1996-12-20 07:17:16# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur og ástæðulaust að snúa þannig út úr orðum manna að í okkar áhyggjum í þessu sambandi felist vanmat á hæfni iðnaðarmanna á landsbyggðinni. Það er ekki svo. Þvert á móti er það m.a. vegna þess að við tökum mark á orðum þeirra sem maður hefur þessar áhyggjur. Það eru þeir sjálfir og samtök þeirra á landsbyggðinni sem hafa þessar áhyggjur. Fagmenn á þessu sviði óttast að kröfurnar sem verða gerðar, faggildingarkröfurnar og aðstæðurnar í þessari starfsemi þegar út í einkavæðinguna verður komið, verði slíkar að starfsemin verði fyrst og fremst gerð út af höfuðborgarsvæðinu. Við erum að glíma við þennan draug á fjölmörgum sviðum, herra forseti. Við höfum áhyggjur af því t.d. að einkavæðing Pósts og síma leiði til þess að hlutir sem áður var hægt að tryggja í gegnum félagslega uppbyggða og sameiginlega þjónustu fyrir landið allt, að þar fari að hallast á. Við vitum alveg hverjir eiga þá undir högg að sækja. Hverjir lenda í varnarstellingum þannig að þetta snýst ekki um það að það ágæta fólk sem er að sinna störfum, hvort heldur er á þessu sviði eða annars staðar úti um hinar dreifðu byggðir, sé eitthvað verra af guði gert eða að við séum að vanmeta hæfni og ágæti þess þó að við höfum áhyggjur af að aðstæðurnar sem menn eru að glíma við kunni að fela það í sér að þarna sé ástæða til að hafa áhyggjur. Ég bið hv. þm. að taka þetta hvorki persónulega til sín né heldur þannig að við séum með þessu að gera lítið úr þeim mönnum sem hafa sinnt slíkum störfum úti um landið eða eru í þessum faggreinum, því svo er ekki. Hér er verið að vísa til þeirra aðstæðna sem kunna að koma upp og sporin hræða, því miður.