Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 14:56:03 (2156)

1996-12-13 14:56:03# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[14:56]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og frsm. minni hluta fjárln. gerði grein fyrir áðan, þá hefur góðærið ekki heimsótt alla Íslendinga þrátt fyrir að ríkisstjórnin státi sig af því sem hún kallar góðan árangur í efnahagsstjórnuninni og ríkisfjármálunum. Það eru ekki allir landsmenn sem uppskera á þessum tímum uppsveiflu og heimilin í landinu, fjármagna neyslu sína í auknum mæli með lántökum.

Fjárlögin eru eitt af þeim tækjum sem stjórnvöld nota til efnahagsstjórnunar og þess vegna skiptir verulegu máli hvernig þau eru úr garði gerð. Það skiptir verulegu máli hver skilaboðin eru sem berast með fjárlagafrv. á hverju ári og fyrir marga hópa í samfélaginu skipta þau skilaboð grundvallarmáli fyrir framtíð þeirra og lífsafkomu. Þannig er það t.d. með þá sem ekki hafa annað lifibrauð en það sem þeir eiga rétt á úr samfélagslegum sjóðum. Samtryggingin, sem tiltöluleg sátt hefur verið um, hefur tryggt þeim ákveðna fjárhæð til framfærslu sem af ýmsum ástæðum geta ekki selt vinnuframlag sitt. Öryrkjar, aldraðir, fatlaðir, sjúkir eða atvinnulausir eiga rétt á ákveðnum greiðslum úr samfélagslegu sjóðunum. Verkalýðshreyfingin hefur gert baráttu þessara hópa að sinni og þrátt fyrir að greiðslurnar hafi ekki verið háar sem þessir hópar hafa haft til að framfleyta sér af, þá hafa þeir búið við nokkra vissu um afkomu sína, a.m.k. næstu árin. En þetta hefur verið að breytast og í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr er það orðið svo að þessir hópar búa við stöðugar árásir á kjör sín og ekki aðeins það heldur hefur þörfum þeirra verið mætt óvinsamlega af ráðamönnum. Þessir hópar eru nefnilega svo dýrir fyrir samfélagið og ríkisstjórninni finnst þeir kosta of mikið.

Það þurfa fleiri að fá, gæti ríkisstjórnin verið að segja, eins og t.d. atvinnurekendurnir, eins og t.d. bankastjórarnir fyrrverandi 15 eða eftir atvikum makar þeirra sem fengu 25 millj. ofan á lífeyrisgreiðslur sínar á síðustu fjáraukalögum vegna þess að það var svo óréttlátt að þeir fengju minna en bankastjórar Landsbankans. Ríkisstjórnin taldi rétt að bæta þeim upp þetta óréttlæti. Það kostaði okkur skattborgarana 25 millj. kr. í ár og síðan 7 millj. kr. á ári framvegis.

Nú vil ég ekki standa fyrir árásum á þessa tilteknu einstaklinga persónulega sem þarna eiga í hlut, en það sér hver heilvita maður að í þessu er ekkert réttlæti, herra forseti, nákvæmlega ekkert réttlæti á meðan hæstv. ríkisstjórn telur nauðsynlegt vegna aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri að afnema tengsl bótagreiðslna við almenna launaþróun til þess að ná inn nokkrum hundruðum millj. kr. af bótaþegum.

Samkvæmt forsendum fjárlagafrv. ætlar ríkisstjórnin að hafa 42 millj. kr. af atvinnulausum út á afnám tekjutengingarinnar a.m.k. Þannig er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur eigi að hækka um 2% á meðan launaforsenda fjárlaga er 3,5% sem ég tel reyndar að sé mjög varlega áætlað. Með því að hækka bæturnar bara um 2% í stað 3,5 eins og verið hefði ef þessar forsendur standast og ef tengingin við launaþróun hefði ekki verið afnumin, ætlar ríkisstjórnin að ná inn um það bil 42 millj. kr. af atvinnulausum. Ef við leikum okkur svolítið með þessar tölur og segjum að launin hækki að meðaltali um 4,5% en ekki 3,5% eins og frv. gerir ráð fyrir og það er í sjálfu sér ekkert óeðlileg viðmiðun, þá mun ríkisstjórnin ná 56 millj. kr. af þessum hópi eingöngu.

Í þessu samhengi er kannski rétt að minna á að fullar atvinnuleysisbætur eru rétt rúmar 50 þús. kr. á mánuði, en eins og frægt er orðið ætlar ríkisstjórnin líka að sjá til þess að enginn græði á bótunum. Líklega finnst þeim þetta allt of mikið til þess að lifa af á mánuði. Auk þess að krunka svolítið í bæturnar með því að afnema tengslin við almenna launaþróun stendur einnig til að lægst launaða fólkið sem er með 49 þús. kr. á mánuði í dagvinnulaun fái aldrei hærri bætur en það hefur í dagvinnu. Þannig ætlar ríkisstjórnin líka að ná í einhverja aura af þeim atvinnulausu til viðbótar svo að hún geti borgað önnur forgangsútgjöld sem hún telur að þurfi að greiða.

En það eru fleiri en atvinnulausir sem ríkisstjórnin ætlar að ná einhverjum aurum af í þessum fjárlögum. Hún gerir samkvæmt frv. ráð fyrir að geta náð í um það bil 220 millj. kr. með afnámi tekjutengingar lífeyristrygginga. Ríkisstjórnin gerði upphaflega ráð fyrir að geta náð um 80 millj. kr. af lífeyrisþegum en nú stefnir í að hún nái í a.m.k. 220 millj. þarna, þ.e. miðað við það að launin hækki um 3,5% eins og forsendur fjárlaga gera ráð fyrir.

Ef við leikum okkur nú aftur með þessa tölu eins og við gerðum áðan þannig að launin mundu hækka um 4,5% að meðaltali, þá erum við að tala um að ríkisstjórnin muni ná um það bil 370 millj. af þessum hópi. Skyldi þessi þögli hópur upplifa það þannig að ríkisstjórnin hafi fært honum góðæri? Skyldi þessi hópur fyllast vellíðan þegar hæstv. ráðherrar tala um að ríkisstjórnin hafi náð traustum tökum á ríkisfjármálunum? Skyldi þetta fólk telja sér borgið í höndum núv. ríkisstjórnar? Ég leyfi mér stórlega að efast um að svo sé þótt ekki fari mótmæli þessa hóps hátt. Það má ekki gleyma þessum hópum samfélagsins þegar talað er um góðæri, hagstæða þróun efnahagsmála, vöxt landsframleiðslu o.s.frv.

[15:00]

Það verður líka að hafa í huga þegar efnahagsþróunin er skoðuð að hagþróunin, sem átt hefur sér stað að undanförnu og rakin hefur verið hér, m.a. í ræðu hv. frsm. minni hluta fjárln., markast fremur af auknum þjóðarútgjöldum en aukinni innlendri verðmætasköpun. Bent hefur verið á að þetta megi glöggt sjá í þeim mikla umsnúningi sem orðið hefur í þróun viðskiptajafnaðarins á þessu ári en gert er ráð fyrir að viðskiptahallinn muni nema um 9 milljörðum kr. í ár. Sama er upp á teningnum á næsta ári. Þjóðarútgjöld eru talin munu aukast um 3,5% og sú aukning á aðallega rætur í neysluútgjöldum heimilanna og fjárfestingu. Vöxtur innflutnings er verulegur eða 5,7% samanborið við 2,8% áætlaða aukningu útflutningstekna. Allt þetta mun valda því að viðskiptahallinn á árinu 1997 verður langt yfir viðunandi mörkum eða við eðlilegt fjárfestingarstig.

Það hefur líka verið bent á það að ef af fyrirhuguðum framkvæmdum við nýtt álver á Grundartanga verður munu þjóðhagsforsendur breytast verulega og þannig áætlar Þjóðhagsstofnun að landsframleiðslan muni aukast um 4,5% í stað 2,5% ef af þessu verður og viðskiptahallinn fari þá yfir 20 milljarða króna.

Eins og fram kemur í nál. minni hlutans bendir allt til meiri hagvaxtar á næsta ári en boðað er í frv. og eru tekjur þess vegna verulega vanáætlaðar. Sú hlið frv. mun verða frekar rædd við 3. umr.

Gríðarleg skuldasöfnun hefur átt sér stað hjá heimilunum í landinu á undanförnum árum. Í upphafi 9. áratugarins námu skuldir heimilanna um 24,1% af ráðstöfunartekjum þeirra en á þessu ári er áætlað að samsvarandi hluti nemi um 131%. Greiðslubyrði lána hefur að sama skapi stóraukist og takmarkað svigrúm margra fjölskyldna, ekki síst tekjulágra til að framfleyta sér með þeim hætti sem við gerum öll kröfu til í samfélaginu. Þegar skuldasöfnun er orðin svo að ráðstöfunartekjur heimilanna á heilu ári duga ekki til uppgreiðslu skuldanna blasir alvarlegur vandi við. En hvað skýrir svo óhagstæða þróun í fjármálum heimilanna sem raun ber vitni? Stór hluti þessarar þróunar stafar af því að einkaneyslan er fyrst og fremst fjármögnuð með lánum. Undirrótin er án efa að stórum hluta fólgin í óhóflegri bjartsýni um framtíðartekjur sem stjórnvöld hafa vissulega ýtt undir með margvíslegum hætti. Á meðan heimilin safna skuldum gerir ríkið það líka og hefur því vart getað talist til fyrirmyndar um ráðdeild í rekstri.

Skuldasöfnun opinberra aðila er nú komin á það stig að ástæða er til að hafa af verulegar áhyggjur. Seðlabankinn áætlar að í lok þessa árs nemi samanlagðar skuldir A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga rúmum 275 milljörðum kr. en í hlutfalli við landsframleiðslu nema skuldirnar 53,3%. Það er því ekki nema von að einhver spyrji sig að því hvort góðæri sé á Íslandi í dag og jafnvel þótt sumir mundu sannfærast við allar hagtölurnar sem sýna að svo sé, þá undrast eflaust margir hvert góðærið hafi farið.

Um næstu áramót eru lausir kjarasamningar hjá flestum stéttarfélögum í landinu og launafólk mun nú krefjast leiðréttingar á skertum hlut sínum. Þær fórnir sem færðar voru í þjóðarsáttarsamningunum er nú tímabært að fá til baka og staðan er einfaldlega þannig að af hinum almenna launamanni er ekki neitt að hafa lengur. En það er óljóst hvernig verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum tekst að koma saman samningum því svo virðist sem lítið sé búið að gera til að undirbúa kjarasamningagerðina auk þess sem hæstv. ríkisstjórn hefur síst lagt eitthvað af mörkum til að auka líkur á að samningar geti tekist fljótt og örugglega. Ríkisstjórnin ætlar jú að taka til á vinnumarkaði, sjá til þess að aðilar vinnumarkaðarins skipuleggi sig betur og flutti hér á vordögum tillögur sem hún taldi til úrbóta. Verkalýðshreyfingin var höfð með í ráðum, eins og við munum, þótt sagnfræðinga muni eflaust greina á um það í framtíðinni hvað hugtakið ,,samráð`` hefur þýtt í huga hæstv. ríkisstjórnar. Stórfelldar lagabreytingar á vinnumarkaði þýða aukna réttaróvissu á því sviði en vinnumarkaðsréttur hefur jafnan þótt tiltölulega flókin fræði sem ekki lúta í einu og öllu sömu lögmálum og aðrar greinar lögfræðinnar. Þetta var allt saman rifjað upp á vordögum og ekki ástæða til að fjölyrða frekar um nú, enda skaðinn skeður og ný vinnulöggjöf orðin raunveruleiki.

Það er ljóst að komandi kjarasamningar verða um margt sérstakir. Innan lægst launuðu hópanna eru eðlilega á lofti háværar kröfur um verulega hækkun lægstu launa og kröfur um aukin réttindi til handa þeim sömu hópum heyrast í æ meira mæli en áður. Ekki síst hefur fiskvinnslufólk í auknum mæli beint sjónum sínum að hróplegu óréttlæti hvarð varðar skort á starfsöryggi í þeirri grein en í kjölfar umræðu, sem margsinnis hefur átt sér stað hér í þinginu og hæstv. félmrh. á að mestu leyti heiðurinn af, má senda atvinnulaust fólk á milli landshluta. Hefur það komið æ meir til skoðunar hversu bágborin starfsöryggismál þessa fólks eru. Það nýtur ekki sömu réttinda og aðrir til uppsagnarfrests ef um hráefnisskort er að ræða en hugtakið hráefnisskortur hefur verið túlkað svo þröngt af dómstólum að það getur nánast átt við um hvaða orsök sem er. Slíkar aðstæður eru ólíðandi og Íslendingum til skammar. Reyndar er það svo að starfsöryggismál launafólks á almenna markaðinum eru almennt í lamasessi og enn bíð ég spennt eftir þeirri stundu að hæstv. félmrh. sjái til þess að samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um starfsöryggi verði fullgiltar, eins og hann lofaði úr ræðustól fyrr á árinu að hann mundi beita sér fyrir, en enn hef ég ekki séð tillögur í þá veru af hans hálfu.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera starfsmenntun í atvinnulífinu hátt undir höfði en nú er fyrirhugað að færa svokallaðan Starfsmenntasjóð frá því að vera sérstakur liður eins og verið hefur og verður hann færður undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Í skýringum með fjárlögunum þar sem fjallað er um Atvinnuleysistryggingasjóð segir um þetta:

,,Þá er sjóðnum ætlað að fjármagna tvö styrkjaverkefni, atvinnumál kvenna og starfsmenntun í atvinnulífinu sem áður heyrðu undir fjárlagaliðinn 981, vinnumál.``

Þessi setning segir kannski allt sem segja þarf um skilning þeirra sem fjárlagafrv. unnu á mikilvægi starfsmenntunar í atvinnulífinu og starfsemi starfsmenntaráðs á undanförnum árum. Þessi viðhorf eru í engu samræmi við þá umræðu sem á sér stað um starfsmenntun og mikilvægi hennar um heim allan og einnig hér á landi, einmitt nú á evrópsku ári símenntunar. Þannig hefði frekar mátt reikna með auknum skilningi og stuðningi stjórnvalda við þetta starf en raun er á samkvæmt fjárlagafrv. og þá ekki síst vegna fyrirheita ríkisstjórnarinnar um að aukin áhersla yrði lögð á starfsmenntun og verkmenntun eins og talað var um í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar. Með frv. er í reynd ráðist að þeim grundvelli sem starf starfsmenntaráðs hefur byggt á með margvíslegum hætti samtímis. Það er fallið frá sjálfstæðri fjármögnun til Starfsmenntasjóðs á fjárlögum og í staðinn gert ráð fyrir að fjármagn til hans komi frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Ekki er lengur litið á uppbyggingu og þróun starfsmenntunar í atvinnulífinu sem sérstakt mikilvægt verkefni heldur sem einhvers konar hliðarafurð við framfærslu atvinnulauss fólks. Sköpuð er veruleg hætta á að fjármögnun til Starfsmenntasjóðs verði að bitbeini í stað þess að um hana ríki samstaða. Ekki er að sjá í þessari nálgun stjórnvalda neina framtíðarsýn, hvað þá heldur einhverja metnaðarfulla framtíðarsýn hvað varðar ábyrgð og stuðning stjórnvalda og þá sérstaklega ráðuneytis félagsmála sem jafnframt fer með vinnumarkaðsmál og uppbyggingu og þróun starfsmenntunar og mikilvægis hennar fyrir vinnumarkaðinn.

Ekki síður felur sú breyting sem lagt er til að verði gerð hvað varðar liðinn atvinnumál kvenna eða Jóhönnusjóðinn svokallaða. Hún lýsir ekki beinlínis heldur jákvæðum viðhorfum gagnvart þeim málaflokki. Minni hlutinn telur að með þessum breytingum sé komið á fullkomnu óvissuástandi um framtíð starfsmenntamála og þess vegna gerir minni hlutinn það að tillögu sinni að þeim málum verði komið fyrir á sama hátt og áður. Aðeins þannig er tryggt að þeim fjármunum sem um ræðir verði varið tryggilega til þeirra málaflokka sem við erum að tala um, þ.e. til starfsmenntunar og til atvinnumála kvenna en ekki til annarra verkefna. Lagt er til af minni hlutanum að framlag undir liðinn Atvinnumál kvenna aukist verulega frá því sem verið hefur og að auki gerir minni hlutinn að tillögu sinni að framlög til Félagsmálaskóla alþýðu verði aukin í því skyni að efla starfsmenntun. Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á nauðsyn þess að auka framlög til liðarins 140 Námskeið fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum þar sem hlutverk trúnaðarmanna hefur stóraukist með tilkomu stórfelldra breytinga á lagaumhverfi vinnumarkaðar og auknum áhuga fyrir gerð vinnustaðarsamninga.

Hvað varðar liðinn Atvinnumál kvenna sem minnst var á áðan er lagt til að hann hækki verulega og skýringin á því er sú að minni hlutinn telur að staðan á vinnumarkaði og framtíðarþróun hans sýni að mikil þörf sé fyrir sérstakar aðgerðir í þágu kvenna. Í fjölmörgum ríkjum, t.d. Bandaríkjunum, hefur verið komið á fót sérstökum sjóðum fyrir konur sem ýmist veita lán eða styrki til nýsköpunar og stofnunar nýrra fyrirtækja en á þetta er bent í áliti minni hluta félmn. til fjárln. um fjárlagafrv. Þar segir jafnframt, og vísa ég hér til álits minni hluta félmn.: ,,Sú þróun tengist ekki atvinnuleysi, enda þörf á alveg sérstökum aðgerðum til að draga úr atvinnuleysi kvenna sem er mest meðal ófaglærðra. Minni hlutinn telur það mikla afturför og misskilning á hlutverki þess sjóðs sem styrkt hefur atvinnumál kvenna ef hann verður settur undir Atvinnuleysistryggingasjóð, sem lögum samkvæmt gegnir allt öðru hlutverki og hefur ekki yfirsýn yfir nýsköpun í atvinnulífi. Hér er einfaldlega um að ræða verkefni sem krefst sérþekkingar og rannsókna á íslenskum vinnumarkaði sem verulega skortir á.``

Hvað viðvíkur Félagsmálskóla alþýðu er einnig lagt til af minni hlutanum að framlög til hans séu aukin úr 12,3 millj. í 15 millj. Hlutverk Félagsmálaskóla alþýðu og Menningar- og fræðslusambands alþýðu er að standa fyrir fræðslustarfi fyrir félagsmenn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hvar sem þeir búa á landinu. Fræðslustarfið er fjölbreytt, t.d. má nefna félagsmálafræðslu, vinnumarkaðsfræðslu, starfsmenntun í atvinnulífi, kennslu í almennum námsgreinum, vinnumarkaðsfræðslu í grunnskólum og fræðslu fyrir atvinnulaust fólk þannig að verkefnið er stórt. Liðlega 40% landsmanna hafa ekki lokið öðru formlegu námi en grunnskóla en fylgifiskur skammrar skólagöngu er veik staða á vinnumarkaði. Það er erfiðara fyrir fólk að aðlagast breyttum atvinnuháttum og kröfum þar að lútandi. Þjálfunin í að læra er lítil, brestur er í grunnþekkingu og sjálfsmyndin er veikburða. Veik staða fólks á vinnumarkaði leiðir til veikari stöðu fyrirtækja og stofnana í innlendri og alþjóðlegri samkeppni.

Í nágrannalöndum okkar hefur víða verið brugðist við sambærilegu ástandi og hér hefur verið lýst með öflugum stuðningi við menntun fullorðinna og m.a. með því að styrkja fullorðinsfræðslu, samtök og stofnanir. Í þessum löndum þykir gott úrræði að fela þessum aðilum að annast menntun fullorðinna þegar ekki er um hefðbundið skólanám að ræða. Félagsmálaskóli alþýðu og Menningar- og fræðslusamband alþýðu búa yfir umfangsmikilli reynslu og þekkingu varðandi fræðslu fullorðinna. Viðfangsefnin eru fjölbreytt, starfsvettvangur landið allt, samstarf er við stéttarfélög, fyrirtæki, stofnanir, opinbera aðila, ýmis félagasamtök og einstaklinga um fræðslustarf og um 200 manns kenna meira og minna hjá þessum fræðslustofnunum þannig að það er að okkar mati enginn augljós aðili sem getur verið betur til þess fallinn að fara með þessi mál heldur en einmitt þeir aðilar sem þarna er lagt til að fái aukin framlög. En af hverju leggur annars minni hlutinn til að fjárframlögin til Félagsmálaskóla alþýðu og MFA verði aukin?

[15:15]

Það eru fjölmargar röksemdir fyrir því að ríkisvaldið hækki fjárveitingu sína sérstaklega til þessara aðila. Félagsmálaskólanum ber jú að veita félagsmönnum BSRB fræðslu auk ASÍ-félaga en til þessa hefur fjárveiting til skólans ekki tekið mið af því. Hún er að verðgildi svipuð og hún væri ætluð ASÍ-félögum einum og gilti fyrir lagasetningu um félagsmálaskólann. Skólinn þjónar mun stærri hópi en hefur enn samt sem áður ekki fengið aukið fjármagn.

Stjórnvöld hafa veitt fé til MFA vegna sérverkefna, t.d. fræðslu vegna atvinnulausra og starfsmenntunar. Framlögin hafa verið takmörkuð við námskeiðskostnað án þess að tekið væri tillit til almenns rekstrarkostnaðar sem er óhjákvæmilegur. Þetta er í mótsögn við raunverulegar aðstæður vegna þess að möguleikarnir til að sinna þessum sérverkefnum byggjast á fastri starfsemi MFA. Þangað er reynslan sótt og sömu tækin notuð og þar eru notuð.

Það hefur aldrei verið brýnna en nú að veita fræðslu um félagsmálefni þar sem samfélagsmyndin gerist stöðugt flóknari. Nægir þar að nefna efnahagsmál, vinnumarkaðsmál, atvinnumál og alþjóðasamninga sem skipta æ meira máli fyrir landsmenn. Starfsmenntunin sem slík verður stöðugt mikilvægari og fyrir atvinnulífið er það beinlínis nauðsynlegt að hafa öflug fræðslusamtök sem sinna starfsmenntun.

Það er líka mikilvægt að árétta að Félagsmálaskóla alþýðu og MFA ber að starfa um land allt og það gerir hann. Það gerir það að verkum að námið er að mörgu leyti dýrt. Það að starfa í fámenni gefur heldur ekki gott færi til að þróa nám. Hins vegar er þróunarstarf og samfellt fræðslustarf auðveldara í þéttbýli. Með skóla eins og Félagsmálaskóla alþýðu er reynslan í þéttbýli flutt um land allt en skólinn flytur námskeið sín út um landið. Þannig fær fólk um allt land þróuð og vel skipulögð námskeið. Það má segja að þarna séu kostir þéttbýlis gerðir aðgengilegir fyrir fólk hvar sem er á landinu.

Minni hlutinn leggur áherslu á að komið sé til móts við nauðsyn þess að efla trúnaðarmannafræðslu í kjölfar þess að laga- og réttindaumhverfi á vinnustöðum er í örri breytingu, ekki síst í kjölfar breyttrar vinnulöggjafar og gífurlega breytts umhverfis á vinnumarkaðnum sem hæstv. ríkisstjórn á heiðurinn af að hafa staðið að. Þá er ljóst að verulega aukin krafa er á að vinnustaðarsamningar verði gerðir. Við slíkar skipulagsbreytingar við kjarasamningagerð er ljóst að álagið eykst á trúnaðarmenn. Því er mjög mikilvægt að þeir eigi kost á endurmenntun og námskeiðum sem gera þeim kleift að standa undir þessum auknu kröfum. Breytingartillögur minni hlutans í tengslum við starfsmenntunina, undir liðnum vinnumál, sem fram koma á þskj. 347, miða að því að Starfsmenntasjóður verði færður aftur undir sérlið í félmrn. Þannig telur minni hlutinn tryggara að hann verði notaður til starfsmenntunar eingöngu. Gert er ráð fyrir óbreyttu framlagi til hans. Minni hlutinn leggur hins vegar til að framlög til Félagsmálaskóla alþýðu og trúnaðarmannafræðslunnar verði efld verulega eins og áður hefur verið sagt, þ.e. að framlög til Félagsmálaskóla alþýðu verði hækkuð úr 12,3 millj. í 15 millj. og til trúnaðarmannafræðslunnar verði framlög hækkuð úr 1,8 millj. í 4 millj.

Hvað liðinn Atvinnumál kvenna varðar, þá er lagt til verulegrar hækkunar á honum, eða að hann verði hækkaður úr 19,6 millj. í 50 millj. Það hefur þegar verið rakið, og m.a. var vísað í nefndarálit minni hluta hv. félmn., hverjar ástæðurnar eru fyrir þessu. Það verður að segjast eins og er að því miður grunar mann að það þurfi alla vega þessa fjárhæð ef á að gera verulegt átak undir þessum lið. Minni hlutinn efast stórlega um að það verði tryggt að þessum málaflokkum verði nægilega vel sinnt ef setja á þessi mál öll í einn pott í Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem bitist verður um hvern bita í framtíðinni.

Herra forseti. Það er virkileg ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð okkar Íslendinga. Þar á ég fyrst og fremst við að hér er að vaxa upp kynslóð sem býr við kjör sem á engan hátt standast til frambúðar og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekki sýnt þessari kynslóð mikinn skilning. Þvert á móti hefur verið vegið að ungu fólki með sífelldum álögum, skattalegum vítahring í formi jaðarskatta, úrræðaleysi í húsnæðismálum og eyðileggingu félagslega húsnæðiskerfisins og ómannúðlegri greiðslubyrði námslána.

Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þessu unga fólki öllum sköpuðum hlutum fyrir kosningar og í fararbroddi gekk Framsfl., hinn nýi hægri flokkur okkar Íslendinga, sem síst hefur verið eftirbátur Sjálfstfl. í aðförinni að velferðarkerfinu og launafólki það sem af er kjörtímabilinu. Loforðin um lánasjóðinn og að tekið yrði á jaðarsköttunum hafa ekki verið uppfyllt þó nú hafi loksins verið ákveðið að leggja 100 millj. kr. í LÍN. Reyndar hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram frv. í þá veru að samtímagreiðslum námslána verði komið á og greiðslubyrðinni létt. Hæstv. forsrh., sem virðist hafa tekið í taumana í ráðaleysi hæstv. menntmrh. í lánasjóðsmálinu, ber því við að ekki hafi gefist tími til að koma tillögunum í frumvarpsform. Ég leyfi mér að efast um þetta, enda er það svo að frumvarpsdrögin eru til einhvers staðar á borði nefndarinnar sem sá um endurskoðunina. Líklegri skýring á seinaganginum er sú að hæstv. menntmrh., sem hefur margoft lýst því yfir að hann sé á móti því að koma á samtímagreiðslu námslána, þurfi tíma til að formúlera umsnúninginn sem varð þegar hæstv. forsrh. greip í taumana í þessu vandræðalega máli. Ég skil það svo sem vel að hæstv. forsrh. hafi séð sig knúinn til að gera eitthvað í málinu því það var vægast sagt í algjörum hnút á milli hæstv. menntmrh. og samstarfsflokksins, sem sat uppi með kosningaloforð sem ekki var hægt að svíkja. En hæstv. menntmrh. stendur fast á sínu og vildi ekki gefa sig fyrir nokkurn mun þannig að neyðarlegt ástand hefur ríkt á stjórnarheimilinu á síðustu mánuðum. Á meðan hafa námsmenn lagt fram fjölda gagna sem sýna fram á að aðstaða námsmanna er algjörlega óviðunandi, greiðslubyrðin ómannúðleg og allt hefur þetta haft áhrif á það hverjir geta nú stundað nám í landi forréttindahópanna. Það er ekki barnafólkið eða landsbyggðarfólkið, að ekki sé talað um einstæðu foreldrana. Þessir hópar fara minnkandi.

Í skýrslu sem gefin var út nýlega af samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna gefur að líta ýmsan fróðleik um stöðu námsmanna á Íslandi og áhrif og afleiðingar breyttra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í þessari skýrslu segir m.a. um þessa hópa sem hér var minnst á áðan, þ.e. barnafólk og einstæða foreldra, með leyfi forseta:

,,Tala barnafólks á námslánum lækkaði úr 2.746 lánþegum árið 1991--1992 niður í 1.891 lánþega ári seinna. Á síðasta skólaári voru þessir lánþegar 1.901, aðeins 10 fleiri en fjórum árum áður. Fækkun einstæðra foreldra var hlutfallslega mest við gildistöku laganna, úr 740 í 487 lánþega. Þeim hefur haldið áfram að fækka og nú eru 433 einstæðir foreldrar á lánum. Athygli vekur jafnframt að lánþegum fækkaði mismikið eftir kjördæmum þvert á það sem haldið hefur verið fram. Skýringin á misvísandi upplýsingum um það efni felst í ónákvæmri meðferð tölulegra gagna. Samsetning námsmanna- og lánþegahópsins hefur breyst. Hlutfall barnafólks fer lækkandi ár frá ári.``

Í inngangi að sömu skýrslu er þeirri kynslóð sem nú situr við stjórnartaumana ekki gefin góð einkunn. Þar segir höfundur skýrslunnar, Dagur B. Eggertsson, með leyfi forseta:

,,Það er von mín og sannfæring að á næstu vikum, mánuðum og missirum muni umræða um það efni sem hér er til umræðu eflast, öðlast meiri dýpt og fyllingu. Veruleiki ungs fólks er aðkallandi; atvinnuleysi eða áhætta í námi, útlönd eða fátæktargildra vegna samspils námslána, húsnæðis- og skattkerfis. Hér vil ég ekki draga upp of dökka mynd. Hvernig sem málum er snúið virðist þó ljóst að kynslóðin sem nú situr að völdum virðist illa skilja þann gríðarlega aðstöðumun sem hún hefur skapað með aðgerðum sínum og ákvörðunum milli sinna uppvaxtarára og þeirra sem nú eru að reyna að koma undir sig fótunum. Verði ekkert úr aðgerðum er ekki aðeins viðbúið heldur eðlilegt að æ stærri hópur ungs fólks sæki út fyrir landsteinana í leit að tækifærum.``

En það er svo sem ekkert undarlegt að höfundur skýrslunnar sé harðorður. Niðurstöðurnar gefa nefnilega fullt tilefni til þess. Við skulum grípa aðeins niður í helstu niðurstöður skýrslunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðstöðumunur kynslóðanna sem byggja Ísland til að afla sér menntunar og koma undir sig fótunum að námi loknu sker í augu. Elsta kynslóðin ólst upp við að aðeins efnaðar fjölskyldur gátu sent afkomendur sína til mennta. Þessu vildi hún breyta og gerði það. Frá árinu 1967 má segja að veitt hafi verið veruleg námsaðstoð á Íslandi með námslánum. Þegar endurgreiðslur þessara námslánaflokka eru bornar saman blasir við að endurgreiðslubyrði námslána er nú margföld í samanburði við eldri námslánakerfi. Raunar virðast þær útiloka stóran hóp frá því að eignast nokkurn tíma eigið þak yfir höfuðið. Endurgreiðslurnar samkvæmt núgildandi lögum taka til sín um tvöfalt hærra hlutfall ráðstöfunartekna í samanburði við endurgreiðsluhlutfallið sem áður gilti. Áhrif jaðarskatta gera nær ókleift að vinna þessa tekjuskerðingu upp með aukinni vinnu. Þessar staðreyndir munu að óbreyttu hafa alvarleg áhrif á afkomu tugþúsunda heimila í nánustu framtíð, ábyrgðarmenn námslána og fjárhagsstöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna.``

Síðar í skýrslunni er enn bent á bilið á milli kynslóðanna hvað varðar endurgreiðslur námslána, auk þess sem vakin er athygli á því að ungt fólk stendur nú frammi fyrir því að geta þurft að velja milli þess að fara í nám og koma sér þaki yfir höfuðið. Hertar endurgreiðslur námslána sem nýju lögin um LÍN fela í sér leiða til þess að íbúðarkaupandi, sem tekið hefur námslán samkvæmt lögunum frá 1992, þarf að hafa um það bil 30% hærri laun en íbúðarkaupandi, sem tók námslán samkvæmt eldri lögum frá 1982, til að geta keypt sér sambærilega íbúð. Þá er í báðum tilfellum miðað við hámarksendurgreiðslu í námslánakerfinu. Þarna er um verulegan mun að ræða sem er algjörlega óviðunandi fyrir þá kynslóð sem hefur búið við þessi lög frá 1992.

Það er einnig minnst á það í þessari skýrslu að búast megi við stórauknum vanskilum í námslánakerfinu að óbreyttum endurgreiðsluákvæðunum. Þetta mun í fyrsta lagi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heimili þeirra sem fyrir þessu verða og í öðru lagi mun í mjög miklum mæli reyna á ábyrgðir fyrir námslánum. Á þetta hefur m.a. verið bent af Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum.

Þá er einnig fjallað um eftirágreiðslur námslána og hvernig þær hafa komið út fyrir námsfólk sem verður að segja eins og er að leiðir eingöngu til þess að fjöldi háskólastúdenta er undir óhóflegu álagi vegna hugarangurs um mögulegt fjárhagslegt tjón sem hlýst af því að standast ekki kröfur lánasjóðsins um námsframvindu. Þetta kemur m.a. fram í greinargerð Námsráðgjafar Háskóla Íslands um álag í námi. Sterk rök eru jafnframt fyrir því að núverandi fyrirkomulag útborgaðra námslána bæti ekki skilyrði til námsástundunar.

Það er vissulega mjög ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn hyggist nú taka á málefnum lánasjóðsins eins og hún hefur lýst yfir, en ég leyfi mér að efast stórlega um að þær 100 millj. kr. sem lagt er til í frv. til fjárlaga að settar verði í þennan málaflokk, hreinlega dugi fyrir því sem þarf að laga. Mér segir svo hugur að þær 100 millj. dugi ekki nándar nærri fyrir þeim kröfum sem hafa verið uppi á borðinu af hendi námsmannahreyfinganna, enda liggja ekki fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar neinar tillögur um það hvernig þessum 100 millj. kr. skuli varið ef frá er talið að skýrt hefur verið frá því að það eigi að verja þeim til að koma til móts við það að endurgreiðslubyrðin verði lækkuð og komið verði á samtímagreiðslum. Við eigum eftir að sjá hvernig þessar tillögur verða útfærðar og er miður að þær skuli ekki liggja fyrir áður en fjárveitingin er ákveðin til þessa málaflokks.

Það mætti tína ýmislegt fleira til í þessari ágætu samantekt samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna sem ég vitnaði til áðan en ég læt staðar numið hér. Það er alla vega ljóst að ekki verður gengið lengur á rétt þessa hóps sem hér er rætt um eða svo skyldi maður a.m.k. ætla. En hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ganga lengra. Hún ætlar sér að vísa ungu fólki á aldrinum 16--18 ára út af atvinnuleysisbótum með nýju frv. til laga um atvinnuleysistryggingar sem nú liggur fyrir þinginu. Hin opinbera skýring á því að þessum hópi er vísað út úr kerfinu er sú að hann eigi heima í skólunum en ekki á atvinnuleysisbótum, en hin raunverulega skýring er væntanlega sú að þarna á að spara einhverjar fjárhæðir.

[15:30]

En er þá hæstv. ríkisstjórn að efla veg menntunar eins og hún lofaði í stefnuyfirlýsingu sinni? Er hún að tryggja öllum jafnan rétt til náms án tillits til búsetu og efnahags eins og hún lofaði líka í stefnuyfirlýsingunni? Nei, herra forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt síauknar byrðar á nemendur. Hún hefur lagt á skólagjöld, hún ætlar nú að leggja á fallskatt þannig að þeir sem ekki geta staðist áætlun í skólakerfinu og þurfa að endurinnrita sig í próf eigi að borga toll af slugsinu. Þetta er líklega í samræmi við áhuga hæstv. menntmrh. á auknum aga í skólum landsins sem hann hefur margoft lýst áhuga á.

Fjárlögin eru hin raunverulega yfirlýsing stjórnvalda um menntastefnu og menntunarmöguleika ungs fólks í heimi sem breytist óðfluga. Við Íslendingar veitum minna til menntamála en allar nágrannaþjóðir okkar og vísinda- og rannsóknastarfsemi er aftarlega í forgangsröðinni. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur í verki sýnt mikilvægi menntunar fullkomið skilningsleysi þrátt fyrir loforð um annað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar voru hástemmd loforð höfð í frammi um að vegur menntunar skyldi aukinn, lög um Lánasjóð ísl. námsmanna endurskoðuð og Nýsköpunarsjóður námsmanna styrktur. Það sem af er kjörtímabili ríkisstjórnarinnar hefur menntakerfið verið í stórkostlegri afturför, enda hefur þjóðfélagið logað í illdeilum vegna menntastefnu stjórnarinnar. Í fyrra var ráðist að kennurum ásamt öðrum ríkisstarfsmönnum með breytingum á lögum um starfsmenn ríkisins þrátt fyrir mikla andstöðu þeirra og samtaka þeirra. Háskólinn hefur verið sveltur svo að ráðamenn þar á bæ hafa lýst því yfir að þeir treysti sér ekki til að halda uppi viðunandi gæðum á kennslu og þjónustu, framhaldsskólar og starfsmenntun eru fórnarlömb handahófskennds niðurskurðar í ár og þeir sem verst fara út úr niðurbrotinu eru að sjálfsögðu notendur menntakerfisins, sjálfir námsmennirnir. Framtíð þjóðarinnar, fólkið sem á að taka við þjóðarskútunni, býr við síauknar álögur í formi ýmiss konar skólagjalda og nú síðast birtist óendanlegt hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar í endurinnritunargjaldi eða fallskatti. Lánasjóður ísl. námsmanna er enn í sama farinu og þegar ríkisstjórnin tók við þrátt fyrir loforð um annað. Menntastefna ríkisstjórnarinnar er beinlínis hættuleg landi og þjóð, hún rýrir samkeppnisstöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi og brýtur niður alla framþróun þjóðarinnar. Og það allra versta er kannski sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur með markvissum aðgerðum séð til þess að aðeins þeir sem eiga sér fjárhagslegan hauk í horni geta notið þeirra forréttinda áhyggjulausir að mennta sig. Sú þróun er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í öðrum málaflokkum þar sem sífellt er þrengt að þeim sem nota samfélagslega þjónustu, svo sem fötluðum, öryrkjum og öldruðum.

Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna var grundvallarbreyting gerð á skólakerfi landsmanna og enn er ekki séð fyrir endann á því hvort sú ráðstöfun hafi verið til góðs. Pólitísk sátt var um málið á Alþingi þótt fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu ýmsa fyrirvara á stuðningi sínum við málið. Grundvöllur þess að sátt verði um málið í framtíðinni er að sveitarfélögunum verði tryggður fjárhagslegur grundvöllur til að standa sómasamlega að uppbyggingu skólanna, en samkomulag var gert á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga í mars sl. um flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Framlag til málaflokksins Grunnskólar og leikskólar er í frv. til fjárlaga áætlað um 1.618 millj. sem er lækkun um 5 milljarða frá fjárlögum þessa árs. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaga mun leiða til lækkunar á útgjöldum menntmrn. um 6,2 milljarða kr. en á móti koma sérstakar greiðslur til sveitarfélaga á árinu 1997, samtals að fjárhæð um 1,2 milljarðar kr., vegna flutnings grunnskólans. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1996 kom í ljós að greiðslur vegna þessa voru vanmetnar fyrir árið 1996 og þurfti að sækja um viðbótarheimild upp á 239 millj. kr. Þá er fyrirhugað að breyta verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar þjónustu við fötluð börn í leikskólum, en mikilvægt er að sú breyting komi á engan hátt niður á þjónustu við börnin.

Sveitarfélögin hafa mótmælt síauknum álögum af hálfu ríkisins sem koma óneitanlega niður á þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Leggur minni hlutinn áherslu á mikilvægi samráðs við sveitarfélögin um skuldbindingar sem lagðar eru þeim á herðar þar sem þeim hafa verið falin æ stærri verkefni í seinni tíð. Rekstur grunnskólans er eitt slíkt og flutningur hans til sveitarfélaga má alls ekki verða til þess að landsmönnum verði mismunað eftir búsetu og efnahag.

Stórfelldur niðurskurður til framhaldsskólanna í fjárlögum þessa árs hefur orðið tilefni mótmæla og mikillar ólgu í þjóðfélaginu. Af fyrirhuguðum niðurskurði upp á um 200 millj. kr. hefur verið ákveðið að standa við 160 millj. en 40 millj. kr. er áætlað að skila til baka. Hluti þess, eða 20 millj., fer inn á liðinn Framhaldsskólar, óskipt. Ætlunin er að þeim fjármunum verði varið til að standa straum af kostnaði við fyrirhugaða samninga, skipulagsbreytingar við framhaldsskólana og innheimtu endurinnritunargjalds. Er að nokkru leyti verið að koma til móts við hörð mótmæli gegn fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til nokkurra skóla á landsbyggðinni. Þá er áætlað að 20 millj. kr. umfram það sem áætlað var í fjárlagafrv. verði varið til tækjakaupa og lausnar rekstrarvanda nokkurra skóla þannig að nú þegar liggur fyrir að sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar við framhaldsskólana eru óraunhæf. Þrátt fyrir 40 millj. kr. eftirgjöf er staða framhaldsskólanna algerlega óviðunandi og á engan hátt í takt við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um eflingu menntunar.

Þá hefur hinn umdeildi fallskattur vakið mikla reiði. Það er ótrúlega lágkúruleg fjáröflunaraðferð sem ríkisstjórnin fer hér af stað með. Átelur minni hlutinn harðlega slík vinnubrögð, enda mun minni hluti fjárln. flytja brtt. til að afnema fyrirhugaðan fallskatt. Í skýringum með frv. til fjárlaga er gjaldtakan sögð vera lögð til í þeirri von að hún leiði til markvissari innritunar og auðveldi skipulagningu á kennslu fremur en til útgjalda nemenda. Þessari skýringu vísar minni hlutinn algerlega á bug. Í fyrsta lagi má stórlega efast um þá kenningu að slík gjaldtaka leiði til markvissari innritunar en nú er, hvað þá heldur að hún auðveldi skipulagningu kennslu. Ekkert hefur komið fram sem sannar þetta. Þá er það ljóst að skatturinn leiðir til útgjaldaauka nemenda auk þess sem hann leiðir til þess að þeim sem þurfa á stuðningi að halda er markvisst ýtt út úr skólakerfinu. Á sama tíma ætlar ríkisstjórnin að vísa ungmennum á aldrinum 16--18 ára úr atvinnuleysisbótakerfinu þótt hún hafi ekki nokkur úrræði tiltæk til þess að auka atvinnumöguleika þess hóps. Minni hlutinn fordæmir þessa aðför ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að ungmennum og varar við afleiðingum slíkrar mismununarstefnu.

Í nýjum framhaldsskólalögum er lögð áhersla á aukna verkmenntun og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er mikil áhersla einnig lögð á þennan þátt. Þessar áherslur er ekki að sjá í frv. eða í síðari tillögum sem frá menntmrn. hafa komið. Niðurskurðurinn í frv. bitnar þvert á móti verst á þeim framhaldsskólum sem bjóða upp á verkmenntun á meðan hinir klassísku bóknámsskólar fara betur út úr sparnaðaráformum. Slík stefna er úr takt við kröfur samfélagsins sem einmitt þarfnast öflugri verkmenntunar á meðan offramboð er á stúdentum úr mörgum bóknámsgreinum.

Hvað háskólastigið varðar þá hækkaði fjárveiting til Háskóla Íslands samkvæmt frv. um 89 millj. kr. frá fyrra ári. Að teknu tilliti til verðlagsforsendna mun raunhækkunin hafa numið um 34 millj. kr. Í frv. er viðurkennt samhengið á milli nemendafjölda og framlaga til menntamála sem vissulega er ný stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar og fagnaðarefni að loksins skuli þessi sjálfsögðu sannindi mæta skilningi.

Háskóli Íslands gerði athugasemdir við að ekki hefði verið komið til móts við ósk um fjárveitingu til bóka- og tímaritakaupa upp á 17 millj. kr. og bent var á að erlendar verðhækkanir á bókum hafi leitt til þess að safnið hafi orðið að segja upp 30% áskrifta tímarita næsta árs sem muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir kennslu og rannsóknir skólans. Að hluta til var komið til móts við þessa beiðni á milli 1. og 2. umr., eða sem svarar 12 millj. kr. og er það vel. Minni hlutinn vill vara við óraunsæjum sparnaðartillögum á þessu sviði og vekur um leið athygli á nauðsyn þess að Þjóðarbókhlaðan sé opin á þeim tímum sem námsmenn þurfa á að halda þannig að safnið nýtist í sem ríkustum mæli. Þá vill minni hlutinn líka vekja athygli á framkominni beiðni Háskólans á Akureyri um stóraukin framlög til rannsóknastarfsemi sem meiri hluti fjárln. hefur ekki fallist á. Framlagið í ár er 13,8 millj. kr. miðað við 13,5 í fyrra, en skólinn telur að hækka þurfi þetta um helming eigi skólinn að geta sinnt rannsóknum af metnaði.

Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna er óbreytt frá síðustu fjárlögum þannig að enn og aftur sýnir ríkisstjórnin að hún ætlar ekki að standa við loforð sín gagnvart kjósendum sínum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var því beinlínis lofað að þessi tiltekni sjóður skyldi efldur, en það sem ríkisstjórnin hefur gert er það að við síðustu fjárlagagerð var gerð tilraun til að skerða hann, en fallið var frá þeirri skerðingu og í ár á framlag til hans að standa í stað. Minni hlutinn gerir það að tillögu sinni að framlög til sjóðsins verði aukin verulega þannig að hann verði efldur en minni hlutinn tekur undir að mikil þörf sé á því fé og að það fé nýtist mjög vel sem varið er úr þessum sjóði.

En það er ekki aðeins menntakerfið sem er að fara með ungt fólk. Jaðarskattar hafa gert það að verkum að ungt fólk er í skattalegum vítahring. Ríkisstjórnin ætlaði að taka á þessu máli og lofaði því eins og svo mörgu öðru í stefnuyfirlýsingunni, ef ég man rétt. Ekkert hefur komið út úr því starfi ef starf hefur þá nokkuð verið. Ekki liggja fyrir úrræði sem geta bætt úr þessum vanda og eftir situr fjöldi fólks em býr við óleysanlegan vanda sem ekki verður leystur nema þá helst tímabundið með auknum lántökum. Ljóst er að svona verður ekki hægt að halda áfram lengi og sætir það furðu hversu lítið ríkisstjórnin skeytir um hag þeirra kynslóða sem eiga að erfa landið. Auk jaðarskattanna hefur félagslega húsnæðiskerfið verið eyðilagt þar sem stjórnvöld hafa ekki staðið við sín framlög úr Byggingarsjóði verkamanna og nú stefnir sjóðurinn í gjaldþrot. Ástand á leigumarkaði er algerlega óviðunandi og ríkisstjórnin vísar ábyrgð á húsaleigubótum til sveitarfélaga sem enn eykur á mismunun á milli manna eftir búsetu.

Nauðsynlegt er að bæta stöðu leigjenda þar sem æ meiri þörf er að verða fyrir leiguhúsnæði í kjölfar þess að æ færri hafa ráð á að kaupa húsnæði. Leiguverð er óhóflega hátt og öryggi leigjenda í íbúðarhúsnæði ófullnægjandi. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að bæta úr þessu ástandi en ekki er að sjá tillögur í þessum efnum í fjárlagafrv.

Ég vil einnig minnast á þann vanda sem nú blasir við í aukinni fíkniefnaneyslu ungmenna og ber að fagna því að ríkisstjórnin virðist nú loksins hafa áttað sig á því að nauðsynlegt er að taka hraustlega á í þeim efnum. Það er hins vegar ekki fyrir séð enn að þær aðgerðir sem framkvæmdar hafa verið skili sér til þeirra sem þurfa á þeim að halda en allt að einu er það vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin virðist vera að leggja töluverða vinnu í að takast á við þennan vanda. Í Vikublaðinu í dag er á forsíðu umfjöllun um þetta mál eða um það sem þeir vikublaðsmenn kalla Neyðaróp unglinga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Á þessu ári hafa 160 unglingar leitað ásjár neyðarathvarfs Rauðakrosshúss en á árinu 1995 leituðu 106 unglingar þangað. Í 10 ára sögu hússins hafa mest verið skráðar 133 komur á heilu ári þannig að árið sem nú er að líða verður metár. Skráðar gistinætur í neyðarathvarfinu eru nú um 1.000 feiri en allt árið 1995. Eggert Sigurðsson, kynningarfulltrúi Rauðakrosshússins, telur aukninguna m.a. stafa af því að neyðarúrræðum unglinga hefur fækkað, t.d. vegna lokana á unglingaheimilunum í Efstasundi og Sólheimum. Álag á trúnaðarsíma neyðarathvarfsins hefur einnig aldrei verið meira, en í nóvemberlok var fjöldi símtala kominn í tæp 5.000. Að mati Eggerts horfir til vandræða í þessum málum. Hingað til hafi einn starfsmaður sinnt símtölunum en það sé ekki nóg lengur og nú þurfi að fá inn sjálfboðaliða. Að sinna trúnaðarsímtölum er vandasamt verk og mál eru oft erfið og flókin, aðeins á færi fólks með sérmenntun eða reynslu.

Eins og áður hefur komið fram verður útideild félagsmálastofnunar lokað snemma á næsta ári. Þessi staðreynd er uggvekjandi í hugum margra sem starfa að málum unglinga. Útideildin hefur hingað til sinnt þeim unglingum sem ekki næst til annars staðar.``

Það er ljóst, herra forseti, að hér er bent á mjög alvarlegar staðreyndir sem lýsa samfélagi sem er mikið veikt og því miður verður ekki séð að fyrir liggi úrræði enn sem skili verulegum árangri í þessum efnum. Líklegt verður þó að telja að langur vinnutími og fjárhagsvandi heimilanna sé stór orsök þess vanda sem hér er lýst. Aðeins með því að bæta fjárhagsstöðu heimilanna verður hægt að ráðast af einhverjum krafti til móts við slíkan vanda.

Eins og fram hefur komið hjá þeim hv. þingmönnum sem áður hafa talað hafa komið fram ýmsar beiðnir til viðbótar því sem er á fjárlögum og hefur verið tekið tillit til sumra þeirra í breytingartillögum meiri hlutans. Ég vil nefna sérstaklega breytingu sem ég tel vera mjög ánægjulega og hún tengist Kvennasögusafni Íslands. Það hefur verið ákveðið að verja auknu fé til Þjóðarbókhlöðu til þess að verða við óskum um framlag til safnsins. Hv. formaður fjárln. gat þess að ætlunin væri að koma til móts við óskir um framlag til safnsins en það fór fram á rúmar 2 millj. kr. til starfseminnar. Í greinargerð sem barst með erindi Kvennasögusafns Íslands til fjárln. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Kvennasögusafn Íslands var stofnað í upphafi kvennaárs 1975 af dr. Önnu Sigurðardóttur, Else Miu Einarsdóttur og Svanlaugu Baldursdóttur. Frá upphafi, eða í rúm 20 ár, hefur safnið verið til húsa á heimili dr. Önnu en hún lést í janúar sl. Safnið hefur nú verið flutt í Þjóðarbókhlöðu og mun það standa þar sem sjálfstæð eining samkvæmt samningi sem undirritaður var 26. mars sl.``

Í þessum samningi segir m.a., með leyfi forseta:

[15:45]

,,Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn mun eftir föngum sjá til þess að ofangreind markmið verði í heiðri höfð, enda fáist til þess sérstök fjárveiting.``

Í greinargerð Kvennasögusafnsins segir einnig að vinna við safnið í þessi 20 ár hafi að mestu verið sjálfboðavinna dr. Önnu og annarra ábyrgðaraðila safnsins. ,,Enn fremur lögðu ýmsar konur fram vinnu sína við gagnaöflun til safnsins. Með starfi sínu og áhuga lagði dr. Anna ómetanlegan skerf til varðveislu og rannsókna á sögu kvenna. Mjög mikilvægt er að sú vinna sem þar liggur að baki haldi áfram öllum til heilla. Til þessa þarf að hafa starfsmann í heilli stöðu við safnið og þarf til þess sérstaka fjárveitingu svo hægt verði að standa straum af rekstri safnsins.`` Þarna er enn lögð áhersla á það að þarna sé um að ræða sérstaka fjárveitingu.

Það er sem sagt bent á það í greinargerðinni, og er rétt að ítreka það, að safnið fékk á sínum tíma inni í Þjóðarbókhlöðunni náðarsamlegast á þeirri forsendu að það hefði sjálfstæðan fjárhag og kæmi þannig ekki niður á fjárhag safnsins í heild. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga. Stjórn Kvennasögusasafnsins gerði samning sem byggir á þessu, sem ég tel vissulega vera mjög neikvætt að hafi gerst, en á þessum forsendum einum fengu þær að koma inn í hús Þjóðarbókhlöðunnar. Slíkir afarkostir eru ekki til fyrirmyndar og bera oft vott um það hvaða augum kvennasaga og -störf eru metin. Hin hefðbundna kvennasagnfræði hefur ekki sinnt kvennasögunni sem skyldi og þegar stórmerkilegt safn um kvennasögu er loksins orðið að veruleika, að mestu leyti fyrir tilstilli eins einstaklings, þá fær það inni í sjálfri Þjóðarbókhlöðunni á grundvelli þessara afarkosta.

Ég tel með tilliti til þeirrar forsögu sem hér hefur verið rakin rétt að það komi skýrt fram hver sé vilji hv. fjárln. í málinu og vil að hv. formaður fjárln. hlýði nú sérstaklega á það sem ég er að segja. Vegna þess að ég spyr hv. formann fjárln. að því hvort hann líti ekki svo á að með því að hækka fjárveitinguna til Þjóðarbókhlöðunnar og með því að taka það sérstaklega fram að þannig sé verið að koma til móts við þarfir Kvennasögusafnsins, þá sé nefndin í raun og veru að leggja það til að orðið sé við þeirri fjárhagsbeiðni sem Kvennasögusafnið fer fram á. Ég tel mjög mikilvægt að fyrir liggi vilji fjárln. Alþingis úr því að svo er komið sem er að það er gert að skilyrði að safnið hafi sjálfstæðan fjárhag til þess að það fái að vera í sjálfri Þjóðarbókhlöðunni. Ég vil gjarnan að hv. formaður fjárln. skýri skilmerkilega frá því hver fjárveiting til Kvennasögusafnsins á að vera. Þess vegna hefði ég reyndar talið æskilegt að þetta væri sérstakur liður úr því að ætlast er til þess beinlínis að safnið hafi sjálfstæðan fjárhag, en ég tel þó mestu skipta að sjálfsögðu að safnið fái umbeðið fé þannig að hægt sé að reka það.

Herra forseti. Minni hluti fjárln. átelur harðlega þá aðför sem gerð er eina ferðina enn að þeim hópum sem minnst mega sín í samfélaginu og birtist í fjárlagafrv., jólaboðskap ríkisstjórnarinnar. Þetta var reyndar rakið að hluta til í upphafi ræðu minnar og enn er eftir að sjá tillögurnar í málefnum sjúkrahúsanna þar sem stórar fjárhæðir ber á milli. Í tillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir tilflutningi 970 millj. kr. á sjúkratryggingum og yfir á safnliðinn Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Þessum tilflutningi er ætlað að spara 100 millj. kr. í rannsóknakostnað eins og áformað var í frv. Í raun virðist hér um að ræða tilfærslu verkefna frá samninganefnd Tryggingastofnunar yfir til heilbrrn. sem framvegis verður ætlað að gera þjónustusamninga við heilbrigðisstofnanir sem fá framlag til rannsókna. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins mun ráðuneytið semja við þessar stofnanir um að þær skuldbindi sig til að fækka ekki rannsóknum frá því sem er á yfirstandandi ári og ekki er ætlunin að minnka framlög til þessa málaflokks hjá opinberum heilbrigðisstofnunum. Sparnaðinum, 100 millj. kr., á hins vegar að ná fram með því að semja um hagkvæmari kjör við einkareknar rannsóknastofur en Tryggingastofnun verður falið það hlutverk, ef ég skil útskýringar, reyndar munnlegar að mestu leyti, heilbr.- og trmrn. rétt. Þær skriflegu skýringar sem fengust frá heilbrrn. eru því miður ekki beinlínis til þess að auka skilning á þessari aðgerð. Þær má reyndar auðveldlega skilja sem svo að ætlunin sé sú að færa aukin verkefni til einkarekinna rannsóknastofa þar sem rannsóknaþjónusta þeirra opinberu sé óhóflega dýr. Ráðuneytið segist hafa alþjóðlegan samanburð sem sýni þetta, en þrátt fyrir að beðið hafi verið um að sjá þennan samanburð hefur ráðuneytið ekki orðið við þeim óskum fjárlaganefndarmanna. Að auki fóru nefndarmenn fram á að ráðuneytið mundi meta það hver áhrif þessi breyting mundi hafa á kostnaðarhlutdeild sjúklinga, en sú áætlun hefur ekki komið og liggur ekki fyrir. Slík vinnubrögð eru óviðunandi.

Eina ferðina enn á að gera sparnaðartillögur upp á hundruð milljóna með töfralausnum sem engin tiltæk gögn eru sýnileg um að séu raunhæfar. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að framlög til stofnana ríkisins séu ákveðin miðað við raunverulegt umfang þeirra en ekki með óraunsæjum og óskýrum hugmyndum. Minni hlutinn vakti athygli á þessari áréttingu Ríkisendurskoðunar í áliti sínu vegna fjáraukalaga fyrir árið 1996 og minnir enn og aftur á það hér.

Tilflutningurinn, sem hér var lýst, lítur því miður út fyrir að vera enn ein óraunsæja sparnaðaraðgerðin sem væntanlega kemur í hausinn á hæstv. ríkisstjórn á næsta ári þegar fjáraukalög verða ákveðin eða í andlitið á sjúklingum með auknum þjónustugjöldum. Heilbrrn. hlýtur að áætla áhrif slíkra breytinga á kostnaðarhlutdeild sjúklinga áður en það tekur ákvörðun um slíka hluti og því hefur verið óskað eftir slíkri áætlun en vonandi mun hún a.m.k. liggja fyrir við 3. umr.

Þá lýsti hv. formaður fjárln. því í framsögu sinni að fyrirhuguð væri 400 millj. kr. lækkun á lyfjaútgjöldum ríkisins og hvernig ætti að standa að henni. Þær aðgerðir sem á að grípa til til þess að ná fram þessum sparnaði eru ekki mjög sannfærandi að mínu mati. Það er sagt að til eftirfarandi aðgerða verði gripið til að ná áformum fjárlaga: Í fyrsta lagi hafi lyfjaverðsnefnd ákveðið lækkun álagningar lyfja bæði í heildsölu og smásölu sem tekur gildi um næstu áramót. Búist er við að sú lækkun spari um 250--300 millj. kr. í lyfjaútgjöldum almannatrygginga sem skilar sér einnig að hluta til til sjúklinga. --- Það er reyndar algerlega órökstutt hvernig þetta á að eiga sér stað. Síðan segir:

,,Í samræmi við tillögu lyfjahóps Tryggingastofnunar ríkisins hafi verið ákveðið að hækka greiðsluhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði um 5%, en þar sem verð lyfja lækkar bæði í heildsölu og smásölu, hámarksgreiðsluþak sjúklinga verður óbreytt og samkeppni í lyfsölu hefur aukist mjög má ætla að litlar breytingar verði á útgjöldum notenda. Þessi breyting kemur til framkvæmda um næstu áramót og er áætlað hún lækki lyfjakostnað almannatrygginga um allt að 200 millj. kr.``

Ég verð að leyfa mér að efast um að þessar fullyrðingar. Útskýringar heilbrrn. eru fullar af órökstuddum fullyrðingum og ég efast stórlega um að þau sparnaðaráform sem þarna er verið að tala um gangi eftir með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í skýringu ráðuneytisins, því miður.

Frsm. minni hlutans hefur þegar farið ítarlega yfir efni frv. og frsm. meiri hluta hefur gert grein fyrir einstökum brtt. meiri hlutans. Sumar þeirra mun minni hlutinn styðja enda eru margar þeirra til bóta. Sérstaklega er ástæða til að lýsa ánægju með tillögur sem koma til móts við þann niðurskurð sem framhaldsskólarnir hafa orðið fyrir og lánasjóðurinn.

Þá er gert ráð fyrir í brtt. að 2,5 millj. kr. verði varið til EFTA/EES-samstarfs sem ætlað er til þess að kosta þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í nefndastarfi í tengslum við Fríverslunarsamtök Evrópu og samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Gert er ráð fyrir að fé þetta verði tekið af liðnum Vinnumál í félmrn. sem hefur verið skipt til sömu aðila hingað til, ef ég skil það rétt. Þessar 2,5 millj. eru sem sagt færðar af liðnum Vinnumál frá félmrn. yfir í utanrrn. og eiga að standa straum af þeim kostnaði sem um var beðið. Það verður að segja eins og er að þarna er ekki um að ræða aukna fjárveitingu í þessa starfsemi eins og farið var fram á. Ég hef a.m.k. ekki skilið það þannig að þetta sé eingöngu tilfærsla á milli ráðuneyta. Ég mundi vilja biðja hv. formann fjárln. að leiðrétta mig ef ég fer ekki með rétt mál. Slík niðurstaða er á engan hátt viðunandi með tilliti til þess að rökin fyrir þessari fjárveitingabeiðni voru þau að síaukin ábyrgð samtaka launafólks á grundvelli alþjóðlegs samstarfs krefðist aukinna fjárveitinga til þessara aðila. Stjórnvöld hafa skuldbundið þessa aðila til að sinna tilteknu starfi og því hlýtur að fylgja ákvörðun um fjárveitingar til að sinna þessu lögbundna starfi sem þeir eiga að sinna. Annað er algerlega óraunsætt og því er sú tilfærsla sem hér er lögð til ekki viðunandi.

Um tekjuhlið frv. verður frekar rætt við 3. umr. og því mun ég ekki fara ofan í þá hlið hér sérstaklega.

Herra forseti. Víst á ríkissjóður sér vini þótt formaður hv. fjárln. efist um það. Ríkissjóður á vini í hópi atvinnurekenda og samtaka þeirra því stjórnvöld hafa séð til þess að síauknum byrðum hefur verið velt af fyrirtækjunum og yfir á heimilin. Hann á sér líka vini í hópi þeirra sem þurfa ekki á samtryggingunni að halda, þeirra sem geta keypt sér þann aðbúnað sem þeir vilja. Hann á sér nefnilega vini í hópi þeirra sem góðærið hefur heimsótt en hinir sem hafa orðið fyrir síauknum atlögum þessarar ríkisstjórnar geta lítið aðhafst þótt jólasveinninn hafi ekki heimsótt þá.