Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:30:28 (2287)

1996-12-16 17:30:28# 121. lþ. 45.11 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. Auk mín standa að álitinu hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Ásta B. Þorsteinsdóttir. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og hún er samþykk þessu áliti.

Herra forseti. Þingheimur skiptist í stjórn og stjórnarandstöðu um þetta mál og það í sjálfu sér ekki að ástæðulausu vegna þess að þetta er eitt af meginfrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem hún hefur lagt fram á þessu þingi. Þetta er hefðbundið frv. í tengslum við ríkisfjármál þar sem gerðar eru fjölmargar breytingar á mörgum lögum. Þetta frv. er kallað vinnuheitinu bandormurinn. Það er ekki nýyrði. Slíkt frv. hefur sést oft áður og þá venjulega gengið undir þessu heiti vegna þess að í því eru gerðar breytingar á mörgum lögum.

Frv. endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar í skatta- og ríkisfjármálum. Það er tekið á mjög mörgum málaflokkum í þessu frv. og minni hlutinn og stjórnarandstaðan öll er andsnúin því og þær breytingartillögur sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur lagt fram bæta þetta mál lítið og gera það að nokkru leyti enn verra.

Fyrst er til að taka að í frv. er lögum sem varða menntamál breytt. Og það er ánægjulegt að sjá í þingsal bæði hæstv. menntmrh. og hv. formann menntmn. svo að greinilegt er að þeir hv. þm. vita upp á sig einhverja sök í þessu máli og vilja vera tilbúnir til andsvara. Og vissulega er það svo, herra forseti, að af nokkru er að taka hvað varðar þennan málaflokk.

Fyrst er að nefna að í 1. gr. frv. eru framlög til Þjóðarbókhlöðunnar skert. Það fer vel á því, herra forseti, að það skuli vera gert í 1. gr. þessa merka frv. ríkisstjórnarinnar að skerða sérstaklega gildandi lög og gildandi tekjustofn, lögbundinn tekjustofn Þjóðarbókhlöðu og menningarbygginga. Þessi sérstaki skattur sem lagður var á fyrir þó nokkuð mörgum árum til að klára byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Eins og einhverjir hv. þm. muna eftir hófst, ef ég man rétt, bygging Þjóðarbókhlöðunnar 1978 eða 1974, ég man nú ekki alveg hvort var. Ég held að það byggingartíminn hafi verið kominn upp undir 20 ár þegar hún var opnuð með viðhöfn. Skatturinn var lagður á með þeirri röksemd að það þyrfti að klára þetta mannvirki. Framlagið hefur verið skert undanfarin ár og þess má geta að í þessu frv. er gert ráð fyrir að spara ríkinu 150 millj. kr. vegna þessarar skerðingar á tekjustofninum og renna þær í ríkissjóð. Minni hlutinn hefði talið rétt með tilliti til forsögu málsins að verja þessum tekjum til upprunalegs markmiðs, þ.e. til Þjóðarbókhlöðunnar eða þess vegna annarra menningarbygginga eins og getið var um í lögunum á sínum tíma því að það er sorglegt að þurfa að segja frá því að jafnvel þó að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar sé lokið, þá er langt í frá að hún hafi verið gerð þannig úr garði að geta kallast alvöru háskólabókasafn, því miður. Nú tala ég af nokkurri reynslu því að ég þekki vel til bókasafnsmála Háskóla Íslands. Það hefur verið þannig um mjög mörg ár að aðstöðuleysi háir Háskóla Íslands og öðrum menntastofnunum. Úr því var bætt því með byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Þetta er glæsilegt hús og þjónar mjög vel því markmiði sem því var ætlað, glæsileg umgjörð um þá starfsemi sem á að fara fram í þessu húsi. Hins vegar vantar mikið á að bókakostur þessa safns sæmi þjóð sem vill kalla sig menntaþjóð og vill leggja áherslu á háskólakennslu og háskólarannsóknir. Þetta er sorgarsaga og fram hefur komið í mörgum skýrslum að hér hefði þurft að taka á. Það var að hluta til gert þegar Þjóðarbókhlaðan var tekin í notkun og þá einkum að frumkvæði stúdenta við Háskóla Íslands sem söfnuðu fé til bókakaupa og tímaritakaupa og margir lögðust á árina við að búa þessa glæsilegu byggingu þeim bókum sem nauðsynlegar eru. En enn vantar mikið á að hægt sé að vinna í henni á viðunandi hátt. Það má til að mynda geta þess að háskólakennarar sem vinna að rannsóknastörfum verða nær allir að fara til útlanda á bókasöfn ef þeir vilja sinna fræðasviðum sínum. Ég sé ástæðu til að gera þetta að sérstöku umtalsefni vegna þess að uppbygging í menningarmálum hefur að mörgu leyti verið afskipt í tíð núverandi ríkisstjórnar og sjást þess merki greinilega bæði í fjárlagafrv. og í fjárlögum síðasta árs. Það hefði verið tilefni að okkar mati til að skoða þessi mál varðandi þjóðarbókhlöðuskattinn í samhengi, þ.e. hvort ekki væri hægt að finna not fyrir tekjur á þessu sviði menningu og menntun til framdráttar.

2. gr. bandormsfrv. snýr einnig að skólakerfinu og það er hinn margfrægi fallskattur hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar, þar sem að mati okkar er vegið að grundvallaratriðum menntakerfis okkar með þeirri framsetningu sem er í frv. Þar er lagt til sérstakt innritunargjald fyrir nemendur sem endurritast í bekk eða áfanga í framhaldsskólum. Upphaflega þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir að gjaldið yrði 1.500 kr. á áfanga eða á próf, en síðan tók þetta breytingum í nefndinni og meiri hlutinn lagði til aðra útfærslu. Það er ein af þeim breytingartillögum sem lögð er til af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. og gerði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson grein fyrir henna fyrir hönd meiri hlutans. Þar er orðalagið þannig varðandi þetta gjald, með leyfi forseta:

,,Heimilt er framhaldsskólum að innheimta sérstakt endurinnritunargjald af nemendum sem endurinnritast í bekkjardeild eða áfanga og skal upphæð gjaldsins miðast við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá síðustu önn.``

Síðan skal setja nánari ákvæði um reglugerð um gjaldtökuna af hálfu menntmrh., m.a. um tilhögun innheimtu og undanþágu frá greiðslu gjaldsins. Minni hlutinn og stjórnarandstaðan lýsa sig andvíga þessari aðferðafræði sem hér er lagt upp með, þessum fallskatti á nemendur sem einhverra hluta vegna verða að endurtaka áfanga eða bekk í framhaldsskólum. Að okkar mati er ekki tekið tillit til sérstakra aðstæðna sem vitaskuld geta verið orsakir þess að nemendur lenda í því að þurfa að endurtaka nám sitt að nokkru leyti. Að okkar mati sýnir þessi framsetning fjandsamleg viðhorf skóla og ríkisvalds gagnvart nemendum. Þessi útfærsla getur einnig hrakið nemendur frá námi. Þó að við í nefndinni gengjum ítrekað eftir því hvernig þetta yrði útfært í einstökum atriðum, þá lá meiri hluta hv. efh.- og viðskn. svo á að keyra málið í gegn að þau svör fengust ekki. Það er vitaskuld ekki góð stefna, þegar verið er að setja íþyngjandi löggjöf á viðkvæmu sviði, að margir endar lausir skuli vera í útfærslu málsins.

Mig langar, herra forseti, að vitna aðeins til álits minni hluta menntmn., en efh.- og viðskn. vann þennan bandorm þannig að hún vísaði einstökum greinum til viðkomandi fagnefnda þingsins og eru það vinnubrögð sem hafa verið tíðkuð áður í sambandi við bandormsfrumvörp. Við mættum e.t.v. viðhafa slík vinnubrögð í meira mæli á hinu háa Alþingi, þ.e. að kalla til mats hjá einstökum fagnefndum. Það var gert í þessu tilfelli. Ýmsar nefndir klofnuðu í afstöðu sinni. Undir álit minni hluta menntmn. rita fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn.: Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Þær eru allt hv. þm. sem kunna vel skil á skólamálum og efast ég satt að segja um að til sé bærari hópur á Alþingi til að fjalla um menntamál af víðsýni og þekkingu en einmitt þessi minni hluti menntmrn. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

,,Þá vara undirritaðar við áformum um svokallaðan fallskatt þar sem til stendur að innheimta 1.500 kr. gjald af nemendum sem endurinnritast í próf eða áfanga í framhaldsskóla. Þetta er rökstutt með því að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og skipulagningar kennslu. Þetta gjald á að gefa 32 millj. kr. í ríkissjóð. Ef um skipulagsvanda í einstaka skólum er að ræða telja undirritaðar að taka eigi á honum með viðeigandi hætti en ekki að láta nemendur greiða viðbótargjöld. Aukin ráðgjöf og eftirlit væri mun virkari leið til skilvirkara skólastarfs.

Enda þótt tekið verði tillit til fötlunar einstaka nemanda er ljóst að jaðartilvik verða fjölmörg og innheimta því flókin og erfið, ef ekki óframkvæmanleg.

Þá er líklegt að þetta gjald auki enn frekar á brottfall nemenda, ekki síst þeirra sem erfiðast eiga uppdráttar í skólunum og koma frá efnalitlum heimilum. Þessum hópi er hvorki boðið nám við hæfi, atvinna né atvinnuleysisbætur.``

Þetta var úr áliti minni hluta menntmn. um fallskatt hæstv. menntmrh. Þótt svo greinin tæki nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar eins og ég gat um áðan, þá er ekki um að ræða neinar efnisbreytingar og engar þær breytingar sem gefa tilefni til endurmats á þessari álitsgerð minni hluta menntmn.

[17:45]

Herra forseti. Meiri hluti efh.- og viðskn. bætti um betur í meðförum því við héldum nú þegar umræðan byrjaði í nefndinni að það yrði reynt að endurmeta þetta. Það yrði reynt að lækka þetta og finna þessu betri farveg. Okkur fannst á tímabili að meirihlutamenn í efh.- og viðskn. væru aðeins hugsi yfir þessum skatti sem þarna var lagður á. En efnislegar breytingar komu ekki varðandi þennan þátt. Hins vegar komu þeir með eina efnislega breytingu en hún var ekki í áttina til þess að létta þetta mál heldur var bætt við sérstakri heimild til álagningar innritunargjalds þannig að nú verður heimilt að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma. Innritunargjald má ekki vera hærra en 6 þús. kr. ári, það er óbreytt, en það er bætt inn heimild ef menn einhverra hluta vegna innritast utan venjulegs tíma, þá er hægt að gera það með álagi upp á 25%. Hér er bætt við íþyngjandi heimild gagnvart nemendum í framhaldsskólum. Þannig að allt er nú þetta á sömu bókina lært. Þrátt fyrir þá umræðu sem hófst varðandi þennan fallskatt hæstv. ráðherra að þá var bætt við viðbótarheimild til að innheimta aukagreiðslu ekki einungis við það að menn missa af prófum eða falla á prófum heldur líka einnig ef menn geta einhverra hluta vegna ekki innritað sig á réttum tíma.

Herra forseti. Okkur í minni hlutanum og stjórnarandstöðunni finnst að menntastefna hæstv. ríkisstjórnar sé alltaf að birtast skýrar. Okkur finnst að þessi ákvæði í bandorminum geri ekkert annað en að staðfesta það mat okkar að ríkisstjórnarstefnan er fjandsamleg gagnvart menntamálum. Við segjum í okkar nál. að við teljum að afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart menntamálum einkennist af því að sýna þessum málaflokki lítilsvirðingu. Okkur finnst í ljósi þess hve menntamál eru mikilvæg í þjóðfélagi okkar, hafa að vísu verið það en verða enn mikilvægari á næstu áratugum og ekki hvað síst í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað hér fyrir síðustu kosningar, að hér sé heldur betur komið aftan að hlutunum þegar við skoðum menntastefnu ríkisstjórnarinnar í heild. Það hefur komið fram í niðurskurði til framhaldsskóla, t.d. í fjárlagafrv. sem nú er til afgreiðslu. Þetta kom strax fram á fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar í samdrætti gagnvart mörgum málaflokkum í menntamálum og það birtist enn og aftur í þessum tveimur bandormsgreinum, þ.e. skerðing á tekjustofni til Þjóðarbókhlöðu og menningarbygginga og síðan hinn margfaldi fallskattur hæstv. menntmrh. Þetta eru stefnumálin hans, þetta er stefna hans sem kemur hér mjög skýrt fram.

Það er ekki einungis, herra forseti, að búið sé að svíkja, að mati okkar í stjórnarandstöðunni, öll þau kosningaloforð sem þessir ríkisstjórnarflokkar gáfu fyrir síðustu kosningar en þá átti að gera mjög mikið í menntamálum. Við höfum ekki orðið vör við það í ríkisstjórnarstefnunni, þvert á móti höfum við einnig verulegar áhyggjur af því að lítil áhersla ríkisstjórnarinnar á þennan málaflokk gerir vitaskuld ekkert annað en að endurspegla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að þessi ríkisstjórn setur ekki menntamál í forgang. Það eina sem hæstv. ríkisstjórnin hefur haft gagnvart menntamálum að segja hafa verið svo sem fögur orð á tyllidögum þegar svo ber undir en það hefur ekki komið fram í skýrari stefnumörkun, auknum fjármunum né langtímastefnu í þessum málaflokki.

Þetta væri e.t.v. ekki svo alvarlegt, herra forseti, ef við værum ekki að horfa upp á stöðu okkar í alþjóðlegu samhengi. Allir þeir sem vilja vita þekkja að lífskjör í upphafi næstu aldar munu markast fyrst og fremst af stöðu einstakra þjóða í menntamálum. Hversu menntuð er þjóð --- og þegar maður talar um menntun þjóðar þá er það mjög breitt svið. Það þarf ekki endilega að vera háskólamenntun, það getur alveg fólgist í verkmenntun, tæknikunnáttu, vísindarannsóknum og góðum grunnskólum. Það er mjög margt sem tengist menntamálum í víðu samhengi þegar við eru að skoða stöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum. Því það er eitt sem við vitum, þó við vitum e.t.v. ekki mjög margt um framtíðina, að samkeppni milli þjóða og milli einstaklinga á sviði verslunar og viðskipta mun aukast mjög mikið á næstu áratugum. Það er allt sem stefnir til nánara sambands og nánari samskipta einstakra þjóða og þessi samkeppni ræðst vitaskuld af því hvernig menn koma undirbúnir til þeirrar orrustu. Það að leggja ekki áherslu á menntamál eins og fjölmargar aðrar þjóðir, nágrannaþjóðir, gera segir okkur einungis það að við munum vera verr undir það búin að mæta öðrum þjóðum á alþjóðavettvangi.

Við þekkjum það reyndar, Íslendingar, af því búum við ágætis lífskjör að mörgu leyti, með hverju við höldum uppi þessum lífskjörum. Það gerum við fyrst og fremst með einu --- með því að vinna yfir 30% lengri vinnudag en nágrannaþjóðirnar. Þannig getum við haldið okkur uppi hvað viðvíkur lífskjörum. En það er ekki svo með menntamál. Ef við leggjum ekki áherslu á menntamál og grunnmenntun alveg frá grunnskóla og upp í háskóla getum við ekki bætt okkur það upp. Við getum ekki bætt okkur upp menntunarleysi með aukinni vinnu eða auknum fiskafla. Þetta er miklu alvarlegra mál en svo. Ef menntamál eru látin drabbast niður vegna sparnaðar, eins og það heitir hjá hæstv. ríkisstjórn, þá tekur ótrúlega langan tíma að byggja upp menntunarstig þjóða aftur. Þetta vita allir sem þekkja til mála og hafa kynnt sér þessi mál, að það er allt annað að dragast aftur úr í menntamálum heldur en í nokkrum öðrum málaflokki sem er studdur eða unninn af opinberri hálfu.

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum kosið að gera menntamál að umtalsefni varðandi þessa ríkisstjórn, bæði í sambandi við þetta bandormsfrv. og einnig í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Við höfum verulegar áhyggjur af því að með þessari ríkisstjórnarstefnu sem endurspeglast í hverju frv. á fætur öðru, þá séum við ekki að gera neitt annað en að rýra lífskjör þegar fram líða stundir. Við erum ósammála þessari stjórnarstefnu. Við erum hrædd við þessa stjórnarstefnu. Við ætlum að reyna allt sem við getum til að berjast gegn þessari stjórnarstefnu.

Ég hef farið yfir þá þætti sem snúa að menntmrn. en ekki batnar lesningin þegar komið er lengra fram í frv. Þar er sérstaklega tekið á og skert framlög til fatlaðra. Það var þá málaflokkurinn, herra forseti. Það er sennilega það fólk sem hefur mesta möguleika á að leggja eitthvað til ríkisfjármála, sennilega sá hópur manna sem getur nú greitt best úr ríkissjóðsvandræðum núv. hæstv. ríkisstjórnar. Í frv. eru framlög til málefna fatlaðra skert, þ.e. til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin nái af sjóðnum 268 milljónir og er nú reitt hátt til höggs gagnvart þeim einstaklingum sem hvað erfiðast eiga með að bera hönd fyrir höfuð sér. Okkur í minni hlutanum finnst ekki stórmannlega að farið hér og hefði verið nær að hlífa þessum málaflokki við skerðingaráformum ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast í frv. Þar er haldið áfram uppteknum hætti. Það var að hluta til gert í fyrra einnig, að það er skertur markaður tekjustofn í mjög mikilvægum málaflokki. Ekki má gleyma því að það var ekki að ástæðulausu þegar menn stofnuðu Framkvæmdasjóð fatlaðra og mörkuðu honum ákveðinn tekjustofn. Það var ekki að ástæðulausu að menn kusu þennan farveg. Menn vissu að hér var brýnt að fjármagna úrbætur á sviði sem er mjög erfitt aðkomu og felur í sér fyrir þá einstaklinga, bæði fjölskyldur og fatlaða, mjög þungbæra hluti sem samfélaginu ber skylda framar öðru að hlúa vel að. Það er einfaldlega skylda okkar gagnvart meðborgurum að gera eins vel og við getum gagnvart því fólki sem á við fötlun að etja, sama hvers eðlis hún er, og ekki hvað síst að taka tillit til fjölskyldna slíkra einstaklinga. Þetta er mjög brýnt.

Þetta er e.t.v. eitt af því sem skilur á milli hvort fólk aðhyllist jafnaðarstefnu eða þá hægri frjálshyggju, afturhaldsstefnu, sem þessi ríkisstjórn einkennist svo mikið af. Þar kemur e.t.v. lífsskoðun vel í ljós þegar menn taka til við að þrengja að þessum málaflokkum. Við lítum svo á í stjórnarandstöðunni að hér sé um ranga stefnu að ræða. Hv. félmn. fékk þetta mál til umfjöllunar og þar klofnaði nefndin því meiri hlutinn gerði satt best að segja ekkert annað í þessu nefndarstarfi en meira og minna skrifa upp á frv. eins og það leit út en minni hlutinn lagði nokkuð meiri vinnu í málið. Mig langar að vitna aðeins til umsagnar minni hluta félmn. en þann minni hluta skipa Kristín Ástgeirsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Þar segir svo einmitt um þetta mál sem ég er hér að gera að umtalsefni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Minni hlutinn er andvígur 9. gr. frv. sem felur í sér að erfðafjárskattur umfram 165 milljónir renni til ríkissjóðs. Þegar lögfest var heimild Framkvæmdasjóðs til að veita framlag til nýrra viðfangsefna á rekstrarsviði, svo sem til liðveislu og til stuðningsfjölskyldna fatlaðra, var það gert með þeim formerkjum að erfðafjárskattur rynni óskiptur til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þarna var um mjög mikilvæg stuðningsúrræði að ræða, til þess fallin að minnka þörf fyrir stofnanir eins og verndaða vinnustaði og skammtímavistanir. Reiknað var með að þegar rekstrarverkefnum yrði létt af sjóðnum (væntanlega þegar mestu efnahagsþrengingarnar væru að baki) mundu sjóðsframlög renna óskipt til uppbyggingar að nýju. Minni hlutinn varar við að þegar umræddum rekstrarliðum er létt af sjóðnum skuli fjárframlög jafnframt skorin niður og bendir á að þrátt fyrir mikla þörf fyrir uppbyggingu, svo sem sambýli, eiga 255 millj. kr. að renna í ríkissjóð.``

Hér er mjög skýrt að orði komist, herra forseti, og það er augsýnilegt af þessari tilvitnun í nál. minni hluta hv. félmn. að þessi útfærsla eins og frv. gerir ráð fyrir er satt best að segja fyrir neðan allar hellur.

Herra forseti. Nú er mér ekki alveg kunnugt um dagskrá en mig minnir að gert væri ráð fyrir að gert yrði fundarhlé.

(Forseti (GÁS): Það er miðað við að ljúka þessum fundi eftir 5 til 10 mínútur. Efh.- og viðskn. áformar að halda fund í kvöld þannig að það er vandséð hvernig hægt verður að halda áfram umræðum um þetta mál. Eftir u.þ.b. 5 til 10 mínútur verður þessum fundi slitið á heppilegum stað í ræðu hv. þm.)

Ég þakka fyrir, herra forseti, og mun ég þá reyna að taka tillit til þess skipulags sem forseti hefur ákveðið á fundinum. Mér líst þunglega á það, miðað við framgang í ræðu minni, að ég ljúki henni á þeim tíma sem eftir er, en það gefst þá tækifæri til þess að koma aftur að málinu þótt svo að ræðu yrði frestað.

[18:00]

Í þessum samdrætti sem er látinn bitna á Framkvæmdasjóði fatlaðra er ekki einungis sá málaflokkur sem snýr að fötluðum heldur einnig varðandi byggingu sambýla fyrir geðfatlaða. Það er alveg sérstaklega skorið niður hjá þeim og kemur þetta enn og aftur. Ég á erfitt með að skilja hugsunarhátt hæstv. ríkisstjórnar. Maður getur sagt að stundum gera menn eitthvað í athugunarleysi en því er ekki að heilsa í þessu tilviki vegna þess að á þetta var bent mjög ítarlega við 1. umr. þessa máls. Mig langar, herra forseti, að vitna aftur í álit minni hluta félmn. en þar kemur einmitt mjög skýrt fram hvernig er komið fram gagnvart geðfötluðum. Það segir í álitinu, með leyfi hæstv. forseta:

,,Minni hlutinn bendir jafnframt á að skv. 39. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, er fimm ára átak í gangi varðandi byggingu sambýla fyrir geðfatlaða. Engar upplýsingar er að finna um fimmtu og síðustu greiðslu til þessarar uppbyggingar fyrir geðfatlaða sem Alþingi ákvað fyrir fimm árum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 var sérstaklega tilgreind 20 millj. kr. fjárveiting úr ríkissjóði og að hún væri sú fjórða af fimm.``

Herra forseti. Hér er mjög skýrt lýst hvernig atburðarásin átti að vera gagnvart geðfötluðum. Það var fimm ára áætlun sem átti að vinna eftir og ég skil það svo að hér hafi verið um að ræða lögbundin ákvæði sem með þessu frv. eru einfaldlega brotin. Og nú, herra forseti, er ég í nokkrum vandræðum vegna þess að ég vildi mjög gjarnan spyrja einhvern af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar um ástæðu fyrir því að hafa lagt til í fyrra 20 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði og tekið sérstaklega fram að það væri sú fjórða af fimm greiðslum, ég óska eftir að fá að vita og fá skýringar, herra forseti, frá fjmrh. eða einhverjum forsvarsmanni þessarar ríkisstjórnar hvernig stendur á þessu.

(Forseti (GÁS): Nú er úr vöndu að ráða því enginn þeirra er í húsi. Eins og forseti gat um áður er hugmyndin að ljúka þessum fundi núna á hverri stundu. Ef til vill er þetta heppilegur tími til að gera hlé á ræðu hv. þm.)

Herra forseti. Ég þakka upplýsingarnar. Ég hélt að stjórnarflokkarnir mundu sjá til þess að einhver væri á vaktinni þegar verið væri að ræða eitt mikilverðasta mál ríkisstjórnarinnar. Ég er hins vegar svo vanur því að sjá fáa stjórnarliða, hvað þá ráðherra, í þingsölum að ég kippti mér ekki upp við það, bjóst hins vegar við að menn hlustuðu með gaumgæfni í hliðarsölum og væru reiðubúnir að grípa inn í. Nú upplýsir hæstv. forseti að svo sé ekki. Ég er með spurningar til fjmrh. eða forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar varðandi þennan málaflokk, hvort sem það er fjmrh., heilbrrh. eða félmrh., sem verða að svara því að það þarf að skýra hvort hér sé hreinlega um lögbrot að ræða á þeirri samþykkt. Ég veit það ekki. Sérlög eru látin taka af önnur lög en ég vil alla vega fá skýringar á þessari vöntun á fimmtu greiðslunni. Úr því að ég fæ ekki svar við þessu, herra forseti, því enginn er viðstaddur til að svara, fer ég þess á leit við forseta hvort við getum þá ekki gert hlé á þessari umræðu og tekið hana upp aftur þegar hér er einhver forvígismaður til að svara spurningum sem upp kunna að koma í umræðunni.

(Forseti (GÁS):Forseti tekur undir það og finnst þetta vera prýðilegur tími til þess að gera hlé á ræðu hv. þm. Ég sé að hv. þm. tekur þeim tilmælum forseta.)

Já, ég þakka forseta.