Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:22:45 (2023)

1996-12-10 23:22:45# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:22]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um staðsetningu nýrra ríkisfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni, sem ég flyt ásamt hv. þm. Tómasi Inga Olrich, 5. þm. Norðurl. e. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stefnumörkun um hvernig tryggja megi aukna hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu með því að staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins þar sem það er mögulegt.``

Eins og mönnum er kunnugt hafa á undanförnum árum farið fram miklar umræður um hvort hægt sé að flytja ríkisstofnanir sem nú eru á höfuðborgarsvæðinu að langmestu leyti út á landsbyggðina. Um þetta efni hafa komið fram skýrslur, ábendingar, hugmyndir og tillögur. En sannleikurinn er sá að fremur lítið hefur orðið úr framkvæmdum og efndum. Þó hafa flestar ríkisstjórnir haft eitthvað í þessa veruna á stefnuská sinni og lagt fram með ýmsu móti. Raunar var það svo að í tíð síðustu hæstv. ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hinnar fyrstu, voru settar fram í heildstæðu skýrsluformi tillögur um hvernig standa bæri að flutningi ríkisstofnana og hvaða ríkisstofnanir mætti flytja.

Ekki er langt síðan að við ræddum á hinu háa Alþingi þáltill. sem gekk út frá því að mikilvægt væri að marka sérstakar meginreglur um hvernig standa bæri að flutningi ríkisstofnana. Og þetta er auðvitað allt til komið vegna þess að við vitum að í hvert skipti sem hefur verið hreyft slíkri hugmynd þá hefur það kallað á mikla andstöðu og mikla mótspyrnu. Þess vegna er ekki úr vegi að horfa til þess hvort hægt sé að nálgast þetta mál með dálítið öðrum hætti þó engan veginn sé ástæða til að hverfa frá hugmyndinni um að flytja ríkisstofnanir, jafnvel grónar ríkisstofnanir út á land. Það er það hvort unnt sé að marka meginstefnu, marka grundvallarstefnu um að staðsetja eftir því sem kostur er nýjar ríkisstofnanir, sem stöðugt er verið að setja á fót, úti á landi. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og nauðsynlegt að setja hér inn í ákveðið samhengi. Oft er litið þannig á að það sé nánast eins og náttúrulögmál að ríkisfyrirtæki séu á höfuðborgarsvæðinu og að fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið séu jafnmiklir og þeir hafa verið og raun ber vitni. Þó er ljóst að fyrir þessu eru fyrst og fremst tilteknar ástæður og aðstæður sem mannlegar ákvarðanir hafa skapað í langflestum tilvikum.

Þannig er að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eru langstærsti atvinnuveitandi á Íslandi og þess vegna ráða ákvarðanir ríkisfyrirtækja --- hins opinbera mjög miklu um hvar fólk kýs sé búsetu. Framboð atvinnu ræður því hvar fólk sest að. Þegar stærsti vinnuveitandinn, ríkið, ákveður að koma starfsemi sinni fyrir að mestu á einum stað, á höfuðborgarsvæðinu, er augljóst að það hefur mikil áhrif á búsetuþróunina. Að vísu er það svo að sumir hafa velt því fyrir sér hvort ekki sé ákveðin mótsögn fólgin í því að leggja annars vegar til að nýjar ríkisstofnanir séu staðsettar á landsbyggðinni en hins vegar tali menn um nauðsyn þess að draga úr ríkisumsvifum og þátttöku hins opinbera í atvinnulífinu og á öðrum vettvangi. Þetta er þó ekki svo. Sannleikurinn er sá að ríkisstofnanir eru sífellt stofnaðar og þær taka breytingum. Nýjar ríkisstofnanir koma í stað þeirra sem lagðar eru niður. Auðvitað opnast endalausir möguleikar á að staðsetja slíkar stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta var töluvert rætt á landsfundi Sjálfstfl. fyrr í haust og var komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri eðlilegt. Í ályktun á landsfundinum sagði svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Hið opinbera þarf að tryggja eðlilega hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu. Ný fjarskiptatækni gerir það mögulegt að fyrirtæki sé staðsett í auknum mæli á landsbyggðinni. Því þarf að marka ákveðna stefnu um flutning ríkisfyrirtækja út á land og staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins.``

Það er ljóst að orsakir búferlaflutninga á landsbyggðinni eru margvíslegir og margslungnir en ég er ekki í nokkrum vafa um að fábreytni atvinnulífsins, sem er víða ríkjandi, ræður þar nokkuð miklu um. Vísbendingar, ef við skoðun búsetuþróun á einstökum stöðum úti á landi, benda til þess að lykillinn að því að hægt sé að snúa þessari þróun við sé að auka fjölbreytnina og skjóta fleiri og styrkari stoðum undir atvinnulífið og atvinnustarfsemina og þar með atvinnuframboðið á landsbyggðinni.

Á árinu 1994, sem er síðasta ár sem ég hef heildstæðar tölur um, voru unnin 34.614 ársverk á vegum hins opinbera í landinu. Þar af voru 22.982 á höfuðborgarsvæðinu. Það svarar til þess að tvö af hverjum þremur ársverkum hjá hinu opinbera séu unnin á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 1984--1995 fjölgaði ársverkum á vegum hins opinbera um 5.648 á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni fjölgaði þeim hins vegar um 2.114. Mismunurinn á þessum tölum er 3.534 ársverk. Það er þessi þróun sem veldur ekki litlu um hvar fólk kýs sér búsetu, ekki eingöngu vegna þess að um svo langan veg sé að fara eftir opinberri þjónustu á landsbyggðinni heldur ekki síður vegna þess að framboð atvinnutækifæra hjá hinu opinbera beinist á svo afmarkaðan stað á landinu og stuðlar þess vegna beinlínis að þeirri byggðaþróun sem hefur orðið hér á landi undanfarin ár og áratugi. Þess vegna er mjög mikilvægt að við gerum í senn að marka heildstæða stefnu um flutning ríkisstofnana og hvernig standa beri að því, líkt og fyrr hefur verið rætt í þinginu, en enn fremur að við reynum að setja okkur markmið um það að staðsetja eftir því sem föng eru á nýjar ríkisstofnanir úti á landi m.a. til þess að koma í veg fyrir þessa togstreitu sem ævinlega kemur upp þegar verið er að reyna flytja grónar stofnanir.

Ég hef stundum litið til baka, fjögur til fimm ár á þessum vetri og velt því fyrir mér hvernig umhorfs hefði verið ef stefnumörkun af þessu tagi hefði verið fylgt við staðsetningu ríkisstofnana. Það er auðvitað ljóst að mjög margar býsna stórar ríkisstofnanir, sem hafa orðið til eða verið endurnýjaðar eða endurskipulagðar, hefðu allt eins getað verið úti á landi hefðu menn hugað að þessu eða haft til þess pólitískan vilja. Því miður hefur niðurstaðan orðið önnur. Við virðumst vera dálítið föst í klafa og viðjum ákveðinnar hugsunar um að eðlilegt sé að staðsetja ríkisstofnair á höfuðborgarsvæðinu af því þannig hefur þetta verið. Við erum föst í einhverri nauðhyggju, eins og ég hef kallað það, af því ástandið hefur verið svona og hefur stefnt í þessa átt, þá sé eðlilegt að það stefni þannig áfram. En þannig er það ekki og þannig á það ekki að vera. Við höfum öll tækifæri til að snúa þessu við. Það mun auðvitað hafa mjög mikil áhrif á hvernig þróun byggðarinnar verður í landinu. Það er alveg ljóst mál að ákvarðanir ríkisvaldsins um staðsetningu ríkisfyrirtækja, um það hvar atvinnuframboðið skuli vera hefur áhrif á byggðaþróunina og ef menn eru í rauninni sammála um það að þessi þróun sem við höfum horft upp á síðustu árin sé óæskileg þá verðum við með öllum tiltækum ráðum að sporna við henni.

Mjög mikilvægt er að við höfum þetta í huga núna þegar við virðumst vera að renna inn í skeið þenslu sem sérstaklega mun eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu og þó að ég muni síst af öllu draga úr mikilvægi þess að atvinnulífið á þessu landsvæði, eins og annars staðar, rétti úr kútnum, er það auðvitað þannig að misvægi getur myndast í okkar þjóðfélagi sem sé til skaða fyrir samfélagið í heild og samfélagsmyndina sjálfa alveg eins og gerst hefur á fyrri þensluskeiðum þegar þenslan hefur birst okkur vegna þess að menn hafa ekki sýnt aðgæslu í ríkisútgjöldum og erlendar lántökur hafa verið miklar sem ýtt hafa undir þenslu og þjónustu á þessu afmarkaða svæði hér.

Þess vegna hef ég, virðulegi forseti, ásamt hv. þm. Tómasi Inga Olrich lagt fram þessa till. til þál. og geri tillögu um að henni verði vísað til síðari umr. og hv. allshn. að lokinni umræðu.