Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 85 . mál.


108. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um fátækt á Íslandi og aðgerðir gegn henni.

    Hvernig skilgreina íslensk stjórnvöld fátæktarmörk?
    Vandasamt er að skilgreina „fátæktarmörk“ og ýmsar aðferðir hafa verið notaðar til að reyna að skilgreina hverjir skuli teljast „fátækir“ og hverjir ekki. Vandinn sem því er samfara er að hugtakið er afar afstætt, til að mynda þýðir fátækt í efnuðum ríkjum annað en fátækt í vanþróuðum ríkjum, fátækt sem stafar af tímabundnum tekjumissi hefur aðra merkingu en fátækt sem á rætur í takmörkuðum tekjuöflunarmöguleikum þegar litið er til langs tíma og fátækt fólk á mælikvarða tekna getur átt töluverðar eignir. Vafasamt er því að einhver ein skilgreining á fátæktarmörkum þjóni gagnlegum tilgangi. Réttara er að skoða lífskjör lágtekjuhópa frá ýmsum sjónarhornum og meta í því ljósi hvað er líklegast til að skila þeim betri kjörum þegar fram í sækir.

    Er ríkisstjórnin samþykk þeirri skilgreiningu á fátæktarmörkum og þeirri greiningu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert og birt er í Morgunblaðinu 12. október sl.?
    Umrædd aðferð Félagsvísindastofnunar Háskólans mælir fátækt hlutfallslega með hliðsjón af meðaltekjum í þjóðfélaginu. Þessi aðferð er háð þeim augljósa annmarka að hún sýnir eingöngu tekjudreifinguna, en vandinn er hins vegar sá að hún þarf ekki að segja neitt um raunverulega hagi fólks. Með henni má til að mynda sýna fram á vaxandi fátækt á sama tíma og aðrir hlutlægir mælikvarðar sýna að kjör allra hafa batnað. Jafnframt verður nánast útilokað að útrýma fátækt þegar þessari skilgreiningu er beitt og jafnvel er vafasamt hvort það sé að öllu leyti æskilegt. Því ber að varast að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðum sem fengnar eru með aðferðinni.
    Aðferð Félagsvísindastofnunar hefur það hins vegar sér til ágætis að hún tekur tillit til mismunandi efnahags ríkja, auk þess sem hún sýnir breytingar á tekjudreifingunni frá einu tímabili til annars.
    Einnig hefur verið algengt að miða skilgreiningu á fátæktarmörkum við fastar fjárhæðir og er þá leitað eftir lágmarksfjárhæð sem dugir til lífsviðurværis. Ekki er vandinn minni við slíkar skilgreiningar en áðurnefndar rannsóknir á hlutfallslegri fátækt. Viðfangsefnið er flóknara en svo að það hafi nokkurn tilgang að samþykkja einhverja eina skilgreiningu á fátæktarmörkum sem hina einu réttu. Greining Félagsvísindastofnunar er hins vegar gagnlegt innlegg í málið.

    Hyggst ríkisstjórnin bregðast við áðurnefndum upplýsingum um fátækt á Íslandi?
    Eins og bent er á í athugum Félagsvísindastofnunar hneigist umfang fátæktar til að fylgja hagsveiflum. Á árunum 1988–93 setti hagvaxtarleysi mark sitt á þjóðarbúskapinn, en þá jókst „mæld fátækt“. Frá árinu 1994 hefur hagvöxtur hins vegar verið að ná sér á strik. Eðli máls samkvæmt líður nokkur tími áður en hagvöxtur skilar sér í minna atvinnuleysi. Því fór atvinnuleysið vaxandi um hríð eftir að botni hagsveiflunnar hafði verið náð, eða til ársins 1995, en frá þeim tíma hefur það hins vegar farið minnkandi. Má ætla að það hafi ráðið miklu um að mæld fátækt fór einnig vaxandi til ársins 1995, enda bendir Félagsvísindastofnun á mikla fylgni atvinnuleysis og mældrar fátæktar. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur hins vegar farið vaxandi frá árinu 1994.
    Þetta sýnir að hagvöxtur er ráðandi um þróun lífskjara. Fyrir vikið leggur ríkisstjórnin áherslu á góð skilyrði fyrir hagvöxt á traustum og varanlegum grunni. Það er skammgóður vermir að víkja frá þessu markmiði ef það skaðar hagvöxt þegar til langs tíma er litið. Enginn vafi er á því að stefna stöðugleika og jafnvægis í þjóðarbúskapnum á undanförnum árum hefur lagt grunninn að minnkandi atvinnuleysi, auknum kaupmætti og bættum kjörum almennings.

    Ef aðgerðir eru fyrirhugaðar, að hvaða leyti munu þær ná sérstaklega til kvenna, ungs fólks og aldraðra?
    Ýmsum úrræðum er beitt til að bæta lífskjör þeirra einstaklinga og þjóðfélagshópa sem eiga á brattann að sækja, ekki síst í gegnum skattkerfið og með ýmsum tilfærslum og bótum, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Sérstaklega má nefna atvinnuleysistryggingar og bætur almannatrygginga. Hagvöxtur og almenn kaupmáttarþróun hafa mikla þýðingu fyrir umrædda hópa, en viðunandi hagvöxtur tryggir fjölgun starfa og tækifæra á vinnumarkaði sem kemur sér ekki síst vel fyrir ungt fólk. Lífeyriskerfið hefur eflst, sem felur í sér betri hag fyrir aldraða í framtíðinni. Jafnframt mun draga úr mun á mældri fátækt meðal kvenna og karla því að konur eru hlutfallslega fleiri meðal aldraðra. Rétt er að huga sérstaklega að fekari ráðstöfunum til að örva sparnað sem ætlað er að bera uppi lífskjör aldraðs fólks í framtíðinni.