Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:59:56 (2028)

1996-12-10 23:59:56# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:59]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er ekki gæddur mikilli spádómsgáfu þannig að ég fór ekkert sérstaklega í það í ræðu minni að velta fyrir mér hvað mundi gerast í starfsemi Pósts og síma. Ég var einfaldlega að vekja athygli á hver þróunin hefði verið og í hvað tillögurnar sem nú er verið að kynna af Póst- og símamálastofnun --- við skulum hafa í huga að það eru tillögur Póst- og símamálastofnunar, ekki Pósts og síma hf., það hefur komið skýrt fram --- fælu í sér. Eitt er það sem ég sjálfur bind miklar vonir við og það er tilraun þessa félags og þessarar stofnunar sem verður þá hluti af starfsemi nýja félagsins, til að setja niður svo mikilvæga starfsemi sem markaðsstarfsemina í auknum mæli víða um landið. Ég benti á að verið væri að leggja niður pósthús á höfuðborgarsvæðinu sem eru náttúrlega ólíkt fjölmennari vinnustaðir en litlu pósthúsin sem verið er að leggja niður. Þó er ég ekkert að gera lítið úr mikilvægi starfseminnar eins og hún hefur verið úti um landið. Þannig að ég var fyrst og fremst að rekja þróunina.

Hv. þm. spurði mig líka um skoðun mína á þessum tveimur tilteknu stofnunum sem nú er verið að undirbúa starfsemi á. Ég hef sérstaklega kynnt mér hvernig þessar stofnanir kynnu að starfa og hvort staðsetning þeirra mundi skipta máli fyrir starfsemina í sjálfu sér. Niðurstaðan í þeim þingnefndum þar sem ég hef setið, og ég er svo lukkulegur að sitja í báðum þeim þingnefndum sem hafa með þessa vinnu að gera hér í þinginu, er sú að báðar þessar stofnanir gætu að umtalsverðu leyti a.m.k., kannski öllu, starfað utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig að ég gæti t.d. átt við þessar stofnanir. Hins vegar hef ég sjálfur sett það fram sem mitt sjónarmið að ég tel almennt ekki skynsamlegt að leiða í lög hvar slíkar stofnanir eigi nákvæmlega að vera niðurkomnar. Þannig var það t.d. með Brunamálastofnun sem hafði verið í Kópavogi, held ég, samkvæmt lögum. Ég tel almennt að ekki sé skynsamlegt að setja þetta í lög en tel hins vegar að full rök séu fyrir því að þessar stofnanir séu utan höfuðborgarsvæðisins.