Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 260 . mál.


492. Frumvarp til laga



um réttindi sjúklinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI


Inngangur.


Markmið.


1. gr.


    Markmið laga þessara er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.
    Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Skilgreiningar.


2. gr.

     Sjúklingur: Notandi heilbrigðisþjónustu.
     Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar í heilbrigðisþjónustu og hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til slíkra starfa.
     Meðferð: Rannsókn, aðgerð eða önnur þjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling.
     Vísindarannsókn: Rannsókn sem gerð er til að auka við þekkingu sem gerir kleift að bæta heilsu og lækna sjúkdóma. Mat á rannsókninni verður að hafa leitt í ljós að engin vísindaleg og siðfræðileg sjónarmið mæli gegn framkvæmd hennar.

Gæði heilbrigðisþjónustu.


3. gr.

    Tryggja skal sjúklingum sem sambærilegasta heilbrigðisþjónustu.
    Sjúklingur á rétt á fullkomnustu meðferð sem á hverjum tíma er völ á að veita.
    Sjúklingur á rétt á meðferð og aðbúnaði sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á. Heilbrigðisstarfsmaður skal leitast við að koma á traustu sambandi milli sín og sjúklings.
    Sjúklingur á rétt á samfelldri meðferð og að samstarf ríki milli allra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana sem koma að meðferðinni.

Aðgangur að upplýsingum um réttindi sjúklinga.


4. gr.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skal sjá til þess að til séu upplýsingar um réttindi sjúklinga, sjúklingafélög og almannatryggingar. Heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn skulu hafa þessar upplýsingar aðgengilegar sjúklingum í húsakynnum sínum og á starfsstofum.

II. KAFLI


Upplýsingar og samþykki.


Upplýsingar um heilsufar og meðferð.


5. gr.


    Sjúklingur á rétt á upplýsingum um heilsufar sitt og meðferð.
    Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skulu, eftir því sem við á, gefa sjúklingi upplýsingar um:
    heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
    fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
    önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
    möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.
    Þess skal getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt þessari grein hafi verið gefnar.
    Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu gefnar jafnóðum og tilefni skapast og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingur geti skilið þær.
    Eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum samkvæmt þessari grein.

Undanþágur frá meginreglunni um upplýsingar um heilsufar og meðferð.


6. gr.

    Upplýsingar skv. 5. gr. skal ekki gefa fari sjúklingur fram á að það sé látið ógert. Sjúklingur getur tilnefnt annan einstakling til að taka við upplýsingunum í sinn stað.
    Þess skal getið í sjúkraskrá ef sjúklingur neitar að fá upplýsingar um heilsufar og batahorfur eða tilnefnir annan í sinn stað. Jafnframt skal skrá þar hverjum voru gefnar upplýsingarnar, sbr. 1. mgr. þessarar greinar og 7. og 25. gr.
    Eigi í hlut sjúklingur sem ekki getur tileinkað sér upplýsingar skv. 5. gr. skulu þær veittar nánasta vandamanni eða lögráðamanni hafi sjúklingur verið sviptur lögræði.

7. gr.

    Virða skal rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð.
    Ákvæði lögræðislaga gilda um samþykki fyrir meðferð sjúklinga sem vegna greindarskorts, eða af öðrum ástæðum sem þau lög tilgreina, eru ófærir um að taka ákvörðun um meðferð. Í þessum tilvikum skal þó hafa sjúkling með í ráðum eftir því sem kostur er.
    Enga meðferð má framkvæma án samþykkis sjúklings, sbr. 1. og 2. mgr., sbr. þó 9. gr. Samþykkið skal eftir því sem kostur er vera skriflegt, þar sem fram kemur hvaða upplýsingar voru gefnar sjúklingi og að hann hafi skilið upplýsingarnar.

Meðferð hafnað.


8. gr.

    Nú hafnar sjúklingur meðferð og skal heilbrigðisstarfsmaður þá upplýsa hann um hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákvörðunar.
    Sjúklingur getur stöðvað meðferð hvenær sem er. Í því tilviki skal heilbrigðisstarfsmaður útskýra nákvæmlega fyrir honum hvaða afleiðingar það getur haft að stöðva meðferðina. Um höfnun á meðferð sjúkra barna gildir 26. gr.
    Í sjúkraskrá skal skrá ákvörðun sjúklings um að hafna meðferð eða stöðva og staðfest að hann hafi fengið upplýsingar um hugsanlegar afleiðingar ákvörðunarinnar.

Undanþága frá meginreglu um samþykki fyrir meðferð.


9. gr.

    Nú er sjúklingur meðvitundarlaus eða ástand hans að öðru leyti þannig að hann er ófær um að gefa til kynna vilja sinn varðandi meðferð sem telst bráðnauðsynleg. Í því tilviki skal taka samþykki hans sem gefið nema fyrir liggi örugg vitneskja um að hann hefði hafnað meðferðinni.

Samþykki fyrir vísindarannsóknum.


10. gr.

    Sjúklingur skal fyrir fram samþykkja með formlegum hætti þátttöku í vísindarannsókn. Áður en slíkt samþykki er veitt skal gefa honum ítarlegar upplýsingar um vísindarannsóknina, áhættu sem henni kann að fylgja og hugsanlegan ávinning og í hverju þátttakan er fólgin. Sjúklingi skal gerð grein fyrir því að hann geti hafnað þátttöku í vísindarannsókn og hann geti hvenær sem er hætt þátttöku eftir að hún er hafin.
    Óheimilt er að framkvæma á sjúklingi vísindarannsókn sem uppfyllir ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr.

Þátttaka í þjálfun og kennslu nemenda.


11. gr.

    Skýra ber sjúklingi frá því ef fyrirhugað er að nemendur á heilbrigðissviði verði viðstaddir meðferð á honum vegna þjálfunar og kennslu þeirra. Sjúklingur getur neitað að taka þátt í slíkri þjálfun og kennslu.

III. KAFLI


Trúnaðar- og þagnarskylda.


Þagnarskylda starfsmanns í heilbrigðisþjónustu.


12. gr.


    Starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan helst þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum. Mæli ríkar ástæður með því getur starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.

Undanþágur frá þagnarskyldu.


13. gr.

    Þagnarskylda skv. 12. gr. nær ekki til atvika sem starfsmanni í heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum, t.d. ákvæðum barnaverndarlaga. Í þeim tilvikum ber starfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld.
    Samþykki sjúklings eða forráðamanns leysir starfsmann undan þagnarskyldu.
    Um vitnaskyldu starfsmanna í heilbrigðisþjónustu gilda ákvæði læknalaga.

IV. KAFLI


Meðferð upplýsinga í sjúkraskrá.


Aðgangur að sjúkraskrá.


14. gr.


    Sjúkraskrá er eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hana færa á eigin starfsstofum.
    Skylt er lækni og öðrum sem færa sjúkraskrá að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans, í heild eða að hluta, og afhenda þessum aðilum afrit skrárinnar sé þess óskað. Sama gildir gagnvart opinberum aðilum sem lögum samkvæmt fjalla um athugasemdir eða kvartanir sjúklings eða umboðsmanns vegna meðferðar. Heimilt er að taka gjald fyrir afrit af sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum 12. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.
    Upplýsingar í sjúkraskrá sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal ekki sýna honum nema með samþykki þess sem upplýsingarnar gaf.
    Um aðgang að sjúkraskrám gilda að öðru leyti ákvæði læknalaga eftir því sem við á.

15. gr.

    Þess skal gætt við aðgang að sjúkraskrám að upplýsingar í þeim eru trúnaðarmál.
    Nú krefst framkvæmd vísindarannsóknar aðgangs að sjúkraskrám og er þá þeim sem að rannsókn standa heimill aðgangur að skránum, enda uppfylli rannsóknin skilyrði vísindarannsóknar, sbr. 4. mgr. 2. gr.
    Í hvert sinn sem sjúkraskrá er skoðuð vegna vísindarannsóknar skal það skráð í hana og ákvæða 1. mgr. gætt.

Athugasemdir við upplýsingar í sjúkraskrá.


16. gr.

    Nú telur sjúklingur eða umboðsmaður hans að upplýsingar í sjúkraskrá séu rangar eða villandi og skulu þá athugasemdir hans lagðar í skrána.

V. KAFLI


Meðferð.


Virðing fyrir mannhelgi sjúklings.


17. gr.


    Heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling skulu koma fram við hann af virðingu.
    Að meðferð sjúklings skulu ekki koma aðrir en þeir sem nauðsynlega þurfa. Heilbrigðisstarfsmaður skal gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð með þeim hætti að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til og að upplýsingar um meðferð einstaklinga séu ekki aðgengilegar öðrum en viðkomandi heilbrigðisstarfsmönnum.

Bið eftir meðferð.


18. gr.

    Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal heilbrigðisstarfsmaður, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma.
    Ef unnt er að fá meðferð sem sjúklingur þarfnast fyrr hjá annarri heilbrigðisstofnun eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni er skylt að gera honum grein fyrir því.

Forgangsröðun.


19. gr.

    Ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða sjúklingum vegna meðferðar skal fyrst og fremst byggt á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum.

Val á heilbrigðisstarfsmanni.


20. gr.

    Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu getur sjúklingur leitað til þess heilsugæslu- eða heimilislæknis sem honum hentar best. Sjúklingur getur enn fremur valið sérfræðing þegar slíkrar þjónustu er þörf. Sjúklingur getur leitað álits annars heilbrigðisstarfsmanns á meðferð, ástandi og batahorfum.

Ábyrgð sjúklings á eigin heilsu.


21. gr.

    Sjúklingur ber ábyrgð á heilsu sinni eftir því sem það er á hans færi og ástand hans leyfir. Honum ber eftir atvikum að vera virkur þátttakandi í meðferð sem hann hefur samþykkt.
    Sjúklingur skal reyna eftir megni að fylgja fyrirmælum læknis og annarra heilbrigðisstarfsmanna um atriði er snerta meðferðina, t.d. um lyfjagjöf, mataræði, þjálfun og hreyfingu.

Reglur um innlögn og útskrift.


22. gr.

    Við komu sjúklings á heilbrigðisstofnun skulu heilbrigðisstarfsmenn sem annast hann kynna sig og starfssvið sitt. Jafnframt skal kynna fyrir honum reglur og venjur sem gilda á stofnuninni og máli skipta.
    Sjúklingi skal gerð grein fyrir hvaða heilbrigðisstarfsmaður beri meginábyrgð á meðferð hans á heilbrigðisstofnun.
    Áður en að útskrift sjúklings kemur skulu aðstæður hans kannaðar og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur vistunarúrræði eftir því sem unnt er.
    Við útskrift af heilbrigðisstofnun skal sjúklingur fá, eftir því sem þörf krefur, leiðbeiningar um þýðingarmikil atriði er varða eftirmeðferð, svo sem lyfjagjöf, mataræði, þjálfun og hreyfingu. Ef þess er óskað skulu leiðbeiningarnar gefnar skriflega.
    Læknabréf og vottorð vegna veikinda, slysa, sjúkrahúslegu og þess háttar skulu afgreidd án ástæðulauss dráttar.

Linun þjáninga og nærvera fjölskyldu og vina.


23. gr.

    Lina skal þjáningar sjúklings eins og þekking á hverjum tíma frekast leyfir.
    Sjúklingur á rétt á að njóta stuðnings fjölskyldu sinnar, ættmenna og vina meðan á meðferð og dvöl stendur. Hann á enn fremur rétt á að njóta andlegs og trúarlegs stuðnings.

Meðferð dauðvona sjúklings.


24. gr.

    Dauðvona sjúklingur á rétt á að deyja með reisn. Gefi dauðvona sjúklingur ótvírætt til kynna að hann óski ekki eftir meðferð sem lengir líf hans eða tilraunum til endurlífgunar skal virða þá ákvörðun.

VI. KAFLI


Sérreglur um sjúk börn.


Upplýsingar um heilsufar og meðferð sjúkra barna.


25. gr.


    Ef sjúklingur er yngri en 16 ára skulu upplýsingar skv. 5. gr., svo og aðrar upplýsingar samkvæmt lögum þessum, veittar foreldri eða forráðamanni.
    Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Þau eiga þó sama rétt og aðrir á að hafna því að fá upplýsingar, sbr. 6. gr.

Samþykki vegna meðferðar sjúkra barna.


26. gr.

    Foreldri eða forráðamaður skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð á sjúklingi yngri en 16 ára.
    Nú neitar foreldri eða forráðamaður að samþykkja nauðsynlega meðferð, sbr. 1. mgr., og skal heilbrigðisstarfsmaður þá snúa sér til barnaverndaryfirvalda, sbr. ákvæði barnaverndarlaga.
    Ef ekki vinnst tími til að leita liðsinnis barnaverndaryfirvalda, sbr. 2. mgr., vegna lífsnauðsynlegrar bráðameðferðar á sjúku barni er heilbrigðisstarfsmanni skylt að hafa heilbrigði þess að leiðarljósi og grípa tafarlaust til meðferðar sem hann telur nauðsynlega.

Ýmsar reglur um sjúk börn.


27. gr.

    Skylt er að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir.
    Sjúk börn eiga rétt á því að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér þó að þau dveljist á heilbrigðisstofnun.
    Systkini og vinir mega eftir því sem kostur er heimsækja sjúkt barn sem dvelst á heilbrigðisstofnun.
    Sjúk börn á skólaskyldualdri, sem dveljast á heilbrigðisstofnunum, skulu hafa aðgang að kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi.
    Umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skal hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.

VII. KAFLI


Réttur til að kvarta.


Athugasemdir og kvartanir vegna meðferðar.


28. gr.


    Sjúklingur getur gert athugasemdir við meðferð sem hann hefur fengið á heilbrigðisstofnun eða hjá heilbrigðisstarfsmanni. Athugasemdum skal beina að yfirstjórn viðkomandi stofnunar.
    Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun sinni til landlæknis eða nefndar um ágreiningsmál skv. 5. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.
    Starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Enn fremur er stjórn heilbrigðisstofnunar skylt að taka til athugunar ábendingar starfsmanna sem telja að réttur sjúklinga sé brotinn.
    Sjúklingur skal fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er.

VIII. KAFLI


Gildistökuákvæði o.fl.


Heimild ráðherra til að setja reglugerð.


29. gr.


    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um réttindi sjúklinga samkvæmt lögum þessum.

Gildistaka.


30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp um réttindi sjúklinga er samið af nefnd sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði 21. apríl 1995.
    Í nefndina voru skipaðar Dögg Pálsdóttir skrifstofustjóri, formaður, Ragnheiður Haraldsdóttir deildarstjóri og Ragnhildur Arnljótsdóttir deildarstjóri, ritari nefndarinnar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Vilborg Ingólfsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, tilnefnd af embætti landlæknis, Lovísa Baldursdóttur hjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ástríður Stefánsdóttir læknir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands, Rannveig Gunnarsdóttir félagsráðgjafi, tilnefnd af Samtökum heilbrigðisstétta, og Ingveldur Fjeldsted, tilnefnd af Neytendasamtökunum.
    Samkvæmt skipunarbréfi var nefndinni falið að gera tillögur til ráðherra um það með hvaða hætti best væri að kynna heilbrigðisstéttum og sjúklingum rétt sjúklinga. Nefndin skyldi ræða ítarlega við fulltrúa sjúklingahópa til að kynnast viðhorfum þeirra til réttinda sjúklinga og hvernig þau yrðu best tryggð. Nefndin fékk því á sinn fund fulltrúa 45 sjúklingahópa og vandamanna- og stuðningshópa sjúklinga. Loks var nefndinni falið að meta hvort æskilegt væri að sett yrðu sérstök lög um réttindi sjúklinga hér á landi. Yrði það niðurstaðan skyldi hún vinna drög að frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga.
    Fljótlega eftir að nýr heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók til starfa vorið 1995 óskaði hann eftir því að nefndin semdi frumvarp til laga um réttindi sjúklinga. Það frumvarp var lagt fram á 120. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu. Heilbrigðis- og trygginganefnd leitaði eftir umsögnum um frumvarpið hjá fjölda félaga og samtaka. Hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu á grundvelli þeirra umsagna sem bárust.
    Helstu breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu eru á 3. gr. en í eldra frumvarpi var ákvæði um rétt sjúklings til fullkomnustu meðferðar sem völ er á að veita innan þess fjárhagsramma sem heilbrigðisþjónustunni er sniðinn á hverjum tíma. Tilvísun ákvæðisins til fjárhagsrammans er felld niður í þessu frumvarpi. Í frumvarpinu er kveðið á um rétt sjúklings til meðferðar og aðbúnaðar sem miðist við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á að veita, en felld niður tilvitnun þess efnis að einnig skuli miða meðferð og aðbúnað við aldur sjúklings. Þá er í frumvarpinu fellt út ákvæði eldra frumvarps um að sýni, sem tekin eru úr sjúklingi vegna greiningar, sé óheimilt að varðveita til annarra nota, nema til komi sérstakt samþykki hans. Fyrirhugað er að tekið verði á því atriði í sérstökum lögum.
    Markmið frumvarps til laga um réttindi sjúklinga er að tryggja sjúklingum ákveðin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi, eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þá er í frumvarpinu ítrekaður samfélagslegur réttur sjúklinga, þ.e. réttur til heilbrigðisþjónustu sem skuli vera sem sambærilegust og eins fullkomin og unnt er að veita á hverjum tíma. Í frumvarpinu er að finna ýmis ákvæði um réttindi sem sjúklingar njóta nú þegar samkvæmt dreifðum laga- og reglugerðarákvæðum, svo og réttindi sem sjúklingar hafa verið taldir njóta samkvæmt óskráðum reglum. Einnig eru í frumvarpinu nokkur nýmæli.
    Við samningu frumvarpsins voru ýmsar erlendar reglur á þessu sviði hafðar til hliðsjónar, ekki síst yfirlýsing Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um réttindi sjúklinga sem samþykkt var vorið 1994. Einnig var horft til yfirlýsingar Alþjóðafélags lækna um þetta efni, finnskra laga frá árinu 1992 og nýlegs dansks lagafrumvarps. Þá var höfð hliðsjón af þeim umsögnum sem bárust um frumvarpið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er skilgreint markmiðið með setningu laga um réttindi sjúklinga.
    Réttindi sjúklinga eru meðal almennra mannréttinda. Í 1. mgr. er því stuðst við hefðbundið orðalag í ýmsum alþjóðasamningum á sviði mannréttinda. Í samskiptum sínum við heilbrigðisþjónustuna eru sjúklingar oft í hlutverki hins veikburða og því hætt við að réttur þeirra sé brotinn. Tilgangur lagasetningar um réttindi sjúklinga er að tryggja þeim tiltekin mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja það trúnaðarsamband sem ríkja ber milli sjúklinga og starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar.
    Í 2. mgr. er ítrekuð jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og því lýst að ekki megi mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sambærilegt ákvæði er í 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með lögum nr. 97/1995. Þar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar á grundvelli þeirra atriða sem hér eru talin upp. Til greina kom að tilgreina sérstaklega aldur og fötlun í þessari málsgrein. Sama álitamál var uppi við umfjöllun jafnræðisákvæðis stjórnarskrárinnar vorið 1995. Löggjafinn taldi óþarft að lengja upptalninguna í ákvæðinu enda væri hún ekki tæmandi og endaði á orðunum „og stöðu að öðru leyti“. Í því var talið felast að jafnræðisreglan næði til allra þjóðfélagshópa án tillits til aldurs eða fötlunar.

Um 2. gr.


    Rétt þykir að skilgreina þau hugtök sem mest eru notuð í frumvarpinu. Hugtökin sjúklingur, heilbrigðisstarfsmaður, meðferð og vísindarannsókn eru skilgreind í 2. gr.
    Með sjúklingi er átt við hvern þann einstakling, heilbrigðan eða sjúkan, sem notar heilbrigðisþjónustu. Þegar sjúklingur hefur samskipti við starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar verða virk réttindin sem frumvarpið fjallar um. Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að sjúklingur sé sjálfráða, en í einstökum ákvæðum frumvarpsins er vísað til þess hvað gildi þegar um er að ræða sjúklinga sem ekki eru sjálfráða.
    Að því er varðar skilgreininguna á hugtakinu vísindarannsókn skal tekið fram að rannsókn getur falist í íhlutun, viðtölum, prófun, upplýsingaöflun eða tilraunum. Gert er að skilyrði að vísindarannsókn hafi hlotið fullnægjandi vísindalegt og siðfræðilegt mat og hún verður að vera þess eðlis að engin slík sjónarmið mæli gegn framkvæmd hennar. Mat á vísindarannsóknum fer nú fram hjá siðanefndum sjúkrahúsa eða siðaráði landlæknis og er gert ráð fyrir að sú framkvæmd verði með sama hætti þar til sett hafa verið sérstök lög um vísindasiðaráð. Vísindarannsókn verður að styðjast við viðteknar og hefðbundnar rannsóknaraðferðir raun- eða félagsvísinda. Skilgreiningin byggist einkum á skilgreiningu á vísindarannsókn í tillögum Evrópuráðsins að reglum um siðfræðilegt mat á áætlunum um læknisfræðilegar, líffræðilegar og aðrar skyldar vísindarannsóknir á mönnum frá árinu 1993. Samkvæmt þeim tillögum skal fylgja ráðleggingum ráðherranefndar Evrópuráðsins og Helsinki-yfirlýsingu Alþjóðafélags lækna við framkvæmd læknisfræðilegra vísindarannsókna.

Um 3. gr.


    Í greininni eru ákvæði um þau réttindi sjúklinga sem stundum eru kölluð samfélagsleg réttindi.
    Í 2. mgr. eru ítrekuð ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu um að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er kostur á að veita. Tilvísun eldra frumvarps til fjárhagsramma er felld brott enda talið óþarft að taka fram að heilbrigðisþjónusta, eins og önnur þjónusta sem veitt er af hinu opinbera, skuli ávallt miðast við þann fjárhagsramma sem þjónustunni er sniðinn í fjárlögum.
    Í 3. mgr. er um það fjallað að sjúklingur eigi rétt á meðferð og aðbúnaði sem miðist við ástand hans og horfur á hverjum tíma. Tilvísun eldra frumvarps til aldurs er felld brott, enda var talið að slík tilvísun væri óþörf og gæti valdið misskilningi.
    4. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.


         Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. og 6. gr.


    Í 5. gr. er mælt fyrir um að sjúklingur skuli fá upplýsingar um heilsufar sitt og meðferð. Skyldan til að gefa upplýsingar er aðallega lögð á herðar læknum en einnig öðrum heilbrigðisstarfsmönnum eftir því sem við á.
    Meti heilbrigðisstarfsmaður sjúkling ófæran á þeirri stundu um að taka við upplýsingum um ástand sitt skal hann bíða með upplýsingagjöf uns ástand sjúklings breytist til batnaðar. Ákvörðun um frestun upplýsingagjafar af þessari ástæðu er nauðsynlegt að skrá í sjúkraskrá. Verði ástand sjúklings viðvarandi þannig að hann sé ófær um að taka við upplýsingum gilda ákvæði 3. mgr. 6. gr.
    Þar sem upplýsingagjöfin er ein meginstoð réttinda sjúklinga er nauðsynlegt að tryggja að eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða sjúklingur sem notar táknmál sé honum tryggð túlkun á upplýsingum um heilsufar og meðferð. Vitaskuld getur oft reynst erfitt að tryggja túlkun fyrir útlendinga sem koma frá fjarlægum löndum. Með sama hætti er túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa enn af skornum skammti. Engu að síður þykir nauðsynlegt að undirstrika þennan rétt og ábyrgð á að hann sé tryggður hvílir á heilbrigðisstofnunum.
    Frá meginreglunni um upplýsingagjöf til sjúklings um heilsufar og meðferð eru nokkrar undantekningar. Er fjallað um þær í 6. gr.

Um 7. gr.


    Samþykki fyrir meðferð er ein meginreglna um réttindi sjúklinga. Í lögræðislögum hefur lengi verið ákvæði um að engan megi leggja á sjúkrahús til meðferðar gegn vilja sínum. Hér er mælt fyrir um að virða skuli rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggi meðferð.
    Meginreglan er sú að meðferð megi ekki framkvæma nema með samþykki sjúklings. Frá því eru þó undanþágur sem fjallað er um í 9. gr. Samþykki getur verið bundið því skilyrði að tiltekinn heilbrigðisstarfsmaður framkvæmi meðferð og verður þá að virða það.
    Hér er sett það skilyrði að samþykkið skuli vera skriflegt ef kostur er. Um nokkurt skeið hafa reglur um skriflegt samþykki verið í gildi á nokkrum deildum Landspítala og gefist vel. Skriflegt samþykki er ekki gert að fortakslausu skilyrði hér enda atvik oft með þeim hætti að augljóst er að framferði sjúklings sýnir og sannar að hann hefur samþykkt meðferðina. Æskilegt væri að skriflegt samþykki yrði meginregla þegar um er að ræða skurðaðgerðir eða aðra meiri háttar meðferð. Nánari reglur um skriflegt samþykki er eðlilegt að setja með stoð í 29. gr. frumvarpsins.
    Til álita kom að bæta við 7. gr. ákvæði um samþykki sjúklings fyrir því að sýni, sem fjarlægð hafa verið úr honum í greiningartilgangi, verði varðveitt til annarra nota. Þar sem verið er að leggja grunn að lögum um vísindasiðaráð og reglum um meðferð erfðaefnis úr mönnum var hins vegar talið rétt að lög um réttindi sjúklinga hefðu ekki að geyma ákvæði um þessi atriði.

Um 8. gr.


    Sjúklingur getur hafnað því að gangast undir meðferð enda þótt hún sé talin nauðsynleg. Á sama hátt getur sjúklingur hvenær sem er stöðvað meðferð. Í þeim tilvikum er heilbrigðisstarfsmanni skylt að upplýsa hann um hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákvörðunar.

Um 9. gr.


    Þótt samþykki fyrir meðferð sé meginreglan getur háttað svo til að sjúklingur sé vegna meðvitundarleysis eða ástands að öðru leyti ófær um að gefa til kynna vilja sinn varðandi meðferð sem telst bráðnauðsynleg. Í því tilviki skal taka samþykki sjúklings sem gefið nema fyrir liggi örugg vitneskja um að hann hefði hafnað meðferðinni. Það verður að meta hverju sinni hvað teljist örugg vitneskja í þessu sambandi, en ekki þykir rétt að setja fram nákvæmar leiðbeiningarreglur um það mat.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Hluti af starfi heilbrigðisstofnana er þjálfun og kennsla nemenda á heilbrigðissviði. Sjúklingur getur neitað að taka þátt í slíkri þjálfun eða kennslu og er skylt að virða slíka ákvörðun. Sjúklingi skal skýrt frá því þegar fyrirhugað er að nemendur á heilbrigðissviði verði viðstaddir meðferð. Geri hann engar athugasemdir er eðlilegt að líta svo á að hann samþykki nærveru nemendanna. Ekki er gert ráð fyrir að reynt sé að telja sjúklingi hughvarf sem ótvírætt hefur gert grein fyrir að hann óski ekki eftir nærveru nemenda á heilbrigðissviði við meðferð.

Um 12. og 13. gr.


    Hér er kveðið á um þagnarskyldu sem taki til allra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu, en ekki einungis þeirra sem hlotið hafa löggildingu, sbr. orðskýringu í 2. gr. Ekki er síður talin rík ástæða til að leggja áherslu á þagnarskyldu annarra starfsmanna. Að öðru leyti er byggt á meginreglum um þagnarskyldu sem fram koma í ákvæðum læknalaga og eru undanþágurnar hinar sömu. Sérstaklega er undirstrikað að þagnarskyldan geti vikið fyrir lögbundinni tilkynningarskyldu. Sem dæmi má nefna ákvæði barnaverndarlaga, nr. 58/1992. Í 12. gr. þeirra laga er almenn tilkynningarskylda lögð á þá sem verða þess varir að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að barninu geti stafað hætta af. Í 13. gr. barnaverndarlaga er lögð tilkynningaskylda á þá sem afskipti hafa af börnum og ungmennum. Þar er í 2. mgr. sérstaklega fjallað um lækna, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa og þeim gert að tilkynna barnaverndarnefnd ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að nefndin ætti að hafa afskipti af því. Í lagaákvæðinu er sérstaklega tekið fram að þagnarskylda viðkomandi starfsstétta víki fyrir tilkynningaskyldunni.

Um 14.–16. gr.


    Hér eru ítrekuð ákvæði læknalaga um aðgang að sjúkraskrám. Ekki eru þó tekin upp öll ákvæði læknalaga um sjúkraskrár, en skv. 4. mgr. 14. gr. gilda þau eftir því sem við á. Felldur er niður 3. málsl. 2. mgr. eldra frumvarps um að ákvæðið taki til allra sjúkraskráa án tillits til þess hvenær þær voru færðar. Ákvæði læknalaga um að heimild til aðgangs að sjúkraskrám nái aðeins til þeirra sjúkraskráa, sem færðar voru fyrir gildistöku þeirra laga, var fellt brott með upplýsingalögum, nr. 50/1996, sem taka gildi 1. janúar 1997. Þykir því óþarft að tiltaka þetta atriði sérstaklega í frumvarpinu. Þá þótti rétt að bæta við ákvæði um heimild til gjaldtöku fyrir afrit af sjúkraskrá. Er það í samræmi við 12. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996. Nýmæli er heimild sjúklings til að gera athugasemdir við færslu í sjúkraskrá sem hann telur ranga. Einnig er um að ræða nýmæli varðandi aðgang að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna.

Um 17. gr.


    Fyrir kemur að sjúklingar kvarta yfir framkomu heilbrigðisstarfsmanna í sinn garð. Þykir sjúklingum hún oft einkennast af því að litið sé á þá sem tilfelli fremur en einstaklinga eins og stundum er komist að orði. Einnig er bent á að það skorti að heilbrigðisstarfsmenn hlusti á kvartanir sjúklinga eða vandamanna þeirra um líðan sjúklinganna.
    Rétt þykir að taka það fram í frumvarpinu að sjúklingur á rétt á því að heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling komi fram við hann af virðingu í öllum samskiptum innan heilbrigðisþjónustunnar.
    Þá þykir þörf á að taka fram að heilbrigðisstarfsmenn skuli gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð með þeim hætti að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til og að óviðkomandi aðilar fái ekki aðgang að heilbrigðisstofnunum. Virða skal þannig trúnað við sjúkling og ræða við hann um mál hans í einrúmi eða framkvæma skoðun þannig að utanaðkomandi eigi ekki aðgang að. Jafnframt þykir þörf á að taka fram að upplýsingar um meðferð liggi ekki frammi þar sem margir fara um. Má þar nefna sem dæmi svonefnda aðgerðarlista.

Um 18. gr.


    Í 18. gr. eru nýmæli varðandi skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að veita sjúklingi upplýsingar um áætlaðan biðtíma eftir meðferð og möguleika til að fá meðferð, sem sjúklingur þarfnast, fyrr annars staðar.

Um 19. gr.


    Rétt þykir að setja ákvæði um forgangsröðun, komi til slíkrar röðunar vegna þjónustu. Í þeim tilvikum verður röðunin að byggjast fyrst og fremst á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum. Með faglegum forsendum er t.d. átt við félagslegar aðstæður, en m.a. er höfð hliðsjón af félagslegum aðstæðum við vistunarmat sem framkvæmt er vegna innlagnar á hjúkrunarheimili.

Um 20. gr.


    Rétt þykir að ítreka reglu laga um heilbrigðisþjónustu um rétt sjúklings til að velja sér lækni. Jafnframt er ítrekuð sú almenna regla að sjúklingur getur valið sér sérfræðing sé slíkrar aðstoðar þörf. Loks er undirstrikuð heimild sjúklinga til að leita álits annars heilbrigðisstarfsmanns á meðferð, ástandi og batahorfum.

Um 21. gr.


         Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Hér eru sett ákvæði um upplýsingar sem gefa skal sjúklingi við komu á heilbrigðisstofnun. Kynna skal fyrir honum reglur og venjur sem gilda á stofnuninni og máli skipta.
    Í 2. mgr. er nýmæli þess efnis að gera skuli sjúklingi grein fyrir hvaða heilbrigðisstarfsmaður skuli bera meginábyrgð á meðferð hans á heilbrigðisstofnun og í 3. mgr. er það nýmæli að kanna skuli aðstæður sjúklings áður en að útskrift hans kemur og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur vistunarúrræði eftir því sem kostur er.
    Þá er í 5. mgr. lögð áhersla á að læknabréf og vottorð vegna veikinda, slyss, sjúkrahúslegu o.þ.h. berist greiðlega og því er sú skylda lögð á viðkomandi heilbrigðisstarfsmenn að senda þau án ástæðulauss dráttar.

Um 23. gr.


    Hér er fjallað um rétt sjúklings til að þjáningar hans séu linaðar í samræmi við þekkingu hvers tíma. Nærvera fjölskyldu og vina sem og andlegur og trúarlegur stuðningur skipta hann miklu máli í meðferð og geta haft áhrif á árangur hennar. Þess vegna er sérstaklega um það fjallað í greininni að sjúklingur eigi rétt á því að njóta stuðnings fjölskyldu sinnar og vina og andlegs og trúarlegs stuðnings meðan á meðferð og dvöl stendur. Í því felst m.a. að gefa skuli sjúklingi kost á fundi með presti sé þess kostur.

Um 24. gr.


    Hluti af réttindum sjúklinga er að deyja með reisn. Hér er fjallað um þennan rétt og rétt til mannúðlegrar umönnunar á dánarbeði. Það leiðir af meginreglunni um samþykki sjúklings fyrir meðferð að ef dauðvona sjúklingur gefur ótvírætt til kynna að hann óski hvorki eftir meðferð sem lengir líf hans né tilraunum til endurlífgunar beri að virða þá ákvörðun. Ef sjúklingur er ófær um að taka ákvörðun um takmörkun meðferðar skulu heilbrigðisstarfsmenn leita samráðs við nánustu aðstandendur um ákvörðunina. Ber við þá ákvörðun að hafa í heiðri þau viðhorf er hinn sjúki kann að hafa látið í ljós fyrr í lífinu er hann var andlega heill heilsu. Ýmis sjúkrahús hafa þegar sett leiðbeinandi reglur um meðferð sjúklings við lok lífs. Einnig hefur landlæknir nýlega gefið út reglur um sama efni.

Um 25.–27. gr.


    Rétt þykir að setja sérstök ákvæði um sjúklinga undir 16 ára aldri og er reglur sem um þennan aldurshóp skulu gilda að finna í 25.–27. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 26. gr. kemur fram að ef foreldri eða forráðamaður neitar að samþykkja nauðsynlega meðferð skuli heilbrigðisstarfsmaður gera barnaverndaryfirvöldum viðvart. Barnaverndaryfirvöld mundu í þessum tilvikum taka málin í sínar hendur og gæti það jafnvel leitt til þess að foreldri eða forráðamaður yrði sviptur forsjá yfir barni svo unnt sé að samþykkja meðferðina. Ef um er að ræða lífsnauðsynlega bráðameðferð getur þannig háttað að enginn tími sé til að leita til barnaverndaryfirvalda. Í þeim tilvikum er heilbrigðisstarfsmanni gert skylt að taka ákvörðun með heilbrigði barnsins að leiðarljósi. Skal hann grípa tafarlaust til meðferðar sem hann telur nauðsynlega.
    Í 27. gr. er að finna ýmis ákvæði er varða sjúk börn og er þar stuðst við norrænar leiðbeiningarreglur um þetta efni.

Um 28. gr.


    Rétturinn til að kvarta yfir meðferð er ítrekaður í þessari grein. Gerður er greinarmunur á athugasemdum og kvörtunum. Ef um er að ræða athugasemdir við meðferð sem sjúklingur hefur fengið á heilbrigðisstofnun eða hjá heilbrigðisstarfsmanni skal beina þeim til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar.
    Um kvartanir vegna meðferðar gilda ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þeim lögum skal beina kvörtunum til embættis landlæknis eða nefndar um ágreiningsmál skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990. Sú skylda er lögð á starfsmenn heilbrigðisstofnana að þeir leiðbeini sjúklingi eða vandamanni sem vill koma með athugasemd eða bera fram kvörtun.

Um 29. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 30. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um réttindi sjúklinga.


    Í frumvarpinu eru lögfest á einum stað þau réttindi sem sjúklingar eru þegar taldir njóta samkvæmt ýmsum laga- og reglugerðarákvæðum. Þau atriði í frumvarpinu sem geta haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs eru einkum þrjú:
    Ákvæði síðustu málsgreinar 5. gr. um að sjúklingi skuli tryggð túlkun á erlent tungumál eða táknmál. Framkvæmdin á túlkun á táknmál hefur í meginatriðum verið þannig að sjúkrastofnanir hafa séð um túlkun fyrir skjólstæðinga sína. Túlkun vegna þjónustu utan sjúkrahúsa var árið 1995 greidd af félagsmálaráðuneytinu og hefur réttur til túlkunar verið byggður á mati Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra. Staða þessara mála hefur verið óljós og er nú að störfum nefnd sem ætlað er að gera tillögur um framtíðarskipan táknmálstúlkunar. Túlkun á erlend tungumál er fyrir þá sem eru sjúkratryggðir á Íslandi og er þar ekki um að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem verið hefur að öðru leyti en því að nú er réttur sjúklings fortakslaus.
                  Ef tryggja á öllum fortakslausa túlkun á erlend tungumál og táknmál getur orðið um nokkurn kostnaðarauka að ræða. Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Með sama hætti er túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa enn af skornum skammti. Engu að síður þykir nauðsynlegt að undirstrika þennan rétt og ábyrgð á að hann sé tryggður hvílir á heilbrigðisstofnunum.“ Ekki verður því annað séð en að með frumvarpinu sé ætlan heilbrigðisyfirvalda að taka yfir þann kostnað sem var á síðasta ári greiddur af félagsmálayfirvöldum og veita sjúklingum aukna þjónustu. Kostnaðarauki er vandmetin þar sem táknmálstúlka hefur skort, en fjölgun þeirra er í sjónmáli. Einnig hefur áhrif að tryggður réttur til túlkunar á táknmál og erlend mál mun eflaust auka eftirspurn eftir þjónustunni. Er hér gert ráð fyrir að kostnaðarauki gæti numið um 4–8 m.kr. árlega. Er þá miðað við að skipulag verði á fyrirkomulagi túlkunar og að sjúkrahúsin beri áfram kostnað af túlkun fyrir skjólstæðinga sína.
    Í 22. gr. er kveðið á um að áður en að útskrift sjúklings kemur skuli aðstæður hans kannaðar og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur vistunarúrræði eftir því sem við á. Í raun hefur framkvæmdin verið eins og kveðið er á um í frumvarpinu þótt ekki hafi í öllum tilvikum verið hægt að tryggja sjúklingi nægilega þjónustu utan stofnunar og útskrift því dregist. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að byggja upp þjónustu við sjúklinga í heimahúsum og einnig hefur rýmum á hjúkrunarheimilum verið fjölgað. Ekki verður séð að með frumvarpinu felist breyting á núverandi fyrirkomulagi og á því greinin ekki á hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    4. mgr. 27. gr. kveður á um að börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnunum og eru á skólaskyldualdri, skuli fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og þroska. Samkvæmt grunnskólalögum er börnum á skólaskyldualdri tryggð menntun og í drögum að reglugerð í tengslum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga er gert ráð fyrir að grunnskólinn standi áfram undir slíkri þjónustu fyrir sjúk börn. Ekki virðist að með frumvarpinu sé ætlunin að breyta núverandi fyrirkomulagi. Að mati fjárlagaskrifstofu þarf því að kveða skýrt á um að ákvæðið sé í samræmi við gildandi grunnskólalög. Með því móti á að vera tryggt að greinin feli ekki í sér kostnaðarauka.
    Ekki verður séð að önnur atriði frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem nú er og er þá gengið út frá því að lögin hafi ekki áhrif á reglur um sjúkratryggða á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt öðrum lögum. Samtals verður því kostnaðarauki ríkissjóðs sem af frumvarpinu leiðir um 4–8 m.kr., verði það að lögum.