1996-12-20 03:15:50# 121. lþ. 52.8 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv. 161/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:15]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að það er ekki svo að í lögum sé ákveðið að fámennari sveitarfélög verði að gera þetta eða hitt. Ef þeim er ætlað að leysa verkefni af hendi þá er þeim einfaldlega ætlað það og þau vinna síðan úr því. Það getur nefnilega gerst að þau geri það ekki. Það hefur t.d. gerst í Finnlandi þar sem sveitarfélögum var falið að taka að sér grunnskólann. Það hefur komið í ljós að nokkuð stór hluti þeirra hefur ekki gert það sem þeim bar að gera og þá eru málin vanrækt. Það sama óttast ég að muni gerast í þessu máli þegar of þungar byrðar eru lagðar á menn, þeir munu þá ekki geta sinnt þeim.

Við getum ekki gert ráð fyrir því að menn finni alltaf næstbestu lausnina ef þeir geta ekki sjálfir unnið úr því og vísa þar til hinnar finnsku reynslu varðandi flutning grunnskóla.

Ég vil árétta það við hæstv. félmrh. að aðalatriði málsins er að huga að því að málefni hins fatlaða sé sem best fyrir komið. Það er aðalatriðið, hitt er aukaatriði hvort það heitir ríki, sveitarfélag eða eitthvað annað sem vinnur verkefnið sem því er falið samkvæmt lögunum.