1996-12-21 01:14:43# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GuðjG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[25:14]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ráðgjafarfyrirtæki sem einkavæðingarnefnd fékk til að gera úttekt á Sementsverksmiðjunni í haust metur verðmæti hlutafjár í fyrirtækinu á 740 milljónir þegar ekki er tekið tillit til lífeyrisskuldbindinga sem munu í dag vera á fjórða hundrað milljónir. Að þeim frádregnum er verðmæti hlutafjárins rúmar 400 milljónir. Hér er farið fram á heimild til að selja 1/4 hlutafjárins og verðmæti því aðeins um 100 millj. kr. Sala hlutafjár mun leiða til hækkunar á sementsverði vegna þess að þeir sem kaupa hlutabréf í fyrirtækinu munu væntanlega krefjast arðs af hlutafénu og miðað við stöðu fyrirtækisins og rekstrarskilyrði verður að hækka sementsverðið til að fyrirtækið geti greitt þennan arð. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins koma einmitt fram bollaleggingar um 10% hækkun sementsverðs. Þessi hækkun mundi leiða til hækkunar á byggingarkostnaði og byggingarvísitölu og lenda þar með af fullum þunga á ríkinu sem er jafnan stór aðili á byggingarmarkaði. Mér sýnist því augljóst að þessi sala sé ekki skynsamleg og hef reyndar ekki trú á að þessi 6. gr. heimild verði nokkurn tíma notuð þegar menn skoða þetta dæmi betur. Ég segi nei.