Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 1 . mál.


464. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Frá því að 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið lauk hefur fjárlaganefnd farið yfir tekjuhlið þess, fjallað um B-hlutastofnanir og 6. gr. frumvarpsins og afgreitt mál sem meiri hluti nefndarinnar og ríkisstjórn ákváðu að fresta til 3. umræðu. Þá hefur nefndin endurskoðað afgreiðslu nokkurra mála á milli 2. og 3. umræðu.

Tekjur ríkissjóðs.
    
Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1996 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 120,9 milljarðar kr. Endurskoðuð tekjuáætlun fjármálaráðuneytis gerir nú ráð fyrir að tekjurnar verði 127,2 milljarðar kr. Tekjur umfram áætlun fjárlaga nema því rúmum 6,3 milljörðum kr. Frá árinu 1995 hafa tekjurnar aukist um tæpa 12,8 milljarða kr. Ljóst er að þjóðhagsforsendur fjárlaga ársins 1996 hafa reynst fjarri lagi. Fjárfesting hefur aukist um 7,7% umfram þjóðhagsforsendur fjárlaganna og einkaneysla um 2,8%. Þá hafa ráðstöfunartekjur einstaklinga aukist talsvert meira en áætlað var.
    Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir talsvert minni umsvifum á því ári miðað við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að fjárfesting aukist einungis um 5,5% í stað 24% á yfirstandandi ári ef forsendur ganga eftir og aukning einkaneyslunnar verði 3,5% samanborið við 7,0% í ár. Miðað við áætlaða aukningu þjóðarútgjalda og flutning á hluta staðgreiðslunnar til sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 1,1 milljarð kr.
    Miðað við þau umsvif og væntingar sem hafa verið í efnahagslífinu að undanförnu, svo og með hliðsjón af því vanmati sem iðulega hefur verið í þjóðhagsforsendum fjárlaga, sbr. yfirstandandi ár, telur minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs þróist ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og endurskoðaðri tekjuspá. Eins og fram kom við 2. umræðu taldi minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu væru vantaldar um 1,5–2,0 milljarða kr. Þrátt fyrir að endurskoðuð tekjuáætlun hafi hækkað tekjurnar um 600 millj. kr. telur minni hlutinn að enn vanti um 1,0–1,2 milljarða kr. á tekjuhlið frumvarpsins. Eru það fyrst og fremst veltuskattarnir, m.a. innflutnings- og vörugjöld, og virðisaukaskattur sem telja verður að skili meiri tekjum en hér kemur fram miðað við þær þjóðhagsforsendur sem frumvarpið byggist á.
    Fátt bendir nú til þess að umsvifin minnki á næsta ári. Að undanförnu hafa líkur aukist verulega á að ráðist verði í byggingu nýs álvers á Grundartanga ásamt stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Að mati Þjóðhagsstofnunar munu þessar framkvæmdir, ásamt nauðsynlegum stækkunum á orkumannvirkjum, valda því að fjárfesting og almenn umsvif í þjóðarbúskapnum stóraukast á næsta ári miðað við það sem áður hefur verið áætlað. Þó að eingöngu yrði ráðist í byggingu nýs álvers stefnir í 25% aukningu fjárfestingar sem er tæplega fimmfalt meiri aukning en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Lauslegt mat Þjóðhagsstofnunar bendir einnig til þess að áhrif þessara framkvæmda verði um 4,3% aukning landsframleiðslu í stað 2,5% og aukning þjóðarútgjalda um 7,1% í stað áætlaðra 3,5%. Ef þetta gengur eftir mundu helstu hagstærðir breytast á svipaðan hátt og fyrirsjáanlegt er að reyndin verði í ár. Rétt er að minna á að efnahagsþróun á þessu ári hefur leitt til þess að tekjur ríkissjóðs á árinu aukast að öllum líkindum um tæpa 12,8 milljarða kr. eða ríflega 11% frá árinu 1995.
    Eins og áður hefur komið fram taka forsendur fjárlagafrumvarpsins ekkert mið af líklegum framkvæmdum við nýtt álver á árinu 1997. Minni hlutinn óskaði eftir því að reiknuð yrðu út áhrif þessa á tekjuhlið ríkissjóðs. Ekki var orðið við þeirri beiðni. Af þessum sökum liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um áhrif þessara framkvæmda á ríkissjóðstekjur. Ekki er þó óvarlegt að áætla, miðað við þá aukningu þjóðarútgjalda sem framkvæmdirnar hefðu í för með sér, að tekjuauki af þessu verði ekki undir 5 milljörðum kr.

Heilbrigðismál.
    Ekki tókst að afgreiða tillögur um rekstur sjúkrastofnana við 2. umræðu fjárlaga og ýmsir aðrir þættir biðu nánari skýringa. Þótt enn sé margt óljóst í þeim efnum fer þó ekki á milli mála að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið áformar að lækka útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála um rúmar 1.300 millj. kr. og er þá undanskilinn rekstrarhalli sjúkrahúsanna í Reykjavík sem er á bilinu 400–500 millj. kr. auk 300 millj. kr. sem þau eru talin geta velt á undan sér. Þá er ótalinn vandi sjúkrahúsanna úti á landi sem er í raun óskilgreindur. Ár eftir ár hafa verið áform um stórfelldan sparnað í rekstri þeirra og á næsta ári var fyrirhugað að ná fram hagræðingu sem næmi 160 millj. kr. Nú hefur þeirri áætlun verið breytt á þann veg að á næsta ári náist 60 millj. kr. sparnaður, aðrar 60 millj. kr. eiga að sparast árið 1998 og 40 millj. kr. árið 1999. Þessar fyrirætlanir hafa ekki verið útfærðar á nokkurn hátt.
    Áformað er að lækka sjúkratryggingar um 910 millj. kr. á næsta ári, þar af eru 260 millj. kr. millifærðar frá Framkvæmdasjóði aldraðra til greiðslu hjúkrunardaggjalda. Þá er enn eitt árið ætlunin að lækka útgjöld vegna lyfjakostnaðar, m.a. með breytingu á greiðsluhluta sjúklinga. Útfærsla þeirra áforma er svo óljós að engin leið er að sjá fyrir hver áhrif það hefur til hækkunar á hlut sjúklinga. Ætlunin er að lækka kostnað ríkissjóðs af rannsóknum, röntgenþjónustu og læknisþjónustu um 170 millj. kr. Því markmiði hyggst ráðuneytið ná með endurskoðun samninga og fyrirkomulagi á greiðslum fyrir röntgenþjónustu, m.a. með strangari ákvæðum um tilvísanir á slíka þjónustu og nánari skilgreiningu á þeim verkum sem almannatryggingar taka þátt í að greiða. Ef að líkum lætur koma þessi áform að lokum niður á þeim sem á þjónustunni þurfa að halda. Þá er fyrirhugað að spara 80 millj. kr. í þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar sem helst virðist eiga að ná með því að takmarka þjónustu við börn, en það hlýtur að teljast varhugaverð ráðstöfun svo að ekki sé meira sagt. Sparnaður lífeyristrygginga vegna fjármagnstekjutengingar er talinn nema 140 millj. kr. á næsta ári, en ef það sýnist ekki munu ganga eftir hyggst ráðuneytið leggja fram frekari tillögur til sparnaðar, svo að lífeyrisþegum er vissara að vera við öllu búnir. Þar virðist ráðuneytið telja að breiðu bökin sé að finna. Til viðbótar má svo geta þess að bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eru lækkaðar í samræmi við þau áform ríkisstjórnarinnar að herða eftirlit með útgreiðslu heimildarbóta og ná þannig fram 100 millj. kr. sparnaði til viðbótar við 140 millj. kr. niðurskurðinn á þessu ári.
    Minni hlutinn styður ráðdeild og sparnað í heilbrigðismálum, ekki síður en öðrum málaflokkum, en staðreyndin er sú að niðurskurðurinn hefur farið fram úr öllu velsæmi, valdið ómældum þjáningum og síauknu álagi á hjúkrunarfólk og aðstandendur sjúkra.

Samgöngumál.
    Langmestur hluti fjár til samgöngumála rennur til vegamála. Annað árið í röð er niðurskurði ríkissjóðs beint sérstaklega að þessum þætti ríkisfjármála og að teknu tilliti til breytinga á fjárlögum með fjáraukalögum hefur stjórnarflokkunum orðið hvað mest ágengt þar. Miðað við framkomnar tillögur verður um 20% niðurskurður á fé til nýframkvæmda á næsta ári sé miðað við gildandi vegáætlun og er það heldur hraustlegri niðurskurður en gripið var til á þessu ári.
    Framlög til vegamála eru sérstök að því leyti að þau eru borin uppi af mörkuðum tekjustofnum og hafa aðeins að litlu leyti notið framlaga úr ríkissjóði. Á þessu ári eru horfur á að markaðir tekjustofnar skili um 280 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir. Allur þessi búhnykkur er tekinn í ríkissjóð, auk þess var framlag ríkissjóðs til vegamála fellt niður við gerð fjárlaga 1996 og þar til viðbótar voru ríflega 600 millj. kr. af mörkuðum tekjum færðar í ríkissjóð.
    Á næsta ári á að endurtaka leikinn, fellt er niður framlag úr ríkissjóði til vegamála og hluti af mörkuðum tekjum til vegagerðar tekinn í ríkissjóð. Í stað þess að leggja fram 217 millj. kr. úr ríkissjóði til viðbótar mörkuðum tekjustofnum eru færðar 856 millj. kr. í ríkissjóð, teknar af mörkuðum tekjum til vegagerðar. Til viðbótar þessu er rétt að hafa í huga að nokkrar líkur eru til þess að markaðar tekjur skili hærri fjárhæð á næsta ári en áætlað er í fjárlagafrumvarpinu, eins og gerðist á þessu ári, og verði af fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum má nánast slá því föstu að svo verði. Að óbreyttu mun það gerast á nýjan leik að allar umframtekjur renna í ríkissjóð.
    Á sama tíma og umferð vex stórum um þjóðvegi landsins, einkum þungaflutningar, eru markaðar tekjur til vegagerðar gerðar að hluta til að almennum skatti í ríkissjóð og hægt er á nauðsynlegum framkvæmdum og úrbótum á vegakerfinu. Full ástæða er til þess fyrir stjórnvöld að huga alvarlega að því að auka öryggi vegfarenda og þar með áhrifum af upptöku hluta vegafjár í ríkissjóð.
    Gildandi vegáætlun er fyrir árin 1995–1998 og var hún samþykkt í febrúarmánuði 1995. Mikill stórhugur einkenndi málflutning flutningsmanna og má vitna þar til framsöguræðu samgönguráðherra og nefndarálits þáverandi meiri hluta samgöngunefndar. Í nefndarálitinu stendur: „Ljóst er að tillaga þessi um vegáætlun 1995–1998 boðar framhald mikils framkvæmdaskeiðs í vegamálum sem hófst að marki 1993.“ Varla voru kosningarnar afstaðnar þegar farið var að hafa orð á að nú þyrfti að skera niður. Á þessu ári og því næsta, sem eru aðalframkvæmdaár vegáætlunar, er heiftarlegur niðurskurður hvort ár og stjórnarflokkarnir slá fyrri met í niðurskurði. Er svo komið að vegáætlun er í henglum og bráðnauðsynlegar framkvæmdir í uppnámi og gildir einu hvort um er að ræða höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Framkvæmdaskeiðið mikla í vegamálum, sem bar við himin á vordögum 1995, hefur snúist upp í framkvæmdaskeiðið mikla í niðurskurði sem hnígur til viðar. Á aðeins tveimur árum vantar 1,5–2 milljarða kr. til nýframkvæmda af mörkuðum tekjum til vegagerðar. Þetta afrek núverandi stjórnarflokka verður vonandi ekki slegið í bráð.
    Í hafnarframkvæmdum eru miklar skuldbindingar umfram framlög. Lætur nærri að þær nemi um 700 millj. kr. um þessar mundir eða ríflega eins árs framlagi ríkissjóðs. Þá ber að hafa í huga að óskir um miklar hafnarbætur liggja fyrir og verður ekki lengur dregið að afla meira fjár til þeirra framkvæmda.
    Staða flugmálaáætlunar hefur þegar verið rakin og henni gerð skil og hefur hún fengið heldur hraklega útreið. Örlög áætlana í samgöngumálum eru heldur dapurleg. Að öðru leyti vísast til álits samgöngunefndar sem fylgir með áliti meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu.

Heimildagrein fjárlaga, 6. gr.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að stjórnarflokkarnir hyggjast nota 6. gr. fjárlaga til þess að afla sér heimilda Alþingis til að ráðskast með stór mál sem minni hlutinn telur eðlilegra að hefðu fengið þinglega meðferð í formi frumvarpa. Um er að ræða viðamikil mál og kostnaðarsöm sem nauðsynlegt er að ræða á hinu háa Alþingi. Hér verður Alþingi að gæta að sjálfstæði sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu. M.a. er ekki gert ráð fyrir að haft verði samráð við fjárlaganefnd eða samþykkis hennar aflað. Vafasamt er að taka slíkar ákvarðanir með 6. gr. fjárlaga þar sem m.a. er verið að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma en sem nemur fjárlagaárinu.

Lokaorð.
    Minni hlutinn flutti nokkrar breytingartillögur við 2. umræðu fjárlaga. Nokkrar þeirra voru dregnar til baka og eru nú endurfluttar. Meiri hluti Alþingis felldi hins vegar tillögu minni hlutans um að staðið yrði við lögboðið framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, og hann felldi einnig tillögu um að skila framhaldsskólunum aftur því sem skorið var niður af framlögum til þeirra eins og fram kemur í frumvarpinu. Það vakti hins vegar athygli að tveir stjórnarþingmenn sátu hjá við þá atkvæðagreiðslu og sýndu með því andúð sína á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Þess er vænst að þær tillögur sem dregnar voru til baka við 2. umræðu og eru endurfluttar við 3. umræðu hljóti brautargengi.

Alþingi, 20. des. 1996.



Kristinn H. Gunnarsson,

Bryndís Hlöðversdóttir.

Gísli S. Einarsson.


frsm.



Kristín Halldórsdóttir.






Fylgiskjal I.


Upplýsingar frá heilbrigðisráðuneyti.


(28. nóvember 1996.)




(3 síður.)




(Texti fylgiskjalsins er ekki til í tölvutæku formi.


Prentuð útgáfa af skjalinu er fáanleg í skjalaafgreiðslu Alþingis.)





Fylgiskjal II.


Heilbrigðis- og
tryggingamálaráðuneyti:


MINNISBLAÐ


Aðgerðir til sparnaðar 1997 — staða mála.


(12. desember 1996.)



(4 síður.)