1996-12-20 04:21:45# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[28:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að byrja á því að þakka nefndinni fyrir samstarfið sem ég hefði nú átt að gera í upphafsorðum mínum. Við skildum kannski ekki nægjanlega sátt en samstarfið var samt allan tímann gott og fyrir það ber að þakka.

Mig langar aðeins til þess að svara örlitlu sem hér kom fram en get nú kannski gert síðar í ræðu. En það er rétt, og það hefði mátt misskilja mig þegar ég fór að vitna í það hverjir hefðu samið eða væru hugmyndamenn að þessu frv. og nefndi þá alla, að það er rétt að taka fram að Bergur Jónsson var sá eini sem skilaði þar séráliti, annars voru menn sammála. Þetta er því ekki, eins og mér fannst koma fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, fyrst og fremst hugverk ráðuneytismanna. Það er ekki svo. Mér finnst líka rétt að taka skýrt fram að nánast allar umsagnir sem við höfum fengið --- þessi bunki hér, það er dálítið merkilegt að ef við lesum bunkann og lesum umsagnirnar þá lúta þær nánast allar að núverandi kerfi, að því kerfi sem við búum við nú og erum að leggja af. Það er nánast hvergi vikið að því frv. sem við erum hér að fjalla um og þeim tillögum, nánast ekki í einni einustu umsögn þó að grannt sé lesið. Menn eru að lýsa óánægju sinni með það kerfi sem við búum við í dag.

Það kom líka fram hjá hv. þm. um faggildingarstofurnar að þær yrðu bara í Reykjavík og miklir fólksflutningar ættu að verða af landsbyggðinni vegna þess. Þetta er að sjálfsögðu rangt vegna þess m.a. eins og ég gerði grein fyrir í máli mínu að þessar stofur geta verið hvar sem er. Ég vil líka undirstrika það sem ég sagði einnig að það er vissulega (Forseti hringir.) stefnt að möguleikum til þess að hefja útboð sem allir munu þá standa jafnir frammi fyrir og geta sótt til verka hvar sem er á landinu.