Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 12:47:43 (2620)

1996-12-20 12:47:43# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[12:47]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að fara í umræður um málefni borgarstjórnarinnar í Reykjavík í þessum ræðustól. Hins vegar væri mjög skemmtilegt og ánægjulegt að taka þátt í umræðu á þeim vettvangi.

En ég vil vegna orða hv. þm. um sérstaklega góða fjármálastjórn hjá Reykjavíkurborg segja að rétt væri nú að gefa borgarstjórnarmeirihlutanum ögn meiri tíma, held ég, áður en því er slegið föstu að svo sé. Mér sýnist að þar séu stundaðar stórfelldar sjónhverfingar. Þær eru hins vegar svo augljósar, ekki síst þegar vakin er athygli á því að Reykjavíkurborg standi ekki fyrir neinni spennu, hún taki ekki lán. En hvað gerir borgarstjórnarmeirihlutinn? Hann reynir að blekkja með því að láta undirstofnanir taka lán til framkvæmda. Ég held að það sé allt of auðveld leið ef hv. þm. halda að við sjáum ekki í gegnum slíkan vef. Hins vegar er rétt að það kemur fram hjá borgarstjóranum í bréfinu, sem hv. þm. las upp að borgarstjórnarmeirihlutinn virðist vera tilbúinn á verðinum ef þeim sýnist að ástæða sé til þess. Ég fagna því að fram skuli koma að hv. þm. og borgarstjórinn væntanlega eru reiðubúnir til að ganga til viðræðna við stjórnvöld með hvaða hætti við getum tryggt stöðugleikann. Það er auðvitað aðalatriðið, það er viðfangsefnið. Hæstv. ríkisstjórn hefur falið félmrh. að eiga viðræður við sveitarfélögin í landinu og ég geri ráð fyrir að þær viðræður hljóti að hafa farið fram. Viðræður um það hvernig eigi að standa að þessum aðgerðum.