Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:09:59 (2243)

1996-12-16 14:09:59# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. meiri hluta VS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í fjarveru hv. formanns efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, mæli ég fyrir nál. á þskj. 324 frá meiri hluta efh.- og viðskn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason, Braga Gunnarsson, Maríönnu Jónasdóttur og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Jónas Fr. Jónsson og Birgir Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Ingólfur Bender frá Samtökum iðnaðarins, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Kristján Ragnarsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökunum, Birgir Rafn Jónsson og Stefán Guðjónsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Guðni Níels Aðalsteinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Sigurður Jónsson frá Kaupmannasamtökunum, en þeir sendu nefndinni einnig skrifleg erindi um málið. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

1. Á móti breikkun á gjaldstofni, sbr. skýringar við 2. tölul. hér að neðan, er lagt til að hlutfall tryggingagjaldsins lækki samsvarandi. Í stað meðalprósentunnar 5,5% kemur 5,25%. Er hlutfallstölum breytt til samræmis við þetta. Af sömu ástæðum lækkar gjald í Atvinnuleysistryggingasjóð úr 1,35% í 1,3%.

2. Lagt er til að við frumvarpið bætist tvær nýjar greinar. Annars vegar er lagt til að við 3. gr. laganna bætist tveir töluliðir um að Staðlaráð fái í sinn hlut 0,007% af gjaldstofni tryggingagjalds og Icepro, sem er aðili að stöðlunarverkefnum á sviði tölvusamskipta, fái 0,001%. Til stóð að leggja á sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við gerð staðla, en talið var betra að fara þá leið sem hér er lögð til. Er þetta sama fyrirkomulag og gildir um Vinnueftirlit ríkisins. Þessi breyting mun þýða að tekjur Staðlaráðs verði um 16 millj. kr. og tekjur Icepro um 2 millj. kr. Hins vegar er lögð til sú breyting á 1. tölul. 7. gr. laganna að gjaldstofn tryggingagjalds verði breikkaður þannig að hluti launagreiðenda lífeyrissjóðsiðgjöldum verði að fullu tekinn inn í stofninn, en miðist ekki við þann hluta framlagsins sem er umfram 6% af launum eins og nú er.

Undir nál. rita auk formanns Vilhjálms Egilssonar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Sólveig Pétursdóttir auk þeirrar sem hér talar.