Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 202 . mál.


228. Tillaga til þingsályktunar



um sölu afla á fiskmörkuðum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Jóhanna Sigurðardóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Gísli S. Einarsson, Ásta B. Þorsteinsdóttir.



    Alþingi ályktar að allur sjávarafli sem seldur er innan lands skuli seldur á fiskmörkuðum.

Greinargerð.


    Miklar breytingar eiga sér nú stað í íslenskum sjávarútvegi. Þær eiga m.a. rætur að rekja til tæknibreytinga á sviði fjarskipta og upplýsingastreymis, bættra samgangna og möguleika til skjótra flutninga, fiskveiðistjórnunarkerfisins og markaðsvæðingar veiðanna, svo og þess að fiskmarkaðir hafa haslað sér völl síðastliðin tíu ár. Á fiskmörkuðum eru nú árlega seld um 100 þúsund tonn af bolfiski fyrir um 10 milljarða kr.
    Fiskmarkaðirnir hafa með sér samstarf um allt land, m.a. með því að nýta sér nýjustu fjarskiptatækni þannig að hvar sem skip eru stödd eða verkendur er mögulegt að koma á viðskiptum á skjótan hátt. Verð á fiskmörkuðunum hefur einnig orðið viðmið verðlagningar þess afla sem aðrir hafa samið um í svokölluðum beinum viðskiptum.
    Verðmyndun utan fiskmarkaða hefur farið þannig fram að mikil tortryggni hefur skapast milli sjómanna og útgerðarmanna, ekki síst vegna fjölmargra dæma um að sjómenn séu með ýmsu móti látnir bera kostnað af kaupum eða leigu á veiðiheimildum. Verðlagningin er einatt þannig að erfitt er að greina á milli hvaða hluti hennar er fiskverð, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu, og hvað er kvótaleiga eða kaup.
    Annar afli sem seldur er innan lands, þar með talin rækja, er seldur í beinum viðskiptum. Í þeim viðskiptum kemur virði kvótans einatt fram þó að oftast sé um að ræða viðskipti handhafa kvótans við sjálfa sig. Það getur haft afgerandi áhrif á gengi vinnslu eða útgerðar hvar kostnaður við öflun hráefnis og virði kvótans er skráð.
    Sjómenn sjálfir hafa ítrekað og með auknum þunga krafist þess að allur fiskur verði seldur á fiskmarkaði, enda væri verðlagningin þá gagnsæ og ljóst hvert raunverulegt skiptaverð væri.
    Miðað við umfang á framsali veiðiheimilda má ætla að sá hópur útgerðarmanna sem fæst bæði við vinnslu og veiðar taki einnig þátt í „tonni á móti tonni“ eða öðrum aðferðum sem útgerðin hefur beitt til að sérhæfa sig og ná hámarkshagnaði. Vinnslan hefur líka þurft að sérhæfa sig í vinnsluaðferðum og tegundum hráefnis. Hluti af framsalinu er því til þess að tryggja vinnslunni ákveðna tegund hráefnis. Því má segja að í stað þess að versla eðlilega á markaði með veiddan afla hafi þörf vinnslunnar fyrir aukna sérhæfingu leitt til framsals veiðiheimilda.
    Hagsmunir útgerðar og sjómanna eiga að fara saman við verðlagningu á sjávarafla. Verðlagning á sjávarfangi á að heita frjáls. Hins vegar hafa útgerðarmenn í mörgum tilvikum ákveðið einhliða það verð sem greitt er til áhafna skipanna. Þrátt fyrir skýr ákvæði kjarasamninga og laga um að óheimilt sé að sjómenn taki þátt í kostnaði útgerðar við öflun veiðiheimilda hafa útgerðarmenn verðlagt afla til áhafna með tilliti til kostnaðar við öflun þeirra.
    Tilraunir til að finna lausn á þessum vanda við verðlagningu hafa verið gerðar í tvígang á síðustu tveimur árum. Annars vegar var vorið 1994 sett á fót samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Sú tilraun mistókst gjörsamlega vegna viljaleysis útvegsmanna til að taka á vandanum. Hins vegar var í síðustu kjarasamningum sett á fót úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna til að úrskurða um fiskverð þegar ekki næðist samkomulag milli útgerðarmanna og áhafna um aflaverð. Í mörgum tilvikum hafa útvegsmenn hunsað nefndina og beitt sjómenn þvingunum til að geta verðlagt aflann eftir eigin geðþótta. Ljóst er því að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna getur ekki leyst þau vandamál sem við blasa við verðlagningu á afla.
    Það hlýtur að vekja upp spurningar um af hverju viðsemjendur sjómanna, útgerðarmenn, vilja ekki að afli sé verðlagður á markaði. Er tregða útgerðarmanna gagnvart fiskmörkuðunum tengd því að ef afli er seldur á fiskmarkaði kemur rétt skiptaverð fram?
    Með því að breyta leikreglum þannig að viðskipti á markaði séu áskilin við sölu afla til vinnslu má eyða tortryggni milli útgerðar og sjómanna og tryggja að þeir sem ná bestum árangri stundi fiskvinnslu á hverjum tíma, en formaður Verkamannasambandsins hefur í umræðum um kjör fiskvinnslufólks bent á að ef til vill sé afnotarétturinn af auðlindinni ekki í höndum réttra aðila fyrst árangurinn er ekki betri.
    Sala alls afla sem seldur er innan lands um fiskmarkaði er ekki aðeins réttlætismál fyrir sjómenn heldur einnig mikilvægt hagsmunamál vinnslunnar svo að hún geti sérhæft sig enn frekar og gert betur.
    Samþykkt þessarar tillögu felur í sér stefnumörkun Alþingis. Flutningsmönnum þykir ekki ástæða til að gefa framkvæmdarvaldinu fyrirmæli um hvernig standa eigi að fullgildingu hennar verði hún samþykkt en sjávarútvegsráðherra mun þá væntanlega flytja frumvarp til breytinga á viðeigandi lögum.