1996-12-21 00:33:46# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KHG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[24:33]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Að þessu sinni er lagt til að á næsta ári verði gildandi vegáætlun skorin niður að framkvæmdafé til um 20%. Sá niðurskurður mun bitna á landsmönnum öllum en ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu eins og haldið hefur verið fram. Þessi niðurskurður þýðir að ríkissjóður mun ekki leggja fé til vegaframkvæmda til viðbótar við tekjur af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar eins og vegáætlun gerir ráð fyrir. Í stað þess að ríkissjóður leggi verkefninu til 217 millj. kr. á næsta ári er meiningin að hirða í ríkissjóð 856 milljónir af mörkuðum tekjustofnum til vegamála á næsta ári. Ég segi nei við þessari herfilegu útreið vegáætlunar sem samþykkt var á vordögum fyrir síðustu alþingiskosningar og fékk það viðurnefni af hálfu þeirra sem mæltu fyrir henni að upp væri að renna mikið framkvæmdaskeið í vegamálum á næstu árum.