Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:53:27 (2191)

1996-12-13 22:53:27# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefði hæstv. heilbrrh. leitað dyrum og dyngjum og í skúffum í heilbrrn. hefði hún fljótlega fundið yfirlýsingu heilbrrh., kvenfélagsins Hringsins og Ríkisspítalanna einmitt um þetta tiltekna verkefni þar sem raunar er kveðið á um grófar upphæðir og um framgang verksins. Í kjölfarið var sett á byggingarnefnd sem hefur fyrir allnokkru síðan lokið sínu verki, þ.e. komið í það horf að hægt er að auglýsa alútboð, búið að þarfagreina alla þjónustu. Hvað varðar peningamálin lá það fyrir með þessari yfirlýsingu að þeir fjármunir sem til voru hjá ríkisstjórninni voru notaðir í þennan undirbúning. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um mitt ár 1994 var þess efnis að á fjárlögum næsta árs, 1995, bæri að veita fé til þessa verkefnis. Því miður reyndist mér ekki unnt að fylgja því eftir því að ég fór úr heilbrrn. í júní þetta sama ár. Þannig voru málin í þeim farvegi sem best verður á kosið þegar ég fór úr heilbrrn.

Við skulum ekki deila um þetta. Ég held að við séum öll sammála um þetta mál. Ég fagna því mjög ef það kemur brtt. frá meiri hluta nefndarinnar um að við skilyrði fyrir heimild til að selja verði bætt heimild til þess að nota. Það er hið besta mál. Heilbr.- og trn. tekur þá með öðrum orðum upp þá tillögu sem hér liggur fyrir af hálfu þingflokks jafnaðarmanna. Það er hið allra besta mál. Og væntanlega styður þá hæstv. ráðherra það líka að til þess að niðurnjörva þetta nú alveg, þá verði einhver nómínal tala sett inn í fjárlög þannig að verkefnið, Barnaspítala Hringsins, sé að finna í skrifuðu skjali fjárlaga en svo er því miður ekki eins og sakir standa og því þurfum við að breyta og taka höndum saman um það.