Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 227 . mál.


307. Tillaga til þingsályktunar



um stöðu drengja í grunnskólum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem leiti orsaka þess að drengir eiga við meiri félagsleg vandamál að etja í grunnskólum en stúlkur og námsárangur þeirra er lakari. Jafnframt því að greina orsakir aðlögunarvanda drengja verði nefndinni falið að benda á leiðir til úrbóta.
    Nefndina skipi fagfólk á sviði uppeldis- og kennslumála og að því stefnt að hún skili af sér í tíma svo að unnt verði að taka tillit til niðurstaðna hennar og tillagna við gerð nýrrar námsskrár fyrir grunnskóla sem taka á gildi árið 1998.

Greinargerð.


    Það hefur lengi verið umræðu- og áhyggjuefni margra skólamanna hve staða drengja í skólakerfinu hefur almennt verið önnur og að ýmsu leyti erfiðari en stúlkna. Þeir aðlagast ekki jafn vel kröfum og væntingum skólans og stúlkurnar. Kannanir hafa sýnt að drengir taka mun meira af tíma kennarans en stúlkur þar sem vandamálin sem kennarinn og skólinn þurfa að fást við, hvort sem þau eru tengd námi eða aga, tengjast mun oftar drengjum. Drengir eru miklu fleiri í hópi þeirra sem þurfa á sérþjónustu og stuðningi innan skólanna að halda. Þá hefur námsárangur stúlkna verið betri. Síðastliðið vor voru stúlkur með hærri meðaleinkunn en drengir í öllum fjórum greinum samræmdra prófa 10. bekkjar.
    Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar eru til um mismunandi kynjahlutfall þeirra sem njóta sérþjónustu og stuðnings í skólunum. Drengir eru yfir 70% þeirra nemenda sem taldir eru þurfa sérkennslu í grunnskólunum. Sama er uppi á teningnum þegar röðin kemur að sérdeildum skólanna, þar eru drengirnir einnig u.þ.b. 70% nemenda. Þá er um svipað hlutfall að ræða þegar litið er til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskólanna. En með slíkri aðstoð hefur grunnskólinn reynt að koma til móts við mismunandi stöðu og þarfir nemenda sinna. Það er hins vegar ljóst að leita þarf orsaka þess að drengjum tekst almennt verr að fóta sig í skólakerfinu en stúlkum. Þegar orsakirnar eru ljósar er líklegra að unnt verði að mæta þörfum drengjanna strax við upphaf skólagöngu í stað þess að takast síðar á við afleiðingar þess að skólinn, eins og hann er uppbyggður, virðist síður henta drengjum en stúlkum.
    Sérfræðingar hafa sett fram tilgátur um að þroski kynjanna sé mismunandi þegar grunnskólanám hefst. Þannig sé námið fyrstu árin eins og eðlilegt framhald af leikjum og föndri stúlknanna en drengirnir eigi mun erfiðara með bæði fínhreyfingar og tjáningu. Þetta rímar við tilfinningu margra kennara. Markviss þjálfun strax í leikskóla gæti bætt úr ef niðurstaðan verður sú að taka þyrfti sérstaklega á þessum þáttum. Einnig hefur verið bent á að unglingspiltar eigi erfiðara með að tjá sig með orðum en stúlkur og því líklegri til að birgja inni tilfinningar sínar eða láta hendur skipta. Um 65% skjólstæðinga Unglingaheimilis ríkisins hafa verið piltar. Afskipti lögreglu af unglingum sýna einnig að piltar eru mun líklegri til að lenda undir eftirliti lögreglu, eða 86% á móti 14% stúlkna. Dauði af völdum slysa er einnig margfalt algengari meðal drengja og unglingspilta. Sama á við um sjálfsvíg.
    Ein ástæða þess að drengir eiga við aðlögunarvanda að etja í skólum er talin sú að fáir karlar eru við kennslu í grunnskólum og leikskólum og því fáar fyrirmyndir sem þeir geta samsamað sig. Þessi staðreynd er þeim mun alvarlegri að margir feður vinna fjarri heimilum og u.þ.b. fjórðungur barna býr með einstæðum mæðrum. Karlmaður sem starfar sem kennari getur því verið raunveruleg fyrirmynd þeim börnum sem lítt kynnast körlum í uppeldi sínu. Hann er a.m.k. staðfesting þess að karlar sinna líka uppeldisstörfum.
    Drengir fá skilaboð frá umhverfinu um hvers konar manneskjur þeir eigi að vera. Bæði fagfólk og foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af því að í nútímasamfélagi sé drengjum boðið upp á stöðugt verri fyrirmyndir og að hetjuímyndin verði sífellt ofbeldiskenndari. Það hefur komið í ljós að fyrirmyndir drengja sem leita til skólasálfræðinga eru ekki raunverulegir karlmenn heldur oftar einhvers konar ofurmenni myndbanda og kvikmynda.
    Því hefur oft verið haldið fram að karlmenn eigi verra en konur með að sýna tilfinningar og vinna úr þeim. Skoða má sjálfsvíg og áfengisneyslu karla út fá því. Uppeldi er talið eiga hér stærstan þátt en sárlega vantar rannsóknir á orsökum þess kynjamunar sem hér hefur verið rakinn.
    Jafnréttisbaráttan hefur aðallega verið háð af konum. Hún hefur leitt til þess að losnað hefur um staðlaða ramma kvenímyndarinnar og staða kvenna hefur að ýmsu leyti breyst. Ábyrgð á börnum og heimili er þó enn hlutskipti flestra kvenna og kann að vera ein af orsökum þess launamisréttis sem þær búa við. Við þessu þarf að bregðast. Það verður ekki gert nema við beinum sjónum okkar einnig að stöðu og uppeldi drengja og leitum orsaka þess munar sem hér hefur verið rakinn. Fyrirferð drengjanna innan skólanna er ekki einhlít vísbending um sterka stöðu þeirra, heldur e.t.v. þvert á móti. Athyglin sem þeir fá er oft fyrst og fremst neikvæð. Á meðan bíða stúlkurnar prúðar eftir að röðin komi að þeim.
    Þótt þessi tillaga taki einungis til stöðu drengja í grunnskólanum er ljóst að sum þeirra vandamála sem leita þarf orsaka fyrir og taka á er einnig að finna bæði í leikskóla og framhaldsskóla. Að svo miklu leyti sem staða drengja og pilta á þeim skólastigum hefur verið könnuð hafa niðurstöður verið áþekkar.