Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 159 . mál.


176. Frumvarp til laga



um landmælingar og kortagerð.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI


Tilgangur og skipulag.


1. gr.


    Lögum þessum er ætlað að tryggja að ávallt séu til nauðsynlegar staðfræðilegar og landfræðilegar upplýsingar um landið og að unnið sé að söfnun og úrvinnslu upplýsinga er hafa gildi fyrir landmælingar og kortagerð á Íslandi.

2. gr.


    Ríkið rekur stofnun er nefnist Landmælingar Íslands og heyrir undir umhverfisráðherra. Stofnuninni er falið að vinna að þeim verkefnum sem eru á ábyrgð stjórnvalda og lögin kveða á um.

3. gr.


    Ráðherra skipar stofnuninni stjórn eftir hverjar alþingiskosningar sem í eiga sæti þrír menn, þar af einn formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin hefur forgöngu um að móta starfseminni stefnu er tryggi sem best heildarhagsmuni þjóðarinnar á sviði landmælinga, kortagerðar og landfræðilegra upplýsinga. Stjórnin samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir stofnunarinnar.

4. gr.


    Ráðherra skipar forstjóra Landmælinga Íslands til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Hann skal hafa viðhlítandi menntun og þekkingu á starfseminni.
    Forstjóri hefur á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á framkvæmd mótaðrar stefnu og fjárhagsafkomu. Hann ræður annað starfsfólk í samráði við stjórn.

II. KAFLI


Verkefni.


5. gr.


    Verkefni á sviði landmælinga og kortagerðar eru samkvæmt lögum þessum:
    Gerð leiðbeininga um landmælingar og kortagerð og notkun staðla á því sviði.
    Landfræðilegar og staðfræðilegar mælingar. Í því felst m.a. að leggja út hnitakerfi fyrir landið allt og tryggja viðhald og nákvæmni mælipunkta.
    Viðhald nauðsynlegra grunnupplýsinga um hnitakerfið svo sem hvaða mælingar séu til, hver hafi framkvæmt þær, áreiðanleiki þeirra og aðgengi.
    Öflun gagna og úrvinnsla á sviði loft- og gervitunglamynda af landinu.
    Útgáfa og endurnýjun korta af landinu í prentuðu og stafrænu formi. Kortin sýni sem réttasta mynd af landinu á hverjum tíma. Heimilt er að gefa út kort á kostnað hagsmunaaðila.
    Kortlagning örnefna.
    Að gæta hagsmuna stjórnvalda í erlendu samstarfi á sviði landmælinga og kortagerðar að því marki sem umhverfisráðherra ákveður.
    Annað það er ráðherra kann að ákveða.

6. gr.


    Ráðherra getur falið öðrum en Landmælingum Íslands að annast ákveðna verkþætti skv 5. gr.

7. gr.


    Aðilar, sem stunda landmælingar og kortagerð, skulu gæta samræmis í vinnslu og vistun gagna og tilkynna Landmælingum Íslands um fyrirhuguð mælinga- og kortagerðarverkefni.

8. gr.


    Hverjum þeim er lætur mæla land, mynda eða gera uppdrætti þannig að gögn fáist sem hafa gildi fyrir landmælingar eða vísindagreinar tengdar landmælingum er skylt að skila fullkomnum mæligögnum til Landmælinga Íslands ef óskað er eftir.

III. KAFLI


Verkefnaáætlun.


9. gr.


    Landmælingar Íslands láta gera áætlun til fjögurra ára í senn um verkefni stofnunarinnar er taki m.a. mið af fyrirhuguðum framkvæmdum innan lands er krefjast landmælinga eða kortagerðar. Skal áætlunin byggjast á raunhæfum fjárhagsforsendum og verkefnum raðað í forgangsröð.
    Áætlun þessa skal endurskoða árlega þannig að ávallt liggi fyrir áætlun til næstu fjögurra ára.
    Landmælingar Íslands skulu senda umhverfisráðuneyti verkefnaáætlunina eigi síðar en 31. maí á undan fyrsta ári áætlunartímabilsins.

IV. KAFLI


Höfunda- og afnotaréttur.


10. gr.


    Ríkið er eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast.
    Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

11. gr.


    Landmælingar Íslands miðla upplýsingum og veita aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar. Ef um er að ræða frumgögn sem eiga uppruna utan stofnunar skal samið um frekari dreifingu við upprunaaðila.
    Heimilt er að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar sem eru í vörslu Landmælinga Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga sé ekki stefnt í tvísýnu.

V. KAFLI


Fjármögnun.


12. gr.


    Landmælingar Íslands afla sér tekna á eftirfarandi hátt:
    Með sölu á sérhæfðri þjónustu, afnotum af gögnum í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu, þar með töldum kortum og stafrænum upplýsingum sem byggjast á upplýsingagrunni stofnunarinnar.
    Með sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem sérstaklega er óskað eftir af viðskiptavinum stofnunarinnar.
    Með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna.
    Gjaldtaka skal ákvörðuð í gjaldskrá.
    Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands skal að öðru leyti greiðast af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.

13. gr.


    Gjaldskrá skv. 12. gr. skal liggja frammi á hverjum tíma. Gjaldskrá er háð samþykki ráðherra.

VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


14. gr.


    Skylt er að heimila þá för um landareign og uppsetningu mælingapunkta sem nauðsynleg getur talist vegna landmælinga.

15. gr.


    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

16. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 31/1985.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var 21. febrúar 1995 til þess að fara yfir og endurskoða starfsemi Landmælinga Íslands, sbr. lög nr. 31/1985, um Landmælingar Íslands, en í þeim lögum er ákvæði um endurskoðun að þremur árum liðnum frá gildistöku þeirra. Nefndinni var sérstaklega ætlað að fjalla um eftirfarandi atriði:
    Að skilgreina framtíðarhlutverk Landmælinga Íslands í stjórnsýslu og framkvæmd kortagerðar á vegum ríkisins og tengsl stofnunarinnar við innlenda og erlenda aðila sem annast landmælingar og kortagerð.
    Að gera tillögur um hentugt rekstrarform stofnunarinnar með hliðsjón af framtíðarhlutverki.
    Að fjalla um höfundarétt stofnunarinnar á kortum sem hún framleiðir og hvernig best megi tryggja þann rétt.
    Að vinna frumvarp til laga um Landmælingar Íslands með hliðsjón af breyttu hlutverki stofnunarinnar.
    Nefndinni var ætlað að hafa náið samráð við forstjóra Landmælinga Íslands og aðra aðila sem málið varðar, svo sem stofnanir sem vinna að landmælingum og kortagerð, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra stærri notendur þjónustu á sviði landmælinga og kortagerðar. Nefndinni var enn fremur ætlað að starfa að verkefninu í náinni samvinnu við Hagsýslu ríkisins.
    Í nefndinni áttu sæti: Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneyti, sem jafnframt er formaður, Hrafn Hallgrímsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneyti, ritari, og Jón Magnússon, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneyti. Með nefndinni starfaði Snævar Guðmundsson, viðskiptafræðingur hjá Hagsýslu ríkisins.

Störf nefndarinnar.


    Nefndin lagði áherslu á að ná til þeirra stofnana sem háðar eru landmælingum og kortagerð í störfum sínum, auk þess sem sérstaklega var leitað til starfsmanna, forstjóra, skrifstofu- og deildarstjóra Landmælinga Íslands. Kallað var til fundar með forsvarsmönnum Landsvirkjunar hf., Vegagerðarinnar, Orkustofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skipulags ríkisins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að loknum fundum með þessum aðilum voru kynnt drög að lagafrumvarpi. Þeir sem skiluðu skriflegum athugasemdum og óskuðu eftir að fá að hitta nefndina voru kallaðir til fundar þar sem farið var yfir athugasemdirnar lið fyrir lið.

Gildandi lög og söguleg þróun landmælinga og kortagerðar.


    Landmælingar Íslands starfa samkvæmt lögum nr. 31/1985, með breytingum í lögum nr. 47/1990, en þá var starfsemi stofnunarinnar færð frá samgönguráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Landmælingar urðu hins vegar sjálfstæð stofnun árið 1956 þegar ein deild vegamálaskrifstofunnar var gerð að sérstakri stofnun undir heitinu Landmælingar Íslands. Fram til ársins 1956 höfðu Danir séð um mælingar og kortagerð í landinu sem hófst upp úr aldamótum og lauk 1944. Landmælingar Íslands gerðu samning við Geodetisk Institut í Danmörku árið 1973 um höfunda- og útgáfurétt Íslandskorta sem var þá formlega afhentur Landmælingum Íslands.
    Ísland kemur við sögu landakorta þegar um árið 1000. Á þessum tíma er Ísland sýnt á heimskorti eftir ókunnan höfund. Fyrsti íslenski kortagerðarmaðurinn, sem vitað er um, var Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup (1541–1627). Honum er eignað Íslandskort sem ber ártalið 1585 og gefið var út árið 1590 en Guðbrandur var einhver fjölmenntaðasti Íslendingur síns tíma. Hann var stærðfræðingur og mældi og reiknaði út hnattstöðu Hóla í Hjaltadal með undraverðri nákvæmni. Í hálfa aðra öld var kort hans haft til grundvallar þeim Íslandskortum sem birt voru.
    Næsti sérfræðingurinn í mælingum og kortagerð var Björn Gunnlaugsson, stærðfræðingur og kennari (1788–1876). Hið íslenska bókmenntafélag réð hann til að gera kort af Íslandi sem gefið var út árið 1844 og flestir Íslendingar kannast við. Kort hans var lengi notað, m.a. sem kennslukort, eða í u.þ.b. eitt hundrað ár.
    Upp úr síðustu aldamótum var lagður grunnur að þeim mælingum sem kort af Íslandi hafa byggst á til þessa. Að tilhlutan Íslandsmálaráðuneytisins gaf danska hermálaráðuneytið út tilskipun til landmælingadeildar hersins um að leggja grundvöll að nýrri mælingu á Íslandi. Landmælingar hófust á því að tveir flokkar mælingamanna hornamældu, annar frá Höfn í Hornafirði og vestur með suðurströndinni en hinn frá Reykjavík og austur með suðurströndinni. Haustið 1920 þegar lokið hafði verið við að mæla einn þriðja hluta landsins, þ.e. á Suðurlandi og Vesturlandi, var verkinu frestað vegna fjárskorts. Árið 1928 var danska landmælingastofnunin, Geodetisk Institut, stofnuð og leysti hún herforingjaráðið af hólmi við Íslandsmælingarnar. Aftur var hafist handa við mælingar árið 1930 og unnið sleitulaust þar til verkinu var að mestu lokið haustið 1939, en það var ekki fyrr en árið 1944 að rekinn var endahnútur á kortlagninguna.
    Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar gáfu Danir út kort í mælikvarðanum 1:100.000 sem byggðust á áðurnefndum mælingum. Þessi kort (Atlasblöðin) eru enn þá gefin út, endurskoðuð af Landmælingum Íslands. Þá er í gildi samningur milli Íslands og Bandríkjanna um kortagerð í mælikvarðanum 1:50.000 og er hér um að ræða um 200 kort af landinu öllu. Þegar hafa verið gefin út rúmlega 100 kort. Samnings- og samstarfsaðili Landmælinga Íslands er kortastofnun Bandaríkjanna (DMA). Á árunum 1948–50 komu út um 300 kort í mælikvarðanum 1:50.000 á vegum Kortastofnunar Bandaríkjahers (AMS).
    Landmælingum Íslands er skipt í fimm deildir, fjarkönnunardeild, kortadeild, mælingadeild, skrifstofudeild og markaðs- og söludeild, og heyrir stofnunin undir umhverfisráðherra. Stofnunin hefur á boðstólum um 700 kortatitla og 130.000 loftmyndir af landinu öllu, sem teknar eru á tímabilinu 1937–1994. Loftmyndir eru teknar á hverju sumri samkvæmt pöntun frá stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum og einnig vegna kortagerðar fyrir stofnunina sjálfa.
    Auk framleiðslu hefðbundinna loftmynda sem unnar eru á fjarkönnunardeild er unnið að stafrænni vinnslu gervitunglamynda. Þannig hafa Landmælingar Íslands látið gera gróðurmynd af Íslandi í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og Rannsóknarstofnun landbúnaðarins sem byggð er á tólf gervitunglamyndum sem teknar voru á árunum 1986–92.
    Á kortadeild er hægt að fá gerð ýmis sérkort og kort á tölvutæku formi, en þeim kortum fer fjölgandi á markaðnum. Ýmsar aðrar stofnanir og fyrirtæki annast kortagerð hér á landi, aðallega vegna skipulagsmála, rannsókna og mannvirkjagerðar. Þjónusta Landmælinga Íslands við þessa aðila er í formi loftmynda og ýmissa grunngagna.
    Til þess að gefa nokkra mynd af starfsemi Landmælinga Íslands á síðari árum skal þess getið að á árinu 1993 var mælt nýtt grunnstöðvanet (Ísnet 93) sem kemur í stað eldra þríhyrninganets sem mælt var á árunum 1955 og 1956. Nýja netið var mælt með GPS-staðsetningarbúnaði. Það verður grundvöllur kortagerðar og verklegra framkvæmda í framtíðinni. Sumarið 1994 mældu Landmælingar Íslands, Landsvirkjun, Orkustofnun og Vegagerðin hæðir til 63 stöðva í grunnstöðvanetinu. Þessar mælingar voru liður í því að afla gagna til að reikna út lágflöt fyrir Ísland. Sumarið 1995 mældu Landmælingar Íslands í samvinnu við nokkrar íslenskar stofnanir og þýsku landmælingastofnunina IfAG (Institut für Angewande Geodäsie) með GPS-búnaði. Var það gert til þess að ákveða tengsl eldra mælingakerfis á Íslandi, svokallaðs Hjörseyjarkerfis frá 1955, við grunnstöðvanet sem mælt var með GPS-búnaði árið 1993.

Framtíð landmælinga og kortagerðar.


    Gildandi lög um Landmælingar Íslands eru lög nr. 31/1985, með breytingu nr. 47/1990, en þá færðist stofnunin frá samgönguráðuneyti til nýstofnaðs umhverfisráðuneytis. Að mati endurskoðunarnefndar er helsti galli laganna sá að þau fjalla ekki um málaflokkinn sem slíkan, þ.e. landmælingar og kortagerð, heldur eingöngu um stofnunina Landmælingar Íslands. Þannig skortir ákvæði um málaflokkinn í heild auk þess sem ákvæði laganna um stjórnsýsluhlutverk Landmælinga eru ófullnægjandi. Ekki er að fullu ljóst hver eru markmiðin með framkvæmd landmælinga þar sem lögin taka eingöngu á þeim verkefnum sem Landmælingum er ætlað að vinna og skyldum annarra aðila til þess að afhenda Landmælingum gögn. Einnig fjalla lögin um höfunda- og útgáfurétt sem er ekki í samræmi við meginreglur höfundaréttar, svo og um fjármögnun starfsemi Landmælinga Íslands sem er ekki í samræmi við núverandi framkvæmd. Þá er og sá galli á framkvæmd laganna að ákvæði þeirra um gerð verkáætlunar hefur aldrei verið framfylgt. Á öllum þessum atriðum er reynt að taka í frumvarpinu, sbr. kafla um helstu nýmæli frumvarpsins og athugasemdir við einstaka greinar þess.
    Það er mat nefndarinnar að rekstrarformi stofnunarinnar skuli ekki breytt, þ.e. að hún skuli áfram vera ríkisstofnun, svokölluð A-hluta stofnun. Í staðinn eru verkefni ríkisins á sviði landmælinga og kortagerðar, sem Landmælingum Íslands er falið að vinna að, skilgreind ítarlega, þ.e. skyldur ríkisins til þess að reka tiltekna starfsemi. Nefndin hefur leitað upplýsinga um starfsemi landmælinga og kortastofnana í nágrannalöndunum og hefur verið horfið frá því að breyta rekstrarformi þeirra t.d. í hlutafélagaform eins og áform voru um fyrir ártug eða svo. Þar eru hafðar til hliðsjónar skyldur hins opinbera á sviði landmælinga og kortagerðar. Einnig að ýmis verkefni og viðhald grunnupplýsinga sé kostnaðarsamara en svo að því verði velt yfir á einstaka kaupendur þjónustu.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um höfundarétt Landmælinga Íslands á kortum sem stofnunin framleiðir og leggur til að hann verði eign ríkisins en ekki stofnunarinnar auk þess sem lagt er til að fylgt verði reglum höfundaréttarins, sbr. lög nr. 73/1972, með síðari breytingum, svo sem um fyrningu höfundaréttar.
    Með sérstakri skírskotun til örrar þróunar í landmælingum og kortagerð er ljóst að í framtíðinni verður aukin þörf fyrir kort og landfræðilegar upplýsingar á stafrænu formi. Þannig munu landfræðileg gagnasöfn á stafrænu formi verða grunnur í landfræðilegum upplýsingakerfum en þau gegna mikilvægu hlutverki við skipulag og stjórnsýslu. Framtíðarhlutverk Landmælinga Íslands, sem lagt er til að verði stjórnsýslustofnun á sviði landmælinga og kortagerðar, verður fyrst og fremst öflun, úrvinnsla og geymsla landfræðilegra gagna. Einnig verður það hlutverk Landmælinga að sinna þörfum samfélagsins fyrir landfræðilegar upplýsingar, svo sem stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, og tryggja gæði gagnanna. Stofnunin yrði þannig að taka virkan þátt í upplýsingasamfélaginu og bera ábyrgð á því sviði innan landmælinga og kortagerðar sem eru sameiginlegur grunnur fyrir landupplýsingakerfi og taka þátt í að tengja landfræðileg gagnasöfn við önnur gagnasöfn þjóðfélagsins.
    Landmælingar yrðu að viðhalda stafrænum kortum og landfræðilegum gagnasöfnum, þróa möguleika á samtengingu við önnur gagnasöfn og vera miðstöð þekkingar og aðferðafræði á sviði landmælinga og kortagerðar. Sem framleiðandi yrðu Landmælingar að bjóða vörur og þjónustu, svo sem kort og landfræðileg gögn samkvæmt óskum viðskiptamanna.
    Nauðsynlegt er að treysta tengsl við útlönd og í því skyni yrðu Landmælingar Íslands að stuðla að samvinnu við erlenda aðila á sviði kortagerðar og landfræðilegra upplýsinga, koma fram sem fulltrúi Íslands erlendis, vernda hagsmuni landsins og skiptast á vitneskju á þessu sviði.

Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins.


    Lagt er til að lögin nái til málaflokksins alls, þ.e. landmælinga og kortagerðar og kveðið er á um yfirstjórn umhverfisráðuneytisins og um hlutverk Landmælinga Íslands sem stjórnsýslustofnunar.
    Kveðið er á um hver skuli vera markmið laga um landmælingar og kortagerð.
    Verkefni Landmælinga eru skilgreind með ítarlegri hætti en áður og heimilað að gerðir verði samningar við aðra aðila um framkvæmd einstakra verkþátta og verkefna.
    Kveðið er á um sérstaka stjórn yfir stofnuninni.
    Kveðið er á um skyldur til samræmingar vinnslu og vistunar gagna er tengjast landmælingum og kortagerð.
    Lögð er af skylda til að leggja verkefnaáætlanir fyrir Alþingi, en þær skulu áfram lagðar fyrir umhverfisráðherra.
    Kveðið er á um höfunda-, afnota- og útgáfurétt ríkisins á því sem Landmælingar Íslands vinna og vísað til höfundalaga, nr. 73/1972, eftir því sem við á.
    Heimild er til að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði kortagerðar.
    Fjármögnun og gjaldskrárákvæði eru gerð skýrari og færð til raunveruleikans.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Fjallað er um landmælingar og kortagerð sem sérstakan málaflokk er falli undir umhverfisráðuneytið, en í núgildandi lögum er ekki greint á milli málaflokksins og stofnunarinnar sem annast framkvæmd laganna. Tilgangurinn er að tryggja samræmda söfnun og úrvinnslu upplýsinga á sviði landmælinga og kortagerðar sem hagsmunaaðilar hafi aðgang að.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að ríkið reki stofnun sem beri áfram heitið Landmælingar Íslands og heyri undir umhverfisráðherra. Hlutverk Landmælinga sem stjórnsýslustofnunar er að vinna að þeim verkefnum sem lögin kveða á um. Í 1. og 2. gr. er þannig gerður greinarmunur á almennum tilgangi með lögunum og hver skuli annast framkvæmdina.

Um 3. gr.


    Í ljósi þess að landmælingar og hvers konar landfræðileg gagnaöflun verður stöðugt mikilvægari þáttur í stjórnsýslunni og að notkun upplýsinga snertir fjölmarga málaflokka, stofnanir og ráðuneyti þykir ástæða til að efla stefnumörkun á þessu sviði frá því sem nú er. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi stofnuninni þriggja manna stjórn eftir hverjar alþingiskosningar sem veiti henni forustu og staðfesti jafnframt starfs- og fjárhagsáætlanir hennar, en samkvæmt gildandi lögum er engin stjórn yfir stofnuninni.

Um 4. gr.


    Forstjóri skal skipaður til fimm ára í senn og er það í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gerð er krafa um að hann hafi viðhlítandi menntun og þekkingu.

Um 5. gr.


    Í meginatriðum eru verkefni ríkisins á sviði landmælinga og kortagerðar þau sömu og í gildandi lögum þótt áherslur séu aðrar. Í 1. tölul. er kveðið á um forgang við gerð leiðbeininga og notkun staðla, en ekki að Landmælingar skuli setja staðla eins og samkvæmt gildandi lögum. Í 3. tölul. er sérstakt ákvæði um að viðhalda grunnupplýsingum, svo sem hvaða mælingar séu til, hver hafi annast framkvæmdina, áreiðanleika þeirra og aðgengi. Í 5. tölul. er ítrekað að kort eigi ekki aðeins að vera í prentuðu formi heldur einnig á tölvutæku stafrænu formi. Þar er einnig ákvæði sem heimilar útgáfu korta á kostnað hagsmunaaðila. Í 7. tölul. er nýmæli er varðar gæslu hagsmuna hins opinbera í erlendu samstarfi á sviði landmælinga og kortagerðar.

Um 6. gr.


    Greinin er nýmæli og felur í sér að Landmælingar Íslands þurfi ekki að annast öll verkefni sem lögin kveða á um. Þannig megi semja við aðila utan stofnunarinnar um framkvæmd verkefna, ef hagkvæmt þykir, þótt umsjón og eftirlit sé í höndum Landmælinga Íslands.

Um 7. gr.


    Gengið er nokkru lengra í þessari grein en í gildandi lögum þar sem allir aðilar þurfa að tilkynna Landmælingum Íslands um fyrirhuguð verkefni á sviði mælinga og kortagerðar, en ekki einungis opinberir aðilar eins og í gildandi lögum. Þá skulu aðilar gæta samræmis í vinnslu og vistun gagna.

Um 8. gr.


    Varðandi skil gagna ná þau aðeins til þeirra gagna sem Landmælingar Íslands óska eftir, en í gildandi lögum eru engar undantekningar gerðar þar á. Í ljósi þess hve magn upplýsinga er mikið í tæknisamfélagi nútímans og hvernig geymslumöguleikar hafa þróast er ekki talin þörf á að safna og varðveita nema valdar upplýsingar. Í þessu felst þó áfram að Landmælingar Íslands eru sá aðili sem ber ábyrgð á söfnun grunnupplýsinga, sbr. 3. tölul. 5. gr.

Um 9. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 9. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að þess er ekki lengur krafist að ráðherra leggi verkefnaáætlun fyrir Alþingi og að Alþingi þurfi að hafa hana til hliðsjónar við afgreiðslu fjárlaga. Ekki er talið eðlilegt setja slíkar skuldbindingar inn í lagatexta. Ákvæði um að gerð sé áætlun um verkefni stofnunarinnar er áfram til staðar.

Um 10. gr.


    Í ljósi þess að um víðtækan málaflokk er að ræða er höfunda-, afnota- og útgáfuréttur ekki lengur eign stofnunarinnar eins og í gildandi lögum heldur verði þessi réttindi eign ríkisins. Landmælingum Íslands verði hins vegar falið að gæta hagsmuna ríkisins á þessu sviði. Í gildandi lögum er höfunda-, afnota- og útgáfuréttur ótímabundinn en í greininni er ekki gerð ríkari krafa um höfundarétt til handa ríkinu en almennt tíðkast en vitnað til höfundalaga varðandi nánari túlkun á höfundarétti.

Um 11. gr.


    Í fyrri málsgrein er hnykkt á um hlutverk Landmælinga Íslands á sviði upplýsingamiðlunar. Hins vegar er sett inn ákvæði þess efnis að frumgögnum sem eiga uppruna utan stofnunar sé ekki dreift eða ráðstafað á annan hátt án samráðs við upprunaaðila. Þar er m.a. átt við frumgögn sem hagsmunaaðilar hafa greitt fyrir fullu verði en eru vistuð hjá Landmælingum Íslands.
    Í síðari málsgrein er Landmælingum Íslands heimilað að veita afnot af öllum upplýsingum í vörslu stofnunarinnar. Almenn skilyrði eru einungis að getið sé um uppruna upplýsinga og að áreiðanleika sé ekki stefnt í tvísýnu.

Um 12. gr.


    Grundvallarmunur er á þessari grein og 12. gr. gildandi laga. Ákvæði um sérstakt stimpilgjald af hverju korti, sem renni til ríkissjóðs, er fellt niður ásamt þeim undanþágum sem fylgdu greiðslu stimpilgjalds. Eigin fjármögnun byggist þess í stað á sölu sérhæfðrar þjónustu og greiðslum fyrir afnot af gögnum í vörslu stofnunarinnar, ásamt sölu korta. Þá hefur stofnunin heimild til að taka þjónustugjöld vegna afgreiðslu gagna. Að öðru leyti skulu framlög ákvörðuð í fjárlögum.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 14. gr.


    Ekki er um efnislegar breytingar að ræða frá gildandi lögum.

Um 15. og 16. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um landmælingar og kortagerð.


    Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var til að fara yfir og endurskoða starfsemi Landmælinga Íslands. Núgildandi lög fjalla eingöngu um stofnunina Landmælingar Íslands en frumvarpið felur í sér ákvæði um landmælingar og kortagerð í heild sinni. Aðrar breytingar eru m.a. að verkefni stofnunarinnar eru skýrar skilgreind, ráðherra getur falið öðrum en Landmælingum Íslands að annast ákveðna verkþætti og ákvæði um fjármögnun og gjaldtöku eru aðlöguð núverandi framkvæmd.
    Ekki er lögð til breyting á rekstrarformi stofnunarinnar en það er nýmæli að umhverfisráðherra skipi stofnuninni þriggja manna stjórn. Að mati fjármálaráðuneytis getur kostnaðarauki vegna stjórnar orðið allt að 0,5 m.kr. en að öðru leyti leiðir frumvarpið ekki til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.