Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:39:06 (2451)

1996-12-19 12:39:06# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:39]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í því frv. sem hér er til 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er ekki um að ræða miklar breytingar frá 1. umr. Þó eru þær nokkrar og satt að segja ekki allar til bóta. Ég ætla að fara yfir nokkrar greinar sem varða þær nefndir sem ég sit í á Alþingi.

Í 1. gr. frv. er um að ræða svokallað ,,þrátt-fyrir``-ákvæði, þar sem lagt er til að tekjur sem áttu að renna til Þjóðarbókhlöðu og endurbóta menningarbygginga verði skertar og það þó að mjög brýn verkefni blasi við. Það hefði svo sannarlega verið full þörf fyrir þær 150 millj. kr. sem hér er lagt til að á næsta ári renni í ríkissjóð af áður mörkuðum tekjustofni til þessara verkefna því að margar af okkar menningarbyggingum þarfnast mjög viðhalds sem hefur verið látið dragast úr hömlu. Þessar sparnaðaraðgerðir hefðu kannski verið skiljanlegri væri ríkissjóður í miklum fjárhagsvanda. En þar sem hér er verið að samþykkja fjárlög með miklum tekjuafgangi, sumir segja með jafnvel enn meiri en gert er ráð fyrir í frv., þá fæ ég ekki séð hvaða brýna nauðsyn ber til að klípa af þessum lið og gagnrýni harðlega þá stefnu sem þarna kemur fram af hálfu ríkisstjórnar í varðveislu menningarmannvirkja. Ætlum við að láta það litla sem hefur náðst að byggja upp á undanförnum áratugum grotna niður? Það virðist því miður allt benda til þess.

Í 2. gr. frv. er enn gert ráð fyrir að lagður verði á svonefndur fallskattur en útfærslan hefur svolítið breyst. Nú er gert ráð fyrir að greiða eigi 500 kr. fyrir hverja einingu sem áfangi sá er nemandi fellur í eða hættir í fyrir próf er virtur á og er þessi leið sennilega aðeins auðveldari í útfærslu en sú sem áður var rætt um. Það breytir þó ekki eðli málsins. Þetta er framúrskarandi óréttlát skattlagning. Það er mikil niðurlæging og persónulegt áfall sem nemendur upplifa þegar þeir falla eða gefast upp í námi, oft á tíðum af ástæðum sem þeim eru ekki sjálfráðar og þetta er því miður salt í sárin, herra forseti. Þetta hlýtur að koma verst við þá sem erfiðast eiga fyrir.

Í þeim reglugerðarheimildum til hæstv. ráðherra, sem lagðar eru til í greininni, er gert ráð fyrir að hann útfæri nánar framkvæmd þessara laga og verður maður þá að vona að sett verði hámark á hvað hver nemandi má greiða. Hæstv. ráðherrann er svo sannarlega ekki öfundsverður af þeirri reglugerðarvinnu því að hún verður bæði flókin og erfið og mun hvað rekast þar á annars horn því að ofan í allt annað er um að ræða ólíkar gerðir framhaldsskóla.

Þau uppeldismarkmið sem komið hefur fram að eigi að ná eru vægast sagt hæpin. Ef vinna á á móti brottfalli nemenda úr framhaldsskólum verður að gera það með aukinni sérkennslu og námsráðgjöf en ekki með því að taka upp ógnarstjórn af neinu tagi. Ég hef satt að segja oft undrast hverjum datt þessi fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð í hug. Ég hef rætt þessi mál við fjölda skólamanna undanfarið og ekki einn einasti hefur mælt þessu bót í mín eyru. Þó verð ég að taka það fram að þetta á stuðning meiri hluta hv. menntmn.

Ekki tekur betra við þar sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. mælir með því að ákvæði laga um að nemendur megi aldrei borga meira en 1/3 af efnisgjaldi í framhaldsskóla falli brott. Í staðinn eru tekin upp ákvæði um að nemendur sem njóta verklegrar kennslu eigi að greiða efnisgjald, þó að hámarki 12.500 kr. á önn, þ.e. um 25 þús. kr. á ári. Og er nú eins gott að sjálfur reglugerðarmeistarinn, hæstv. ráðherrann, kveði á um það í reglugerð að leggja verði fram reikninga fyrir sannanlegum efniskostnaði áður en gjaldið er innheimt, en þetta verði ekki eins konar skattur sem lagður er á alla nemendur í verknámi án tillits til þess hver efniskostnaður raunverulega er fyrir hvern og einn.

Einnig verð ég að lýsa efasemdum mínum við réttmæti 25% álags á þá nemendur sem innrita sig utan auglýsts innritunartíma. Fyrir slíku geta verið eðlilegar ástæður, svo sem að nemandinn hafi ekki getað fengið skólavist í þeirri stofnun sem hann innritaði sig fyrst í og hefur slíkt verið nokkuð algengt. Ég tel að það eigi af hálfu þjóðfélagsins að gera allt sem unnt er til að laða nemendur á framhaldsskólastigi að skólanámi en ekki leggja á þá aukagjöld ef þeir innrita sig utan auglýsts tíma. Í staðinn mætti hugsa sér að námsráðgjafi ræddi sérstaklega við þá nemendur sem þannig stæði á fyrir og gengi úr skugga um að þeir ætluðu sér raunverulega að stunda nám af tilhlýðilegri alvöru og uppörvaði þá í leiðinni því sjálfsmyndin er stundum svolítið skekkt eftir að búið er kannski að neita þeim um skólavist í þeim skóla sem þau alltaf höfðu ætlað sér í. Það er nefnilega þannig að natni og umhyggja kennara og skólayfirvalda hafa sitt að segja til að vinna gegn námsleiða sem allt of margt ungt fólk þjáist af, oft um stundarsakir, og skiptir miklu máli að tekið sé rétt á þeim málum, þeir ekki flengdir með vendi eins og sumir virðast álíta heppilegast heldur með viðtölum og uppörvun.

[12:45]

Í 9. gr. frv. er lagt til að lögbundið framlag til málefna fatlaðra verði skert með því að sett er þak á það fjármagn sem á að renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra við 165 millj. og þar með er áætlað að 265 millj. af erfðafjárskatti renni til ríkissjóðs, en samkvæmt lögum á það fé að renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Félmrh. hefur hér í umræðunni skýrt að nokkru leyti brottfall 20 millj. kr. sérmerkts framlags til sambýla fyrir geðfatlaða af fjárlögum. Hann segir 20 millj. hafa komið úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til þessa verkefnis svo að framlagið sé í raun orðið 100 millj. eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Hann segist þó sjálfur ætla að sjá til þess að þessar 20 millj. komi inn í fjárlög á árinu 1998 og er það vel. En betur má ef duga skal. Þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur, þar sem mikið vantar upp á að nóg hafi verið aðhafst. Veldur það sérstökum áhyggjum núna þegar áætlað er að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Þá hefur þessum málaflokki verið afar lítið sinnt og þarf að gera þar stórátak, því að öllum þeim sem eitthvað hafa kynnt sér málefni geðfatlaðra og aðstandenda þeirra sem skildir eru eftir með ofurmannlegar byrðar er ljóst að við svo búið má ekki standa.

Það er meðal sérkennilegra nýjunga í þessu frv. að það er lagt til að Atvinnuleysistryggingasjóður fari að greiða fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu, en áður var veitt til þess fjármagn á fjárlögum. Ég hélt fyrst að þetta ákvæði væri komið inn fyrir misskilning. Einhverjir þeir sem sömdu frv. hefðu ekki vitað um hlutverk þessa merka sjóðs, sem hefur verið að styrkja námskeið fyrir fólk í atvinnulífinu en þau hafa notið mikilla vinsælda. En þetta hefur því miður ekki verið sá misskilningur sem ég hélt því að þrátt fyrir mótmæli aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal Vinnuveitendasambandsins, er þetta ákvæði enn inni. Þetta er grafalvarlegt mál því að með þessu er einnig lokað á leið til að styrkja atvinnuþátttöku kvenna sem gert var með sérstökum sjóði úr félmrn.

Þá er ekki hægt að segja að þessi bandormur sem hér liggur fyrir lýsi sérstökum áhyggjum hjá stjórnarliðum vegna afkomu þeirra sem verða að sæta því hlutskipti að ganga um atvinnulausir. Hér er nefnilega gert ráð fyrir því að þegar hæstv. ríkisstjórn hefur gert ráð fyrir launahækkunum upp á 3,5% hækki atvinnuleysisbætur um 2%. Það er stórmannlegt nú í góðærinu að koma með tillögu í bandormi í þessum dúr, sérstaklega þar sem önnur frumvörp um vinnumarkaðsmál og atvinnuleysisbætur liggja fyrir hinu háa Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir að setja þetta fólk í eins konar stjórnargrjót að hætti þeirra Sviðinsvíkinga forðum, að viðlögðum að sjálfsögðu bótamissi ef ekki verða þegin slík tilboð. Það væri nær að hér í þessu frv. væri ákveðið í eitt skipti fyrir öll að bætur eins og atvinnuleysisbætur, örorku- og ellilífeyrir, væru tekjutengdar þannig að ekki þyrfti að vera að slumpa á einhverjar lágmarksfjárhæðir til hækkunar slíkra bóta við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Slíkt getur ekki leitt til annars en að bætur til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu lækki hlutfallslega eftir því sem lengra líður. Það er pólitík sem okkur er ekki sæmandi í okkar vel stæða þjóðfélagi.