Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 22:24:25 (2344)

1996-12-17 22:24:25# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[22:24]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir orð félaga minna í þingflokksformannaklúbbnum. Það vill nú svo til að sú sem hér stendur er í hv. fjárln. og þar hafa fundir staðið með hléum í allan dag og berast nú fréttir þangað inn svona eins og á kosninganótt, nýjar og nýjar tölur svo að það er nóg að hugsa. Ég hélt hálfpartinn að ég hefði misst af fundi þingflokksformanna og forseta en hann hlyti í raun að hafa verið haldinn í dag en ég heyri það á því sem hér kemur fram að enginn fundur hefur verið haldinn og samkomulagið sem virðulegur forseti nefndi hér áðan að hann mundi leita að er víst hvergi svo að hann mun ekki finna það. En ég hlýt að taka undir það og treysta hæstv. forseta til þess að reyna að komast að samkomulagi um þinghaldið.

Ég velti því fyrir mér hvort við förum ekki að nálgast brot á vinnulöggjöfinni ef halda á áfram hérna lengi enn. Mér er kunnugt um það að a.m.k. allmargir þingmenn eiga að mæta til fundar eldsnemma í fyrramálið í nefndum þannig að mér finnst mest áríðandi núna að það verði komist að einhverri niðurstöðu og samkomulagi um þinghaldið. Öðruvísi getur þetta ekki gengið og ég held að það verði ekki til þess að bæta vinnubrögðin ef það á að halda áfram eins og hér virðist hafa verið gert.