Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 19:52:27 (2131)

1996-12-12 19:52:27# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[19:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ef það er rétt skilið hjá mér sem kom fram hjá ræðumanni, að þingmaðurinn væri sammála mér um að það ætti að hafa öflugt vald úti í héruðum landsins, þá bendi ég þingmanninum á að það er ekki leiðin til að styrkja vald heimamanna í sínum málum að leggjast gegn þriðja stjórnsýslustiginu og knýja á um sameiningu sveitarfélaga af þeirri einföldu ástæðu að jafnvel þótt að menn legðu saman alla hreppana yfir stór landsvæði, sætu menn eftir með sama landslag eftir sem áður, mjög stórt landsvæði og mjög fáa íbúa. Og því verður ekki stýrt af einum stað í öllum þeim málum sem sveitarstjórnir í dag fara með.

Eigi hins vegar að stýra málum sem varða marga, verður stjórnvaldið að ná yfir nægilega stóran hóp og nægilega stórt landsvæði til þess að svo megi verða. Því er, eins og ég segi, eina leiðin til að ná þessu fram, að búa til þriðja stjórnsýslustigið. Þriðja stjórnsýslustiginu er ekki ætlað að mínu viti að taka verkefni frá sveitarfélögum nema þau kjósi sér það sjálf hvert og eitt. Þriðja stjórnsýslustiginu er ætlað að taka við verkefnum frá Reykjavík, frá ríkisvaldinu. Það er sú breyting sem við sem tölum fyrir þessari breytingu erum að knýja á um, þ.e. að draga úr vægi ríkisvaldsins og auka vald manna heima í héraði, að flytja vald úr höfuðborginni og út á land. Í raun og veru flækir það því málið þegar menn fara að blanda sveitarfélögunum inn í þá valdreifingarumræðu. Þeir sem blanda sveitarfélögunum inn í það mál eru einfaldlega, hvort sem þeir vilja það eða ekki, að drepa á dreif þessu þarfa máli.