Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 13:54:03 (2459)

1996-12-19 13:54:03# 121. lþ. 50.6 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv. 149/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Meginbreytingin á þessu frv. til laga um breytingu á virðisaukaskattslögunum tengist þeirri heimskulegu og ranglátu ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar frá síðasta ári að fella niður eða stórlækka endurgreiðslu til húsbyggjenda eða þeirra sem eru að endurbæta húsnæði sitt vegna vinnu á byggingarstað úr 100% í 60%. Þessi óskynsamlega ráðstöfun er mjög íþyngjandi fyrir þá sem þannig stendur á hjá að þeir eru að leggja í kostnað af þessum sökum. En hún er líka heimskuleg frá skattalegu sjónarmiði séð þar sem enginn vafi er á því að hún stóreykur hættuna á undanskotum og svartri atvinnustarfsemi.

Það er sérstaklega umhugsunarvert nú þegar fyrir liggja nýjar upplýsingar um að tekjur ríkisins af virðisaukaskatti hafa af einhverjum ástæðum mitt í góðærinu farið lækkandi nú síðustu mánuðina, að menn skuli þá eftir sem áður ætla að halda til streitu jafnóskynsamlegri ráðstöfun og þessi er. Við erum algerlega andvíg þessari breytingu, herra forseti, og greiðum atkvæði gegn henni í stjórnarandstöðunni.