Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 247 . mál.


570. Skýrsla



samgönguráðherra um starfsemi Póst- og símamálastofnunar og formbreytingar sem urðu á stofnuninni um áramótin 1996–97 þegar hún var gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Með beiðni (á þskj. 403) frá Guðmundi Árna Stefánssyni og fleiri þingmönnum er þess óskað að samgönguráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu um starfsemi Póst- og símamálastofnunar og formbreytingar sem urðu á stofnuninni um áramótin 1996–97 þegar hún var gerð að hlutafélagi.

Inngangur.
    30. júní 1996 skipaði samgönguráðherra nefnd til að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, sbr. lög nr. 103/1996. Nefndin hafði heimild til að gera hvers kyns löggerninga sem nauðsynlegir voru til undirbúnings að stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu og er félagið bundið við umrædda löggerninga.
    Í nefndina voru skipuð Pétur Reimarsson efnaverkfræðingur og var hann formaður nefndarinnar, Jenný S. Jensdóttir viðskiptafræðingur og Magnús Stefánsson alþingismaður.
    Meginverkefni nefndarinar við undirbúninginn voru eftirfarandi:
     Starfsmannamál. Ráðningarsamningar, réttindi, lífeyrissjóðsaðild, samningar við einstaka starfsmenn um breytt starfssvið, starfslokasamningar, samningar um kaup og kjör einstakra starfsmanna, svo sem framkvæmdastjóra, háskólamenntaðra starfsmanna, stöðvarstjóra og annarra yfirmanna, og undirbúningur kjarasamninga við stéttarfélög hjá Pósti og síma hf.
     Rekstrarmál. Skipurit, gerð rekstrar- og fjárfestingaráætlana, breytingar á bókhaldskerfi, farið yfir uppgjör og ýmis hagræðingarverkefni.
     Aðskilnaður við ríkið. Lífeyrissjóðsskuldbindingar (áfallnar og til framtíðar), gjaldskrármál, félagsleg þjónusta, öryggisþjónusta (strandastöðvar) o.fl.

1. Starfsmannamál.
Ráðningar.
    16. september sl. var öllum fastráðnum starfsmönnum, að helstu stjórnendum og sérfræðingum undanteknum, sent bréf þar sem þeim voru boðin sambærileg störf og þeir höfðu hjá stofnuninni og höfðu þeir síðan sex vikna frest til að skila inn undirrituðum ráðningar-

Prentað upp.

samningum. Fastráðnir starfsmenn voru 1.889 í desember sl. og skiluðu 1.807 þeirra inn staðfestingu um áframhaldandi starf hjá Pósti og síma hf., eða tæp 96% sem telja verður eðlilegt með hliðsjón af þeirri staðreynd að í hverjum mánuði lætur hluti starfsmanna af störfum vegna aldurs eða tekur til starfa annars staðar og í stað þeirra eru nýir ráðnir í staðinn. Aðrir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar (að frátöldum stjórnendum) voru 284 talsins um áramót, þar af 53 í afleysingastörfum en lausráðnir á tímabundnum reynslusamningi voru 231. Endurnýjaður hefur verið starfssamningur við tæp 80% þeirra og hlýtur það að teljast viðunandi miðað við eðli starfanna, þ.e. að um afleysinga- og reynslustörf var að ræða.

Réttindi.
    Starfsmenn sem voru í starfi hjá Póst- og símamálastofnun um síðustu áramót halda áunnum réttindum sínum hjá hlutafélaginu, svo sem veikinda- og orlofsrétti. Hér er um að ræða einstaklingsbundinn rétt sem er tiltekinn í ráðningarsamningi sérhvers starfsmanns. Um áframhaldandi ávinnslurétt er fjallað í kjaraviðræðum milli Pósts og síma hf. og viðsemjenda.

Kjarasamningar.
    Viðræður um kjarasamninga standa yfir og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur stjórn Póst og síma hf. gert samning við Póstmannafélag Íslands og Félag íslenskra símamanna um forgang félagsmanna þeirra til almennra póst- og símastarfa hjá fyrirtækinu. Viðræður við önnur stéttarfélög, sem eru með gildandi samninga við Póst og síma hf., standa einnig yfir og sér Vinnuveitendasamband Íslands um þær viðræður fyrir hönd fyrirtækisins.

Lífeyrissjóðir.
    Fyrrverandi starfsmenn Póst- og símamálastofnunar, sem hafa verið í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR), eiga rétt á áframhaldandi aðild að sjóðnum og greiða til sjóðsins af þeim launum sem þeir höfðu í desember 1996 en ekki af þeim hækkunum sem kunna að verða vegna starfsaldurs eða stöðuhækkana. Rétturinn fylgir einstaklingum og er óháður því hvort starfsmaður vinnur áfram hjá Pósti og síma hf. eða fer að starfa annars staðar. Iðgjaldið sem starfsmaður greiðir er 4% af dagvinnulaunum og fleiru, en launagreiðandi greiðir 6%. Réttindi sem ávinnast eru mun meiri en þessi iðgjöld standa undir og verður nánar fjallað um það síðar í þessari skýrslu um uppgjör við ríkissjóð. Um áramótin urðu sem kunnugt er breytingar á starfsemi lífeyrissjóðsins með skiptingu hans í A- og B- deild, en í hinni síðarnefndu gilda áfram sömu reglur um iðgjöld og réttindi og hingað til. Engin breyting verður hjá þeim starfsmönnum sem hafa átt aðild að öðrum lífeyrissjóðum en LSR.

Sérstakir samningar.
    Nefndin réð Guðmund Björnsson, aðstoðarpóst- og símamálastjóra, sem fyrsta forstjóra hlutafélagsins og gerði starfslokasamning við Ólaf Tómasson að hans ósk, en hann hefði að óbreyttu farið á eftirlaun á árinu 1998. Nefndin gerði einnig samninga við fjóra fyrrverandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar um breytt starfssvið þeirra og réð fimm nýja framkvæmdastjóra til að taka við ýmsum starfssviðum hlutafélagsins. Ekki varð teljanleg breyting á kjörum fyrrverandi framkvæmdastjóra við breytingarnar, en kjör hinna nýráðnu framkvæmdastjóra líkjast hins vegar þeim sem tíðkast á almenna vinnumarkaðinum. Í tengslum við skipulagsbreytingar sem tóku gildi við stofnun hlutafélagsins var ákveðið að leggja niður allar umdæmisskrifstofur og þar með stöður umdæmisstjóra, sex talsins (sjá nánar síðar). Vegna þessara breytinga voru ýmist gerðir samningar um starfslok eða breytt verksvið þeirra og hafa tveir þeirra tekið við nýjum störfum hjá hlutafélaginu, við þrjá voru gerðir starfslokasamningar og einn fór á biðlaun frá og með síðustu áramótum til júníloka er hann verður sjötugur. Að auki hafa verið gerðir starfslokasamningar við sjö starfsmenn sökum aldurs að þeirra eigin ósk og þrír stöðvarstjórar fá greidd biðlaun vegna niðurlagningar stöðu, (sjá nánar umfjöllun um lokanir pósthúsa síðar). Efnislega ganga umræddir samningar út á að umræddir starfsmenn halda óskertum launum í 12 mánuði. Í engum framangreindra starfslokasamninga er ákvæði um að viðkomandi sé óheimilt að starfa hjá hugsanlegum samkeppnisaðila. Gerðir hafa verið einstaklingsbundnir launasamningar við nokkurn hóp starfsmanna. Hér er um að ræða stjórnendur sem koma fram sem fulltrúar fyrirtækisins gagnvart öðrum starfsmönnum og að auki flesta sérfræðinga og háskólamenntaða starfsmenn sem eru um 120 talsins. Stöðvarstjórar, sem eru um 80 talsins, hafa nær allir valið að gera slíka samninga, en þeir sem það kjósa geta látið viðkomandi stéttarfélög fara með samningsrétt sinn og er svo um einn stöðvarstjóra. Samningar þessir byggjast almennt á því að í stað dagvinnu og yfirvinnu verður framvegis greidd ein föst upphæð í mánaðarlaun. Laun sem samið hefur verið um grundvallast að mestu á þeim launum sem viðkomandi hefur haft undanfarin ár að teknu tilliti til almennra launabreytinga auk þess sem horft var til þeirra starfa sem einstaklingarnir gegna ásamt breytingum á störfum þar sem það á við. Launahækkanir af þessum sökum eru mismunandi eftir hópum, en eru á bilinu 0–9%.

2. Rekstur Pósts og síma hf.
Póstþjónustan.
    Póstþjónustan er alþjóðleg, og er Ísland aðili að alþjóðapóstsamningnum sem gerður var í Washington 1989. Póstsamningurinn byggist á þeirri skyldu samningsaðila, þ.e. póststjórna, „að beina lokuðum póstflutningi og bréfapósti í opnum flutningi sem önnur póststjórn kann að fá eftir henni eftir fljótustu leiðum sem hún notar til eigin flutninga“, sbr. 1. gr. I. kafla alþjóðapóstsamningsins. Með vísan til þessa samnings, svo og annarra alþjóðasamninga á vegum Alþjóðapóstsambandsins, er ljóst að með aðild sinni að sambandinu skuldbindur Ísland sig til að taka við pósti annarra samningsríkja og dreifa honum sem eigin pósti. Með framangreindri tengingu er myndað póstnet sem tekur nánast til allra landa veraldar.
    Annað grundvallaratriði í póstflutningum er að flutningsgjald (burðargjald) innan ríkja er að jafnaði það sama en tekur ekki tillit til mismunandi kostnaðar póststjórna við að dreifa pósti til hinna ýmsu landshluta. Þótt slík sjónarmið séu að vissu leyti andstæð grunnsjónarmiðum í samkeppnis- og verðlagsmálum er ljóst að þessari viðmiðun í póstþjónustu hefur ekki verið hnekkt. Helgast það fyrst og fremst af því að mismunandi verðlagning innan landa yrði illframkvæmanleg og kostnaðarsöm í framkvæmd og slíkt stríðir gegn því jafnræðissjónarmiði sem haft hefur verið í heiðri í póstþjónustu, að ekki skipti meginmáli hvar bréf er sent eða hver sé viðtakandi og að tryggður sé réttur manna til að hafa samskipti við aðra menn á tryggan og hagkvæman hátt.
    Hér á landi tók ríkisvaldið á sig þær lagalegu skyldur að halda uppi ákveðinni lágmarkspóstþjónustu við þegna landsins, en jafnframt við önnur ríki samkvæmt alþjóðlegum samningum. Ætla má að allverulegur hluti af rekstrartapi vegna póstþjónustunnar á undanförnum árum sé vegna framangreindra skuldbindinga. Sökum strjálbýlis og að nokkru leyti erfiðra samgangna, sem þó hafa stöðugt orðið auðveldari, hefur þessi þjónusta orðið kostnaðarsamari en vera mundi ella.
    Auk þess bar póstsvið Póst- og símamálastofnunar verulegan hluta kostnaðar við svokölluð innrituð blöð og tímarit sem er dreift samkvæmt sérstakri gjaldskrá á mun lægra verði en gildir um aðrar sendingar. Tilgangurinn var á sínum tíma að tryggja öllum landsmönnun aðgang að efni þessara blaða og tímarita gegn hóflegu gjaldi. Sjónarmið undirbúningsnefndarinnar voru þau að ef æskilegt er að mati stjórnvalda að tiltekið efni eigi greiðari aðgang að landsmönnum en annað er að sama skapi eðlilegt að stofnaður verði sérstakur sjóður þar sem hægt sé að sækja um fé þannig að þessir styrkir verði sýnilegir. Niðurstaða málsins varð sú að í nóvember sl. voru ákvæði um innrituð blöð og tímarit felld úr gildi í reglugerð um póstþjónustu og þar með var ekki lengur kvöð á Póst- og símamálastofnun að bjóða upp á slíka gjaldskrá. Engu að síður býður Póstur og sími hf. enn upp á slíka þjónustu á sama verði, en ráðgert er að breytingar verði þar á innan tíðar jafnframt því sem viðskiptavinum verði boðinn aðlögunartími að nýrri gjaldskrá fyrir slíkar póstsendingar.
    Þrátt fyrir taprekstur póstþjónustunnar um árabil hefur með styrkri fyrirhyggju- en um leið aðhaldssamri stjórn Póst- og símamálastofnunar verið unnt að halda uppi fjarskipta- og póstþjónustu sambærilegri þeirri sem best þekkist meðal annarra þjóða, en jafnfram hefur verið unnt að byggja stofnunina svo upp fjárhags- og eignalega sem raun ber vitni.
    Starfsemi póstþjónustunnar er nú til skoðunar innan Pósts og síma hf. og er stefnt að því að ná jafnvægi í rekstri póstsviðs á næstu 1–2 árum. Staðsetning pósthúsa er í sífelldri endurskoðun og er þá m.a. litið til afkomu þeirra, þarfa notenda og þróunar íbúðarbyggðar á viðkomandi svæðum. Í desember sl. voru pósthúsin í Fljótum (60% staða) og Þykkvabæ (65% staða) lögð niður, auk þess sem afgreiðslu á neðri hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var lokað, en afgreiðsla í „transit-sal“ flugstöðvarinnar verður áfram opin. Enn fremur var póstafgreiðslu á Umferðarmiðstöðinni lokað 1. janúar sl. og pósthúsinu að Lóuhólum verður lokað 1. febrúar. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari lokanir pósthúsa á þessu ári eða því næsta.

Strandastöðvaþjónusta.
    Þjónusta strandastöðva hér á landi hefur verið rekin með miklu tapi undanfarin ár. Í dag eru hún veitt á fimm stöðum á landinu: á Ísafirði, Siglufirði, Hornafirði, Vestmannaeyjum og í Gufunesi. Frá þeim er sinnt neyðarþjónustu sem felst í hlustun á neyðarbylgjum og öryggishlustun á bílabylgju. Rekstrartekjur af strandastöðvaþjónustunni eru um 50 millj. kr. á ári en rekstrarkostnaður um 250 millj. kr. á ári og er tap af starfseminni því um 200 millj. kr. á ári. Tæknilega má bjóða sömu þjónustu frá einni strandastöð og spara þannig verulegar fjárhæðir. Benda má á að slík þjónsta erlendis hefur breyst mjög mikið að undanförnu samfara aukinni hagnýtingu fjarskiptatækninnar. Það er spá manna að innan fárra ára muni strandastöðvaþjónusta heyra sögunni til í strandríkjum Evrópu þar sem gervitunglafjarskipti sjófarenda verða æ algengari og ódýrari. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð strandastöðvaþjónustunnar, en í ljósi þess taprekstrar sem að framan greinir verður vart hjá því komist að endurskoða starfsemina og hvernig færa megi rekstur hennar til betri vegar. Geta má í þessu sambandi að nýlega skilaði nefnd á vegum samgönguráðuneytis skýrslu um strandastöðvaþjónustuna og framtíðarhorfur hennar, ásamt tillögum að breytingum á rekstri. Í henni er til að mynda gerður greinarmunur á þeim þætti þjónustunnar sem lýtur að öryggi sjófarenda annars vegar og almennri radíóþjónustu hins vegar, en þess má geta að slík þjónusta er mun dýrari í nágrannalöndunum en hér á landi. Endanlegar ákvarðanir um breytingar hafa ekki verið teknar, en innan tíðar munu fara fram viðræður um málið milli stjórnar Pósts og síma hf. og samgönguráðuneytis.

Stofnun dótturfélaga o.fl.
    Samkvæmt lögum um stofnun Póst og síma hf. er heimilt að skipta félaginu upp í aðskilin fyrirtæki, sem og að stofna sérstök dótturfélög um einstaka þætti starfseminnar. Athugun á hagkvæmni slíkra breytinga, t.d. að skipta félaginu upp í Póst hf. og Síma hf. hefur ekki farið fram og því ekki unnt að fjölyrða um þau mál að svo stöddu. Reynsla annarra landa af slíkum breytingum hefur að flestra mati verið sú að hvor eining um sig sýnir nú betri árangur en áður, en víðast hvar í Evrópu hafa slíkar breytingar átt sér stað. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um stofnun dótturfélaga Pósts og síma hf. um einstaka þætti starfseminnar, en ljóst er að í ýmsum tilvikum kann það að vera fýsilegur eða jafnvel nauðsynlegur kostur, ekki hvað síst ef litið er til breyttra krafna samkeppnisyfirvalda um stjórnunar- eða fjárhagslegan aðskilnað einstakra þjónustuþátta. Sömu sögu er að segja af heimild í lögum um að Pósti og síma hf. sé heimilt að kaupa og selja hluti í öðrum fyrirtækjum. Undir vissum kringumstæðum kann það vissulega að vera góður kostur í samkeppnisumhverfi, en í þeim efnum hafa heldur engar ákvarðanir verið teknar.

3. Skipulag Pósts og síma hf.
    Með stofnun Pósts og síma hf. var ákveðið að gera breytingar á skipulagi fyrirtækisins. Markmið breytinganna eru eftirfarandi:
    Að aðlaga skipulagið að breyttum aðstæðum og gera fyrirtækið betur í stakk búið til að bæta þjónustu og mæta harðnandi samkeppni, m.a. með því að auka vægi markaðs- og sölumála og skýra boðleiðir.
    Að aðgreina enn frekar rekstur fjarskiptanetsins frá annarri starfsemi fyrirtækisins og gera þar með rekstrarafkomu sérhverrar þjónustu sýnilegri og rekjanlegri.
    Við breytingarnar hefur verið leitast við að einfalda verkferla, stytta boðleiðir og styrkja viðskipti og þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga um land allt. Með nýju skipuriti er ætlunin að rekstur fjarskiptakerfisins verði aðgreindur frá rekstri póstþjónustunnar enn frekar. Þannig verða tæknimenn Pósts og síma hf. um allt land nú starfsmenn þjónustusviðs eða fjarskiptanets, en þeir starfsmenn sem tengjast póstþjónustunni verða hins vegar starfsmenn póstsviðs.
    Póstþjónustan verður rekin með þeim hætti að starfsemi póst- og símstöðvanna verður styrkt, lögð verður meiri ábyrgð á herðar stöðvarstjóra og reksturinn þar með færður nær viðskiptavinum fyrirtækisins. Þá er gert ráð fyrir að settar verði upp svæðisstöðvar sem munu hafa ákveðna sérstöðu í þjónustuneti fyrirtækisins. Auk þess að bera aukna ábyrgð á sölu- og þjónustu fyrirtækisins á viðkomandi svæði munu svæðisstöðvarnar hafa umsjón með að manna tímabundið nærliggjandi stöðvar, t.d. vegna veikinda, og veita þeim ýmiss konar leiðbeiningar, aðstoð og fræðslu. Þá er ráðgert að sérstakir sölustjórar póstsins, sem og sérstakir sölu- og þjónustufulltrúar símans sem sinna munu samskiptum við fyrirtæki á ákveðnu svæði, hafi aðsetur á þessum lykilstöðvum.
    Tæknimenn, sem annast uppbyggingu og rekstur fjarskiptakerfisins, verða nú formlega sameinaðir undir einni skipulagsheild, þ.e. fjarskiptaneti. Til þessa hefur fjarskiptasvið farið með yfirstjórn tæknimála þó svo að tæknimenn á landsbyggðinni hafi skipulagslega tilheyrt viðkomandi póst- og símstöð eða umdæmisskrifstofu. Þannig munu formlegar boðleiðir nú styttast verulega, en í reynd staðfesta breytingarnar aðeins núverandi vinnubrögð.
    Í kjölfar aukinnar áherslu á sölu- og þjónustumál símans er gert ráð fyrir sérstöku sviði, svokölluðu þjónustusviði, sem mun annast markaðs- og sölumál fjarskiptaþjónustunnar. Með þjónustusviði gefst tækifæri til að endurskipuleggja og sameina krafta fyrirtækisins á þessu sviði og til að byggja upp öflugt net sérhæfðra sölu- og þjónustufulltrúa símans í öllum stærri byggðarlögum og bjóða þar með landsmönnum öllum sérhæfða ráðgjöf og þjónustu á sviði fjarskiptamála.

Aðgreindur rekstur póst- og símaþjónustu.
    Eins og áður er getið hafa skipulagsbreytingarnar m.a. í för með sér að rekstur fjarskiptakerfisins verður skýrt aðgreindur frá rekstri póstþjónustunnar. Um leið og horft er til rekstrarlegs mikilvægis þess að sundurgreina raunkostnað þjónustunnar hefur verið horft til sívaxandi krafna viðskiptalífsins um takmörkun millifærslna og rekjanleika kostnaðarútreikninga eins og úrskurðir Samkeppnisstofnunar bera með sér. Póstþjónustan hefur um nokkurt skeið verið rekin með þó nokkru tapi en til þessa hefur hallarekstur hennar verið jafnaður út með tekjum af símaþjónustu. Þar sem ljóst þykir að samkeppnisaðilar munu til lengdar ekki una slíkum tilfærslum má líta á skýrari aðgreiningu milli póst- og símaþjónustu sem eðlileg viðbrögð fyrirtækisins við þessum viðhorfum.
    Þá kemur skiptingin sér einnig vel með tilliti til væntanlegrar sölu Pósts og síma á aðgangi að grunnkerfi fjarskiptakerfisins til samkeppnisaðila, eins og tilskipun ESB um frjálsa samkeppni á sviði fjarskipta segir til um.

Frá stjórnsýslu til aukinnar þjónustu við landsmenn.
    Með hliðsjón af breyttum áherslum og fyrrnefndri aðgreiningu á rekstri póst- og fjarskiptaþjónustunnar er ljóst að ekki verður lengur þörf á rekstri sérstakra umdæmisskrifstofa.
    Starfsemi umdæmanna hefur til þessa heyrt faglega undir aðalsvið fyrirtækisins þó svo að umdæmisstjórarnir sjálfir hafi heyrt beint undir Póst- og símamálastjóra. Skrifstofurnar hafa gegnt hlutverki svæðisbundinnar stjórnsýsluskrifstofu, þ.e. verið eins konar milliliðir milli aðalsviða og póst- og símstöðva í viðkomandi landsfjórðungi. Því má segja að yfirstandandi breytingar staðfesti einnig formlega þá stjórnunarhætti sem tíðkast hafa undanfarin ár en auki um leið hraða og skilvirkni starfseminnar.
    Þá opnast í kjölfar breytinganna möguleikar á að einfalda verkferla, samræma betur þjónustu og starfsemi fyrirtækisins um allt land og stytta til muna ýmsar boðleiðir, svo sem frá stöðvarstjóra til framkvæmdastjóra.
    Þau verkefni sem umdæmisskrifstofurnar hafa sinnt til þessa verða ýmist flutt til viðkomandi stöðvarstjóra og tæknimanna eða færð undir það fagsvið sem til þessa hefur haft umsjón með viðkomandi störfum umdæmisskrifstofanna.

Áhrif breytinganna á starfsmannafjölda.
    Umdæmisskrifstofur Pósts og síma voru sex að tölu. Þrjár þeirra voru í Reykjavík, þ.e. umdæmi I (Suðurland, Reykjanes og Vesturland), umdæmi V (símaþjónusta í Reykjavík) og umdæmi VI (póstþjónusta í Reykjavík). Ein umdæmisskrifstofa var á Ísafirði (Vestfirðir), önnur á Akureyri (Norðurland) og sú þriðja á Egilsstöðum (Austurland).
    Við skipulagsbreytingarnar hafa stöður umdæmisstjóra verið lagðar niður, þ.e. þrjár í Reykjavík og þrjár á landsbyggðinni. Starfsmenn umdæmisskrifstofanna að frátöldum umdæmisstjórum, svo sem ritarar og fulltrúar, munu flestir ýmist starfa áfram við þau verkefni sem þeir hafa sinnt til þessa undir umsjón viðkomandi fagdeildar eða taka að sér ný verkefni á viðkomandi stöð.

4. Starfsemi svæðisstöðva Pósts og síma.
Nýtt þjónustukerfi.
    Í tengslum við breytingar á skipulagi Pósts og síma og niðurlagningu umdæmisskrifstofa, þar sem áhersla hefur m.a. verið lögð á fjármálaeftirlit, starfsmannahald og fleira þess háttar, er verið að taka upp nýtt kerfi sem byggist meira á markaðssetningu og þjónustu við viðskiptavini.
    Póst- og símstöðvunum verður skipt í tvo flokka, svæðisstöðvar, sem skipa munu ákveðna sérstöðu í þjónustukerfinu, og þjónustustöðvar, þ.e. almenna afgreiðslustaði.
    Þá er ráðgert að sérstakir sölustjórar póstsins sem og sérstakir sölu- og þjónustustjórar símans muni sinna samskiptum við stærri viðskiptavini. Þeir munu hafa aðsetur á svæðistöðvunum.
    Um leið og áhersla er lögð á að efla sölu- og þjónustustarfsemi fyrirtækisins á þessum lykilstöðum er starfsemi umdæmisskrifstofanna að hluta til felld inn í starfsemi svæðisstöðvanna.

Svæðisstöðvar.
    Eins og áður hefur komið fram munu nokkrar af stærri póst- og símstöðvunum á landsbyggðinni gegna hlutverki sérstakra svæðisstöðva, en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um staðsetningu þeirra. Þær munu annast samræmingu og eftirlit með þjónustu fyrirtækisins á viðkomandi svæði auk þess að sjá um ýmiss konar upplýsingamiðlun, fræðslu og leiðbeiningar til annarra stöðva á svæðinu, taka þátt í skipulagningu póstflutninga og annast samskipti og eftirlit með landpóstþjónustunni á svæðinu. Þá munu svæðisstöðvarnar veita aðstoð við að manna nærliggjandi stöðvar tímabundið, t.d. vegna veikinda.
    Sérstakir starfsmenn póstþjónustunnar verða á svæðisstöðvunum. Hlutverk þeirra er að annast kynningar- og sölumál, sem og önnur samskipti við stærri viðskiptavini á viðkomandi svæði. Sölustjórarnir vinna með viðskiptavinum að útfærslu á þjónustuþörf þeirra.
    Sölu- og þjónustustjórar símans verða á svæðisstöðvum. Hlutverk þeirra er að annast kynningar- og sölumál, sem og önnur samskipti við stærri viðskiptavini á viðkomandi svæði. Með tilkomu þessara sölu- og þjónustustjóra símans gefst tækifæri til að bjóða landsmönnum sérhæfða ráðgjöf og þjónustu sem tækninýjungar á sviði fjarskipta og margmiðlunar krefjast.

5. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.
    Samkvæmt lögum nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, eiga starfsmenn fyrirtæksins áfram rétt á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild. Iðgjöld til deildarinnar eru óbreytt frá því sem verið hefur, þ.e. 10% af dagvinnulaunum. Ljóst er að þessi iðgjöld munu engan veginn duga til að standa undir skuldbindingum sjóðsins. Undirbúningsnefndin lagði megináherslu á það í viðræðum við fjármálaráðuneytið að verulega íþyngjandi væri fyrir félagið að hefja starfsemi með óvissu í þessum efnum og voru færð fyrir því ýmis rök. Niðurstaða þessara viðræðna leiddi til samkomulags við fjármálaráðuneytið um að félagið greiði 6% af heildarlaunum starfsmanna sem aðild eiga að B-deild LSR en að ríkissjóður taki á sig þá skuldbindingu sem umfram kann að verða. Fyrirvari er þó um að verði iðgjöld launagreiðenda í sjóðinn hækkuð umfram þetta gildi hið sama um Póst og síma hf.
    Áfallin lífeyrissjóðsskuldbinding fram til 31. desember 1995 er færð í ársreikning Póst- og símamálastofnunar að upphæð 9.397 millj. kr. samkvæmt útreikningum tryggingastærðfræðinga. Upphæð þessi er tilkomin vegna þess að 10% iðgjöld til sjóðsins af dagvinnu hafa hvergi nærri dugað til að standa undir þeim skuldbindingum sem sjóðurinn hefur tekið á sig. Nefnd sem lagði mat á eignir og skuldir stofnunarinnar og skilaði skýrslu í lok október sl. lagði til að þessi skuldbinding yrði gerð upp með skuldabréfi að upphæð 7.484 millj. kr. til 25 ára með 6% vöxtum en mismunur á tölunum stafar af því að í mati tryggingastærðfræðinga á skuldbindingunni er gert ráð fyrir 2% ávöxtun sjóðsins umfram launabreytingar. Umrædd nefnd taldi að skuld þessi íþyngdi félaginu verulega og að til greina gæti komið af hálfu eigandans að lækka hana. Niðurstaða málsins varð sú að fjárhæðin yrði 6.000 millj. kr. og var undirritað samkomulag milli fjármálaráðuneytis og undirbúningsnefndar um að gefin verði út skuldabréf með veði í eignum Pósts og síma hf. að upphæð 6.000 millj. kr. til 25 ára með 6% vöxtum frá 1. janúar 1997 og að þar með séu gerðar upp af hálfu Pósts og síma hf. allar áfallnar lífeyrisskuldbindingar við LSR fram að þeim tíma og að ríkissjóður taki á sig það sem umfram kann að vera.

6. Samkeppni í farsímaþjónustu.
    Um miðjan desember sl. auglýsti samgönguráðuneytið eftir umsóknum um eitt leyfi til starfræsklu GSM-farsímaþjónustu, en sem kunnugt er hefur Póst- og símamálastofnun haft slíka þjónustu með höndum frá árinu 1994. Unnið hefur verið að undirbúningi málsins í samgönguráðuneytinu síðan í janúar 1996 ásamt innlendum og erlendum ráðgjöfum.
    Með útboðinu er stigið mikilvægt skref í átt til aukinnar samkeppni í fjarskiptaþjónustu hér á landi, en samkvæmt EES-samningnum höfðu aðildarlöndin frest til áramóta til að hefja undirbúning að samkeppni í farsímaþjónustu, auk þess sem stefnt er að afnámi einkaréttar Pósts og síma til að veita talsímaþjónustu 1. janúar 1998. Í flestum löndum Evrópu eru nú tvö starfsleyfi vegna GSM-þjónustu en auk þess eru ný farsímakerfi að ryðja sér til rúms um þessar mundir.
    Í nágrannalöndunum hefur úthlutun starfsleyfa af þessu tagi undantekningarlaust byggst á útboðum svipuðum því sem hér um ræðir, þ.e. þar sem mat tilboða byggist ekki aðeins á fjárhagslegum þáttum. Leyfin verða gefin út til tíu ára og krafa verður gerð um að þjónusta beggja fyrirtækjanna nái til allra kaupstaða með a.m.k. 1.500 íbúa og 80% landsmanna innan fjögurra ára, en þjónusta Pósts og síma hf. hefur þegar náð slíkri útbreiðslu. Sérstakt gjald verður tekið fyrir starfsleyfin tvö til að standa straum af kostnaði við útboðið og undirbúning verkefna innan stjórnsýslunnar sem af þessari samkeppni mun leiða. Póst- og fjarskiptastofnun mun hafa eftirlit með að fyrirtæki á fjarskiptasviði uppfylli þær kröfur sem til slíks rekstrar eru gerðar samkvæmt fjarskiptalögum.
    Eins og fram kemur hér að framan mun mat umsókna byggjast á nokkrum þáttum, svo sem tæknibúnaði, gjaldskrá og hraða uppbyggingar kerfisins, og segja má að litið verði til tilboðanna í heild sinni þegar ákvörðun verður tekin um val á nýjum leyfishafa. Tilboðsfrestur er til 2. apríl og reiknað er með að yfirferð tilboða taki þrjá mánuði og að samkeppni geti hafist á haustdögum 1997. Afhending útboðsgagna er í höndum Ríkiskaupa, en sýniseintök liggja jafnframt frammi í samgönguráðuneytinu og í lestrarsal Alþingis, þingmönnum til til kynningar.

7. Framtíðarmöguleikar Pósts og síma hf.
    Ekki er lengur um það deilt að breytingar á Póst- og símamálastofnun í hlutafélag voru orðnar óumflýjanlegar með hliðsjón af þróun fjarskipta- og póstmála í heiminum. Aukin samkeppni kallar á aukinn þrótt fyrirtækja og sveigjanleika og þó að Póst- og símamálastofnun hafi skilað hlutverki sínu gagnvart landsmönnum með miklum ágætum síðustu áratugina er ógjörningur að segja til um það með fullri vissu hvort slík hefði orðið reyndin í þeirri samkeppni sem nú er hafin á öllum sviðum.
    Með því aukna svigrúmi sem Póstur og sími hf. hefur nú fengið til að takast á við komandi samkeppni benda allar líkur til þess að fyrirtækið muni standa sig vel sem endranær, en í gerbreyttu umhverfi með annars konar kröfum markaðarins. Tæknileg staða fyrirtækisins er mjög góð og starfsmenn þess búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Með skynsamlegri stjórnun og fjárfestingum má búast við því að fyrirtækið geti spjarað sig svo að sómi sé að.

8. Hlutverk samgönguráðherra samkvæmt lögum um póst- og fjarskiptastofnun.
    Samkvæmt lögum um póst- og fjarskiptastofnun er kveðið á um að samgönguráðherra skipi forstöðumann stofnunarinnar, en að öðru leyti verði afskipti ráðuneytis af daglegum rekstri hennar í lagmárki. Meðal meginverkefna stofnunarinnar verður útgáfa rekstrarleyfa og eftirlit með þeim, gerðarprófun fjarskiptabúnaðar, úthlutun tíðnirása vegna fjarskiptastarfsemi, þátttaka í alþjóðasamstarfi og yfirumsjón með framkvæmd póstlaga og fjarskiptalaga. Af þessu leiðir að öll starfsemi Fjarskiptaeftirlits ríkisins mun færast til Póst- og fjarskiptastofnunar sem og hluti af verkefnum samgönguráðuneytis á þessu sviði. Auk þess tekur stofnunin við þeim stjórnsýsluverkefnum sem Póst- og símamálastofnun hefur annast. Ráðherra hafði mun meiri bein áhrif á daglega starfsemi Póst- og símamálastofnunar og Fjarskiptaeftirlit ríkisins en hann mun hafa á samstarf Pósts og síma hf. og Póst- og fjarskiptastofnunar. Til að tryggja enn frekar að ráðherra hafi ekki afskipti af meðferð mála hjá Póst- og fjarskiptastofnun í framtíðinni verður, lögum samkvæmt, skipuð sérstök úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sem taka mun til umfjöllunar öll ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna ákvarðana og úrskurða Póst- og fjarskiptastofnunar. Nefndin verður skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Formaður hennar og varaformaður skulu tilnefndir af Hæstarétti, einn aðalmaður, ásamt varamanni, tilnefndur af stjórn Verkfræðingafélags Íslands og þriðji aðalmaður, ásamt varamanni, tilnefndur af samgönguráðherra. Afskipti ráðherra af nefndinni takmarkast við skipun nefndarmanna samkvæmt fyrrgreindum tilnefningum. Að öðru leyti hefur hann ekki frekar með störf nefndarinnar eða úrskurði að gera þar sem úrskurðir hennar verða endanlegir á stjórnsýslustigi.

Skipulag Pósts og síma hf. frá 1. janúar 1997.



(Myndað.)