Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 18 . mál.


18. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.


    Við 26. gr. stjórnarskrárinnar bætist nýr málsliður, er verður 3. málsl., svohljóðandi: Sama á við ef forseta berst áskorun um það frá þriðjungi kosningabærra manna í landinu.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu til stjórnarskipunarlaga er kveðið á um rétt kjósenda til að fara fram á að lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt verði borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Aðeins er mælt fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu á þremur stöðum í stjórnarskránni, þ.e. í 11. gr. (ef 3 / 4 hlutar alþingismanna greiða atkvæði með tillögu um að forseti lýðveldisins verði leystur frá embætti), í 26. gr. (ef forsetinn synjar um staðfestingu á lagafrumvörpum) og í 79. gr. (ef með lögum eru gerðar breytingar á kirkjuskipaninni). Ekki er að finna þar neitt ákvæði sem gerir þegnum landsins kleift að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál sem Alþingi hefur til umfjöllunar.
    Þótt oft hafi komið fram krafa um að auka rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu hefur ekkert orðið úr því. Réttur fólks til að hafa áhrif á framgang einstakra mála er bundinn við atkvæðagreiðslur um minni háttar mál, svo sem opnun á áfengisútsölum og um hvort leyfa skuli hundahald í einstökum sveitarfélögum.
    Víða í grannlöndum okkar hefur verið farin sú leið að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu og auka þannig lýðræðislegan rétt fólksins. Samkvæmt stjórnskipan okkar getur fólk einungis haft áhrif með atkvæði sínu í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, svo og við kjör forseta lýðveldisins. Telja verður að lýðræðinu séu þannig nokkur takmörk sett, ekki síst þar sem samsteypustjórnir virðast mun algengari hér en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þannig veit fólk hér á landi sjaldnast hvaða ríkisstjórnir það er að kjósa yfir sig með atkvæði sínu, auk þess sem auðveldara er fyrir samsteypustjórnir að semja sig frá frá loforðum og kosningastefnuskrám.
    Með síauknu alþjóðasamstarfi er enn brýnna að fólk hafi möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki síst þar sem mikilvægir alþjóðlegir samningar geta haft úrslitaáhrif á framtíð þjóðarinnar. Þannig var hávær krafa uppi hjá stórum hluta þjóðarinnar um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.


Prentað upp.
    Í stórum málum sem snerta verulega hag þegnanna og afkomu þjóðarinnar er mikilvægt að þessi leið sé fyrir hendi. Það treystir lýðræðið í landinu og veitir stjórnmálaflokkum meira aðhald en þeir hafa nú.
    Forsetinn hefur aldrei frá stofnun lýðveldisins beitt heimild 26. gr. stjórnarskrárinnar um að synja staðfestingar lagafrumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt. Ákvæðið felur aðeins í sér frestandi neitunarvald því að synji forsetinn um staðfestingu verður að bera lagafrumvarpið undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Af framkvæmdinni má því ráða að þetta vald forsetans til að færa valdið frá þinginu til þjóðarinnar sé í raun nánast marklaust. Færa má að því gild rök, eins og að framan segir, að frumvarp til laga um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sé einmitt mál sem rétt hefði verið að bera undir þjóðina með þessum hætti. Þegnar landsins geta átt réttmæta kröfu á því að fá að taka á beinan hátt þátt í ákvörðun um mikilvæg atriði, eins og að framan greinir. Því er nauðsynlegt að inn í stjórnarskrána verði tekið ákvæði sem veitir þeim þennan rétt án þess að til atbeina forseta lýðveldisins þurfi að koma.
    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga.