Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 19:41:35 (2673)

1996-12-20 19:41:35# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[19:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hélt því fram allan tímann frá því að þessar tillögur sáu dagsins ljós að þær væru óraunhæfar. Það væri ekki hægt að ná þessum sparnaði fram vegna þess að hann þýddi 10--11% niðurskurð á öllum sjúkrahúsum ef hann kæmi flatur á sjúkrahúsin. Við sögðum einfaldlega að það væri ekki hægt að ná þessu fram. Og við spurðum hvernig ætti að ná honum fram. Það komu aldrei nein svör við því. Hv. fjárln. komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Í verki tók hún undir það sem við sögðum í orði í nefndinni. Það er alveg klárt. Ég skal ekkert segja um hvort hægt sé að ná með sæmilegum móti þessum 60 millj. kr. sparnaði. Ég veit það ekki. Málið er það að hv. þm. Jón Kristjánsson vonar það en getur ekki fullyrt það vegna þess að hann veit ekki um aðferðirnar. Vegna þess að vinnan sem heilbrrn. átti að vera búið að vinna í þessu máli, að tala við Landssamband sjúkrahúsa og stjórnir sjúkrahúsanna, fór ekki af stað fyrr en núna á síðustu vikum. Þegar heilbr.- og trn. hélt síðasta fund sinn um þetta mál þá lá það fyrir að ekki var búið að ræða við neinar sjúkrahússtjórnir. Það var ekki byrjað á því fyrr en einhvern tímann í desember. Það liggur alveg ljóst fyrir að í raun erum við sammála um að þessi vinnubrögð heilbrrn. voru ekki nógu góð. Við erum sammála um að það þurfti að draga úr þessum sparnaðaráformum. Við erum sammála um að vona að hægt sé að ná sparnaði. En ég er ekki viss um það og hv. þm. getur ekki fullyrt það.