Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:07:04 (2162)

1996-12-13 16:07:04# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:07]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að viðbrögð hv. 2. þm. Vesturl. við ræðu minni kalla beinlínis á aðra ræðu ef ég ætti að koma að þeim útskýringum sem ég gjarnan mundi vilja um þetta mál. En til að skýra mál mitt vil ég vísa í þessa ágætu samantekt námsmannahreyfinganna, með leyfi forseta:

,,Núvirt eigið fé lánasjóðsins var í upphafi árs 1991 jákvætt um 3 milljarða miðað við 6% ávöxtunarkröfu samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1991. Ef sjóðnum hefði þá verið lokað hefði hann getað staðið við allar skuldbindingar sínar og að auki endurgreitt ríkissjóði að nafnvirði rúma 9 milljarða kr. af eigin fé sínu en 3 milljarða á núvirði eins og áður segir. Af þessu má vera ljóst að sjóðurinn var langt frá því að vera gjaldþrota eins og ítrekað hefur þó verið haldið fram. Þvert á móti vitna þessar tölur um að hann hafi staðið miklu sterkar fjárhagslega en aðrir sambærilegir sjóðir í eigu ríkisins.``

Það hefur mikið verið tekist á um það hver staða sjóðsins hafi verið þegar gripið var til þessara óyndisúrræða sem lögin frá 1992 voru. Það sem skiptir öllu máli í dag er það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að halda á málum námsmanna í framtíðinni. Kannski eru þessar fyrstu 100 milljónir sem setja á í breytingu á lögunum einhver vísbending um breytta stefnu og ég vona það svo sannarlega.