Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 191 . mál.


213. Frumvarp til sóttvarnalaga.



(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI


Skilgreiningar.


1. gr.


    Almennar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem lög þessi kveða á um að ávallt skuli beita vegna smitsjúkdóma.
    Opinberar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem skal beita vegna hættulegra smitsjúkdóma:
    þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi,
    þegar hætta er á útbreiðslu farsótta innan lands,
    þegar smitaður einstaklingur skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu.

2. gr.


    Með smitsjúkdómum í lögum þessum er átt við sjúkdóma eða smitun sem örverur, eiturefni (toxín) þeirra eða sníkjudýr valda.

3. gr.


    Lög þessi fjalla um smitsjúkdóma sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill og aðrar alvarlegar næmar sóttir.
    Þeir smitsjúkdómar eru skráningarskyldir sem ráðherra ákveður með reglugerð að fengnum tillögum sóttvarnaráðs. Af skráningarskyldum smitsjúkdómum eru þeir tilkynningarskyldir sem ógnað geta almannaheill. Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eru tilkynningarskyldir, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr.
    Sóttvarnalæknir er ábyrgur fyrir því að haldin sé smitsjúkdómaskrá. Skráin tekur til smitsjúkdóma og ónæmisaðgerða, sbr. 2. tölul. 5. gr., og er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum. Gæta skal fyllsta trúnaðar um allar einkaupplýsingar sem þar koma fram.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um fyrirkomulag tilkynninga og skráninga.

II. KAFLI


Yfirstjórn sóttvarna.


4. gr.


    Embætti landlæknis ber ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
    Til embættis landlæknis skal ráða lækni, sóttvarnalækni, til að sinna sóttvörnum. Læknir þessi skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra.
    Sóttvarnalæknir skal í starfi sínu hafa samvinnu við héraðslækna, aðra starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisnefndir og yfirdýralækni eftir því sem við á.
    Héraðslæknar eru ábyrgir fyrir sóttvörnum, hver í sínu héraði, undir stjórn sóttvarnalæknis.
    Héraðslæknar og sóttvarnalæknir skulu hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef með þarf.

5. gr.


    Verksvið sóttvarnalæknis er aðallega eftirfarandi:
    Að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum.
    Að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma með öflun nákvæmra upplýsinga um greiningu þeirra frá rannsóknastofum, sjúkrahúsum og læknum.
    Að koma upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, innan lands sem utan, með reglubundnum hætti og eftir þörfum til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
    Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
    Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni.

6. gr.


    Ráðherra skal skipa sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til fjögurra ára í senn. Þar skulu eiga sæti sérfræðingar á sviði smitsjúkdómalækninga, bakteríufræði, veirufræði, kynsjúkdóma og faraldsfræði/heilbrigðisfræði, heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu á sviði sóttvarna. Ráðherra skipar formann úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Þegar fjallað er um mál í sóttvarnaráði, sem tengjast starfssviði Hollustuverndar ríkisins eða embættis yfirdýralæknis, skulu fulltrúar þeirra stofnana sitja fundi ráðsins, eftir því sem við á, með málfrelsi og tillögurétti.
    Sóttvarnaráð mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Ráðið skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og skal sóttvarnalæknir vera ritari þess.

III. KAFLI


Almennar sóttvarnaráðstafanir.


1. Skyldur einstaklinga.


7. gr.


    Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.
    Hver sá sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af smitsjúkdómi sem ógnað geti öðrum mönnum er skyldur að leita læknis án tafar. Leiði læknisrannsókn í ljós að um slíkan sjúkdóm sé að ræða er viðkomandi skyldur að fylgja fyrirmælum læknis um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smitun.
    Ef læknir telur mikilvægt að rekja smit til að hefta frekari útbreiðslu þess ber sjúklingi skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar um það af hverjum hann gæti hafa smitast, svo og hverja hann kann að hafa smitað. Komi læknirinn því ekki við ber honum að vísa sjúklingi til stofnunar sem aðstöðu hefur til að rekja smit. Skylt er hlutaðeigendum að hlýða fyrirmælum læknis um nauðsynlegar rannsóknir til varnar sóttnæmisútbreiðslu frá sjúklingi.

2. Skyldur lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.


8. gr.


    Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skulu í starfi sínu hafa vakandi auga með smitsjúkdómum og útbreiðslu þeirra.

9. gr.


    Læknir, sem kemst að því í starfi sínu að einstaklingur hefur smitast af smitsjúkdómi sem samkvæmt lögum þessum er tilkynningarskyldur eða hefur rökstuddan grun um að svo sé, skal þegar í stað tilkynna það viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni.
    Hliðstæð skylda hvílir á forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi rannsóknastofa sem fást við rannsóknir á sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma sem lög þessi taka til. Þær rannsóknastofur skulu hafa starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
    Hlutaðeigandi aðilum er skylt að aðstoða viðkomandi héraðslækni og sóttvarnalækni, m.a. með því að veita upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar vegna sóttvarna.

10. gr.


    Hafi læknir, sem hefur sjúkling til meðferðar sem haldinn er smitsjúkdómi, rökstuddan grun eða vitneskju um að sjúklingurinn fylgi ekki fyrirmælum sem honum voru sett um umgengni og meðferð skal hann tilkynna það þegar í stað til viðkomandi héraðslæknis eða sóttvarnalæknis.

3. Skyldur heilbrigðisfulltrúa og heilbrigðisnefnda og dýralækna.


11. gr.


    Heilbrigðisfulltrúar og formenn heilbrigðisnefnda, samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og dýralæknar skulu tilkynna viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni jafnskjótt og þeir hafa orðið varir við hugsanlega smithættu. Héraðslæknir eða sóttvarnalæknir skal á sama hátt tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd eða dýralækni, eftir því sem við á, strax og þeim verður kunnugt um smithættu. Sóttvarnalæknir skal gefa heilbrigðisnefndum nauðsynlegar upplýsingar og ráð og hafa eftirlit með því að til viðeigandi ráðstafana sé gripið.
    Heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúar og dýralæknar skulu aðstoða við sóttvarnir og gefa nauðsynleg fyrirmæli um viðeigandi ráðstafanir ef hætta er á að dýr, matvæli, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómum.

IV. KAFLI


Opinberar sóttvarnaráðstafanir.


1. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands.


12. gr.


    Ef tilkynningar til sóttvarnalæknis um smitsjúkdóma benda til að farsótt sé yfirvofandi skal hann þegar í stað gera heilbrigðisráðherra viðvart.
    Ráðherra ákveður að tillögu sóttvarnaráðs hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Sóttvarnalæknir eða héraðslæknar geta beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef þeir telja að hvers konar töf sé hættuleg, en gera skulu þeir ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
    Nánari ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir skal setja með reglugerð.

2. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi.


13. gr.


    Um sóttvarnaráðstafanir, sem grípa má til vegna hættu á farsóttum frá útlöndum eða frá Íslandi til útlanda, skal setja reglugerð í samræmi við efni þeirra alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

3. Aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum.


14. gr.


    Nú telur sóttvarnalæknir er honum berst tilkynning um smitsjúkdóm að grípa þurfi til frekari ráðstafana en læknir hefur þegar gert til þess að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smitunar sem ógnað getur almannaheill. Skal hann þá í samráði við héraðslækni sjá til þess að til slíkra aðgerða sé gripið. Takist ekki samstarf við viðkomandi aðila getur hann, ef þurfa þykir, leitað aðstoðar lögregluyfirvalda vegna aðgerða til varnar smiti. Héraðslæknir getur einnig gripið til slíkra aðgerða í forföllum sóttvarnalæknis.
    Með aðgerðum er átt við læknisrannsókn, einangrun hins smitaða á sjúkrahúsi og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti.
    Ákvörðun sóttvarnalæknis eða héraðslæknis um aðgerðir af þessu tagi má kæra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Kæra frestar ekki framkvæmd.

15. gr.


    Ef maður, haldinn smitsjúkdómi, fellst ekki á að fylgja reglum um umgengni við aðra eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli lagður inn á sjúkrahús í einangrun eða að hann skuli einangraður með öðrum hætti.
    Telji sóttvarnalæknir nauðsynlegt að einangrun á grundvelli 14. eða 15. gr. vari lengur en tvo sólarhringa og ef framkvæmdin er í andstöðu við hinn smitaða skal sóttvarnalæknir þegar bera ákvörðunina skriflega undir héraðsdóm í því umdæmi sem hinn smitaði dvelst er einangrunar er krafist. Í kröfu sóttvarnalæknis skal koma fram ítarleg lýsing á málavöxtum og nauðsyn einangrunar og tiltekinn sá tími sem einangrun er ætlað að vara, auk annarra gagna sem málið kunna að varða. Dómari skal taka málið fyrir án tafar. Hann skal gefa varnaraðila kost á að skýra mál sitt og getur krafið varnaraðila um gögn til stuðnings kröfu hans. Dómari getur einnig aflað gagna af sjálfsdáðum. Dómari kveður síðan upp úrskurð um hvort einangrun skuli haldast eða hún falli niður. Einangrun má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn en ef sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að hún vari lengur skal hann að nýju bera kröfu um slíkt undir héraðsdóm. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd einangrunar.
    Dómsathöfnum þeim, sem um ræðir í 2. mgr., má skjóta til Hæstaréttar með kæru og fer um hana eftir almennum reglum um kæru í einkamálum eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd einangrunar.

V. KAFLI


Ýmis ákvæði.


16. gr.


    Starfrækja skal göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma sem veita meðferð og rekja smitleiðir. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi slíkra göngudeilda.
    Á sjúkrahúsum, sem heilbrigðisráðherra ákveður, skal vera aðstaða til einangrunar þeirra sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smitsjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm.
    Heilbrigðisráðherra getur falið ákveðnum rannsóknastofum að ábyrgjast greiningu örvera eða sníkjudýra úr sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma og fylgjast með ónæmisástandi einstaklinga gegn þýðingarmiklum smitnæmum sjúkdómum.

17. gr.


    Allur kostnaður, sem hlýst af framkvæmd laga þessara, skal greiðast eins og annar sjúkra- og lækniskostnaður. Greiðsluhlutdeild sjúklinga skal fylgja almennum reglum um það efni. Heimilt er þó að undanþiggja greiðsluhlutdeild sjúklinga sem leita til sérdeilda sem stunda forvarnir og sjúklinga sem boðaðir eru til skoðunar vegna leitar að smitberum. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða deildir geti veitt þjónustu, sjúklingum að kostnaðarlausu.

18. gr.


    Auk þeirra reglugerða, sem lög þessi tilgreina sérstaklega, hefur heilbrigðisráðherra heimild til að setja í sóttvarnareglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
    Sama máli gegnir ef til sérstakra ráðstafana þarf að grípa vegna sóttvarna við náttúruhamfarir.

19. gr.


    Með mál sem rísa kunna út af brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

20. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Þá falla úr gildi eftirfarandi lög:
    Berklavarnalög, nr. 66 31. desember 1939.
    Lög um ráðstafanir til varnar gegn fýlasótt, nr. 70 7. maí 1940.
    Sóttvarnarlög, nr. 34 12. apríl 1954.
    Farsóttalög, nr. 10 19. mars 1958.
    Lög um varnir gegn kynsjúkdómum, nr. 16 28. apríl 1978, sbr. breyting á þeim lögum nr. 7 7. apríl 1986.



Fylgiskjal.


Flokkun smitsjúkdóma eftir meginsmitleiðum.


(Skáletraðir sjúkdómar eru tilgreindir í alþjóðaheilbrigðisreglum.)



1.    Smitsjúkdómar þar sem persónueinkenna sjúklings er ekki getið og verða skráningarskyldir samkvæmt reglugerð, sbr. 2. mgr. 3. gr.

1.1. Þarmasmit:

Yersiniosis.
Listeriosis.
Toxoplasmasýking.
Sullaveiki.
Tríkínósis.
1.2. Öndunarfærasmit:
Hemóphilus influenzae (gerð b)
  sjúkdómur.
Psittacosis.
Legionellosis.
Rauðir hundar.
Mislingar.
Hettusótt.
Kíghósti.
Inflúensa.
1.3. Blóðborið smit:
Sýkingar vegna blóðgjafa.
Meðfæddir rauðir hundar.
1.4  Kynsjúkdómar:
Condyloma genitalis.
Þvagrásarbólga af öðrum eða óþekktum   orsökum.
1.5. Skordýraborið smit:
Malaría.
Rykkjasótt (febris recurrens).
Dílasótt (typhus exanthematicus).
1.6. Aðrir smitsjúkdómar:
Heilahimnubólga af völdum örvera.
Heilabólga af völdum veira.
Stífkrampi.
Óvenjulegar berklasýkingar.
Hjartaþelsbólga.
2.    Sjúkdómar sem tilkynna skal einstaklingsbundið og verða tilkynningaskyldir samkvæmt reglugerð, sbr. 2. mgr. 3. gr.

2.1. Þarmasmit:
Lömunarveiki (poliomyelitis).
Smitandi lifrarbólga A (hepatítis A).
Önnur smitandi lifrarbólga (hepatítis E).
Kólera.
Salmonellusýkingar (þar með talið tauga  veiki og taugaveikibróðir).
Kampýlóbakteríusýkingar.
Blóðkreppusótt (shigellosis).
Aðrar þarmasýkingar af völdum baktería.
2.2. Öndunarfærasmit:
Barnaveiki (difteria).
Meningókokkasjúkdómur.
Berklar.
Svarti dauði (pestis).
2.3. Blóðborið smit:
Smitandi lifrarbólga B (hepatítis B).
Smitandi lifrarbólga C (hepatítis C).
Önnur smitandi lifrarbólga.
HIV (human immunodeficiency virus).
2.4.  Kynsjúkdómar:
Klamýdía.
Lekandi.
Sárasótt.
Hepatítis B.
HIV (human immunodeficiency virus).
2.5. Skordýraborið smit:
Svarti dauði (pestis).
Gulusótt (yellow fever, febris flava).
2.6. Aðrir smitsjúkdómar:
Bótúlismi.
Holdsveiki (lepra).
Hundaæði (rabies).
Miltisbrandur (anthrax).

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þróun íslenskrar löggjafar á sviði sóttvarna hófst ekki að ráði fyrr en á síðari hluta síðustu aldar. Árið 1875 gengu í gildi lög um mótvarnir gegn því að bólusótt og hin austurlenska kólerusótt og aðrar næmar sóttir flyttust til landsins. Á tæpri öld þróuðust þessi lög í löggjöf um varnir gegn því að næmir sjúkdómar bærust til Íslands og síðan í núgildandi sóttvarnalög sem eru frá árinu 1954.
    Liðlega tuttugu árum síðar, eða árið 1896, gengu í gildi fyrstu lögin um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma. Þessi lög hafa síðan þróast í núgildandi farsóttalög frá 1958.
    Um aldamótin var ástand í málum holdsveikra og berklaveikra hér á landi mjög bágborið og aðgerðir aðkallandi. Árið 1898 gengu í gildi tvenn lög er snertu holdsveika, annars vegar lög um aðgreiningu þeirra frá öðrum mönnum og flutning á spítala og hins vegar lög um stofnun holdsveikraspítala á Íslandi. Þótt úrelt séu og óþörf eru þessi lög enn í gildi.
    Fyrstu lögin um varnir gegn berklaveiki gengu í gildi nokkrum árum síðar, eða árið 1904. Núgildandi berklavarnalög eru frá árinu 1939.
    Hinn 17. október 1988 skipaði heilbrigðisráðherra nefnd sem falið var það hlutverk að endurskoða farsóttalögin frá 1958, sóttvarnarlögin frá 1954, ýmis sérlög um varnir gegn ákveðnum smitsjúkdómum, svo sem berklavarnalögin frá 1939, lögin um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978, með síðari breytingu, og lögin um varnir gegn holdsveiki frá síðustu aldamótum.
    Í nefndina voru skipuð: Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, formaður, Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir, Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum, Skúli Johnsen borgarlæknir og Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, og var hún jafnframt ritari nefndarinnar.
    Nefndin lauk störfum haustið 1989. Frumvarp til sóttvarnalaga, sem hún samdi, var lagt fram á 112. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Með því frumvarpi fylgdu sem fylgiskjöl yfirlit sem nefndin tók saman um þróun íslenskrar löggjafar á sviði sóttvarna og samantekt um stöðu löggjafar á sviði sóttvarna á Norðurlöndunum. Frumvarpið var síðan lagt fram nokkuð breytt á 113. þingi í ljósi umsagna sem bárust við meðferð málsins á 112. löggjafarþingi og að nýju á 115. og 116. löggjafarþingi nánast óbreytt að öðru leyti en því að 17. gr. frumvarpsins var breytt. Þá var frumvarpið lagt fram á 119. löggjafarþingi með breytingum á 6. gr., um skipan sóttvarnaráðs, og 14. og 15. gr., sem fjalla um þvingunarúrræði, með það að markmiði að treysta réttarstöðu hins smitaða. Síðast var frumvarpið lagt fram á 120. löggjafarþingi með breytingum sem gerðar voru að teknu tilliti til hluta þeirra athugasemda sem bárust heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis sem sendi frumvarpið til umsagnar í lok 119. löggjafarþings. Má þar nefna breytingu á 6. gr. þess efnis að heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur ættu sæti í sóttvarnaráði, kveðið var á um kæru til Hæstaréttar í 3. mgr. 15. gr. og í 17. gr., sem fjallar um greiðsluhlutdeild sjúklinga, var kveðið á um frekari heimild til undanþágna frá þeirri meginreglu en var í fyrra frumvarpi. Þá taldi ráðuneytið við endurskoðun rétt að kveða á um að ákvarðanir skv. 14. gr. væru kæranlegar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis en ekki til landlæknis.
    Frumvarp þetta er að mestu óbreytt frá frumvarpi því sem lagt var fram á 120. þingi. Þó hefur verið tekið tillit til nokkurra athugasemda sem bárust heilbrigðis- og trygginganefnd við það frumvarp, m.a. er bætt inn í 6. gr. ákvæði þess efnis að þegar fjallað er um mál sem tengjast Hollustuvernd eða embætti yfirdýralæknis skuli fulltrúar þeirra sitja fundi sóttvarnaráðs, ákvæði 2. mgr. 9. gr. um skyldur rannsóknastofa er gert skýrara og gerðar eru breytingar á 11. gr. frumvarpsins til að tryggja betur gagnkvæma tilkynningarskyldu sóttvarnalæknis, héraðslækna, heilbrigðisnefnda og dýralækna. Loks er gerð breyting á 14. gr. og lögð meiri áhersla á að leitað sé samstarfs við aðila áður en gripið er til þvingunaraðgerða.
    Fylgiskjölin, sem birtust með frumvarpinu er það var lagt fram á 112. löggjafarþingi, hafa ekki verið endurbirt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér eru skilgreindar þær tvenns konar sóttvarnaráðstafanir sem grípa skal til. Annars vegar eru hinar almennu sóttvarnaráðstafanir, en það eru ráðstafanir sem ávallt skal beita gegn smitsjúkdómum. Hins vegar eru hinar opinberu sóttvarnaráðstafanir sem beita skal vegna hættulegra smitsjúkdóma í þremur tilvikum: Í fyrsta lagi þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá landinu, í öðru lagi þegar hætta er á útbreiðslu farsóttar innan lands og í þriðja lagi þegar smitaður einstaklingur skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu.

Um 2. gr.


    Rétt þykir að skilgreina í lögunum við hvað er átt þegar talað er um smitsjúkdóma. Með smitsjúkdómum er átt við sjúkdóma sem orsakast af örverum (bakteríum, sveppum, veirum eða öðrum frumstæðum lífverum) og sníkjudýrum (einfrumungum, ormum, lúsum og flóm) sem geta fjölgað sér, lifað á eða í hýsli og valdið sjúkdómi og borið manna á milli eða frá dýrum til manna. Margar örverur geta framleitt eiturefni (toxín) sem valdið geta sjúkdómum í mönnum, t.d. með mengun matvæla, jafnvel þótt örverurnar sem slíkar nái ekki að sýkja menn. Slíkar eitranir eru alla jafna taldar til smitsjúkdóma og því tilgreindar hér í skilgreiningu frumvarpsins á smitsjúkdómum.

Um 3. gr.


    Hér er fjallað um gildissvið laganna. Gert er ráð fyrir að þau nái annars vegar til smitsjúkdóma sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill og hins vegar til annarra alvarlegra næmra sótta. Þýðing smitsjúkdóma breytist frá einum tíma til annars, gamlir sjúkdómsvaldar hætta að ógna og nýjar örverur koma fram á sjónarsviðið sem geta valdið hættulegum smitsjúkdómum og farsóttum og er því nauðsynlegt að geta brugðist skjótt við. Því er ekki talið heppilegt að binda í lögum hvaða sjúkdómar skuli vera skráningarskyldir og/eða tilkynningarskyldir. Þess vegna er gert ráð fyrir að skráningarskyldir verði þeir smitsjúkdómar sem ráðherra ákveður með reglugerð að fengnum tillögum sóttvarnaráðs. Tilkynningarskyldir verða þeir skráningarskyldir smitsjúkdómar sem ógnað geta almannaheill. Ráðherra skal ákveða, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eru tilkynningarskyldir. Í reglugerð sem ráðherra setur skal nánar kveðið á um fyrirkomulag skráninga og tilkynninga.
    Tilkynningarskylda felur í sér að skylt verður að tilkynna tafarlaust til heilbrigðisyfirvalda ef grunur leikur á að einhver tiltekinna hættulegra smitsjúkdóma hafi fundist eða greinst og geti ógnað almannaheill. Skráningarskylda felur í sér að tilteknar sjúkdómsgreiningar verða skráðar og upplýsingar um fjölda tilfella sendar reglulega til heilbrigðisyfirvalda enda þurfi ekki í slíkum tilvikum að grípa til tafarlausra ráðstafana. Halda skal sérstaka smitsjúkdómaskrá, sbr. 2. tölul. 5. gr., sem skal taka til skráningarskyldra sjúkdóma, með bæði jákvæðum og neikvæðum upplýsingum.

Um 4. gr.


    Í samræmi við áratuga hefð gerir frumvarpið ráð fyrir að ábyrgð á framkvæmd sóttvarna sé hjá embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
    Samkvæmt gildandi sóttvarnalögum eru héraðslæknar sóttvarnalæknar. Í ljósi gerbreyttra samgangna þykir óþarfi að hafa fleiri en einn sóttvarnalækni til að sinna sóttvörnum í landinu öllu. Þess vegna er lagt til að ráðinn verði sérmenntaður sóttvarnalæknir við embætti landlæknis sem m.a. fylgist með útbreiðslu farsótta, skipuleggi aðgerðir gegn þeim, m.a. með ónæmisaðgerðum og fylgist með árangri þeirra, en gera má ráð fyrir miklum breytingum á fyrirkomulagi ónæmisaðgerða á komandi árum. Með því að hafa yfirstjórn þessara mála á einni hendi ætti heildaryfirsýn yfir smitsjúkdóma á landinu að verða betri og meiri trygging fyrir því að brugðist sé við með samræmdum aðgerðum. Sóttvarnalæknir skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Í starfi sínu skal hann hafa samvinnu við héraðslækna, aðra starfsmenn og stofnanir innan heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisnefndir og yfirdýralækni eftir því sem við getur átt.
    Til að tryggja nægileg tengsl sóttvarnalæknis út í læknishéruðin þykir einnig rétt að héraðslæknar beri áfram ábyrgð á sóttvörnum undir stjórn sóttvarnalæknis. Samvinna sóttvarnalæknis og héraðslækna um sóttvarnir er mjög mikilvæg þar sem héraðslæknar búa yfir staðarþekkingu sem nauðsynleg er þegar taka þarf ákvörðun um aðgerðir.
    Ekki tekst alltaf nauðsynleg samvinna milli sjúklings og læknis um nauðsynlegar aðgerðir vegna sóttvarna. Í lögum um smitsjúkdóma hefur frá upphafi verið að finna ákvæði þess efnis að heilbrigðisyfirvöld skuli njóta liðsinnis lögregluyfirvalda sé þess þörf. Hér er einnig slíkt heimildarákvæði.

Um 5. gr.


    Hér er verksvið sóttvarnalæknis skilgreint nánar. Hann skal sjá um að skipuleggja og samræma sóttvarnir um land allt, fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma og koma upplýsingum þar að lútandi áleiðis til lækna og annarra sem á slíkum upplýsingum þurfa að halda. Þá skal hann vera læknum og öðrum sem við sóttvarnir fást til ráðgjafar og hafa umsjón með forvarnastarfi á þessu sviði.

Um 6. gr.


    Rétt þykir að setja á laggirnar sérstakt ráð, sóttvarnaráð, til að móta stefnu í málum sóttvarna og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Árið 1986 skipaði heilbrigðisráðherra samstarfs- og ráðgjafarnefnd, farsóttanefnd, sem fékk það hlutverk að fylgjast með farsóttum og gera tillögur um aðgerðir til að hindra útbreiðslu þeirra. Gert er ráð fyrir að starf þessarar nefndar leggist niður ef ákvæði frumvarpsins um sérstakt sóttvarnaráð nær fram að ganga.
    Gert er ráð fyrir að sóttvarnaráð verði skipað sjö mönnum, sérfræðingum á sviði smitsjúkdómalækninga, bakteríufræði, veirufræði, kynsjúkdóma og faraldsfræði/heilbrigðisfræði, heilsugæslulækni og hjúkrunarfræðingi með sérþekkingu á sviði sóttvarna.
    Loks er gert ráð fyrir að fulltrúar Hollustuverndar ríkisins og embættis yfirdýralæknis sitji fundi ráðsins þegar fjallað er um mál sem snerta þessar stofnanir.
    Ráðið skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og skal sóttvarnalæknir vera ritari þess.

Um 7. gr.


    Orðalag greinarinnar er í samræmi við ákvæði í gildandi löggjöf um þessi efni.

Um 8. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við fyrirmæli í gildandi lögum.

Um 9. gr.


    Smitsjúkdóma skal tilkynna á þar til gerðum eyðublöðum til héraðslæknis eða sóttvarnalæknis. Þessi skylda hvílir jafnt á læknum sem forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana.

    Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um starfsemi rannsóknastofa sem greini sjúkdóma er lög þessi taka til og um eftirlit með þeim.

Um 10. gr.


    Hér eru ákvæði um skyldu lækna til að tilkynna héraðslækni eða sóttvarnalækni ef þeir komast að því í starfi sínu að smitaður einstaklingur fylgi ekki fyrirmælum um hegðun. Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lagaákvæðum um sóttvarnir.

Um 11. gr.


    Heilbrigðisfulltrúar og formenn heilbrigðisnefnda, samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og dýralæknar skulu tilkynna viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni jafnskjótt og þeir hafa orðið varir við hugsanlega smithættu. Á sama hátt skal héraðslæknir tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd eða dýralækni eftir því sem við á þegar hinum fyrrnefndu verður kunnugt um smithættu. Sóttvarnalæknir skal gefa heilbrigðisnefndum og dýralæknum nauðsynlegar upplýsingar og ráð og hafa eftirlit með því að til viðeigandi ráðstafana sé gripið. Heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúar og dýralæknar skulu aðstoða við sóttvarnir og gefa nauðsynleg fyrirmæli um viðeigandi ráðstafanir ef hætta er á að dýr, matvæli, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómum.

Um 12. gr.


    Hér er mælt fyrir um viðbrögð sóttvarnalæknis ef tilkynningar benda til að farsótt sé í uppsiglingu. Í því tilviki skal hann þegar í stað gera heilbrigðisráðherra viðvart. Ráðherra ákveður að tillögu sóttvarnaráðs hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana. Erfitt er að telja slíkar ráðstafanir tæmandi þar sem ekki er hægt að sjá fyrir þær aðstæður sem gætu komið upp. Þær opinberu sóttvarnaráðstafanir, sem taldar eru í greininni, eru hinar sömu og í gildandi lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að sóttvarnalæknir eða héraðslæknar geti beitt slíkum vörnum til bráðabirgða ef þeir telja hvers konar töf hættulega en gera skulu þeir ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.

Um 13. gr.


    Ísland gerðist aðili að sóttvarnasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1952. Gildandi sóttvarnareglugerð, nr. 229/1971, hefur að geyma ýmis ákvæði í samræmi við þann samning. Rétt þykir að hafa í þessu frumvarpi almennt ákvæði sem heimili að setja reglugerð um sóttvarnaráðstafanir sem grípa má til vegna smithættu og eru í samræmi við þá alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

Um 14. gr.


    Hér er lýst þeim tilvikum sem talið er að réttlæti það að grípa til nauðsynlegra aðgerða án samþykkis einstaklings. Á það er hins vegar lögð áhersla að reynt sé til þrautar að ná samvinnu við sjúkling áður en gripið verður til þvingunaraðgerða og að það verði ekki gert nema brýna nauðsyn beri til. Þá er gert ráð fyrir að ákvörðun sóttvarnalæknis eða héraðslæknis um aðgerðir af þessu tagi séu kæranlegar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.

Um 15. gr.


    Hér er fjallað nánar um einangrun smitbera á sjúkrahúsi eða annars staðar.
    Talið er eðlilegt að þessum heimildum til frelsisskerðingar megi einnig beita í þeim tilvikum er maður, sem haldinn er smitsjúkdómi, fellst ekki á að fylgja reglum um meðferð og umgengni eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum. Einangrun yrði ýmist á sjúkrahúsi eða með öðrum hætti.
    Mikilvægt er að tryggja rétt hins smitaða við þvingunaraðgerðir sem nauðsynlegar eru taldar til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og að slík mál hljóti skjóta úrlausn. Gert er ráð fyrir að sóttvarnalæknir beri ákvörðum um einangrun í lengri tíma en tvo sólarhringa, sem ákveðin er í andstöðu við hinn smitaða, undir héraðsdóm. Í kröfu sóttvarnalæknis skal koma fram ítarleg lýsing á málavöxtum og þau gögn sem málið kunna að varða. Þá er einnig gert ráð fyrir að dómari geti aflað gagna af sjálfsdáðum. Tilgangur þess er að tryggja að þrátt fyrir hraða málsmeðferð sé niðurstaða byggð á öllum nauðsynlegum gögnum. Úrskurður héraðsdóms er kæranlegur til Hæstaréttar. Málsmeðferð fyrir dómi eða kæra til Hæstaréttar fresta þó ekki framkvæmd einangrunar. Ákvæðið byggir í grundvallaratriðum á III. kafla lögræðislaga, nr. 68/1984, sem fjallar um vistun einstaklinga á sjúkrahúsi gegn vilja þeirra.

Um 16. gr.


    Rétt þykir að setja í sóttvarnalög ákvæði þess efnis að starfrækja skuli göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma. Rétt þykir einnig að heilbrigðisráðherra ákveði á hvaða sjúkrahúsum skuli vera aðstaða til einangrunar vegna sóttvarna. Þá þykir og rétt að ráðherra ákveði hvaða rannsóknastofur ábyrgist greiningu sýna úr einstaklingum sem talið er að kunni að vera smitaðir.

Um 17. gr.


    Rétt þykir að kostnaður vegna framkvæmdar laganna greiðist að öllu jöfnu með sama hætti og annar sjúkra- og lækniskostnaður og að hlutdeild sjúklinga í þeim kostnaði fari eftir almennum reglum um það efni. Hins vegar þykir eðlilegt að heimila að undanþiggja greiðsluhlutdeild sjúklinga sem leita til sérdeilda sem stunda forvarnir og sjúklinga sem boðaðir eru til skoðunar vegna leitar að smitberum. Rétt þykir að ráðherra geti með reglugerð ákveðið hvaða deildir geti veitt þjónustu, sjúklingum að kostnaðarlausu. Markmið með slíkri undanþágu er að stuðla að því að vissir hópar sjúklinga, svo sem unglingar með kynsjúkdóma, leiti nauðsynlegrar læknishjálpar án þess að fjárhagsaðstæður hamli því. Ætla má að í því felist sparnaður þegar til lengri tíma er litið.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf en gildistaka frumvarpsins hefur í för með sér allnokkra lagahreinsun.

Um fylgiskjal.


Markmið.
    Skráning og tilkynning smitsjúkdóma með reglubundnum og kerfisbundnum hætti þjónar þeim tilgangi að afla upplýsinga um feril þeirra á hverjum tíma þannig að unnt sé að skipuleggja og grípa til varnaraðgerða gegn þeim og til þess að hægt sé að fylgjast með árangri ónæmisaðgerða og annarra forvarna gegn smitsjúkdómum. Upplýsingaöflunin hefur einnig þýðingu við að fylgjast með langtímabreytingum á nýgengi og algengi smitsjúkdóma.

Forsendur framkvæmdar.
    Nauðsynlegt er að einungis mikilvægir smitsjúkdómar séu skráðir og tilkynntir og að slíkar aðgerðir séu skilvirkar. Skráningar- og tilkynningarformið þarf að vera eins einfalt og mögulegt er og niðurstöður um útbreiðslu smitsjúkdóma þurfa að berast læknum með reglubundnum og skýrum hætti þannig að þær nýtist í daglegu starfi til sóttvarna og til fróðleiks.

Aðferð.
    Öflun upplýsinga um útbreiðslu smitsjúkdóma getur farið fram með tvennum hætti. Annars vegar með skráningu, þ.e. talningu á fjölda smitaðra án persónuauðkenna, og hins vegar með tilkynningu, þ.e. persónuauðkennum hins smitaða með upplýsingum um smitleiðir.
    Tilgangur skráningar á heildarfjölda smitaðra einstaklinga án persónuupplýsinga er sá að fá faraldsfræðilega yfirsýn yfir þýðingarmikla smitsjúkdóma þar sem það hefur ekki hagnýta þýðingu að þekkja til einstaklinganna við sóttvarnir.
    Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm með persónueinkennum hins smitaða er sá að hindra útbreiðslu smits með aðgerðum sem beinast að hinum smitaða, t.d. með einangrun, meðferð og rakningu smits milli einstaklinga eða frá menguðum matvælum, vatni eða öðrum efnum til einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða að fylgja tilkynningunni upplýsingar um líklegan smitunarstað og smitunartíma og einkenni til að tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti og meta áhrif smitsins.

Alþjóðlegar skuldbindingar.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin samþykkti árið 1969 alþjóðlegar heilbrigðisreglur (International Health Regulations) með breytingum sem tóku gildi 1973 og aftur 1981. Hefur Ísland skuldbundið sig til að fylgja þeim án fyrirvara. Í reglugerðinni eru tilgreindir eftirtaldir sjúkdómar sem lúta tilkynningarskyldu til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:
    svarti dauði,
    kólera og
    gulusótt (febris flava).

Sjúkdómar sem skrá skal án persónueinkenna.
    Í frumvarpi til sóttvarnalaga er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð yfir skráningarskylda smitsjúkdóma. Í fylgiskjali er tillaga að lista yfir skráningarskylda sjúkdóma. Þar eru taldir smitsjúkdómar sem ástæða er til að fylgjast með, t.d. til þess að meta árangur ónæmisaðgerða. Þar er einnig að finna ýmsa sjúkdóma sem ekki eru landlægir á Íslandi en gætu borist til landsins og náð útbreiðslu hér. Sumir sjúkdómar geta augljóslega ekki náð að breiðast út hér á landi, t.d. malaría, en mikilsvert er að fá upplýsingar um gagnsemi forvarnaraðgerða gegn slíkum sjúkdómum meðal ferðalanga.

Sjúkdómar sem tilkynna skal einstaklingsbundið.
    Í frumvarpi til sóttvarnalaga er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði að fengnum tillögum sóttvarnaráðs hvaða smitsjúkdómar eru tilkynningarskyldir. Hugmyndin er að smitsjúkdómar, sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill, og þar sem vitneskja um smitaðan einstakling hefur þýðingu við upprætingu smits, skuli tilkynntir. Í þessum flokki er einnig gert ráð fyrir að alvarlegir smitsjúkdómar, sem ekki munu ná mikilli útbreiðslu, verði tilkynntir ef ekki er hægt að hindra útbreiðslu þeirra með öðrum hætti en að þekkja til smitaðra einstaklinga.
    Þegar um er að ræða sjúkdóma þar sem persónulegar upplýsingar eru sérstaklega viðkvæmar, eins og við samræðis- eða kynsjúkdóma, þarf meðhöndlandi læknir að afla sér þeirra til að geta rakið smit. Til þess að rjúfa ekki trúnað í slíkum tilvikum þarf að tilkynna slíka sjúkdóma til sóttvarnalæknis með hluta nafnleyndar (semianonymt) þannig að einstaklingur þekkist ekki, en jafnframt verði komist hjá tvískráningu eins og hægt er. Meðhöndlandi læknir tilkynnir hins vegar sjúkdóminn með nauðsynlegum persónuauðkennum til sóttvarnalæknis ef sjúklingur fylgir ekki fyrirmælum eins og lögin kveða á um. Í fylgiskjali er tillaga að lista yfir sjúkdóma sem vænta má að yrðu tilkynningarskyldir.
    Að lokum eru í fylgiskjalinu þeir sjúkdómar skáletraðir sem Íslendingar eru skuldbundnir til að tilkynna til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    Það eru nýmæli í sóttvarnalögunum að ráðherra geti fjölgað eða fækkað tilkynningarskyldum sjúkdómum. Lögin sem slík nefna enga ákveðna smitsjúkdóma, þau kveða aðeins á um hvaða almenn skilyrði smitsjúkdómar þurfi að uppfylla til að teljast tilkynningarskyldir. Reynslan sýnir að smitsjúkdómar taka breytingum þannig að ástæða kann að vera til að fella burt tilkynningarskyldu eða nýr skaðvænlegur smitsjúkdómur birtist sem ástæða er til að tilkynna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til sóttvarnalaga.


    Í frumvarpi þessu eru endurskoðuð og sameinuð í ein lög fleiri eldri lög um sóttvarnir og skyld efni um leið og bætt er við nokkrum nýjungum.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að ráða skuli sérstakan sóttvarnalækni til embættis landlæknis til að sinna sóttvörnum. Launakostnaður vegna þess læknis er talinn nema um 5,5 m.kr. á ári, og er þá miðað við heildarlauna- og námskostnað hliðstæðra embættislækna í þjónustu ríkisins. Þetta embætti hefur ekki verið til fram að þessu, en nú er starfandi sóttvarnalæknir við embætti landlæknis í 30% starfi sem farinn er að gegna þeim hlutverkum sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu. Engin sérstök fjárveiting er til landlæknisembættisins vegna þessa, hvorki í fjárlögum 1996 né er gert ráð fyrir henni í frumvarpi til fjárlaga 1997.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir að sóttvarnalæknir hafi með höndun víðtæka skipulagningu sóttvarna og skráningu smitsjúkdóma. Það starf mun a.m.k. útheimta eitt stöðugildi sem áætlað er að kosti um 1,5 m.kr. Önnur rekstrargjöld tengd hinu nýja embætti má áætla að nemi 2,5 m.kr. og er það einnig byggt á hliðstæðri reynslu. Samtals má ætla að embættið muni kosta a.m.k. 9,5 m.kr. á ári.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstakri nefnd, sóttvarnanefnd, sem í munu sitja sjö menn. Tekur hún við af núverandi farsóttanefnd með jafnmörgum mönnum. Sú nefnd fær um 1 m.kr. á ári í laun og er ekki gert ráð fyrir að sá kostnaður breytist.
    Í þessu frumvarpi er m.a. að finna þau nýmæli (16. gr.) að starfrækja skuli göngudeildir sem veiti meðferð og reki smitleiðir tilkynningarskyldra smitsjúkdóma. Í Reykjavík er þegar búið að setja á stofn slíka göngudeild á endurkomudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur en þar er sá tími dags nýttur þegar minnst álag er frá öðrum sjúklingum.
    Á árinu 1995 var 5 m.kr. varið til að hefja starfsemi smitsjúkdómadeildar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Fjármunirnir voru notaðir til að kaupa tölvubúnað og ýmsan upphafsbúnað til að koma deildinni af stað auk þess sem sérfræðingur var lausráðinn til að stofna deildina. Sú deild er nú starfandi og er orðin hluti af heildarrekstri sjúkrahússins.
    Árlegur beinn rekstrarkostnaður smitsjúkdómadeildar við Sjúkrahús Reykjavíkur er talinn vera sem hér segir: Laun læknis 3,5 m.kr., laun ritara og ýmis skrifstofuþjónusta sjúkrahússins 2 m.kr. og annar kostnaður (almennar rekstrarvörur) 1 m.kr., samtals 6,5 m.kr. Að mati Sjúkrahúss Reykjavíkur munu sértekjur af deildinni verða óverulegar þar sem ekki er vitað hve margir munu sækja til hennar.
     Samtals má gera ráð fyrir að viðbótarútgjöld ríkissjóðs verði um 16 m.kr. við stofnun embættis sóttvarnalæknis og göngudeildar fyrir smitsjúkdóma við Sjúkrahús Reykjavíkur. Þar af er 6,5 m.kr. árlegur kostnaður við rekstur smitsjúkdómadeildarinnar þegar orðinn til sem hluti af heildarrekstrarkostnaði Sjúkrahúss Reykjavíkur. Verði fleiri göngudeildir settar á fót mun kostnaður ríkissjóðs aukast að sama skapi.