu máli. Það er satt að segja langt seilst, kannski óvart, að grípa niður í rökstuðning með þeim hætti sem hv. þm. gerði hér með tilvitnun í þessa könnun Hagfræðistofnunar. Það er því miður ekki svo að heildartala látinna hérlendis hafi lækkað eins sem halda mætti af þessum málflutningi. Það er vissulega rétt að á árunum eftir 1990--1994 fækkaði nokkuð þeim sem létust í umferðarslysum en síðan tók þetta mikið stökk upp á við á nýjan leik og liggur nú nálægt því meðaltali sem var á árunum frá 1982 eins og þróunin hefur orðið nú alveg upp á síðkastið. Þetta geta menn einfaldlega skoðað með því að virða fyrir sér þessa þróun.

Því er haldið fram af þeim sem bera fram þessar brtt. að vegakerfið hérlendis hafi batnað svo mikið að af þeim sökum sé eðlilegt að hækka hraðamörkin upp í 110 km á klst. á vegum með bundnu slitlagi. Þar er einnig langt seilst í rökstuðningi því þar ætla menn íslenskum vegfarendum greinilega að taka á sig allt aðra og margfalt meiri áhættu en tíðkast nokkurs staðar annars staðar í Evrópu þar sem þær forsendur eru m.a fyrir umferðarhraða upp á 80 km á klst. eða þaðan af meira að þá skuli vera samfelld vegrið beggja vegna vegar. Hvað ætli það séu mörg prósent af km í þjóðvegakerfi landsins sem búa við vegrið öðrum megin vegar að jafnaði? Hvað skyldu það vera margir km?

Eins er það með aðrar kröfur til umferðaröryggis. Í alvöru rannsókn í þessum málum, eins og af þeirri stofnun sem mest hefur farið ofan í þessi mál á Norðurlöndum sem er Trafikk Økonomisk Institutt í Noregi, er það dregið fram með mjög skýrum hætti hvaða áhrif aukin umferðarhraði hefur á slys, dauðaslys, alvarleg slys á þjóðvegum. Ég leyfi mér hér að vitna í skýrslu frá þessari stofnun. Sú tilvitnun varðar að vísu umferðarhraða í þéttbýli. Þar segir, ég leyfi mér að nota hér Norðurlandamál, með leyfi forseta, einnig fyrir tilvitnun í danska tungu sem þetta er ritað á: ,,5% fald i gennemsnitshastighederne i byerne svarende til 2,5 km per time vil, ifølge erfaringen fra TØI, føre til en 18% reduktion i antallet af ulykker med trafikdræbte. Det svarer til 30--40 sparede liv om året``.

Þ.e. að 5% lækkun á meðalhraða í bæjunum, sem svarar til 2,5 km á klst., mun samkvæmt reynslu þessarar rannsóknarstofnunar leiða til 18% færri slysa og látinna í umferðaróhöppum. Það svarar til 30--40 mannslífa á ári. Það mun vera miðað við Norðurlöndin. Hér hafa menn tölur og rannsóknir, virðulegur forseti, í þessu alvarlega máli. Hér á landi mundu afleiðingarnar af tillögu hv. þm. um hraða upp á 110 km á klst. svara til þess, lauslega reiknað, að 3--4 fleiri mundu látast á blóðvelli þjóðveganna árlega heldur en nú er og 20--25 mundu slasast alvarlega umfram það sem nú gerist. Þetta er hinn kaldi veruleiki sem leiða má líkur að, á grundvelli norrænna rannsókna, að yrði afleiðing af þeim gáleysislega tillöguflutningi sem hér er kominn fram á Alþingi um þessi efni. Ég undrast ekki aðeins, það veldur mér hryggð að það skuli koma fram frá hv. þm. sem ég hef reynt að taka alvarlega í þeirra tillögumálflutningi og tel raunar að hér hafi þeim orðið á slys með óvönduðum tillöguflutningi á Alþingi og með rökstuðning í einhvern óskýrðan þöglan meiri hluta sem kjósi að hafa hlutina með öðrum hætti.

Ég vona sannarlega, virðulegur forseti, að þeir verði ekki margir utan tillögumanna e.t.v. og heyrist mér þó að hv. þm. Hjálmar Jónsson sé fallinn frá því að fylgja þessari tillögu verandi stuðningsmaður álits allshn. og er það vel. Ítreka ég það hér, virðulegi forseti, að batnandi mönnum er best að lifa í þessu efni sem öðrum. Ég fagna því að hv. þm. mun hafa séð að sér í þessum efnum. Ég vona að svo verði einnig um aðra hv. tillögumenn þótt mér finnist að málflutningur hv. 5. þm. Norðurl. v. lofi ekki allt of góðu í þeim efnum, því miður.

Þetta mál sem við ræðum hér er stórt mál, afdrifaríkt, varðar marga, varðar heill manna og hamingju fjölda fólks í raun. Það er skelfilegt til þess að vita hvað umferðin tekur mörg mannslíf í okkar fámenna landi og ber að kosta miklu til að draga úr þeim háa tolli sem þar er greiddur. Þar á einnig við varúðarreglan þegar um er að ræða hraðaksturinn sem er auðvitað hluti af þessu þó ekki verði því alltaf um kennt þegar óhöpp verða en skýr hluti af ástæðunum fyrir því hversu hár þessi tollur er hjá okkur. Þar ber mönnum að hafa vaðið fyrir neðan sig en ekki tefla á tvær hættur eða þaðan af meir, eins og því miður er komið fram með fyrirliggjandi tillögum.