Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 354 . mál.


627. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun Stephansstofu.

Flm.: Mörður Árnason.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að kanna hvort heppilegt sé að setja á stofn sérstaka skrifstofu, kennda við Stephan G. Stephansson, sem sæi um margvísleg samskipti við Vestur-Íslendinga, við annað fólk af íslenskum ættum um allan heim og við hópa íslenskra ríkisborgara búsettra erlendis.

Greinargerð.


    Samskipti Íslendinga við Vestur-Íslendinga hafa dvínað mjög á síðari hluta aldarinnar. Þó má fullyrða að undanfarið hafi eflst áhugi á slíkum samskiptum báðum megin Atlantsála.
    Á Íslandi hefur aukist forvitni um afkomendur þess fimmtungs þjóðarinnar sem fluttist vestur um haf á síðustu öld og í byrjun þessarar. Síaukinn ættfræðiáhugi veldur þar nokkru í tengslum við þörf manna í iðnvæddu þéttbýlissamfélagi til að leita róta sinna. Á tímum sífellt aukinna alþjóðasamskipta hafa augu manna einnig opnast fyrir því að í Kanada og Bandaríkjunum er fjölmennur hópur fólks sem vegna uppruna síns hefur sjálfsprottinn áhuga á íslenskri menningu, sögu og samfélagi. Ágæt nýleg dæmi um þennan áhuga hérlendis má sjá í góðri aðsókn að hinu nýja Vesturfarasafni á Hofsósi og afburðaviðtökum skáldsagna Böðvars Guðmundssonar rithöfundar um Vestur-Íslendinga síðustu tvö ár.
    Auk hinna eiginlegu Vestur-Íslendinga, afkomenda útflytjendanna frá þremur síðustu áratugum 19. aldar og fram að heimsstyrjöldinni fyrri, eru í þessum ríkjum, einkum „sunnan línu“, fjölmargir sem síðar hafa flust vestur og afkomendur þeirra. Þessir íslensku Ameríkumenn eru eðlilegir samstarfsmenn og bandamenn á fjölmörgum sviðum, við menningarstarf, í viðskiptum, á vettvangi ferðamála og við kynningu á íslenskum málstað í einstökum átakamálum á alþjóðavettvangi.
    Aðrar Evrópuþjóðir leggja margar mikla vinnu í samskipti við frændur sína vestan hafs, og má t.d. nefna Norðmenn og Íra sem hafa hvorir með sínum hætti metið að verðleikum þann styrk sem falist hefur í nánum tengslum þeirra við „sitt“ fólk í Bandaríkjunum og Kanada.
    Vestra hefur einnig orðið vart aukins áhuga fólks af íslenskum ættum á samskiptum við upprunaland sitt. Sá áhugi skýrist meðal annars af því að þeir íslenskir afkomendur sem nú standa í blóma lífsins eru af þriðju og fjórðu kynslóð, en það er alkunna að áhugi á ætt og uppruna í landnámsættum sveiflast reglubundið eftir kynslóðum. Sú viðkvæmni, sem einkenndi nokkuð viðhorf fyrstu kynslóðar Vestur-Íslendinga og barna hennar til upprunalands síns, hefur nú vikið fyrir nýrri forvitni og fullu sjálfstrausti. Þessi nýju viðhorf koma meðal annars fram í því að hugtakið „Vestur-Íslendingar“ lætur undan síga í málfari og hugmyndaheimi á Íslendingaslóðum vestan hafs og við tekur hugtakið „íslenskir Kanadamenn“ („Icelandic Canadians“) með samsvarandi orðalagi í Bandaríkjunum.
    Á undanförnum áratugum hafa einnig byggst upp allfjölmennar nýlendur íslenskra ríkisborgara og fólks af íslenskum ættum víða um heim, m.a. á Norðurlöndum, víðs vegar um Evrópu og í Eyjaálfu. Samskipti þessa fólks við heimalandið eru mismikil, en engin skipuleg vinna er í gangi af hálfu hins opinbera eða annarra aðila hér heima til að halda tengslum við þessa hópa þótt sendiráðin hafi gert sitt af litlum efnum.
    Að samskiptum við Vestur-Íslendinga hefur frá árinu 1976 starfað sérstök nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins. Helstu verkefni þessarar nefndar hafa verið að deila út þeim takmörkuðu fjármunum sem þessum samskiptum hafa verið ætluð á fjárlögum. Að mestum hluta fólust þær fjárveitingar í föstum styrk til útgáfu Lögbergs-Heimskringlu á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (Icelandic National League) og í styrkjum til gagnkvæmra heimsókna listafólks og fræðimanna. Á fjárlögum fyrir 1995 nam fjárhæð til þess arna 1,5 millj. kr., og fékk blaðið þar af hálfa milljón.
    Haustið 1994 var ný nefnd skipuð til fjögurra ára og fékk hún auk hefðbundinna starfa það nýja hlutverk að „afla betri vitneskju um áætlaðan fjölda þeirra [þ.e. Vestur-Íslendinga], búsetu og tengsl þeirra við Ísland“ samkvæmt bréfi ráðuneytisstjóra frá 18. nóvember 1994. Þá höfðu komið upp hér og vestan hafs hugmyndir um skrásetningu fólks af íslenskum ættum vestan hafs og tók nefndin að sér að hrinda slíkri skráningu af stað í samvinnu við ýmsa aðila heima og vestra, þar á meðal Þjóðræknisfélagið í Kanada, Íslendingafélög í Bandaríkjunum, sendiráðið í Washington og Hagstofu Íslands. Þessi skráning stendur yfir og er hún fyrst og fremst kostuð með fjárveitingunni til samstarfs við Vestur-Íslendinga. Í fjárlögum fyrir 1997 er þessi heildarfjárveiting 3 millj. kr. Það hefur háð nefndinni mjög að hún styðst ekki við neina fasta starfsmenn hjá utanríkisráðuneytinu eða öðrum opinberum aðilum. Nefndin hefur þó orðið vör verulegs áhuga hjá ýmsum íslenskum fyrirtækjum á þessu starfi og er líklegt að þau væru tilbúin að leggja því allmyndarlegt lið ef vel væri staðið að málum af opinberri hálfu.
    Ljóst er að eigi þetta skráningarverk að ná tilgangi sínum þarf önnur og betri vinnubrögð við verkið en umrædd nefnd utanríkisráðuneytisins er fær um að sýna.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að könnuð verði stofnun sérstakrar skrifstofu eða stofnunar til að samræma samskipti við Vestur-Íslendinga, við annað fólk af íslenskum ættum í Vesturheimi og víðar og við hópa íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis. Ljóst er að umrædd skráning yrði eitt af helstu verkefnum slíkrar skrifstofu, en að auki kæmi ýmislegt samskiptastarf í samvinnu við fyrirtæki og félagasamtök. Skrifstofan mundi einnig annast upplýsingamiðlun af margvíslegu tagi við Íslendinga og fólk af íslenskum ættum annars staðar í heiminum.
    Hugmyndir eru nú uppi um að endurreisa Þjóðræknisfélag Íslendinga sem vettvang áhugamanna hér heima um samskipti vestur, og yrði það félag sjálfsagður samstarfsaðili hinnar nýju Stephansstofu.
    Eðlilegt þykir að beina nefndarskipaninni til forsætisráðherra, meðal annars vegna þess að ýmis rök falla að því að skrifstofa þessi væri best komin í umsjá þess ráðuneytis fremur en til dæmis utanríkisráðuneytis eða menntamálaráðuneytis sem bæði hafa komið að þessum málum á liðnum árum.
    Hér er lagt til að skrifstofan eða stofnunin verði kennd við Stephan G. Stephansson skáldbónda sem bæði bjó í Kanada og Bandaríkjunum. Væri vel við hæfi að nafni hins langförla höfuðskálds Vestur-Íslendinga væri með þeim hætti haldið á lofti í heimalandinu.
    Eftir aðeins þrjú ár verður þess minnst samhliða kristnitökuafmælinu að þúsund ár eru liðin frá landafundunum miklu í Vesturheimi. Í því ljósi er enn mikilvægara að samskiptum við ættingja okkar í Vesturheimi verði sem fyrst komið á traustan grunn.