Reglur um tæki sem senda rafsegulbylgjur

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:49:30 (2040)

1996-12-11 14:49:30# 121. lþ. 39.2 fundur 179. mál: #A reglur um tæki sem senda rafsegulbylgjur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:49]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög gott og gagnlegt að hv. þm. hreyfir þessu máli og ég tek undir með honum að það er áreiðanlega þörf á því að vekja athygli almennings á því hvaða hætta getur skapast af slíkum tækjum. Það er t.d. svo um GSM-síma að menn vita ekki gjörla hvort þeir gætu valdið alvarlegri truflun á stjórntækjum flugvéla og þess vegna ber að hafa þá lokaða um borð í flugvélum. Ég hygg að það sé rétt að fylgja þessu máli betur eftir en gert hefur verið að því leyti að upplýsa flugfarþega og almenning um það sem hér er í húfi.