1996-12-20 03:24:26# 121. lþ. 52.9 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður einyrkja# frv., GL
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:24]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Það er nýlega búið að samþykkja hækkun á tryggingagjaldi hjá bændum og sjómönnum. Ein meginrökin fyrir því að þessi hækkun var samþykkt voru þau að á leiðinni væri frv. til laga um Tryggingasjóð einyrkja sem ætti að taka á því réttindaleysi sem þessar starfsstéttir hafa búið við þrátt fyrir að hafa greitt tryggingagjad undangengin fimm ár. Og ég hygg að mjög margir hv. þm. hafi greitt hækkun tryggingagjalds atkvæði vegna þess að þeir töldu að með frv. til laga um Tryggingasjóð einyrkja væri réttarstaða þessara hópa tryggð.

Nú hefur frv. hæstv. félmrh. litið dagsins ljós. Við fyrstu sýn og yfirferð á því frv. sýnist mér að því miður séu réttindi þessara hópa á engan hátt tryggð. Í 5. gr. frv. segir, að sjóðfélagi skuli samkvæmt lögum þessum teljast atvinnulaus ef hann hættir rekstri í fyrsta lagi eða hafi ekki tekjur eða tekjuígildi af rekstri og hafi ekki hafið störf sem launþegi. Og í skýringu með 5. gr. frv. er einmitt kveðið á um að þetta sé það meginatriði sem hefur reyndar verið meginatriðið í núgildandi lögum. Þar segir, herra forseti, að það sé ekki gert ráð fyrir grundvallarbreytingum frá gildandi reglum, sbr. reglugerð nr. 304/1994 og viðmiðunarreglum 628/1994. Í þessum reglugerðum og viðmiðunarreglum er einmitt kveðið á um það sem segir í 5. gr. frv., þ.e. að rekstraraðili verður að leggja inn virðisaukaskattsnúmer og hætta rekstri til þess að fá greitt úr sjóðnum.

Nú er það svo að ég efast ekki um að það hafi vakað fyrir hæstv. félmrh. að tryggja réttindi þessara hópa. Og ég efast ekki um að hæstv. félmrh. hafi mælt svo fyrir við þá sem sömdu þetta frv. að sú skyldi vera niðurstaðan. En, herra forseti, ég sé ekki að með þessu frv. komist hugsun hæstv. félmrh. til skila. Á engan hátt eru réttindi bænda tryggð sem var þó tilgangurinn með flutningi þessa frv. og áfram sitja bændur í svipaðri stöðu nema að því leytinu til að þeir greiða nú mun hærra tryggingagjald heldur en þeir hafa áður greitt, án þess þó að fá réttindi miðað við það, samkvæmt því sem fram kemur í þessu frv.