Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 143 . mál.


158. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Á eftir orðunum „Seðlabanki Íslands“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: verðbréfasjóðir, sbr. lög um verðbréfasjóði, nr. 10/1993.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
    2. tölul. orðast svo: Við innlausn eða sölu skal gera skil á greiðslu skatts af gengishækkun hlutdeildarskírteina.
    Á eftir orðinu „verðbréfum“ í 5. tölul. kemur: þar með talda gengishækkun hlutdeildarskírteina.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 5. gr. skal ekki telja afföll af verðbréfum og kröfum sem stofnað var til fyrir 1. janúar 1997 til stofns til staðgreiðslu. Um skattgreiðslu af slíkum tekjum fer eftir 2. málsl. 2. mgr. 4. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um næstu áramót koma til framkvæmda lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, en þau lög voru samþykkt á Alþingi sl. vor. Síðan hefur framkvæmd laganna verið í undirbúningi af skattyfirvöldum í samráði við hina ýmsu aðila sem að skattframkvæmdinni munu koma. Í framhaldi af þeirri vinnu þykir nauðsynlegt að leggja til nokkrar breytingar á lögum þeim sem lúta að skattlagningu fjármagnstekna. Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á framkvæmd skattlagningar hlutdeildarskírteina. Þessar breytingar byggja á því að sú regla laganna að taka árlega skatt af hækkun hlutdeildarskírteina getur í ákveðnum tilvikum verið íþyngjandi, þ.e. þegar skírteini eru ekki leyst út og tekjurnar hafa því ekki á árinu raungerst í hendi eiganda hlutdeildarskírteinis. Íþyngingin felst í því að nokkrar sveiflur geta orðið á gengi skírteina af þessu tagi. Þannig getur hækkun á gengi eitt árið orðið að engu það næsta. Vegna þess að tekjur fyrra árið hafa verið skattlagðar enda þótt þær komi ekki til með að raungerast í hendi eiganda hlutdeildarskírteinisins vegna gengislækkunar sem kann að verða síðar. Í ljósi þessa er hér lögð til sú breyting á lögunum að skattur af hækkun hlutdeildarskírteina verði ekki innheimtur árlega í staðgreiðslu, heldur verði hann innheimtur við innlausn hlutdeildarskírteinis.
    Þá er í ákvæði til bráðabirgða lagt til að afföll af verðbréfum og kröfum sem stofnað var til fyrir 1. janúar 1997 myndi ekki stofn til staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er lagt til að rekstraraðilar verðbréfasjóða verði undanþegnir skyldu til að greiða skatt skv. 1. gr. laganna og sæta innheimtu í staðgreiðslu hans, með sama hætti og gildir um lánastofnanir. Nauðsynlegt er að gera þessa breytingu þar sem lagt er til í 2. gr. frumvarpsins að horfið verði frá því að skattleggja tekjur verðbréfasjóða árlega í staðgreiðslu og miða skattlagningartímamarkið í þess stað við innlausn hlutdeildarskírteinis.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að skatti af gengishækkun hlutdeildarskírteina skuli skilað við innlausn þeirra. Um forsendur þessarar breytingar vísast til almennra athugasemda.

Um 3. gr.


    Í þessu ákvæði til bráðabirgða er lagt til að afföll af verðbréfum og kröfum sem stofnað var til fyrir 1. janúar 1997 skuli ekki telja til stofns við staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Það byggist á því að talið er óframkvæmanlegt að ákvarða þennan stofn í staðgreiðslu nema með ærnum tilkostnaði þar sem upplýsingar um hann liggja ekki fyrir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 94/1996,


um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.


    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum varðandi tekjur ríkissjóðs og verður ekki séð að það hafi teljandi áhrif á gjaldahlið.