Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 12:00:29 (2617)

1996-12-20 12:00:29# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[12:00]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mikilvægum áfanga er nú náð þegar 3. umr. um fjárlög rennur upp. Ég segi áfanga vegna þess að hér er ekki um neina endanlega niðurstöðu að ræða eins og við þekkjum. Það eiga eftir að koma fjáraukalög og ýmis ný atriði sem munu breyta þessu dæmi auk þess sem ég er þeirrar skoðunar að hér sé rangt reiknað. Ég vil hins vegar endurtaka þakkir til meðnefndarmanna minna sem ég flutti við 2. umr., bæði til þeirra í minni hlutanum og meiri hlutanum, og ekki síður til allra þeirra sem komu hér að verki og aðstoðuðu á margan hátt við þessa miklu vinnu. Samkvæmt venju hafa ýmsar ákvarðanir verið teknar á milli 2. og 3. umr. sem breyta heildardæminu verulega. Er nú svo komið að helsta skrautfjöður frv. í upphafi máls, þ.e. afgangur að upphæð rúmlega 1 milljarður kr. er nú uppurinn að mestu. Að vísu hefur minni hlutinn sitthvað við þessa niðurstöðu að athuga og telur hana í rauninni ómark. Tekjur ríkissjóðs á næsta ári eru verulega vanáætlaðar. Því hef ég haldið fram alveg frá því að frv. kom fram á haustdögum og þetta rökstyðjum við fulltrúar minni hlutans í frhnál. okkar sem hv. síðasti ræðumaður lauk við að mæla fyrir rétt áðan. Við það verk nutum við aðstoðar sérfræðinga þannig að ég er sannfærð um að okkar niðurstaða er réttari en sú sem hér er gefin. Það eru fyrst og fremst veltuskattarnir, m.a. innflutnings- og vörugjöld og virðisaukaskattur, sem hljóta að skila meiri tekjum en niðurstaða meiri hlutans er miðað við þær forsendur sem frv. byggir á.

Það er nú orðið ljóst að þjóðhagsforsendur fjárlaga ársins í ár reyndust fjarri lagi. Fjárfestingin var miklu meiri en reiknað var með og einkaneyslan mun meiri. Þetta breytti fjárlagadæminu umtalsvert eins og ljóst var við afgreiðslu fjáraukalaga og allt bendir til að hið sama verði upp á teningnum á næsta ári. Ég sé engin rök fyrir því að reikna með svo miklu minni fjárfestingu eins og forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir og ég sé ekki heldur efni til þess að svo miklu minni aukning verði á einkaneyslunni eins og gert er ráð fyrir.

Forsendur fjárlagafrv. og niðurstöðutölur þess eru hrein og klár pólitík sem eiga lítið skylt við raunveruleikann. Fjárfestingar og önnur umsvif verða meiri en gert er ráð fyrir. Veltan verður meiri, tekjurnar verða meiri og útgjöldin verða vafalaust einnig meiri þegar upp er staðið. Þetta er allt rakið í nefndaráliti minni hlutans og m.a. bent á að enn muni vanta a.m.k. 1--1,2 milljarða upp á tekjuhlið fjárlaga. Ég hef rætt þetta mál við ýmsa sem eru sama sinnis og reyndar menn sem telja að þessi niðurstaða verði e.t.v. þannig að tekjuaukinn verði mun meiri heldur en hér er gert ráð fyrir og sem við höfum lagt áherslu á og niðurstaðan verði miklu meiri afgangur. Því ber vitaskuld að fagna, en það er mjög sérkennilegt að leggja þessar forsendur til grundvallar á þann hátt sem hér er gert.

Meiri hlutinn hefur lagt mikla áherslu á nauðsyn aðhalds í framkvæmdum hins opinbera til þess að vega á móti þensluáhrifum vegna verksmiðjubyggingar á Grundartanga og orkumannvirki þeim tengd. Þetta gerir meiri hlutinn þrátt fyrir að taka ekki tillit til þess við útreikninga á tekjuspá og verður það að teljast sérkennilegt í meira lagi. Meiri hlutinn fylgir þessu eftir með áformum um verulegan niðurskurð á framkvæmdum á suðvesturhorni landsins í vegagerð og við Reykjavíkurflugvöll. Þessi mál munu skýrast við afgreiðslu vegáætlunar og flugmálaáætlunar í febrúar/mars á næsta ári en þegar er vitað hvaða framkvæmdir liggja undir hnífnum. Þær eru fyrst og fremst í Reykjaneskjördæmi og Reykjavík. Það eru m.a. framkvæmdir í Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku og endurbygging Reykjavíkurflugvallar. Allt saman framkvæmdir sem eru bráðnauðsynlegar út frá öryggissjónarmiði og vegna sívaxandi umferðar og í rauninni ábyrgðarleysi að ráðast ekki í þær þegar í stað. Þetta er niðurstaða meiri hlutans, en í raun og veru er þetta allt slíkum vafa undirorpið að eðlilegast væri að fresta afgreiðslu fjárlaga fram í mars, en afgreiða þess í stað greiðsluheimildir til fjmrh. miðað við óbreytt ástand í efnahags- og ríkisfjármálum.

Talsmenn meiri hlutans hafa talað mjög til sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins og hvatt þau til niðurskurðar í framkvæmdum til þess að fylgja því fordæmi sem þeir telja nauðsynlegt af hálfu ríkisvaldsins. Þeir hafa bent spjótum sínum mjög að Reykjavíkurborg. Þeir hafa sakað borgaryfirvöld um ábyrgðarleysi og tillitsleysi við ríkjandi aðstæður og tilgangurinn er augljóslega sá að varpa ábyrgðinni af niðurskurði og frestun framkvæmda af hálfu ríkisins á þessu svæði yfir á borgaryfirvöld í Reykjavík. Allt ber þetta mjög pólitískan svip og er í hæsta máta ósanngjarnt en þessar fullyrðingar hafa verið endurteknar æ ofan í æ þrátt fyrir rökstudd andmæli.

Rétt er að fara hér nokkrum orðum um afstöðu og sjónarmið borgaryfirvalda sem hafa legið undir þessu ámæli og áminningum af hálfu talsmanna meiri hlutans í fjárln. Vil ég í því skyni vitna til bréfs frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra til þingmanna Reykjavíkur, þar sem hún upplýsir þá um stöðu mála. Bréfið er dagsett 16. des. 1996 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Til þingmanna Reykjavíkur.

Efni: Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar fyrir árið 1997.

Að frumkvæði Sturlu Böðvarssonar, varaformanns fjárln. og þingmanns Vesturlands, hafa að undanförnu verið nokkrar umræður í fjölmiðlum um meint áhrif fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar á þenslu og verðbólgu í samfélaginu. Hefur sú skoðun m.a. komið fram að nauðsynlegt sé að Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar dragi úr fyrirhuguðum framkvæmdum á næsta ári. Af þessu tilefni þykir mér rétt að upplýsa þingmenn Reykjavíkur um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 1997 og sendi því hjálagt frv. að fjárhagsáætlun ásamt ræðu minni við framlagningu fjárhagsáætlunar. Að auki fylgja hjálögð minnisblöð frá hafnarstjóra, rafmagnsstjóra og hitaveitustjóra um fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum þeirra á næsta ári. Spádómar Þjóðhagsstofnunar um umtalsverða þenslu á næsta ári kunna að vera á rökum reistir ef verður af fyrirhuguðum álversframkvæmdum á Grundartanga og virkjanaframkvæmdum sem þeim tengjast. Á þessari stundu liggur þó ekki fyrir hvort af verður.

Ef marka má nýleg útboð Reykjavíkurborgar á skólabyggingum í Grafarvogi og holræsaframkvæmdum við Mýrargötu er margumræddrar þenslu ekki enn farið að gæta á útboðsmarkaði í borginni. Komi hið gagnstæða í ljós þegar líða tekur á næsta ár er sjálfgefið að Reykjavíkurborg mun endurskoða framkvæmdaáætlanir sínar, enda mundu tilboð sem eru umfram kostnaðaráætlanir ekki rúmast innan fjárhagsramma borgarinnar. Í fjárhagsáætlun borgarinnar er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum lántökum í fyrsta sinn í fjöldamörg ár og munu borgaryfirvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til að halda sig við þá áætlun.

Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 1997 eru framkvæmdir á vegum borgarsjóðs á næsta ári mjög svipaðar og undanfarin ár. Framkvæmdir við ný íbúðahverfi hafa síðustu ár verið mun minni heldur en var að jafnaði allan síðasta áratug vegna samdráttar í nýbygging íbúðarhúsnæðis. Þannig voru lóðir fyrir 200 íbúðir gerðar byggingarhæfar á síðasta ári, en algengast var á síðasta áratug að byrjað væri á 600--700 íbúðum á ári. Ekki þykir ráðlegt að gera færri en 400--450 lóðir byggingarhæfar á næsta ári þar sem líklegt er talið að eftirspurn muni aukast eftir lægð síðustu ára auk þess sem talið er að lóðir á næsta nýbyggingarsvæði sem eru í Staðarhverfi muni þykja eftirsóknarverðar. Byggingarframkvæmdir verða í heild svipaðar á næsta ári og verið hefur undanfarin ár. Áætlaður kostnaður við byggingarframkvæmdir á verðlagi 1996 var 1.668 millj. kr. árið 1994, 1.845 millj. árið 1995, 1.854 millj. kr. árið 1996 og er áætlaður 1.945 millj. kr. á næsta ári, þ.e. tæpir 2 milljarðar kr. Er því aðeins um 5% aukningu að ræða á árinu 1997. Munar þar mest um 988 millj. kr. til skólabygginga. Gert er ráð fyrir um 170 millj. kr. mótframlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þessa. Flest stærstu verkefnin hafa þegar verið boðin út og lýkur þeim seinni hluta næsta árs, t.d. Engjaskóla sem boðinn var út sl. vor og Grandaskóla og Rimaskóla sem boðnir voru út nýverið. Einungis eitt stórt verkefni verður boðið út árið 1997, þ.e. sundlaug í Grafarvogi en byggingu hennar á að ljúka árið 1998.

Samkvæmt lögum um grunnskóla sem Alþingi samþykkti á þessu ári á einsetning allra grunnskóla á landinu að vera lokið árið 2003. Víða um land er þetta verkefni langt komið eða þegar lokið en því miður háttar ekki þannig til í Reykjavík.

Þá er jafnframt rétt að fram komi að nokkur nágrannasveitarfélög Reykjavíkur eiga enn langt í land en þau munu fyrirhuga að fara mjög hratt í þetta verkefni. Framkvæmdir við einsetningu grunnskóla hófust mjög seint í Reykjavík og vorið 1994 voru aðeins fjórir unglingaskólar í borginni einsetnir. Nokkuð hefur áunnist síðan en enn eru aðeins 15 skólar af 30 einsetnir. Ljóst er að foreldrar skólabarna í Reykjavík sætta sig ekki við að einsetning frestist frekar en orðið er og í viðhorfskönnun meðal borgarbúa sem gerð var nýlega kom það mjög skýrt fram að einsetinn skóli er meðal þess sem borgarbúar telja mikilvægast.

Framkvæmdir við götur og holræsi á næsta ári kosta 1.870 millj. kr. samkvæmt áætluninni. Er það talsvert hærri upphæð en á síðasta ári en langsamlega mest munar þar um að dælu- og hreinsistöð við Mýrargötu, sem verður tekin í notkun næsta haust ásamt 4 km langri útrás. Sú útrás var boðin út nýverið og voru tilboð mjög hagstæð. Stór þáttur í því verki, sem og síðasta áfanga hreinsistöðvarinnar við Mýrargötu, er efni, tæki og búnaður, sem er innflutt, en sá hluti nemur tæplega 50% kostnaðarins. Þensluáhrif slíkra framkvæmda innan lands eru því ekki teljandi.

[12:15]

Malbikunarstöðvar og sérhæfð tæki vegna slitlagsgerðar á suðvesturhorni landsins hafa alls ekki verið fullnýtt undanfarin ár. Þjóðvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, sem eru margar hverjar þjóðhagslega mun arðbærari heldur en flest önnur verkefni, munu því ekki valda spennu og er mjög óheppilegt að fresta þeim. Að öllu samanlögðu verður að segja að allt tal um hættu á spennu vegna framkvæmda\-áforma Reykjavíkurborgar á næsta ári sé algerlega órökstutt. Atvinnuleysi er enn skráð svipað og var á síðasta ári eða um 3.000 manns. Meginþungi framkvæmda er fyrri hluta árs í verkefnum sem þegar hafa verið boðin út og þensluáhrifa gætir alls ekki í tilboðum í gatnagerð og jarðvinnuverkefni.

Að lokum vona ég að það sem hér hefur verið sagt verði til að varpa nokkru ljós á það hvers eðlis fyrirhugaðar framkvæmdir borgarinnar eru og að þingmenn geri sér grein fyrir því að á þessari stundu þarf mjög veigamikil rök til að réttlæta niðurskurð á arðbærum og löngu tímabærum framkvæmdum.``

Undir þetta ritar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík.

Þannig hljóðar þetta bréf og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér þykja talsmenn meiri hlutans hafa farið fram með nokkurri ósanngirni í þessu máli öllu. Það er auðvitað ríkisvaldið sem ber ábyrgð á því ástandi sem hér er verið að leggja til grundvallar. Það er stefna ríkisvaldsins sem skapar þann vanda og það misvægi í þenslu sem hefur verið að skapast og menn telja sig sjá fyrir. Ríkisvaldið hefur fylgt og fylgir rangri stefnu að mínu mati. Það er altaf umdeilt hversu mjög ríkisvaldið eða stjórnvöld yfirleitt eiga að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins. Raunar er því nokkuð almennt haldið fram að ríkisvald á hverjum tíma eigi fyrst og fremst að stuðla að almennum aðstæðum til hagsældar en ekki að taka frumkvæði né styðja eina atvinnugrein umfram aðra. Stjórnvöld eigi að skapa skilyrði með upplýsingaöflun og ráðgjöf, markaðsleit og aðstoð við fjármögnun, þau eigi að efla og styðja rannsóknir, þróunar- og markaðsstarf en ekki að taka frumkvæði í atvinnuuppbyggingu. Því fer auðvitað víðs fjarri að sú hafi verið raunin. Atvinnugreinum er og hefur verið mismunað og stjórnvöld hafa árum saman tekið sterkt frumkvæði. Þau hafa í áraraðir lagt höfuðáherslu á uppbyggingu stóriðju, fyrst og fremst mengandi stóriðju, álframleiðslu, járnblendi og fleira í þeim dúr. Árangurinn af allri fyrirhöfn þeirra er umdeilanlegur, en aðalatriðið er að þessi stefna er að mínu viti röng. Áherslan er röng. Það er ekki á þessu sviði sem framtíðarmöguleikar okkar í atvinnumálum liggja. Þeir eru fólgnir í umhverfi okkar og sérstæðri náttúru, sem er ekki aðeins gimsteinn sem við getum notið okkur til ánægju og fróðleiks, heldur er lykillinn að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar. Möguleikarnir liggja ekki aðeins í hugviti og þekkingu sem er mjög mikilvægt atriði, heldur einnig í ímynd lands okkar og náttúru og þar vil ég leggja áherslu á möguleika okkar í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu, svo og í vísindum og rannsóknum af ýmsu tagi.

Stóriðjustefnan er atvinnustefna gærdagsins og það sem við erum m.a. að fást við í tengslum við þetta fjárlagadæmi eru einmitt afar slæm hliðaráhrif þessarar stefnu. Framkvæmdir við byggingu verksmiðja eru gríðarlega miklar. Þær kalla á framkvæmdir við byggingu orkuvera og allt veldur þetta staðbundnum og tímabundnum þensluáhrifum sem valda mikilli röskun. Sú röskun er oft til langframa og það kannast hv. þingmenn landsbyggðarinnar við frá þeim svæðum þar sem nú er horft fram á samdrátt í atvinnu af þessum sökum. Miklu farsælla væri að leggja áherslu á atvinnustefnu sem miðar að jafnri og stöðugri þróun og uppbyggingu um allt land.

Herra forseti. Vandinn sem meiri hlutinn leggur áherslu á að bregðast við og höfðar til ábyrgðar almennings, en ekki síst sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu, er vandi sem skapast af þessari stefnu ríkisvaldsins í atvinnumálum.

Svo vikið sé örfáum orðum að útgjaldahliðinni, þá eru lagðar til margvíslegar breytingar sem hv. formaður fjárln. hefur þegar kynnt og útskýringar er að finna í nefndaráliti meiri hlutans. Minni hlutinn á sinn þátt í þeim ákvörðunum og styður margar þessara tillagna, en því verður ekki á móti mælt að oft er okkuð erfitt að átta sig á ákvörðunum meiri hlutans á milli umræðna, sérstaklega þegar tímaramminn er þröngur. Dæmi eru um snöggsoðnar ákvarðanir um stóra útgjaldaliði sem virðast nánast falla af himnum ofan og eru lítt eða ekki skýrðar. Hvorki gefst tími né ráðrúm við þessar aðstæður til þess að fá nákvæmar útlistanir né heldur að ræða stefnuna eða forsendurnar á bak við slíkar ákvarðanir sem að sjálfsögðu koma úr ranni hæstv. ríkisstjórnar. Þessar ákvarðanir eru meginorsökin fyrir umtalsverðum hækkunum sem oft verða milli 2. og 3. umr. Þessar ákvarðanir byggjast sem sagt ekki á umræðum eða athugunum í fjárlaganefndinni. Þær eru einvörðungu á ábyrgð hæstv. ráðherra.

Sem dæmi má nefna tvö stór verkefni sem sett voru inn á allra síðustu dögum. Hið fyrra sem ég vildi nefna er átak í landgræðslu og skógrækt sem er nýr liður undir landbrn. Þetta átak er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í fjölmiðlum fyrir örfáum dögum. Það eru litlar skýringar gefnar í áliti meiri hlutans og ég missti reyndar af þeim kafla í ræðu hv. formanns nefndarinnar sem hugsanlega hefur skýrt þetta nánar. En í erindi fjárlagaskrifstofunnar til nefndarinnar sem dagsett er í fyrradag kemur fram að þetta sé átak í landgræðslu og skógrækt upp á 75 millj. kr. og sagt er að þetta sé fyrsta greiðsla af fjórum þar sem ríkisstjórnin hafi samþykkt að verja 450 millj. kr. framlagi til viðbótar til landgræðslu- og skógræktarverkefna á árunum 1997---2000. Tilgangurinn sé að stuðla að aukinni bindingu koltvíoxíðs í andrúmslofti í samræmi við framkvæmdaáætlun Íslands vegna rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Átakið er sagt að muni felast í aðgerðum sem beinast að því í fyrsta lagi að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu samkvæmt nýrri forgangsröðun. Í öðru lagi að hefja ræktun fjölnytjaskóga á Suðurlandi, svonefndra Suðurlandsskóga, og í þriðja lagi að efla starf einstaklinga og félagasamtaka í landgræðslu og skógrækt. Þetta er síðan undirbyggt með nánari útlistunum á hverri grein. Þessu átaki ber að fagna í sjálfu sér. Ég dreg ekki úr því. En ég hlýt að gagnrýna að þetta skuli koma svona eins og sending af himnum ofan og enginn tími gefast til þess að skoða það ofan í kjölinn, fá álit og umsagnir sérfræðinga og áhugamanna um þessi efni. Það eru svo margir þættir sem fléttast saman í þessum málaflokki og alls ekki allir á einu máli um gagnsemi einstakra aðgerða. Það þarf að líta á sviðið í heild, það þarf að taka inn í dæmið áhrif á þróun vistkerfa og áhrif á vistkerfi sem fyrir eru á hverjum stað. Það eru ekki nógu góð vinnubrögð að koma með slíkar tillögur rétt fyrir endanlega afgreiðslu fjárlaga. Þær eiga að koma fram í frv. sjálfu og þær eiga að fá umfjöllun fagnefnda, í þessu tilviki umhvn., sem hefði getað kallað eftir umsögnum og álitsgerðum sérfróðra. Engu að síður, herra forseti, eru mörg verk óunnin á þessu sviði og vonandi verður þessu fjármagni varið skynsamlega og með hliðsjón af vísindalegu mati.

Ég hlýt aðeins að minna á þau spjöll sem unnin hafa verið á votlendi landsins, en menn hafa nú vaknað upp við vondan draum í þeim efnum og vilja gjarnan reyna að bæta fyrir og vinna að endurheimt votlendis sem er mjög mikilvægt í náttúru landsins og fyrir gróðurfar og dýralíf. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga og fara ekki offari í skógrækt á þeim stöðum þar sem slíkt gæti haft áhrif á vistkerfið til hins verra.

Hitt dæmið er að finna undir fjmrn. undir liðnum Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Gert er ráð fyrir að ráðstafa 80 millj. kr. af þeim lið vegna tillögu um nýtt ákvæði í 6. gr. fjárlaga um heimild til að ráðstafa allt að 80 millj. kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu á svæðinu sem ekki njóta góðs af uppbyggingu stóriðju. Þetta eru enn ein hliðaráhrifin af stóriðjustefnu stjórnvalda sem reynist þung í skauti í þeim byggðum landsins sem ekki njóta uppsveiflunnar í atvinnulífi sem tengist framkvæmdum af þessu tagi. Engar áætlanir eru um það hvernig fjármununum verður varið, ekki einu sinni vísbendingar. Þessi vinnubrögð eru svo sem dæmigerð, en þau eru ekki betri fyrir það, og ég hlýt að átelja harðlega hvernig staðið er að verki. Stórfelld útgjöld á að undirbyggja markvisst og af vandvirkni og gaumgæfni. Þeim á ekki að kasta fram án undirbúnings og skipulegra vinnubragða. Og vegna þess sem hér var til umræðu í síðasta andsvari, þá hlýt ég að leggja áherslu á þetta vegna þess að þetta er eitt dæmið um það hvernig við fáum inn á borð okkar tillögur sem ekki eru nákvæmlega skilgreindar, skýrðar og undirbyggðar á réttan hátt. Með þessu er ég ekki að mæla gegn þessari tillögu. Ég tel nauðsynlegt, úr því að menn hafa markað þessa stefnu og átt frumkvæði og þátt í þeirri atvinnustefnu sem leiðir af sér þessa staðbundnu, tímabundnu þenslu, sem hugsanlega verður ef af álversbyggingu og auknum virkjanaframkvæmdum verður, að stjórnvöld bregðist við til þess að reyna að draga úr þeim skaða sem þetta hefur á þeim svæðum sem ekki njóta uppsveiflunnar á sama hátt.

[12:30]

Ég ætla ekki að fara miklu meira út í útgjaldahliðina. Ég vil aðeins minna á ýmislegt það sem kemur fram í nál. minni hlutans og minna á tillögur minni hlutans sem voru dregnar til baka og eru nú endurfluttar við 3. umr. Hv. 5. þm. Vestf. mælti fyrir þeim áðan, held ég, a.m.k. var það gert rækilega við 2. umr. þessa máls og ég held að ekki sé nauðsyn á að fara frekari orðum um þær tillögur. Ég vil minna á tillögur þingkvenna Kvennalistans sem eru á þskj. 445 um hækkun framlags til Námsgagnastofnunar og um styrk til endurbóta á húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra. Við drógum þær tillögur til baka við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fjárlaga í þeirri von að meiri hlutinn mundi koma til móts við hugmyndir okkar og tillögur. Því miður varð ekki af því og hlýt ég að lýsa vonbrigðum með það. En það er ekki öll nótt úti enn og ég vil biðja menn að hugsa um afstöðu til þessara tillagna.

Um Námsgagnastofnun er það að segja að Kvennalistinn hefur eftir megni reynt að fá hækkuð framlög til Námsgagnastofnunar og styrkja þar með starfsemi hennar, sem er mjög mikilvægt fyrir skólastarf í landinu. Sú stofnun hefur alls ekki mætt nógu miklum skilningi og við höfum bent á að nú kannski fremur en endranær sé raunverulega mikil þörf á að efla og styrkja starfsemi Námsgagnastofnunar og þá með tilvísan til þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í skýrslu vegna kannana á árangri nemenda í einstökum greinum og ástæður þess að árangur nemenda í þeim greinum er ekki talinn nógu hagstæður er einmitt að hluta til rakinn til þess að við höfum ekki nægan metnað við námsgagnagerð og búum okkar nemendur, okkar unga fólk, ekki nægilega vel námsgögnum.

Með styrkinn til Félags einstæðra foreldra vísa ég til þeirrar ræðu sem ég flutti við 2. umr. Þetta félag hefur rekið mjög merkilega og þarfa starfsemi og á skilið stuðning ríkisvalds og sveitarfélaga við sitt mikilvæga og góða starf. Ég vil líka benda á tillögur sem ekki var að vísu búið að dreifa þegar ég fór upp í ræðustólinn en má vera að komnar séu á borð þingmanna nú. Þær eru á frá okkur þingkonum Kvennalistans, þar sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir er 1. flm. Þær eru skyldar þeirri tillögu sem við flytjum um hækkun til Námsgagnastofnunar og eru metnaðarfullar tillögur um eflingu nýsköpunar og þróunar í skólastarfi og snerta menntun uppvaxandi kynslóðar sem við teljum að sé mjög mikilvægur þáttur sem okkur ber að leggja mun meiri áherslu á og hlúa betur að en gert hefur verið. Þetta er framtíðin sem ber að hlúa að af skilningi, fyrirhyggju og metnaði. Og sá metnaður birtist af okkar hálfu í þeim tillögum sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir mun mæla fyrir síðar í umræðunni. Þær lúta að Kennaraháskóla Íslands og tilgangurinn er að gera Kennaraháskólanum kleift að lengja kennaranám. Þær eru til eflingar endurmenntunar, námsefnisgerðar í sambandi við framhaldsskólana og til eflingar nýjunga í skólastarfi á sviði raungreina. Við teljum að þetta sé eitt af meginviðfangsefnum hins opinbera sem leggja beri miklu meiri áherslu á en gert hefur verið.

Herra forseti. Minni hlutinn leggur í áliti sínu áherslu á þrjá málaflokka á útgjaldahliðinni sem mest hafa verið til umræðu og umfjöllunar nú á milli umræðna í hv. fjárln. Við fjöllum nokkuð um heilbrigðismálin, samgöngumálin og um heimildagrein fjárlaga, þá merku 6. gr., sem hefur að geyma heimildir til ráðherra til ýmissa ráðstafana og sú grein er vissulega óhjákvæmileg en mætir því miður afgangi í umfjöllun nefndarinnar sem er alls ekki nógu gott því verið er að veita ráðherrum mikið vald til ráðstöfunar á eignum og fjármunum ríkissjóðs. Og það má vera okkur til umhugsunar hvernig þeim málum er háttað. Ég tel að miklu betri svipur sé á allri framkvæmd nú en var fyrir nokkrum árum þegar ekki einu sinni var gert ráð fyrir ákveðnum fjárhagsramma fyrir þessa heimildagrein en það er núna. Reynt er að fylgjast með því hvernig farið er með þetta vald sem ráðherra er þarna falið. En oft er verið að koma inn ákvörðunum eða heimildum til ákvarðana sem hefðu að réttu lagi þurft betri umfjöllun og undirbúning og skýringar og vísa ég til nál. okkar og orða hv. 5. þm. Vestf.

Meginniðurstaða mín er, herra forseti, að það dæmi sem er lagt fyrir Alþingi á eftir að breytast verulega og fyrir því hefur minni hlutinn fært veigamikil rök. Við erum sammála því markmiði að reka beri ríkissjóð án halla og helst með afgangi. Það er hættulegt að safna svo miklum skuldum eins og þróunin hefur verið á undanförnum árum og við þurfum að snúa blaðinu við, ná árangri í ríkisfjármálum, skila ríkissjóðsdæminu með afgangi svo hægt sé að greiða niður skuldirnar. Við erum sammála því að sýna beri ráðdeildarsemi, sparnað og ábyrgð í ríkisfjármálum eins og frekast er unnt, en við erum ekki sammála um áherslur og forgangsröð. Margar aðgerðir í þeim efnum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum leiða í raun ekki til sparnaðar heldur ófarnaðar sem er ríkissjóði kostnaðarbyrði til lengri tíma litið. Það þarf að leggja áherslu á menntamál, heilbrigðismál og félagslega þjónustu. Sparnaður í þeim efnum má ekki leiða til lakari þjónustu og verri stöðu þeirra sem hennar þurfa og eiga að njóta. Fjárlög skipta miklu máli fyrir daglegt líf og kjör almennings og fyrir þróun mála í atvinnu- og efnahagslífi landsmanna. Það frv. sem hér á að afgreiða gefur ekki fyrirheit um farsæla framtíðarsýn. Slík framtíðarsýn ætti að byggjast á eflingu menntunar og rannsókna, hún ætti að byggjast á markvissri áætlun um verndun umhverfis og náttúru, hún ætti að byggjast á metnaðarfullum áformum um farsælt líf allra í samfélaginu jafnt þeirra sem standa undir tekjuöflun ríkissjóðs og þeirra sem minna hafa og þurfa á aðstoð að halda. Sá metnaður birtist ekki í þessu frv. Þvert á móti eru þyngstu byrðarnar lagðar á þá sem höllum fæti standa. Aldraðir, öryrkjar, sjúkir og bótaþegar fá þau skilaboð að þeirra séu breiðu bökin. Þeir eiga ekki að fá auknar tekjur til samræmis við þá sem hafa fullan mátt til að sækja kjarabætur. Það eru m.a. launin til aldraðra sem hafa lagt sitt af mörkum til að eftirkomendur þeirra geti lifað sómasamlegu lífi. Slagorðið ,,Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld`` hefur snúist upp í andhverfu sína við þá síendurteknu aðför að lífskjörum aldraðra sem við höfum reynt síðustu árin.

Lokaniðurstaða mín er sú að endurskoða þarf tekjuöflunarkerfi ríkisins og forgangsraða upp á nýtt.