Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 339 . mál.


611. Skýrsla



dómsmálaráðherra til Alþingis um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. Inngangur.
    Við 1. umræðu um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum) sem fram fór hinn 5. desember 1996 óskaði Kristín Ástgeirsdóttir alþingismaður eftir því við dómsmálaráðherra að Alþingi yrði gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á síðustu mánuðum og missirum. Í skýrslu þessari er slík samantekt auk þess sem hún hefur að geyma yfirlit um viðfangsefni einstakra ráðuneyta á þessu sviði. Þá gerir skýrslan og grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum frá 3. desember 1996 sem og öðrum aðgerðum sem samhliða voru ákveðnar á þessu sviði.

2.     Verkefnisstjórn dómsmálaráðherra vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum.
    Í janúar 1996 skipaði dómsmálaráðherra sérstaka verkefnisstjórn til að vinna að ávana- og fíkniefnavörnum sem falla undir dómsmálaráðuneytið með það fyrir augum að:
    Athuga hvort herða beri viðurlög við dreifingu ávana- og fíkniefna.
    Athuga hvort endurskoða þurfi meðferð ákæruvalds og dómstóla á brotum vegna ávana- og fíkniefna.
    Efla löggæslu og önnur úrræði gegn dreifingu og neyslu ávana- og fíkniefna.
    Efla forvarnir á sviði ávana- og fíkniefna, þar á meðal fræðslu í skólum.
    Bæta úrræði og leita nýrra leiða til að endurhæfa ungmenni sem leiðst hafa út í neyslu ávana- og fíkniefna.
    Skoða meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem í tengslum við ávana- og fíkniefnaneyslu hafa leiðst út í afbrot og fengið refsidóma vegna þeirra.
    Í verkefnisstjórninni voru fulltrúar ávana- og fíkniefna- og forvarnadeilda lögreglunnar í Reykjavík, fulltrúi foreldra ungmenna sem leiðst hafa út í neyslu ávana- og fíkniefna, fulltrúar ungmenna og fulltrúi frá Fangelsismálastofnun ríkisins. Í verkefnisstjórninni áttu sæti Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, Björgvin Stefánsson nemi, Erlendur Baldursson afbrotafræðingur, Jón Hákon Magnússon bæjarfulltúi, Kristján I. Kristjánsson lögreglufulltrúi, Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Sigurður Orri Jónsson nemi.
    Verkefnisstjórnin lauk störfum í júní 1996 og skilaði til dómsmálaráðherra skýrslu með tillögum. Skýrsla verkefnisstjórnarinnar og tillögur hennar voru kynntar allsherjarnefnd Alþingis á fundi 3. júlí sl. Um svipað leyti var skýrslan send nefndarmönnum í félagsmála-, heilbrigðis- og trygginga- og menntamálanefndum þingsins til kynningar.
    Í skýrslunni setti verkefnisstjórnin fram tillögur í átta liðum um aðgerðir á sviði fíkniefna- og áfengisvarna. Tillögurnar voru þessar:
     Samræmd stefna í áfengis- og vímuefnavörnum og afbrotavörnum. Lagt var til að dómsmálaráðherra beitti sér fyrir því að ríkisstjórnin markaði sér án tafar samræmda stefnu til nokkurra ára í fíkniefnavörnum. Lagt var til að stefnan næði til allra fíkniefna, löglegra jafnt sem ólöglegra.
     Stofnun afbrota- og vímuvarnaráðs. Lagt var til að í framhaldi af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði yrði hafinn undirbúningur að stofnun afbrota- og vímuvarnaráðs með það fyrir augum að slíkt ráð gæti tekið til starfa 1. janúar 1997.
     Foreldrar og forvarnir í ávana- og fíkniefnamálum. Lögð var áhersla á að dómsmálaráðherra beitti sér fyrir því að lögreglan starfaði markvisst að því að virkja foreldra og vinna með þeim að áfengis- og fíkniefnavörnum. Jafnframt var undirstrikuð nauðsyn þess að forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík yrði gert kleift að miðla upplýsingum og fræðslu um vímuvarnir til lögreglu annars staðar á landinu. Jafnframt var lagt til að deildin, í samvinnu við fjölmiðla og aðra, kæmi á framfæri upplýsingum og áróðri til foreldra og annarra uppalenda um neikvæð áhrif ávana- og fíkniefna á börn og ungmenni.
     Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Lagðar voru til nokkrar breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Í fyrsta lagi var lagt til að ýmsar breytingar yrðu gerðar á almennum hegningarlögum, m.a. á ákvæðum þeirra laga um upptöku ávinnings. Í öðru lagi var lagt til að dómsmálaráðherra beitti sér fyrir hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár þannig að sjálfræðisaldur og fjárræðisaldur færi saman. Í þriðja lagi var lagt til að dómsmálaráðherra beindi þeim tilmælum til nefndar sem endurskoðar ákvæði áfengislaga nr. 82/1969 með síðari breytingum að skerpt yrðu ýmis refsiákvæði þeirra laga. Í fjórða lagi að dómsmálaráðherra beindi þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að nokkrar breytingar yrðu gerðar á lögum um ávana- og fíkniefni, m.a. um að anabólískir sterar falli undir lögin og að í lögin kæmu ítarlegri ákvæði um upptöku ólögmæts ávinnings. Í fimmta lagi að dómsmálaráðherra láti í samvinnu við embætti ríkissaksóknara hefja undirbúning að samningu skýrra verklagsreglna um óhefðbundnar rannsóknaraðgerðir í ávana- og fíkniefnamálum og að í þeirri vinnu yrði jafnframt kannað hvort skerpa þurfi landsumboð ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og hvort æskilegt væri að setja reglur um heimild deildarinnar til að greiða fyrir upplýsingar sem leiða til að upplýst yrðu stærri brot á lögum um ávana- og fíkniefni.
     Staðfesting fíkniefnasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1988. Lagt var til að dómsmálaráðherra beitti sér fyrir því að hraðað yrði undirbúningi að staðfestingu fíkniefnasamnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1988.
     Efling ávana- og fíkniefnastarfsemi löggæslunnar. Lagt var til að dómsmálaráðherra beitti sér fyrir ýmsum breytingum á starfsemi þeirrar deildar sem annast rannsókn í ávana- og fíkniefnamálum við embætti lögreglustjórans í Reykjavík til að efla þá starfsemi. M.a. var lagt til að skipulag, verksvið og ábyrgð deildarinnar yrði endurskoðað til að styrkja stöðu hennar innan embættisins. Þá var einnig lagt til að lögreglumönnum við deildina yrði fjölgað í samræmi við aukin verkefni, nýjar áherslur í starfi deildarinnar, skiptivinnu og þjálfun. Loks var lagt til að tækjakostur deildarinnar yrði bættur þannig að hann stæðist ávallt nútímakröfur, að úreldingartími tækja yrði skilgreindur og tækjabúnaður endurnýjaður í samræmi við slíkar reglur.
     Samvinna löggæslu og tollyfirvalda. Lagt var til að samskipti ávana- og fíkniefnadeildar hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, rannsóknardeildar ríkistollstjóra, tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og skattrannsóknastjóra yrði gerð formlegri og skipaður sérstakur samstarfshópur. Auk þess var lögð til skiptivinna milli lögreglu og tollgæslu.
     Meðferðar- og afplánunarúrræði fyrir brotamenn sem jafnframt eru háðir neyslu ávana- og fíkniefna. Lagt var til að samstarf Fangelsismálastofnunar ríkisins, meðferðarstofnana og geðdeilda yrði eflt og aukið þannig að brotamenn sem háðir eru neyslu ávana- og fíkniefna, m.a. áfengis, eigi kost á að ljúka síðustu vikum afplánunar í meðferð. Einnig var lagt til að samstarf Fangelsismálastofnunar ríkisins og félagsmálastofnana yrði eflt m.a. til að tryggja að eftir meðferð ættu þessir einstaklingar kost á stuðningi. Loks var lagt til að Fangelsismálastofnun ríkisins yrði gert kleift að standa svo að málum að fullnustu dóma vegna ávana- og fíkniefnabrota verði ætíð hraðað svo sem kostur væri.
    Dómsmálaráðherra kynnti tillögur verkefnisstjórnarinnar á fundi ríkisstjórnar í lok júní 1996. Ríkisstjórnin ákvað að fela nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum að gera drög að stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki og að hefja undirbúning að stofnun sérstaks ráðs til starfa á þessu sviði. Verður nánar vikið að því starfi hér á eftir.

3.    Nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum.
    Ráðuneyti sem fíkniefnavarnir heyra undir hafa um langt skeið staðið fyrir margvíslegum aðgerðum til að draga úr og hindra neyslu fíkniefna. Verður nánar vikið að starfi á vegum ráðuneytanna síðar í þessari skýrslu.
    Í lok janúar 1996 ákvað ríkisstjórnin að tillögu dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra að samræma aðgerðir vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum. Jafnframt var ákveðið að setja á laggirnar nefnd ráðuneyta til að fylgjast með þessari vinnu. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar ráðherra dómsmála, félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála. Í nefndinni eiga sæti Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, Árni Gunnarsson aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneyti og Þórir Haraldsson aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Frá því í nóvember 1996 hefur fulltrúi fjármálaráðherra verið í nefndinni, Bergþór Magnússon deildarsérfræðingur í fjármálaráðuneyti. Í nefndinni hafa einnig setið Erna Árnadóttir deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneyti, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti og Ingimar Einarsson sérfræðingur hjá embætti landlæknis.
    Nefndinni var falið að:
    Fylgjast með vinnu sem hvert ráðuneyti hefur með höndum eða kann að setja af stað til að samræma verkefni og aðgerðir þeirra á sviði ávana- og fíkniefnavarna og koma í veg fyrir tvíverknað vegna skörunar á verkefnum milli ráðuneyta.
    Skoða verkaskiptingu milli ráðuneyta á þessu sviði með tilliti til skörunar og gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um framtíðarfyrirkomulag verkaskiptingar.
    Grípa inn í og ákveða í hvaða ráðuneyti verkefni á þessu sviði skuli unnið, komi tvíverknaður í ljós.
    Í upphafi var fyrirhugað að nefnd ráðuneyta lyki störfum um svipað leyti og verkefnisstjórn dómsmálaráðherra. Þegar ríkisstjórnin ákvað, í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar dómsmálaráðherra, að hefja undirbúning að sérstakri stefnu á sviði fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna var hins vegar ákveðið að nefndin starfaði áfram. Henni var falið að annast þennan undirbúning og að semja drög að frumvarpi til laga um sérstakt vímuvarnaráð. Stefnu í þessum málaflokki samþykkti ríkisstjórnin hinn 3. desember 1996 eins og áður hefur komið fram. Þá var og ákveðið að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra legði fyrir Alþingi frumvarp til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Jafnframt var nefnd ráðuneyta falið að halda enn áfram störfum og fylgjast m.a. með framvindu stefnu ríkisstjórnarinnar uns áfengis- og vímuvarnaráð tekur til starfa, væntanlega síðar á þessu ári.

4.    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Nefnd ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum skilaði ríkisstjórninni í byrjun október sl. drögum að stefnu í þessum málaflokki með áhersluatriðum til næstu aldamóta. Í byrjun nóvember 1996 skilaði nefndin drögum að frumvarpi til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Ríkisstjórnin fjallaði um þessi störf nefndarinnar á fundum í nóvember og samþykkti síðan á fundi sínum 3. desember 1996 aðgerðir í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Helstu þættir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru:
    Stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Auknir fjármunir til forvarna.
    Efling löggæslu og tollgæslu með auknum fjárveitingum.
    Fjárveiting til stuðnings við ungmenni í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis.
    Samstarf ríkisins, Reykjavíkurborgar og Samtaka Evrópuborga gegn eiturlyfjum (ECAD — European Cities Against Drugs) um áætlunina Ísland án eiturlyfja 2002.
    Fullgilding Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og samningi frá 8. nóvember 1990 sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum.
    Verður nú vikið nánar að einstökum þáttum þessara aðgerða.

4.1     Stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Í stefnu ríkisstjórnarinnar felst að hún hefur ákveðið að beita sér markvisst fyrir því að ráðuneyti og stofnanir, löggæsla og tollgæsla, í samvinnu við sveitarfélög, foreldrafélög, félagasamtök og aðra taki höndum saman og samhæfi viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefnaneyslu barna og ungmenna og draga stórlega úr áfengis- og tóbaksnotkun þeirra. Áhersluatriði stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki fram til ársins 2000 eru:
—    Að efla forvarnir, einkum þær sem beint er að einstaklingum sem eru í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks.
—    Að hefta aðgengi barna og ungmenna að fíkniefnum, áfengi og tóbaki.
—    Að auka öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota.
—    Að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíknefnum, áfengi og tóbaki.
—    Að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð.
    Stefnan gerir ráð fyrir að ráðuneyti og undirstofnanir útbúi framkvæmdaáætlanir til að útfæra nánar stefnuna með hliðsjón af verkefnum hvers ráðuneytis. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaáætlanir ráðuneyta og undirstofnana verði tilbúnar 1. mars 1997. Í greinargerð með stefnu ríkisstjórnarinnar er ítarlega fjallað um forsendur hennar. Þar eru einnig taldar upp aðgerðir sem gætu orðið hluti slíkra framkvæmdaáætlana. Þar eru nefnd ýmis dæmi um aðgerðir:
    Að styðja við foreldra í uppeldishlutverki þeirra m.a. með því að styrkja og efla starfsemi foreldrasamtaka.
    Að auka þátttöku heilsugæslu í forvörnum og meðferð með sérstakri áherslu á forvörnum áhættuhópa.
    Að auka fræðslu og forvarnir í skólum allt frá leikskólaaldri með sérstakri áherslu á forvörnum áhættuhópa og með stuðningi við tómstundastarf barna og ungmenna.
    Að efla og styrkja úrræði, m.a. meðferðarúrræði sem foreldrar, heilsugæsla, sveitarfélög og skólar geta átt kost á þegar vart verður áhættuhegðunar hjá barni eða ungmenni.
    Að efla rannsóknir á sviði áfengis-, tóbaks- og fíkniefnavarna og nota niðurstöður slíkra rannsókna til að þróa markvissari og árangursríkari starfsemi og aðgerðir á þessu sviði.
    Að efla forvarnastarf hjá lögreglu og tryggja að löggæsla og tollgæsla hafi ávallt á að skipa þeim mannafla og búnaði er gerir þessum aðilum kleift að stemma stigu við innflutningi, dreifingu, sölu, meðferð og neyslu áfengis og fíkniefna.
    Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki hefur þegar verið ákveðið að hrinda nokkrum þessara verkefna í framkvæmd. Má þar nefna eflingu löggæslu og tollgæslu, eflingu úrræða sem foreldrar, heilsugæsla, sveitarfélög og skólar geta leitað til þegar vart verður áhættuhegðunar hjá barni eða ungmenni og eflingu rannsókna á þessu sviði. Verður nánar fjallað um einstaka þætti þessa hér á eftir.

4.2    Stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um áfengis- og vímuvarnaráð, sem nefnd ráðuneyta samdi. Tilgangurinn með stofnun ráðsins er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna.
    Markmiðið með starfsemi hins nýja áfengis- og vímuvarnaráðs, sem fyrirhugað er að taki til starfa þegar á árinu 1997, er að stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra aðila sem starfa að áfengis- og vímuvörnum. Þá mun ráðið fylgjast með að framfylgt verði stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.
    Áfengis- og vímuvarnaráði er ætlað að taka að sér hlutverk núverandi áfengisvarnaráðs. Þó er gert ráð fyrir að áfengisvarnaráð verði fyrst um sinn heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um áfengisvarnir eða þar til sérstök forvarnamiðstöð verður stofnuð en þó ekki lengur en að næstu alþingiskosningum. Undirbúningur að sérstakri forvarnamiðstöð er hafinn í heilbrigðisráðuneytinu.
    Gert er ráð fyrir að ráðið verði skipað átta einstaklingum tilnefndum af forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs verða samkvæmt frumvarpinu:
    Að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt, sem og stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í þessum málefnum.
    Að vera ríkisstjórn og öðrum stjórnvöldum, þ.á m. staðbundnum nefndum sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, til ráðuneytis um áfengis- og vímuvarnir, m.a. um þörf á meðferðarúrræðum og gera tillögur um stefnu stjórnvalda á þessu sviði, með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna.
    Að gera tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr forvarnasjóði til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna.
    Að beita sér fyrir samhæfingu starfa þeirra sem vinna að áfengis- og vímuvörnum, m.a. með því að halda reglulega samráðsfundi með fulltrúum þessara aðila.
    Að stuðla að útgáfu fræðsluefnis um áfengis- og vímuvarnir og annast gagnasöfnun í vímuefnamálum þannig að hjá ráðinu séu nýjustu og haldbærustu upplýsingar um stöðu mála. Ráðið skal gefa út árlega skýrslu um stöðu áfengis- og vímuvarna.
    Að stuðla að rannsóknum á sviði áfengis- og vímuvarna, m.a. árlegum könnnum á þróun í neyslu barna og ungmenna á áfengi og öðrum vímuefnum og fylgjast með tengslum áfengis- og fíkniefnanotkunar og afbrota.
    Að fylgjast með stöðu áfengis- og vímuvarna í grannríkjum og annast samskipti við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum.
    Að annast önnur verkefni sem ráðherra og ríkisstjórn fela ráðinu.

4.3     Auknir fjármunir til forvarna.
    Fjármunir til forvarna hafa aukist umtalsvert á síðustu tveimur árum.
    Forvarnasjóður var stofnaður 1995. Í hann rennur ákveðinn hluti áfengisgjalds. Með stofnun sjóðsins jukust fjárveitingar til forvarna á sviði áfengis- og fíkniefnamála um 20 m.kr. á árinu 1996, en sjóðurinn hafði samtals 50 m.kr. til ráðstöfunar á því ári. Á þessu ári mun sjóðurinn hafa 55 m.kr. til ráðstöfunar sem er hækkun milli ára um 5 m.kr.
    Vegna breytinga á tóbaksvarnalögum á árinu 1996 munu fjárveitingar til tóbaksvarna hækka í 31 m.kr. á þessu ári eða um liðlega 22 m.kr. Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli tóbaksneyslu, áfengisneyslu og fíkniefnaneyslu.
    Á þessu ári er ráðstöfunarfé til forvarna vegna fíkniefna, áfengis og tóbaks því liðlega 27 m.kr. hærra en á árinu 1996.
    Þessu til viðbótar ákvað ríkisstjórnin 65 m.kr. fjárveitingu á árinu 1997 til að efla löggæslu og tollgæslu og til að koma á laggirnar sérfræðingateymum til stuðnings ungmennum í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks. Þessara fjármuna verður aflað með hækkun tóbaksverðs sem kom til framkvæmda 1. janúar 1997.

4.4     Efling löggæslu og tollgæslu með auknum fjárveitingum.
    Meðal áhersluatriða í stefnu ríkisstjórnarinnar er heft aðgengi barna og ungmenna að fíkniefnum, áfengi og tóbaki og bætt öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota. Ríkisstjórnin ákvað því að gera átak í að draga úr innflutningi fíkniefna og efla varnir gegn fíkniefnasölu með hækkun fjárveitinga til tollgæslu og löggæslu. Viðbótarfjármunum sem aflað er með hækkun tóbaksverðs verður því varið til að efla löggæslu og tollgæslu strax á þessu ári. Af þeim 65 milljónum sem hækkun tóbaksverðs mun skila verður 35 m.kr. varið til að efla starfsemi fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og 25 m.kr. til að efla tollgæslu, einkum í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli.
    Fyrirhugað er að bæta tækjakost fíkniefnadeildarinnar og fjölga starfsmönnum deildarinnar. Samvinna tollgæslu og löggæslu verður aukin. Eftirlit sem beinist gegn smygli á fíkniefnum verður eflt verulega og er ætlunin m.a. að kaupa til landsins nýjan fíkniefnahund, sem þjálfaður hefur verið til að finna fíkniefni. Aukinn áhersla verður lögð á leit að fíkniefnum í póstsendingum og í tengslum við komu skipa til Reykjavíkur, m.a. með endurskipulagningu og breytingum á vaktafyrirkomulagi. Einnig verður eftirlit á Keflavíkurflugvelli hert. Þá verður eftirlit sem beinist gegn fíkniefnasmygli endurskipulagt á landsvísu.

4.5    Stuðningur við ungmenni í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks.
    Ríkisstjórnin ákvað einnig að 5 m.kr. af fyrrnefndum 65 m.kr. skyldu renna til þess að koma á fót teymum sérfræðinga til að skipuleggja forvarnastarf í skólum. Stofnun þessara teyma er í samræmi við áhersluatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar og tillögur nefndar um könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga á Íslandi og mun starf þeirra einkum beinast að ungmennum í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis. Greining og viðbrögð við áhættuhegðun innan skólans verður efld og beinn stuðningur sérfræðinga við nemendur og kennara innan skólans aukinn. Þá verður stuðningur við foreldra ungmenna í áhættuhópum einnig aukinn. Áhersla verður lögð á að koma á tengslum milli starfsfólks skóla-, heilbrigðis- og félagsmálakerfis og annarra aðila eftir því sem við á.

4.6     Samstarf ríkisins, Reykjavíkurborgar og Samtaka Evrópuborga gegn eiturlyfjum.
    Ríkisstjórnin ákvað í desember 1996 að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg og Samtök Evrópuborga gegn eiturlyfjum (ECAD — European Cities Against Drugs) um áætlunina Ísland án eiturlyfja 2002 og er þátttaka ríkisstjórnarinnar í þessu samstarfi liður í útfærslu á stefnunni í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
    Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum voru stofnuð í apríl 1994. Stofnun samtakanna var m.a. svar við áformum ýmissa borga í Evrópu um að lögleiða tiltekin eiturlyf. Reykjavíkurborg var ein af 21 stofnborg samtakanna ásamt m.a. Lundúnum, París, Berlín, Stokkhólmi og Moskvu. Aðildarborgir samtakanna eru nú orðnar tæplega 200 talsins. Allar höfuðborgir Norðurlanda að Kaupmannahöfn undanskilinni eru þátttakendur í samtökunum. Megintilgangurinn með starfi samtakanna er að hvetja borgir til aðgerða og baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum í stað þess að gefast upp í baráttunni gegn þeim og lögleiða þessi efni. Skrifstofa samtakanna er í Stokkhólmi. Áætlunin Ísland án eiturlyfja 2002 er liður í stærri áætlun samtakanna um Evrópu án eiturlyfja árið 2012. Samtökin vonast til að árangur af verkefnum sem hrundið verður af stað hér á landi verði slíkur að þau geti orðið fyrirmyndir fyrir aðrar borgir í baráttunni gegn eiturlyfjum.
    Hinn 6. febrúar 1997 undirrituðu Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgastjóri f.h. Reykjavíkurborgar og Åke Setréus framkvæmdastjóri samtakanna Evrópuborgir gegn eiturlyfjum f.h. samtakanna, samstarfssamning um þessa áætlun.
    Með samstarfssamningnum hafa ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum ákveðið að taka höndum saman og vinna að áætluninni Ísland án eiturlyfja 2002. Meginmarkmið samstarfsins er að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir, og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hafa þetta markmið að leiðarljósi. Samtök Evrópuborga telja að Ísland eigi mikla möguleika á því að stemma stigu við innflutningi og dreifingu eiturlyfja vegna landfræðilegrar legu landsins.
    Verkefni sem hrundið verður af stað undir merkjum áætlunarinnar eiga að vera tímabundin og leiða til mælanlegra niðurstaðna. Árangur hvers verkefnis verður metinn að því loknu og ákvörðun tekin um hvort því verður haldið áfram. Hvert verkefni verður fjármagnað með sérstökum fjárveitingum og mun í því sambandi verða leitað til fyrirtækja og annarra um fjárframlög auk þess sem gert er ráð fyrir að Forvarnasjóður muni leggja fé af mörkum.
    Áætluninni hefur verið skipuð sérstök stjórn sem í eiga sæti fimm fulltrúar: Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, tilnefnd af dómsmálaráðherra, Árni Gunnarsson aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, tilnefndur af félagsmálaráðherra, Hrafn Pálsson deildarstjóri, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Kristín A. Árnadóttir aðstoðarkona borgarstjóra, tilnefnd af borgarstjóra og Åke Setréus framkvæmdastjóri hjá samtökum Evrópuborga. Snjólaug Stefánsdóttir uppeldisfræðingur og námsráðgjafi hefur verið ráðin verkefnisstjóri. Verkefnisstjórnin hefur 4 m.kr. til ráðstöfunnar á ári hverju meðan áætlunin stendur yfir frá 1997–2001, þ.e. 3 m.kr. árlega úr Forvarnasjóði og 1 m.kr. árlega frá Reykjavíkurborg. Verkefnisstjórnin mun eigi síðar en 1. mars nk. skila þeim aðilum sem að áætluninni standa drögum að verkefnaáætlun ársins 1997 ásamt drögum að fimm ára áætlun. Þar verður lögð megináhersla á aðgerðir til að virkja þjóðfélagið í heild í baráttunni gegn eiturlyfjum og fá sem flesta til samstarfs um þessa áætlun.

4.7     Fullgilding Íslands á tveimur alþjóðasamningum á sviði refsiréttar.
    Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp dómsmálaráðherra um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. vegna fíkniefnasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1988 og samnings frá 8. nóvember 1990 sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um breytingar á almennum hegningarlögum, áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni, tollalögum, lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma og lyfjalögum. Þessar lagabreytingar eru nauðsynlegar svo að Ísland geti fullgilt fyrrnefnda samninga auk þess sem tekið var mið af tillögum verkefnisstjórnar dómsmálaráðherra um lagabreytingar, sem áður hefur verið vikið að, við gerð þessa frumvarps.

5.    Aðgerðir ráðuneyta á síðustu mánuðum og missirum á sviði fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna.
    Eins og áður hefur verið getið hafa ráðuneytin sem fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarnir heyra undir um langt skeið staðið fyrir margvíslegum aðgerðum til að draga úr og hindra neyslu þessara efna. Á síðustu mánuðum og missirum hefur þessi starfsemi enn verið aukin. Hér á eftir verður skýrt frá starfi einstakra ráðuneyta og undirstofnana og er byggt á upplýsingum frá fulltrúum þeirra í samstarfsnefnd ráðuneyta um samræmingu starfa á þessu sviði.

5.1 Dómsmálaráðuneytið.
5.1.1 Dómsmálaráðuneytið.
    Tillögur verkefnisstjórnar dómsmálaráðherra vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum hafa áður verið raktar í þessari skýrslu.
    Áætlun ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum ber með sér að helstu tillögum verkefnisstjórnarinnar hefur þegar verið hrundið í framkvæmd eða undirbúningur þeirra verið hafinn. Ríkisstjórnin hefur þannig samþykkt stefnu í þessum málaflokki með áhersluatriðum til næstu aldamóta. Undirbúningur er hafinn að stofnun sérstaks áfengis- og fíkniefnaráðs. Á árinu 1997 fær fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík 35 m.kr. viðbótarfjárveitingu til tækjakaupa og til að efla starfsemi deildarinnar, m.a. með því að fjölga starfsmönnum. Frá sama tíma verður tollgæsla efld og í undirbúningi er aukin samvinna milli löggæslu og tollgæslu. Þá er hafinn undirbúningur að staðfestingu fíkniefnasamnings Sameinuðu þjónanna frá 1988 og fyrir Alþingi liggur nú þegar lagafrumvarp því til undirbúnings.
    Aðrar tillögur verkefnisstjórnarinnar eru í frekari athugun í dómsmálaráðuneytinu.

5.1.2 Lögreglan í Reykjavík.
    Á undanförnum árum hafa almennir lögreglumenn starfað tímabundið í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Þegar þeir síðan hafa komið inn á almennu vaktirnar á ný hefur reynsla þeirra af starfinu í ávana- og fíkniefnadeild nýst á ýmsan hátt.
    Um áramótin 1995/1996 urðu veruleg þáttaskil í þessum málum. Þá fór almenna deildin að hafa að störfum óeinkennisklædda lögreglumenn, sem sérstaklega var falið að afla upplýsinga um fíkniefnaneytendur og sölumenn og miðla þeim til vakthafandi lögreglumanna, auk þess sem þeir vinna með svipuðum hætti og starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar gera gagnvart þessum aðilum.
    Markmiðið með eftirliti óeinkennisklæddra lögreglumanna er að fylgjast með þeim aðilum sem þekktir eru á sviði afbrotamála. Eru þar einkum hafðir í huga síbrotamenn sem hafa lífsviðurværi sitt af ýmissi afbrotastarfsemi. Með eftirlitinu er átt við að:
    safna upplýsingum um þessa aðila, viðverustaði þeirra og vinahóp auk annars sem þeim tengist.
    haft sé eftirlit með þeim til að koma í veg fyrir brotastarfsemi þeirra.
    stuðlað sé að því að upplýsa sem flest brotamál sem lögreglu er tilkynnt um.
    reynt skuli að miðla þessari þekkingu til sem flestra lögreglumanna.
    Þetta starf hefur verið í þróun og er nú svo komið að innan hverrar vaktar eru fjórir til sex lögreglumenn sem hafa fengið allgóða þjálfun til þessara starfa. Þannig hefur verið hægt að halda úti öflugra fíkniefnaeftirliti sem hefur mjög styrkt baráttuna gegn þessum vágesti. Þessir lögreglumenn eru einnig færir um að fara í húsleit vegna leitar að fíkniefnum. Þá annast þeir yfirheyrslur í málum sem þeir koma að, nema þá stærri málum. Með þessum hætti er rannsóknavinnu létt af fíkniefnadeildinni sem hefur meiri tíma en áður til að sinna stærri fíkniefnamálum. Mannfæð og verkefnaþungi hefur þó gert það að verkum að þessi starfsemi almennu deildarinnar hefur ekki verið eins öflug og æskilegt hefði verið.
    Árangur hefur þó orðið meiri en vonir stóðu til í upphafi. Í október og nóvember 1996 hafði almenna lögreglan afskipti af 125 einstaklingum vegna fíkniefnamála í 78 tilvikum. Þá var gerð húsleit í samtals 21 skipti og 36 leitir í bílum. Í 38 tilvikum fundust fíkniefni og áhöld til neyslu. Þá hafa verið upplýst allmörg önnur afbrot, svo sem innbrot og þjófnaðir og einnig hefur tekist að endurheimta verðmæti. Töluvert magn fíkniefna hefur verið haldlagt.
    Þá hefur lögreglan í Reykjavík samhliða þessari vinnu haldið úti einkenndu eftirliti með tilteknum stöðum, þar sem fíkniefnasala hefur farið fram. Með því hefur fíkniefnasölum verið gert erfiðara fyrir og unglingar sem tengjast fíkniefnum verið fældir frá. Þetta eftirlit ásamt óeinkennda eftirlitinu hefur gert það að verkum að lögreglumenn kynnast betur einstaklingum í fíkniefnaneyslu og -sölu og þeim sem umgangast þá. Auk þess hefur þessi starfsemi orðið til þess að betur hefur gengið að fá upplýsingar um fíkniefnasala. Þannig hafa opnast sífellt nýir möguleikar í baráttunni og árangurinn kann að verða mjög mikill til langs tíma litið.
    Forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík hefur unnið ötullega að fíkniefna- og áfengisvörnum meðal ungmenna á síðustu árum. Enginn undir 16 ára var handtekinn á árinu 1995 og enginn undir 16 ára aldri var kærður vegna fíkniefnamála á því ári. Á árinu 1995 var enginn 15 ára eða yngri dæmdur vegna fíkniefnamála, hvorki fyrir sölu né neyslu. Á árunum 1987–1994 voru hins vegar 25 einstaklingar yngri en 16 ára kærðir vegna þessara mála.
    Mikil breyting hefur orðið á viðveru barna undir 16 ára aldri í miðborg Reykjavíkur að kvöld- og næturlagi undanfarin missiri. Eftir sameiginlegt átak lögreglu og félagsmálayfirvalda sem hófst fyrir nokkrum árum hafa ungmenni undir 16 ára að mestu horfið úr miðborginni. Með markvissri samvinnu lögreglu, foreldra o.fl. hefur þetta tekist og hefur svonefnt foreldrarölt verið liður í því samstarfi.
    Fyrir nokkrum árum voru unnin stórfelld skemmdarverk á sumarbústöðum í nágrenni borgarinnar. Að verki stóð hópur ólögráða einstaklinga sem var í vímuefnaneyslu. Í framhaldi þess var sett á laggirnar úrræði fyrir slíka einstaklinga norður í landi. Forvarnadeildin telur að sú ráðstöfun hafi slegið verulega á það ástand sem þá var í þróun. Jafnframt bendir forvarnadeildin á að lögreglumenn séu sammála um að afskipti af ungu fólki í verulegum vanda hafi farið heldur minnkandi á síðustu árum, t.d. hafi nauðungarvistunum að beiðni lögreglu í aðstöðu Unglingaheimilis ríkisins fækkað á undanförnum missirum. Mikilvægt er þó að undirstrika að lítið má út af bera svo ástandið snúist ekki aftur á verri veg. Þá skiptir máli að samvinna starfsfólks lögreglu, félagsmálayfirvalda og skóla á sviði barna- og unglingamálefna hefur aukist á liðnum árum, auk þess sem vitund foreldra og þátttaka þeirra í þessum málum er önnur og betri nú en hún var fyrir nokkrum árum. Að mati forvarnadeildarinnar er vandi vegna fíkniefnaneyslu og annarrar vímuefnaneyslu unglinga aðallega tengdur aldurshópnum 16–18 ára og telur deildin að í þeim hópi séu allmargir einstaklingar sem þurfi við verulegrar aðstoðar og stuðnings.

5.2 Félagsmálaráðuneytið.
    Hjá félagsmálaráðuneytinu er starfsemi í þessum málaflokki einkum á vegum Barnaverndarstofu sem hefur það verkefni að samræma aðgerðir sem miða að því að hafa upp á áhættuhópum og veita þeim stuðning annars vegar og hins vegar að tryggja meðferðarúrræði eftir að skaðinn er skeður.
    Barnaverndarstofa hefur yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir fyrir börn og ungmenni sem vistuð eru á grundvelli barnaverndarlaga. Allar umsóknir um stofnanavistun barna og ungmenna eru því sendar til Barnaverndarstofu sem tekur ákvörðun um vistun eftir að gengið hefur verið úr skugga um að stuðningsúrræði á vegum sveitarfélags hafi verið fullreynd án viðunandi árangurs. Á vegum Barnaverndarstofu er starfandi sérstakt fagteymi skipað fulltrúum frá barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Stuðlum sem er meðferðarstöð ríkisins og Barnaverndarstofu. Hlutverk teymisins er að fjalla um umsóknir um stofnanavist auk þess sem það er samstarfsvettvangur þessara stofnana á sviði meðferðar barna og ungmenna.
    Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskipulagningu meðferðarkerfisins og sér nú fyrir endann á þeirri endurskipulagningu. Undir yfirumsjón Barnaverndarstofu eru rekin sex meðferðarheimili með rými fyrir 42 í meðferð en verða 47–48 eftir að nýtt heimili bætist við í byrjun ársins 1997. Þessi meðferðarheimili eru Stuðlar með 12 rýmum, Árbót með 6 rýmum, Sólheimar 17 með 4 rýmum, Bakkaflöt (og Laugamýri) með 8 rýmum, Torfastaðir með 6 rýmum og Geldingalækur með 6 rýmum. Samtals eru þetta 42 rými. Í byrjun ársins 1997 mun nýtt meðferðarheimili taka til starfa með 5 rýmum.
    Árlega eru vistuð að beiðni barnaverndarnefnda á bilinu 120–140 börn og ungmenni til lengri eða skemmri tíma á þessum stofnunum. Meðferð hefst með þeim hætti að ungmenni eru vistuð á meðferðarstöð ríkisins fyrir þennan aldurshóp, Stuðlum. Þar eru 4 rými til neyðarvistunar í bráðatilvikum og 8 rými til greiningarmeðferðar. Þar er jafnframt aðstaða til fjölskylduinnlagnar. Samkvæmt reglugerð nr. 271/1995 um meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, skulu Stuðlar veita sérhæfða meðferð, þ.m.t. vímuefnameðferð, með vistun í allt að fjóra mánuði. Að lokinni meðferðarvist á Stuðlum er unglingurinn ýmist útskrifaður heim eða vistaður á heimili sem veitir langtímameðferð. Í fyrra tilvikinu eru lagðar fram tillögur um á hvern hátt veita beri unglingnum stuðning á vegum barnaverndarnefndar. Í því síðara er valið meðferðarheimili sem best er talið henta viðkomandi unglingi til langtímadvalar. Algengt er að dvöl á meðferðarheimili vari í eitt til tvö ár. Nú eru starfandi fimm heimili sem sinna þessu hlutverki. Þau eru hvert með sínu sniði þótt grunntónn meðferðarstarfsins sé hinn sami. Unglingarnir stunda sitt nám á heimilunum auk þess sem séð er til þess að þau eigi kost á léttri vinnu gegn hóflegum launum.
    Í undirbúningi er starfsemi sjötta langtímaheimilisins sem verður sérhæft fyrir vímuefnaneytendur. Uppeldisstarfið verður grundvallað á svokölluðu 12-spora kerfi líkt og var á Tindum. Hins vegar verða rými færri og dvalartími mun lengri eða frá 6–12 mánuðir. Heimilið verður staðsett í Eyjafirði. Rekstraraðili sem hefur víðtæka reynslu af vímuefnameðferð hefur þegar verið ráðinn.
    Börn sem eru vistuð á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu eiga flest við fjölþætt vandamál að stríða. Neysla áfengis og annarra vímugjafa er oft snar þáttur í vandamálum viðkomandi unglinga. Af 82 umsóknum um meðferð á stofnunum á vegum Barnaverndarstofu á árinu 1996 var neysla áfengis og annarra vímuefna tilgreind sem ein aðalástæða vistunar í 33 tilfellum. Hins vegar er afar sjaldgæft að unglingar séu orðnir fíknir. Langflestir eiga við fjölþættan vanda að etja og er neysla áfengis og annarra vímuefna oftast birtingarform félagslegra og tilfinningalegra vandamála. Unglingur í vímuefnavanda þarf því oftast á fjölþættri meðferð að halda en þó er neyslan sjálfstætt vandamál sem þarf að meðhöndla sérstaklega. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga því eðli vandans hjá unglingum í neyslu er allt annað en það sem fullorðnir áfengissjúklingar glíma við.
    Áhrifaríkasta forvörnin á sviði áfengis- og vímuefnaneyslu er að bregðast við strax og börn og ungmenni sýna fyrstu merki um að þau hafi byrjað neyslu. Raunar þyrfti að hefja forvarnarstarfið fyrr með það markmið í huga að seinka því að unglingar hefji neyslu.
    Barnaverndarstofa telur að færa megi rök fyrir því að forvarnastarf hafi fram til þessa oft verið ómarkvisst. Einkum hafi ekki nægur gaumur verið gefinn að annars stigs forvörnum sem eðli máls samkvæmt geta verið mjög markvissar. Barnaverndarstofa telur nauðsynlegt að huga betur að ýmsum áhættuhópum í þessu sambandi og bendir þar sérstaklega á börn áfengissjúkra. Erlendis hafi verið þróuð margvísleg stuðningstilboð sem ætlað er að bæta líðan barna sem eiga fíkna foreldra. Megintilgangur þessara úrræða er að styrkja viðnámsþrótt barnanna gagnvart áfengi og öðrum vímugjöfum. Á síðustu tveimur mánuðum hefur Barnaverndarstofa boðið stuðningsmeðferð fyrir sex til tíu ára börn áfengissjúkra foreldra. Um er að ræða tvö námskeið og eru þátttakendur um 20 börn. Samhliða er foreldrum boðið upp á hópstarf. Námskeiðin eru haldin í tilraunaskyni og hefur sérfræðingur verið ráðinn til þess að leggja mat á árangur og er búist við því að sú skýrsla liggi fyrir í ársbyrjun 1997. Tilvísunaraðilar voru fyrst og fremst barnaverndarnefndir og félagsmálayfirvöld. Stefnt er að framhaldi á þessari stuðningsmeðferð ef árangur sýnist hafa verið jákvæður og fjárveitingar leyfa. Þá verður fleiri aðilum gefinn kostur á að vísa börnum í slíka meðferð, svo sem sjúkrastofnunum sem veita áfengismeðferð, heimilislæknum, skólum o.fl.
Félagsmálaráðuneytið hefur eftirlit með félagsþjónustu sveitarfélaga. Í kjölfar fyrstu laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tóku gildi árið 1991 hefur félagsþjónustan eflst með ári hverju. Í lögunum er m.a. kveðið á um aðstoð við áfengissjúka og vímugjafavarnir og skulu félagsmálanefndir hlutast til um að .þeir sem nisnota áfengi eða aðra vímugjafa fái viðeigandi meðferð og aðstoð. Ennfremur skal veita aðstandendum og fjölskyldum áfengissjúkra aðstoð eftir því sem við á. Félagsmálanefndirnar skulu jafnframt stuðla að því að áfengissjúkir og misnotendur vímugjafa sem eru að koma úr meðferð fái nauðsynlegan stuðning til að lifa eðlilegu lífi. Mörg sveitarfélög, einkum þau stærstu veita öfluga þjónustu í þessum efnum.

5.3 Fjármálaráðuneytið.
5.3.1 Starfsemi tollgæslunnar.
    Á undanförnum árum hefur rannsóknardeild ríkistollstjóraembættisins lagt sífellt meiri áherslu á að nýta fíkniefnahunda til að koma í veg fyrir að fíkniefnum verði smyglað til landsins. Embættið hefur haft yfir slíkum hundi að ráða frá árinu 1991. Hann hefur verið nýttur til eftirlits með póstsendingum og svokölluðum hraðsendingum til landsins. Þá hefur hann einnig verið nýttur til leitar að fíkniefnum í tengslum við skipakomur til landsins og millilandaflug til Akureyrar. Þannig var hann t.d. nýttur til leitar í sjö skipti af þeim fjórtán sem ferjan Norræna kom til Seyðisfjarðar á árinu 1996.
    Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefur eflt fíkniefnaeftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir því sem unnt hefur verið. Tveir starfsmenn tollgæslu og einn lögreglumaður starfa nú sérstaklega við fíkniefnaeftirlitið. Embættið á tvo fíkniefnahunda sem nýttir eru við þetta eftirlit.

5.3.2     Samvinna við ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík.
    Ágæt samvinna hefur skapast milli rannsóknardeildar ríkistollstjóraembættisins og ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Á árinu 1996 voru tilnefndir tveir starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar sem tengiliðir við rannsóknardeild ríkistollstjóra. Skipst hefur verið á upplýsingum um innflutning, áhafnir skipa, skipakomur o.fl. Þá hafa deildirnar unnið saman í einstökum verkefnum, svo sem við leit í skipum og skoðanir á einstökum vörusendingum. Samstarf hefur verið um nýtingu á fíkniefnahundi ávana- og fíkniefnadeildar fyrir rannsóknardeild ríkistollstjóra frá því í marsmánuði 1996.

5.3.3 Vinnuhópur um skipulag tolleftirlits.
    Í marsmánuði 1995 skipaði fjármálaráðherra starfshóp til að vinna að endurskoðun á skipulagi tolleftirlits í Reykjavík. Starfshópurinn skilaði skýrslu um starfið í júlímánuði 1996. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um eftirlit sem beinist gegn smygli á fíkniefnum. Lagt er til að starfsemi tollgæslunnar verði skilgreind að nýju og að henni verði settar verklagsreglur þar sem viðfangsefni, áherslur og markmið tolleftirlits verði mörkuð. Kynntar eru hugmyndir um að mynda vinnuteymi sem taki að sér ákveðin rannsóknar- og eftirlitsverkefni og er lagt til að gerð verði tilraun með t.d fimm manna starfshóp sem vinni að sérstökum verkefnum, svo sem fíkniefnamálum. Gerðar eru tillögur um að núverandi deildarskipulag innan tollgæsludeildar tollstjórans í Reykjavík verði endurskoðað og vakin er athygli á að brýn ástæða sé til að breyta vaktafyrirkomulagi í tollpóststofu þannig að starfsmenn tollgæslu séu jafnan á staðnum þegar póstur fer í gegnum tollpóststofuna.

5.3.4 Breytingar á yfirstjórn tollamála.
    Með lögum nr. 69/1996 um breyting á tollalögum nr. 55/1987 voru gerðar breytingar á yfirstjórn tollamála. Fyrir lagabreytinguna var tollgæslan undir yfirstjórn ríkistollstjóra en jafnframt undir stjórn tollgæslustjóra. Í framkvæmd var staða þessara aðila og valdmörk á milli þeirra ekki nægilega ljós. Með lagabreytingunni var með ótvíræðum hætti kveðið á um það að tolleftirlit heyri undir ríkistollstjóra og jafnframt var embætti tollgæslustjóra lagt niður.

5.3.5 Endurskipulagning fíkniefnaeftirlits.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 3. desember 1996 sem áður hefur verið fjallað um var ákveðið að veita 25 m.kr. til að efla eftirlit sem beinist gegn fíkniefnasmygli. Aukin áhersla verður lögð á leit að fíkniefnum í póstsendingum og í tengslum við komur skipa til Reykjavíkur, m.a. með endurskipulagningu á tollgæslunni og með breytingum á starfsskipulagi tollvarða. Keyptur verður til landsins fíkniefnahundur til viðbótar þeim hundum sem fyrir eru. Ennfremur verður fíkniefnaeftirlit á Keflavíkurflugvelli hert. Embætti ríkistollstjóra hefur verið falið að gera tillögur um endurskipulagningu fíkniefnaeftirlits, einstök verkefni og skiptingu fjárveitingarinnar milli verkefna. Fylgst verður með því að fjármunirnir skili sér í þau verkefni sem ákveðin verða og árangurinn af starfinu verður metinn reglulega.

5.3.6 Endurskoðun laga um starfsemi ÁTVR.
    Lög sem tengjast verslun með áfengi og tóbak eru til endurskoðunar á vegum fjármálaráðuneytisins. Nefnd sem í eiga sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis er ætlað að gera tillögur til breytinga á lögum um starfsemi ÁTVR og fjalla um þær hugmyndir sem stjórn fyrirtækisins hefur kynnt. Um leið og stefnt er að því að skattlagning og verslun með áfengi og tóbak lúti almennum reglum verður þess gætt að verslunin taki mið af viðurkenndum forvarnarsjónarmiðum og lúti sérstöku eftirliti.

5.4 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
5.4.1 Mótun framtíðarstefnu á sviði forvarna og heilsueflingar.
    Í lok ársins 1995 var tekin saman að beiðni heilbrigðisráðherra skýrsla um mótun framtíðarstefnu á sviði forvarna og heilsueflingar. Í skýrslunni er fjallað um forvarnastarf á Íslandi í sögulegu samhengi, skipulag forvarna á Norðurlöndum, hugmyndir um framtíðarskipan forvarna og heilsueflingar og loks gerðar tillögur um forgangsröðun verkefna á þessu sviði. Skýrslan hefur síðan ásamt fleira efni legið til grundvallar frekari stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda á sviði forvarna.

5.4.2 Aðstoð við fólk sem vill hætta að reykja.
    Í byrjun ársins 1996 skilaði nefnd sem skipuð var af heilbrigðisráðherra á miðju ári 1995 tillögum um aðgerðir til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Nefndin lagði annars vegar til að komið yrði á fót skipulegum leiðbeinendanámskeiðum þar sem starfsmönnum heilsugæslu, sjúkrahúsa og meðferðarstofnana á sviði ávana- og fíkniefna, sem og frjálsra félagasamtaka, yrði gefinn kostur á að kynnast undirstöðuatriðum tóbaksvarna og meðferðar vegna reykinga. Hins vegar lagði nefndin til að boðið yrði upp á stutt, skipuleg meðferðarnámskeið fyrir fólk sem á í erfiðleikum með að hætta að reykja. Í framhaldi af því hafa verið haldin tvö leiðbeinendanámskeið, á Hvalfjarðarströnd og á Akureyri, og eru fleiri námskeið fyrirhuguð í öðrum landshlutum. Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði hefur jafnframt boðið viku námskeið fyrir reykingasjúklinga sem vilja hætta að reykja. Þegar hafa verið haldin fjögur námskeið. Þau hafa vakið vonir um að hér sé um árangursríkt úrræði að ræða.

5.4.3 Hugmyndir um Heilsu- og forvarnamiðstöð á landsvísu.
    Í framhaldi af skýrslu stjórnar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur um að leggja stöðina niður í núverandi mynd, hefur verið unnið að mótun tillagna um að koma á laggirnar forvarnamiðstöð eða heilsuverndarstöð á landsvísu. Liggja þegar fyrir hugmyndir um markmið, skipulag og verkefni slíkrar stöðvar. Stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs á árinu 1997 er hugsað sem fyrsta skrefið í uppbyggingu miðstöðvarinnar. Er vonast til að meginþættirnir í starfsemi forvarnamiðstöðvarinnar verði búnir að taka á sig skipulega mynd á fyrri hluta ársins 1997.

5.4.4 Forvarnasjóður.
    Áður hefur verið minnst á Forvarnasjóð en hann var stofnaður skv. 8. gr. laga nr. 96/1995 um gjald af áfengi, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 85/1996. Sjóðsfénu árið 1996, alls 50 m.kr. hefur verið varið til áfengisvarna og bindindismála. Þar af ráðstafaði stjórn Forvarnasjóðsins, sem í eiga sæti fulltrúar tilnefndir af ráðherrum dómsmála, fjármála, heilbrigðismála og menntamála, 28,9 m.kr. en fjárlaganefnd Alþingis 21,1 m.kr. Stjórn sjóðsins veitti á árinu 1996 25 styrki til fjölmargra aðila, svo sem ýmiss konar félagasamtaka, námskeiða, ráðstefna, rannsóknarverkefna, jafningjafræðslu, fræðslumiðstöðva, íþróttahreyfingarinnar, geðdeildar Landspítala og SÁÁ.

5.4.5 Aukið fé til tóbaksvarna.
    Áður hefur einnig verið minnst á þá aukningu sem verður á fé til tóbaksvarna á þessu ári vegna breytinga á lögum um tóbaksvarnir, sbr. lög nr. 101/1996. Framvegis er skylt að verja a.m.k. 0,7% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs. Auk hefðbundinna verkefna tóbaksvarnanefndar er nú unnið að nýjum og víðtækari aðgerðum á þessu sviði sem þessum viðbótarfjármunum verður m.a. ráðstafað til.
5.5     Menntamálaráðuneytið.
    Sl. vetur birti menntamálaráðherra stefnu sína í menntamálum undir heitinu Menning og menntun forsenda framtíðar.
    Í stefnunni segir m.a.:
    „Móta þarf heildstæða stefnu í fíkni- og ofbeldisvörnum, bæði fyrir grunn- og framhaldsskólastig og einnig í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Taka þarf mið af þeirri stefnu við endurskoðun námskráa.
    Efla þarf hlutverk skólanna varðandi forvarnir en markmið með þeim hlýtur að vera að koma í veg fyrir að upp komi vandamál sem hafa í för með sér mikinn kostnað af hálfu samfélagsins. Virkja þarf foreldra og þá fjölmörgu aðila sem sýnt hafa málinu áhuga til samstarfs. Forvarnir í skólakerfinu eiga að hefjast fyrr og standa lengur en nú er.
    Í samvinnu við Félag framhaldsskólanema vinnur menntamálaráðuneytið að jafningjafræðslu sem sérstöku tilraunaverkefni um fíknivarnir í framhaldsskólum.
    Mikilvægt er að innan skólakerfisins sé unnið gegn reykingum og nauðsynlegt er að gert verði sérstakt tóbaksvarnaátak í skólum landsins. Unnið verður að því að menntamálaráðuneytið og undirstofnanir þess verði reyklausar.“
    Unnið er að því í námskrárgerð að móta heildstæða stefnu í þessum málaflokki.
    Menntamálaráðuneytið hefur styrkt Lions-Quest verkefnið og jafningjafræðsluna en jafnframt önnur samtök og einstaklinga sem unnið hafa að verkefnum á sviði forvarna. Eftir stofnun Forvarnasjóðs hefur menntamálaráðuneytið vísað styrkumsóknum sem tengst hafa forvarnastarfi þangað.

5.5.1 Lions-Quest verkefnið.
    Menntamálaráðuneytið hefur haft umsjón með Lions-Quest verkefninu sem er umfangsmikið og á sér sögu allt aftur til ársins 1987. Menntamálaráðuneytið hefur að meðaltali styrkt verkefnið um 1,5 m.kr. ár hvert. Lions-Quest verkefnið tekur til kennaranámskeiða í tengslum við námsefnið Að ná tökum á tilverunni, fréttabréfa og símaþjónustu. Verkefnisstjóri í fíknivörnum hefur átt samstarf við ýmsa aðila og stofnanir í tengslum við málaflokkinn. Lions-Quest námskeiðin hafa verið kennd í fjölmörgum skólum landsins en alls hafa liðlega 1000 kennarar sótt þau frá árinu 1987. Til glöggvunar má nefna að á þessu skólaári fást um 2.700 reykvískir nemendur í 7. og 8. bekk við námsefnið. Lions-Quest verkefnið fluttist yfir til Námsgagnastofnunar við flutning á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga á miðju ári 1996.

5.5.2 Jafningjafræðslan.
    Jafningjafræðslan er fræðsla á vegum Félags framhaldsskólanema þar sem ungt fólk höfðar til jafningja sinna. Hér er um að ræða langtímaverkefni en ekki átaksverkefni. Markmiðið með verkefninu er að:
    Draga úr neyslu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna meðal framhaldsskólanema.
    Breyta því viðhorfi til neyslu áfengis og annarra fíkniefna að þau séu sjálfsögð.
    Draga úr neyslu áfengis á samkomum framhaldsskólanema og því viðhorfi að skemmtanahald tengist sjálfkrafa vímuefnaneyslu.
    Efla vitund framhaldsskólanema um áhættu af áfengis- og fíkniefnaneyslu og auka þekkingu þeirra á skaðsemi fíkniefna.
    Stuðla að því að framhaldsskólar setji sér stefnu í áfengis- og fíkniefnamálum.
    Aðstoða nemendur sem eiga í erfiðleikum vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu.
Ráðuneytið hefur stutt verkefni á vegum Jafningjafræðslunnar. Verkefnin eru m.a. heimsóknir í skóla, ráðstefnur, fundir, útgáfa á bæklingi, stutt skilaboð á útvarpsstöð, gerð sjónvarpsþátta og starfræksla ferðaklúbbs. Jafningjafræðslan var styrkt með 3 m.kr. á þessu ári og ýmsir aðrir styrkir hafa numið 0,5 m.kr.

5.5.3 Annað.
    Menntamálaráðuneytið hefur styrkt ýmsa aðra þætti svo sem uppeldishandbókina Lengi muna börnin. Þá hefur ráðstefnukostnaður einstaklinga og samtaka einnig verið styrktur og má þar nefna fræðslunefnd í fíknivörnum og Félag framhaldsskólanema.

6.     Verkefni á vegum sveitarfélaga.
    Nauðsynlegt er að geta í þessu sambandi mikilvægrar vinnu að áfengis- og vímuefnavörnum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar, ekki síst þar sem vinna þessara aðila hefur að hluta haft áhrif á ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til á vegum ríkisstjórnarinnar á þessu sviði.
    Vinna á vegum Reykjavíkurborgar á sviði fíkniefnavarna er í höndum Vímuvarnanefndar Reykjavíkurborgar og hefur fulltrúi úr samstarfsnefnd ráðuneyta sem áður hefur verið minnst átt sæti í nefndinni frá því í byrjun árs 1996 til að tryggja samhæfingu verkefna ríkisins á þessu sviði og Reykjavíkurborgar.

6.1 Vinnuhópur Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Í byrjun árs 1996 setti Samband íslenskra sveitarfélaga á laggirnar vinnuhóp sem falið var að vinna stefnu Sambandsins í þessum málaflokki. Vinnuhópurinn lauk störfum í byrjun mars sl. og kynnti tíu punkta tillögur um stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í vímuefnamálum. Tillögupunktarnir eru þessir:
     Forvarnir. Í þessari tillögu er lagt til að sveitarfélög samhæfi starf sitt og hafi með sér markvisst samstarf í forvörnum þar sem stærri sveitarfélög styðji þau smærri.
     Ungt fólk. Í þessari tillögu er lagt til að sveitarfélög og hið opinbera hugi sérstaklega að aðstæðum ungs fólks í þjóðfélaginu og kanni hvar þörfin er mest á fyrirbyggjandi endurbótum og úrræðum.
     Foreldrar. Hér er bent á þann árangur sem náðst hefur þar sem foreldrar, lögregla, grunnskólar og félagsmálayfirvöld taka höndum saman og fylgja eftir ákvæðum um útivistartíma. Sveitarstjórnir eru hvattar til að taka upp enn markvissari samvinnu við foreldra og foreldrafélög.
     Ábyrgð og skyldur sveitarfélaga. Lagt er til að sem flestar sveitarstjórnir skipi ólaunaðar verkefnastjórnir innan sveitarfélagsins sem fái það verkefni að samhæfa og efla samstarf allra þeirra félaga og ráða sem vilja og geta lagt vímuefnavörnum lið.
     Ábyrgð og skyldur ríkisins. Í tillögunni er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga óski eftir því þegar í stað að ríkisstjórnin semji og leggi fram raunhæfa stefnu í vímuvarnamálum og afbrotavörnum.
     Hækkun sjálfræðisaldurs. Lagt er til að Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér þegar í stað fyrir því að sjálfræðisaldur verði hækkaður í 18 ár.
     Fíkniefnalöggæsla og tollgæsla. Í tillögunni er skorað á stjórnvöld að þau beiti sér þegar í stað fyrir raunhæfri endurskoðun og endurbótum á stöðu fíkniefnarannsókna og fíknefnalöggæslu. Jafnframt er lagt til að þáttur löggæslu er lýtur að eftirliti og leit að fíkniefnum með aðstoð hunda verði tekinn til endurskoðunar og endurbóta.
     Upplýsingar, fræðsla og forvarnir lögreglu. Lagt er til að ríkisvaldið sjái til þess að árlega fáist nægilegt fé til forvarna-, fræðslu og upplýsingastarfa hjá lögreglunni.
     Virkni og viðurlög. Í tillögunni er skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að meðferð fíkniefnamála geti orðið sem virkust í refsivörslukerfinu með sérstöku tilliti til ungra afbrotamanna og síbrotamanna.
     Tíunda tillagan. Hér er lagt til að sérhver sveitarstjórn líti sér nær, hugi vandlega að sínum sérstöku aðstæðum og láti gera könnun á ástandi vímuefnaneyslu í sveitarfélaginu. Í framhaldi af því verði gripið til markvissra svæðisbundinna aðgerða, ef ástæða þykir til.

6.2 Starf Reykjavíkurborgar að vímuvörnum.
    Á fyrri hluta árs 1995 var lögð fram hjá Reykjavíkurborg tillaga að stefnu borgarinnar í vímuvörnum. Þar var m.a. lagt til að skipuð yrði sérstök vímuvarnanefnd Reykjavíkurborgar.
    Vímuvarnanefnd borgarinnar var skipuð í október 1995 til tveggja ára. Eins og áður hefur verið vikið að hefur fulltrúi ríkisins átt sæti í þessari nefnd frá því í febrúar 1996.
    Eitt meginverkefni vímuvarnanefndarinnar á árinu 1996 var rekstur Vímuvarnaskólans sem er sérstakt fræðsluverkefni fyrir starfsfólk grunnskóla í Reykjavík. Skólinn er farskóli sem fór á milli grunnskólanna á sérstökum starfsdögum og efndi til námskeiðs fyrir kennara og annað starfsfólk skólanna. Vímuvarnaskólinn er samstarfsverkefni fjölmargra aðila. Má þar nefna íþrótta- og tómstundaráð, Skólaskrifstofu, Félagsmálastofnun, Barnaverndarstofu, forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum (FRÆ), SÁÁ og Rauða krossinn. Í Vímuvarnaskólanum var lögð áhersla á að skólarnir gerðu áætlun um vímuvarnir með það að markmiði að nemendur grunnskólanna hafni vímuefnum.
    Af öðrum verkefnum á þessu sviði hjá Reykjavíkurborg má nefna forvarnavikur og forvarnadaga í félagsmiðstöðvum og mörgum skólum borgarinnar, Mótorsmiðjuna sem er úrræði fyrir unglinga í áhættuhópum sem hafa áhuga á vélhjólum, leitarstarf, miðbæjarathvarf og göturölt í samstarfi íþrótta- og tómstundaráðs, lögreglu, Félagsmálastofnunar og foreldrafélaga, samstarf í hverfum þar sem skólar, félagsmiðstöðvar, foreldrafélög, lögregla, kirkjan, félagsmálastofnun, íþrótta- og æskulýðsfélög og önnur félög sem starfa meðal íbúa hverfanna hafa hlutverki að gegna. Loks hefur Reykjavíkurborg stutt Jafningjafræðsluna sem áður hefur verið getið.

7. Lokaorð.
    Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðuneyta og undirstofnana í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á síðustu mánuðum og missirum. Jafnframt hefur verið skýrt frá starfi annarra aðila á þessu sviði, þ.e. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.
    Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar á þessu sviði sem kynntar voru 3. desember 1996 og raktar hafa verið í þessari skýrslu eru fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarnir efldar, m.a. með auknum fjárveitingum. Í kjölfar stefnu ríkisstjórnarinnar munu ráðuneyti og undirstofnanir undirbúa framkvæmdaáætlanir hver á sínu sviði og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið 1. mars 1997.
    Þess er því að vænta að starfsemi í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum verði mun öflugri og markvissari á næstu mánuðum og missirum en hingað til, þó margt hafi verið gert og ýmiss árangur þegar náðst af starfi. Auk þess mun sérstakt áfengis- og vímuvarnaráð væntanlega taka til starfa á þessu ári og hafa m.a. yfirumsjón með að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum til næstu aldamóta.