Frestun á fundum Alþingis

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:47:22 (2705)

1996-12-20 22:47:22# 121. lþ. 54.9 fundur 261. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst að hæstv. forsrh. skuldi þingheimi skýringu á því af hverju flutt er tillaga um svona langt hlé á störfum Alþingis. Þetta er óvenjulangt hlé. Það hafði verið talað um að hlé á störfum Alþingis yrði kannski til 21. janúar ef ég man rétt, en síðan kom þessi hugmynd upp. Ég held að það sé nauðsynlegt að flutningsmaður tillögunnar, hæstv. forsrh., skýri rökin fyrir henni því að hún er í hæsta máta óvenjuleg. Ég held að þingið eigi rétt á því að heyra rökin en líka þjóðin vegna þess að það er mjög algengt að hlutir séu settir þannig upp, þó að það sé auðvitað rangt, að alþingismenn séu í fríum á þessum tíma yfir jólin og fram í janúar. Auðvitað eru menn að sinna ýmsum verkum eins og kunnugt er. En af þeim ástæðum er sérstaklega nauðsynlegt að fá fram rök fyrir því af hverju tillagan er flutt með þessum hætti.