Viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 13:43:00 (2084)

1996-12-12 13:43:00# 121. lþ. 42.91 fundur 139#B viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[13:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er sannarlega ekki ástæða til þess fyrir mig að vera neitt að kvarta undan stjórn þingsins. Ég tel að forsetar þingsins hafi reynt að gegna sínu starfi af lipurð og sanngirni. Mér er það ekkert sérstakt kappsmál að þetta frv. verði til umræðu í dag. Hins vegar liggur það fyrir þinginu og ef þingið hefði fallist á að það yrði tekið til umræðu með afbrigðum, þá væri ég ósköp ánægður að fá að mæla fyrir því í dag og umræðan gæti farið fram. Ég vona að þegar menn átta sig á að hér er um tiltölulega einfalt frv. að ræða þá sjái menn sér fært að taka það til umræðu.

Frv. fjallar fyrst og fremst um yfirfærsluna til sveitarfélaganna, þ.e. hvort menn vilja stíga það skref, þetta er stefnumörkun. En áður en að því kemur að málaflokkurinn yrði færður til sveitarfélaganna, ef Alþingi ákvæði svo, þá þarf að fara fram miklu víðtækari og gagngerðari endurskoðun á þessum lögum. Og að mínu viti færi best á að fella þau saman við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem einnig er verið að endurskoða.

Ég er tilbúinn að ræða utan dagskrár, þegar forsetum þykir henta, um málefni fatlaðra samkvæmt beiðni sem barst frá Þroskahjálp fyrir nokkru síðan og hugmyndir voru uppi um að reyna að koma á 3. des. Það stendur ekki á mér að gera það.

Varðandi það að stjórnarandstöðunni hafi verið haldið utan við þetta mál þá er það ekki alveg rétt. Einn af þeim sem áttu sæti í þessari nefnd er varaformaður Alþfl., að vísu fulltrúi sinna hagsmunasamtaka en ég taldi að þar með væri sæmilega séð fyrir sjónarmiðum sem stjórnarandstaðan hefur í málinu.