Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:11:30 (2100)

1996-12-12 17:11:30# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir að hefja þessa umræðu. Það er rétt sem komið hefur fram að á vorþingi 1995 var samþykkt till. til þál. þar sem menntmrh. var falið að hefja undirbúning að því að koma á námi í iðjuþjálfun hér á landi. Við þessu var brugðist í menntmrn. og tekið var upp samstarf við Iðjuþjálfafélag Íslands og Háskóla Íslands um athugun á faglegri skipulagningu og gerð kostnaðaráætlunar fyrir nám í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands. Það sama ár, árið 1995, vann dr. Gail Hills Maguire, tala við Stefán Stefánsson í menntmrn., segir ráðherra, sem er prófessor í iðjuþjálfun við bandarískan háskóla, að faglegri skipulagningu námsins og könnun á samnýtingu við aðrar heilbrigðisgreinar innan háskólans í samvinnu við skólanefnd Iðjuþjálfafélags Íslands og Háskóla Íslands. Í kjölfarið var lagt til að komið yrði á fjögurra ára og alls 120 eininga námi í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands.

Háskólinn mat það svo að kostnaður vegna kennslu við nýja námsbraut í iðjuþjálfun næmi samtals 51,7 millj. kr. fyrstu fimm árin eftir að kennsla hæfist. Auk kennslukostnaðar þyrfti að reikna með öðrum kostnaði vegna húsnæðis, yfirstjórnar, auknum framlögum í sjóði o.s.frv. Þegar þetta lá fyrir sendi ég formanni fjárln. Alþingis bréf þar sem ég sagði að málið væri nú komið á það stig að ákvörðun um framhaldið réðist af fjárveitingu. Á grundvelli upplýsinga um faglegt skipulag og kostnað vegna málsins gæti Alþingi tekið afstöðu til þess hvort veita ætti fé til að hefja kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands. Við þessu var ekki brugðist og Alþingi veitti ekki fé til málsins á fjárlögum árið 1996.

Áfram var unnið að málinu. Sl. vor var samþykkt tillaga í háskólaráði Háskóla Íslands þar sem lagt var til að kennsla í iðjuþjálfun hæfist haustið 1997. Fram kom að ráðsmenn studdu málið og töldu það vel undirbúið, en þeir höfðu áhyggjur af því að framgangur þess yrði til að rýra fjárveitingar til annarra greina innan Háskóla Íslands. Rektor háskólans sendi mér þessa samþykkt með bréfi og í svarbréfi til rektors dags. 30. maí 1996 segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vísað er til bréfs yðar, herra háskólarektor, dags. 14. þessa mánaðar ásamt fylgiskjölum um kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands. Með bréfi til formanns fjárlaganefndar Alþingis, dags. 5. desember sl., sem yður var sent ljósrit af gerði ráðuneytið grein fyrir málavöxtum vegna undirbúnings kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands og er ráðuneytið reiðubúið til að styðja tillögu til fjárlaga um fjárveitingu til kennslunnar ef háskólinn er tilbúinn til að forgangsraða þessu viðfangsefni í fjárlagatillögum sínum innan þess ramma sem fjárlög heimila. Ráðuneytið lítur svo á, að það sé í höndum háskólans að taka ákvarðanir um aðstöðu fyrir kennsluna.``

Málinu var haldið áfram og á fundi sem haldinn var í ráðuneytinu í sl. mánuði greindi háskólarektor frá því að nokkru áður hefði verið samþykkt í háskólaráði að háskólinn stefndi ekki að nýjungum í námsframboði árið 1997, enda þyrfti að mæta 60 millj. kr. halla þessa árs fyrst. Fulltrúar Háskóla Íslands hefðu á fundi fjárln. skömmu fyrir fundinn óskað eftir 100 millj. kr. hækkun miðað við fjárlagafrv. sem ætluð væri til að styrkja þá starfsemi sem fyrir er í háskólanum, fasteignir, kennsludeildir og rannsóknir. Á fundinum var fulltrúa Iðjuþjálfafélags Íslands gerð grein fyrir því að menntmrn. mundi ekki fylgja þessu máli eftir gagnvart fjárln. nema Háskóli Íslands setti það ofarlega á sinn forgangslista. Jafnframt kom fram að slík forgangsröðun væri ekki á dagskrá hjá Háskóla Íslands að sinni.

[17:15]

Líkt og ég hef nú rakið hefur menntmrn. gert sitt til að stuðla að því að háskólanámi í iðjuþjálfun verði komið á. Á sama tíma hefur ráðuneytið viljað virða það sjálfstæði Háskóla Íslands að skólinn tæki sjálfur ákvarðanir um hvaða nám er í boði hverju sinni. Afstaða ráðuneytisins er skýr. Það er reiðubúið til að styðja tillögur til fjárlaga um fjárveitingu til kennslunnar ef háskólinn er tilbúinn til að forgangsraða þessu viðfangsefni í fjárlagatillögum sínum innan þess ramma sem fjárlög heimila. Fjárveitingar til háskólans hafa nú verið auknar en skólinn hefur ekki tekið þá ákvörðun að nám í iðjuþjálfun beri að setja í forgangsröð. Ég sé því ekki að hækkun á fjárlagalið Háskóla Íslands verði á þessu stigi til þess að háskólinn ákveði að hefja kennslu í iðjuþjálfun.

Ég vil, herra forseti, láta þess getið að frá Háskólanum á Akureyri liggur fyrir bréf dags. 2. febr. 1995, sem lagt var fyrir menntmn. Alþingis þegar hún fjallaði um umrædda þáltill., þar sem Háskólinn á Akureyri lýsir áhuga sínum á að bjóða nám í iðjuþjálfun og telur að það falli vel að þeirri starfsemi sem stunduð er í Háskólanum á Akureyri.