Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:28:27 (2121)

1996-12-12 18:28:27# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:28]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki alveg heim og saman að halda því fram að það eigi að setja stjórnunarreglur á grundvelli gildandi laga, sem fela í sér eitthvert víðtækasta framsal til ráðherra sem sést í lagasafninu, og mótmæla því svo hins vegar að ráðherra eigi að setja reglur á grundvelli þessara laga sem fela í sér mjög mikla takmörkun á valdi ráðherrans. Eins og ég hef sagt áður þurfa að vera fyrir hendi alveg tilgreind skilyrði í lögunum sem gera það að verkum að hægt sé að setja stjórnunarreglur og lögin mæla fyrir um til hvaða stjórnunaraðgerða hægt er að grípa í hverju tilviki. Það fer ekki saman að segja að þetta gangi ekki upp þegar búið er að setja lög með þessum hætti en hitt sé sjálfsagt að setja stjórnunarreglur samkvæmt lögum sem eru algjörlega opin bók. Ég kem þeim málflutningi ekki heim og saman.