Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 314 . mál.


575. Tillaga til þingsályktunar



um verðbólgureikningsskil.

Flm.: Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Egilsson.



    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nefnd sérfróðra aðila til að kanna hvort hverfa eigi frá verðbólgureikningsskilum hérlendis. Athugun nefndarinnar nái m.a. til skoðunar á lögum um bókhald, lögum um ársreikninga og á lögum um tekjuskatt og eignarskatt svo og á fyrirkomulagi á fjárreiðum ríkisins.
    Nefndina skipi m.a. endurskoðendur, kennarar í reikningshaldi og endurskoðun við Háskóla Íslands og sérfræðingar úr ráðuneytum viðskipta og fjármála svo og aðrir sem starfa á fjármagnsmarkaði hérlendis og búa yfir víðtækri þekkingu á þessu sviði.
    Nefndin ljúki störfum fyrir apríllok 1998 og geri tillögur um lagabreytingar ef hún telur nauðsyn á því. Viðskiptaráðherra leggi í kjölfar þess fram frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um verðbólgureikningsskil til kynningar á vorþingi 1998.

Greinargerð.


    Verðbólgureikningsskil hafa tíðkast hérlendis í tæpa tvo áratugi. Verðbólgureikningsskil fyrirtækja eru m.a. fólgin í því að tekið er tillit til verðbólgu í ársreikningum og kemur sú aðferðafræði einnig fram í skattalögum.
    Þegar verðbólga var sem mest hérlendis og mun hærri en í nágrannalöndunum var eðlilegt að leitað væri leiða til að endurspegla þá þróun í ársreikningum. Nú er verðbólga svipuð hér og í nágrannalöndunum, en verðbólgureikningsskil þekkjast einungis hér á landi. Að mati margra er kominn tími til að hverfa frá verðbólgureikningsskilum og laga uppgjörs- og skattalög okkar að þeim sem algengust eru í nágrannalöndunum.
    Ljóst er að þótt hætt verði við verðbólgureikningsskil þýðir það ekki að horfið verði frá verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það er allt annað mál og umræða um afnám eða minnkun verðtryggingar hefur lítil áhrif á þá vinnu sem samþykkt tillögunnar hefði í för með sér.
    Í íslenskum verðbólgureikningsskilum eru m.a. varanlegir rekstrarfjármunir endurmetnir með því að framreikna upphaflegt stofnverð þeirra miðað við breytingar á vísitölu og afskrifa til loka reikningsárs. Í skattalögum er nú miðað við vísitölu neysluverðs við verðbreytingar en áður var miðað við byggingarvísitölu.
    Eitt mikilvægasta atriðið í verðbólgureikningsskilum er svokölluð verðbreytingafærsla en með henni eru áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir reiknuð og færð í ársreikning og mynda reiknaðar tekjur eða gjöld vegna verðlagsbreytinga. Reiknaðar tekjur (gjöld) vegna skulda og peningalegra eigna endurspegla þá raunvirðisrýrnun (raunvirðishækkun) sem verður á þessum liðum við verðbólguaðstæður og á færslan sér því mótvægi í vöxtum, verðbótum, gengistapi og gengishagnaði.
    Hafa ber í huga að ársreikningar og skattframtöl þurfa ekki að vera samhljóða hjá einstökum fyrirtækjum. Skattframtöl taka mið af lögum um tekjuskatt og eignarskatt og eru í nokkru frábrugðin þeim möguleikum sem fyrirtæki hafa til framsetningar á rekstrar- og efnahagsreikningi sínum. Skattframtöl eru til að leggja á opinber gjöld samkvæmt lögum, en bókhald fyrirtækja og ársreikningar eiga að sýna rekstur þeirra og efnahag á ljósan hátt og endurspegla raunverulega stöðu fyrirtækis þar sem allar fjárhagsstærðir eru metnar af varkárni. Löggiltir endurskoðendur vinna eftir sérstökum lögum og starf þeirra krefst langs náms og sérstakrar vandvirkni.
    Hvað varðar fyrirtæki þarf nefndin m.a. að skoða breytingar á lögum um bókhald, nr. 145/1994, lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, ef breytt verður um uppgjörsaðferðir. Almenna uppgjörsreglan í nágrannalöndunum, bæði hjá fyrirtækjum og ríki, er að færa alla vexti til gjalda, en þar eru verðtryggð lán mjög sjaldgæf.
    Fyrsta skrefið í þessu ferli gæti verið að ríkið lagi uppgjörsaðferðir sínar að þeim sem gilda í fyrirtækjum en þannig að ekki sé gert upp með verðbólgureikningsskilum. Nú færir ríkið fjármagnskostnað þannig að raunvextir verðtryggðra lána og nafnvextir óverðtryggðra og gengistryggðra lána eru færðir til gjalda en verðbótaþáttur verðtryggðra lána og gengisbreyting gengistryggðra lána er færð um endurmatsreikning, þ.e. yfir efnahagsreikning en ekki rekstrarreikning. Hægt væri að taka upp þá aðferð hjá ríkinu að færa alla vexti og verðbætur til gjalda eins og uppgjör fyrirtækja er hérlendis en falla frá verðbreytingafærslu.
    Frumvarp um fjárreiður ríkisins er til umfjöllunar á yfirstandandi þingi en þar er ekki gert ráð fyrir að breyta uppgjörsaðferðum stjórnvalda. Fjárfestingar hjá hinu opinbera eru gjaldfærðar á því ári sem þær eru gerðar en ekki færðar til eigna og afskrifaðar eins og almennast er hjá fyrirtækjum.
    Sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en var ekki útrætt. Þá sagði m.a. í áliti sérnefndar sem fjallaði um frumvarpið að komið hefðu fram „hugmyndir í nefndinni varðandi færslu vaxta og verðbóta í reikningsskilum, þ.e. um að færa alla vexti til gjalda án leiðréttingar vegna verðþátta. Í skýrslu ríkisreikningsnefndar um málið kemur fram að nefndin hafi velt fyrir sér hvort rétt væri að huga að því að beita sömu reglum í reikningsskilum ríkissjóðs og almennt tíðkast erlendis. Niðurstaðan hafi orðið sú að ríkið ætti ekki að gera tillögur um breytingar á þessu stigi. Ekki eru hér lagðar til breytingar hvað þetta varðar, en þó er full ástæða fyrir ríkisreikningsnefnd að fylgjast náið með þróun mála í þessu efni á næstu missirum.“
    Einnig er hægt að vísa til umsagnar Stefáns Svavarssonar, dósents í reikningshaldi og endurskoðun við Háskóla Íslands, formanns reikningsskilaráðs, til efnahags- og viðskiptanefndar haustið 1996 um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þar segir Stefán m.a. að tímabært sé „að ræða hvort ekki séu efni til að gera þá breytingu á skattalögunum að fella brott verðleiðréttingar, þ.e. framreikning á kostnaðarverði fastafjármuna, en afskriftir eru teknar af því verði og verðbreytingafærslu, enda eru breytingar á almennu verðlagi hér á landi ekki lengur meiri en í nágrannalöndunum og þar eru slíkar verðleiðréttingar ekki gerðar. Fyrir vikið er erfitt að gera raunhæfan samanburð á afkomu og efnahag íslenskra fyrirtækja og erlendra fyrirtækja. Í þessu sambandi má benda á að afleiðing þess að nota verðleiðrétt reikningsskil er m.a. sú að arðsemi íslenskra fyrirtækja sýnist vera miklu verri en fyrirtækja t.d. í OECD-löndunum. Óráðlegt er að hætta verðleiðréttingum í íslenskum reikningsskilum þó að verðbólgan sé lítil þar sem ákvæði skattalaga gera enn ráð fyrir verðleiðréttingum. Verðleiðréttingarnar hófust með breytingum á skattalögunum 1979 og þeim verður ekki hætt við gerð reikningsskila að óbreyttum skattalögum. Rétt þykir að taka fram að einnig má færa rök fyrir því að skynsamlegt geti verið að hætta ekki verðleiðréttingum í íslenskum reikningsskilum en því máli verða ekki gerð skil hér.“
    Flutningsmenn telja því tímabært að gerð sé vönduð úttekt á því hvort rétt sé að breyta lögum hvað varðar verðbólgureikningsskil. Í tillögunni er gert ráð fyrir nefndarskipun af hálfu viðskiptaráðherra á faglegum grunni. Flutningsmenn benda á að reikningsskilaráð geti vel tekið þátt í þessari úttekt. Reikningsskilaráð er ráðherraskipuð nefnd sem skal stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju, m.a. með kynningu samræmdra reglna við gerð reikningsskila.
    Þeirri nefnd, sem yrði skipuð samkvæmt tillögunni, er falið að skoða bæði uppgjörsaðferðir fyrirtækja, skattalög og fjárreiður ríkisins og leggja til breytingar á verðbólgureikningsskilum ef slíkt þykir skynsamlegt. Vitaskuld þarf nefndin að afla sér upplýsinga erlendis frá og meta breyttar aðstæður hérlendis hvað varðar verðbólguþróun.
    Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að nefndin skili tillögum að frumvarpi eða frumvörpum og eðlilegt er að viðskiptaráðherra leggi þau fram til kynningar í kjölfar þess að nefndin skili af sér. Ef tillagan verður samþykkt á vorþingi 1997 er nefndinni ætlað eitt ár til að vinna að tillögum sínum.
    Flutningsmenn hafa ekki myndað sér skoðun fyrir fram á því hvort hætta eigi verðbólgureikningsskilum, en benda á að alþjóðlegur samanburður verður mun auðveldari, bæði milli fyrirtækja og opinberra aðila, ef uppgjörsaðferðir eru sambærilegar.