Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 445 . mál.


757. Frumvarp til laga



um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


Heimild.


    Iðnaðarráðherra er veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við hlutafélag og stofnanda þess (stofnandinn), en félagið verður stofnað samkvæmt íslenskum hlutafélagalögum og þessum lögum í þeim tilgangi að reisa og reka álbræðslu og tengd mannvirki á Íslandi (verkefnið).
    Samningurinn skal kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, stofnandans og félagsins sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið og starfsemi þess, þar með talin framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Í slíkum samningi skal ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá stofnun félagsins.
    Samningur sá, sem iðnaðarráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, samkvæmt lögum þessum, um meginatriði varðandi verkefnið, skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Félagið skal rekið í samræmi við íslensk lög og reglugerðir eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.


Verkefnið.


    Verkefnið, sem þessi lög heimila, felur í sér að félagið byggir verksmiðju á Grundartanga í Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi, þar með talin stækkun hafnarmannvirkja eins og nánar verður um samið í samningi sem gerður verður innan ramma þessara laga milli iðnaðarráðherra og félagsins og hafnarsamningi milli félagsins og hafnarsjóðs Grundartangahafnar. Álverið skal í upphafi hannað til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári með möguleikum á aukinni framleiðslugetu.

3. gr.


Ábyrgðir ríkisstjórnarinnar.


    Í tengslum við framkvæmd verkefnisins skv. 2. gr. er ríkisstjórninni heimilt að tryggja efndir af hálfu hreppsnefnda Skilmanna- og Hvalfjarðarstrandarhreppa eins og þær eru ákveðnar í samningi, auk efnda hafnarsjóðs Grundartangahafnar eins og kveðið er á um í hafnarsamningi.

4. gr.


Undanþágur frá lögum.


    Stofnandi (stofnendur) félagsins skv. 1. gr. skal teljast hæfur til að vera stofnandi slíks félags, án tillits til ákvæða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Fjöldi og búseta stofnenda og fjöldi hluthafa í félaginu skal vera óháður ákvæðum 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 20. gr. nefndra laga. Félagið skal undanþegið ákvæðum 2. mgr. 66. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, um að meiri hluti stjórnarmanna skuli vera búsettur hér á landi.
    Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur að skilyrði að 4 / 5 hlutafjár hlutafélags sé eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
    Félagið skal undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum. Ákvæði laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, skulu ekki eiga við um félagið. Félagið skal viðhalda fullnægjandi viðlagatryggingu.

5. gr.


Skattlagning.


    Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru á lögð hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
    Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skal félagið greiða 33% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
         
    
    Ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, sem heimilar frádrátt er nemur 7% af nafnverði hlutafjár frá skattskyldum tekjum, skal ekki eiga við.
         
    
    Þrátt fyrir 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 75/1981 og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996 skal skattur ekki lagður á eða dreginn frá arði, sem úthlutað er til hluthafa sem búsettir eru í OECD-ríki, að því tilskildu að hluthafinn uppfylli skilyrði i) og ii) liðar b-liðar 2. mgr. 12. gr. samnings milli Bandaríkjanna og Íslands til að koma í veg fyrir tvísköttun, nr. 22/1975, sem birtur er í Stjórnartíðindum.
         
    
    Fastafjármunir vegna byggingar bræðslunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á bræðslunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981. Fyrningu skal hagað í samræmi við 5. tölul. þessarar greinar.
         
    
    Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu átta almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 7. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.
         
    
    Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár. Fé, sem verið hefur í fjárfestingarsjóði og notað er til fjárfestinga í fyrnanlegum eignum innan sex ára frá því að það var lagt inn, skal telja til skattskyldra tekna félagsins á því ári sem fjárfestingin á sér stað. Félaginu skal heimilt að auka fyrningu eigna um sömu fjárhæð á því ári.
                        Fé í hinum sérstaka fjárfestingarsjóði, sem ekki hefur verið notað til fjárfestinga eða til að vega upp á móti rekstrartapi innan framangreindra tímamarka, skal telja til skattskyldra tekna og það skattlagt með skatthlutfalli þess árs þegar það var lagt inn. Það sama skal eiga við ef félagið er leyst upp.
    Félagið skal undanþegið eignarskatti skv. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og sérstökum eignarskatti skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1989.
    Félagið skal vera undanþegið iðnlánasjóðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með áorðnum breytingum, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir iðnlánasjóðsgjald, iðnaðarmálagjald eða markaðsgjald.
    Sérákvæði 1., 2. og 3. tölul. að framan skulu gilda fyrsta samningstímabilið (eins og það er skilgreint í samningnum) eða þar til kemur til fyrri uppsagnar á samningnum skv. 1. gr. Verði gerðar breytingar á lögum nr. 75/1981 skal félagið eiga rétt á að sérákvæði verði endurskoðuð í þeim tilgangi að tryggja að ekki séu lagðir á félagið þyngri skattar en ef það væri skattlagt samkvæmt lögunum, án hinna áðurnefndu sérstöku ákvæða.
    Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 33. gr. laga nr. 75/1981. Þrátt fyrir ákvæði 34. og 45. gr. laga nr. 75/1981 skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
    Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, og sérstaks fasteignaskatts á fasteignir, sem nýttar eru til verslunarreksturs eða skrifstofuhalds, samkvæmt bráðabirgðaákvæði sömu laga, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir fasteignaskatt, skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,85% af verðmæti bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja eins og það er nánar skilgreint og um samið í samningum sem gerðir eru innan ramma þessara laga.
    Stimpilgjöld skulu, þegar þeirra yrði krafist í samræmi við lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, vera 0,15% af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins og af fjárfestingarlánum sem félagið kann að taka í sambandi við byggingu bræðslunnar og hafnarbúnaðar, sem og af öllum stimpilskyldum skjölum sem nauðsynleg eru í sambandi við stofnun félagsins. Lán, sem tekin eru í stað fjárfestingarlána, sem og hlutabréf í félaginu, skulu undanþegin stimpilgjaldi.
    Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð til Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt lögum nr. 54/1978 og gatnagerðargjalds samkvæmt lögum nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, og umsamda fjárhæð til ríkissjóðs í stað skipulagsgjalda samkvæmt lögum nr. 19/1964.
    Samningar, sem gerðir eru samkvæmt lögum þessum, mega kveða á um meginreglur um endurskoðun skattlagningar félagsins þannig að heildarskattbyrði þess á Íslandi haldist óbreytt.
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
    Á fyrsta samningstímabilinu getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní árið áður en breytingarnar eiga að taka gildi. Slík breyting á fyrirkomulagi skatta getur fyrst átt sér stað árið 2000 en á hverju ári þar eftir.

6. gr.


Reikningsskilareglur.


    Með samningum, sem gerðir eru samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi varðandi félagið. Í þessum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félaginu er heimilað að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, í samræmi við almennt viðurkenndar reikningsskilareglur sem gefnar eru út af alþjóðlega reikningsskilaráðinu. Slíkt ákvæði má fela í sér undanþágu frá 10., 36. og 53. gr. laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, og öðrum ákvæðum laga sem ekki eru í samræmi við slíkt fyrirkomulag.

7. gr.


Lögsaga og lausn deilumála.


    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem gerðir verða innan ramma þessara laga, skulu lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt skal að vísa ágreiningi til gerðardóms ef aðilar eru því samþykkir.

8. gr.


Innflutningur og útflutningur.


    Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis, á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir verksmiðjuna og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skal vera undanþeginn tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, með áorðnum breytingum. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar bræðslunnar.

9. gr.


Framsal.


    Heimilt er að semja um framsal félagsins á samningnum.

10. gr.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að semja við Columbia Ventures Corporation (Columbia) eða aðra aðila um nýtt álver á Grundartanga í Skilmannahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við aðila um stofnun hlutafélags hér á landi til að reisa og reka álver sem verði í upphafi byggt til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári. Kveðið er á um að hlutafélagið verði stofnsett og starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga, þar með töldum ákvæðum frumvarpsins.
    Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu hreppsnefndanna tveggja og hafnarsjóðs Grundartangahafnar.
    Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álversins en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum er helgast af sérstöðu fyrirtækisins.
    Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla, en í sérstökum tilvikum um stað gerðardóms. Einnig að íslensk lög verði ráðandi um túlkun og skýringu samninga um nýtt álver.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir: aðdraganda samninga (1), Columbia Ventures Corporation (2), væntanlegu álveri á Grundartanga (3), samningum (4), umhverfismálum (5) og mati á þjóðhagslegum áhrifum framkvæmdanna (6). Í fylgiskjölum er gerð grein fyrir helstu ákvæðum fjárfestingarsamnings (I), lóðarsamnings (II), hafnarsamnings (III), meginatriðum varðandi orkuöflun og orkusölu (IV) og fyrirhuguðu álveri (V). Auk þess er greinargerð Hollustuverndar ríkisins, dags. 11. nóvember 1996, með tillögu að starfsleyfi (VI) og greinargerð Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif álversins (VII).

1. Aðdragandi samninga.
    Á vegum íslenskra stjórnvalda hafa á síðustu rúmlega tveimur árum farið fram athuganir á aukinni álframleiðslu á Íslandi með flutningi á hluta af búnaði úr álverksmiðju Vereinigte Aluminium Werke (VAW) í Töging í Þýskalandi til Íslands. Töging-álverið var reist árið 1980 og rekið til ársins 1993 en þá var rekstri hætt vegna erfiðra markaðsaðstæðna, hás raforkuverðs og mikils flutningskostnaðar á aðföngum og afurðum. Í fyrstu miðuðust athuganir við að nýta þennan búnað til að auka álframleiðslu í Straumsvík, hugsanlega með öðrum eignaraðilum en Alusuisse-Lonza. Í lok ársins 1994 voru fulltrúum Alusuisse-Lonza kynntar þessar hugmyndir. Snemma á árinu 1995 lýsti fyrirtækið yfir áhuga á að kanna þennan kost nánar með íslenskum stjórnvöldum. Jafnframt því ákvað Alusuisse að gera samanburð á hagkvæmni þess að nýta þennan búnað eða stækka álverið með eigin tækni. Þessum athugunum sem unnar voru af Alusuisse Engineering Limited (ALESA) og markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) lauk í aprílmánuði 1995 og varð niðurstaðan sú að Alusuisse-Lonza ákvað að stækka ÍSAL með eigin tækni. Framkvæmdum mun ljúka á þessu ári.
    Þegar þessi niðurstaða var fengin var ákveðið að kanna aðra möguleika á að nýta búnað úr Töging-álverinu með því að reisa nýtt álver hér á landi í upphafi með 60.000 tonna ársframleiðslu. Hagkvæmniathuganir sýndu að slíkt álver gæti orðið arðsamt, jafnframt því sem það gæti hentað vel íslenskum þjóðarbúskap og orkuöflun. Þessi hugmynd var talin mjög áhugaverð fyrir fyrirtæki sem vildu fjárfesta í slíkum búnaði þar sem hægt væri að stytta framkvæmdatíma um tæplega eitt ár. Jafnframt stillti VAW verði búnaðar í hóf þar sem fyrirtækið hafði áhuga og hagsmuni af því að tæknin, sem nýtt er við álframleiðsluna og er í eigu þess, yrði notuð áfram.
    Vorið og sumarið 1995 voru þessar hugmyndir kynntar nokkrum erlendum aðilum. Meðal annars hittu fulltrúar MIL og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins Kenneth D. Peterson, sem þá var forstjóri Columbia Aluminum Corporation (CAC), um miðjan maí. Hann sýndi hugmyndinni strax mikinn áhuga. Í ágúst keypti CAC hluta af búnaði Töging-álversins af VAW og í framhaldi af því kannaði fyrirtækið möguleika á að nýta þennan búnað í nýju álveri í Kanada, Venesúela og við Persaflóa auk Íslands.
    Fulltrúar CAC komu til Íslands fyrir atbeina MIL í september og október 1995 og kynntu sér aðstæður til þess að reisa álver. Farið var yfir ýmsa staði sem talið var að gætu komið til greina. Það varð niðurstaða fyrirtækisins að staðsetning á Grundartanga hentaði best áformum þess. Góð hafnaraðstaða réði þar miklu.
    Áætlanir fyrirtækisins miðuðust við mjög skjóta uppbyggingu og átti að hefja framleiðslu í árslok 1996. Varð fljótlega ljóst að valið stæði milli þess að reisa álverið í Venesúela eða á Grundartanga á Íslandi.
    Til þess að Ísland væri í myndinni vegna hins knappa tíma ákvað stjórn MIL að láta vinna mat á umhverfisáhrifum allt að 180 þúsund tonna álvers á Grundartanga. Var það verk falið Hönnun hf. o.fl. ráðgjöfum. Með bréfi, dags. 22. nóvember 1995, óskaði CAC eftir því að MIL leitaði eftir úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt að sótt yrði um starfsleyfi fyrir álver á Grundartanga til Hollustuverndar ríksisins fyrir þess hönd. MIL varð við þessum óskum.
    Í desember 1995 kom upp ágreiningur milli helstu eigenda CAC, þ.e. lífeyrissjóðs starfsmanna og Kenneth D. Peterson, um framtíðarstefnu fyrirtækisins, m.a. um hvort hefja skyldi starfsemi utan Bandaríkjanna. Meðan á þeirri deilu stóð varð hlé á undirbúningi fyrirtækisins við að reisa nýtt álver til að nýta búnaðinn úr Töging-álverinu. Í maí 1996 tókst samkomulag milli þessara aðila sem fól m.a. í sér að lífeyrissjóður starfsmanna keypti hlutabréf Peterson í CAC, jafnframt því sem hann hélt eftir Columbia Ventures Corporation (Columbia) með úrvinnslufyrirtækjunum auk búnaðarins úr Töging-álverinu.
    Eftir að samkomulagið hafði náðst einbeitti Columbia sér fyrst að því að kanna til hlítar aðstæður til að reisa álverið í Venesúela, enda hafði það fengið mjög hagstætt tilboð þaðan. Samningaviðræður gengu hægt og í ágúst var fyrirtækið tilbúið til að hefja að nýju könnunarviðræður við íslensk stjórnvöld. Settu íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun fram hugmyndir um samningsgrundvöll og tímaáætlun sem ekki var fjarri áformum fyrirtækisins. Í framhaldi af könnunarviðræðunum ákvað Columbia í byrjun september að hefja viðræður um að reisa álverið hér á landi þrátt fyrir að því byðust mjög hagstæð skilyrði í Venesúela, m.a. mjög lágt orkuverð.
    Ákvörðun Columbia byggðist m.a. á þeirri undirbúningsvinnu sem hafði farið fram annars vegar á vegum sveitarfélaganna og hins vegar MIL í samráði við Columbia. Í því sambandi má nefna eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi lá fyrir svæðisskipulag (aðalskipulag) fyrir sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar sem samþykkt hafði verið af umhverfisráðherra 26. apríl 1994. Í skipulaginu er gert ráð fyrir auknum orkufrekum iðnaði á Grundartanga.
    Í öðru lagi lá fyrir vegna góðrar hafnaraðstöðu á Grundartanga að ekki þyrfti að ráðast í mjög kostnaðarsamar og tímafrekar viðbótarframkvæmdir.
    Í þriðja lagi hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga og samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra, dags. 20. júní 1996, var fallist á byggingu álversins með tilteknum skilyrðum.
    Í fjórða lagi hafði verið sótt um starfsleyfi til Hollustuverndar ríkisins í desember 1995 og var vinna við gerð starfsleyfistillagna hafin.
    Í fimmta lagi hafði ríkissjóður keypt hluta af landi jarðarinnar Vestra-Kataness sem fyrirhugað álver mun nýta.
    Í sjötta lagi hafði Landsvirkjun kannað með hvaða hætti unnt yrði að mæta orkuþörf álversins á þeim tíma sem fyrirtækið áformaði að hefja rekstur.
    Í september sl. hófust skipulegar viðræður annars vegar milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og sveitarfélaganna þar sem gert er ráð fyrir að álverið rísi og hins vegar fulltrúa Columbia. Ekki var skipuð formleg viðræðunefnd, en að samningaviðræðum af hálfu stjórnvalda hafa komið: Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóri og Jón Ingimarsson skrifstofustjóri frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti; Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri, Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri og Skarphéðinn Berg Steinarsson deildarstjóri frá fjármálaráðuneyti; og Garðar Ingvarsson framkvæmdastjóri og Andrés Svanbjörnsson yfirverkfræðingur frá MIL. Jón Sveinsson hrl. hefur verið lögfræðilegur ráðunautur. Ólafur Kristinsson endurskoðandi hefur veitt ráðgjöf varðandi reikningsskil og dr. Páll Jensson prófessor við útreikning á arðsemi o.fl.
    Af hálfu Landsvirkjunar hafa Halldór Jónatansson forstjóri og Jóhann Már Maríusson aðstoðarforstjóri tekið þátt í viðræðunum. Lögfræðilegur ráðunautur Landsvirkjunar hefur verið Baldur Guðlaugsson hrl. Auk þess hafa Robin Adams hjá RSI og James King veitt ráðgjöf varðandi álverðsspár o.fl. og fulltrúar fjármálafyrirtækisins J.P. Morgan varðandi fjármögnun verkefnisins.
    Af hálfu sveitarfélaganna tveggja hafa tekið þátt í viðræðunum Marinó Tryggvason oddviti og Guðlaugur Hjörleifsson af hálfu Skilmannahrepps og Jón Valgarðsson oddviti og Jónas Guðmundsson af hálfu Hvalfjarðarstrandarhrepps. Lögfræðilegur ráðunautur þeirra hefur verið Jónas Aðalsteinsson hrl.
    Hafnarstjórn Grundartangahafnar hefur tekið þátt í viðræðum vegna hafnarsamnings, en í henni eiga sæti: Marinó Tryggvason, formaður, Friðrik Kristinsson, Herdís Þórðardóttir, Jónas Guðmundsson og Þórir Jónsson sem varamaður Jóns Böðvarssonar. Enn fremur hafa komið að samningsgerðinni af hálfu hafnarstjórnarinnar Aðalsteinn Jónasson hdl., Jónas Aðalsteinsson hrl., Pétur Baldursson hafnarstjóri og Stefán Reynir Kristinsson, fjármálastjóri hafnarinnar.

2. Columbia Ventures Corporation (Columbia).
    Columbia Ventures Corporation (Columbia) var stofnað sem eignarhaldsfélag árið 1988 af Columbia Aluminum Corporation en er nú í eigu Kenneths D. Peterson. Columbia hefur keypt eða reist fimm úrvinnslufyrirtæki auk tveggja endurvinnslna. Auk þess á Columbia markaðs- og sölufyrirtæki. Fjögur úrvinnslufyrirtækjanna eru í Kaliforníu og eitt í Texas. Samtals er framleiðslugeta þessara fyrirtækja rúmlega 50.000 tonn af álvörum á ári. Fyrirtækin hafa sérhæft sig í yfirborðsmeðhöndlun áls, lökkun og þess háttar. Endurvinnsla á vegum fyrirtækisins á áli fer fram í Oregon, Kaliforníu, Texas og Kentucky. Fyrirtæki Columbia geta samtals endurunnið um 90.000 tonn af áli á ári.
    Þar sem Columbia er hlutafélag í einkaeign og ekki skráð á hlutabréfamarkaði er bókhald fyrirtækisins ekki opinbert. Þó hefur verið upplýst að eigið fé sé vel á annað hundrað milljónir dollara og eiginfjárhlutfall yfir 90%. Sala fyrirtækisins er áætluð um 12 milljarðar á ári. Starfsmenn eru um 750. Fyrirtækið hefur veitt stjórnvöldum frekari upplýsingar í trúnaði um fjárhag sinn sem staðfestar eru af endurskoðendum þess (Coopers & Lybrand).
    Heimilisfang Columbia er:

    Columbia Ventures Corporation
    1220 Main Street, Suite 200
    Vancouver
    Washington 98660
    USA

3. Lýsing á fyrirhuguðu álveri á Grundartanga.
    Álverið verður staðsett á rúmlega 80 ha svæði á landi úr jörðunum Klafastöðum í Skilmannahreppi og Katanesi (Vestra-Katanesi) í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Það verður búið rafgreiningartækni frá VAW, svokallaðri CA 180kA tækni og er gert ráð fyrir að það muni framleiða um 60 þúsund tonn af hrááli á ári í upphafi. Gert er ráð fyrir að unnt sé að auka framleiðslu álversins síðar með því að stækka það og er í mati á umhverfisáhrifum miðað við 180 þúsund tonna framleiðslu á ári. Columbia hefur gert samning við VAW varðandi ráðgjöf í tæknilegum málum sem tryggir að VAW mun veita álverinu þjónustu bæði við uppsetningu á búnaði sem keyptur var af VAW sem og við gangsetningu álversins.
    Fjárfestingarkostnaður við að reisa 60.000 tonna álverið er áætlaður rúmlega 11 milljarðar króna. Árlegt útflutningsverðmæti er um 100 milljónir bandaríkjadala sem jafngildir um 7 milljörðum króna miðað við gengi í febrúar 1997 og álverð 1.650 USD/tonn. Gert er ráð fyrir að 110–135 starfsmenn muni starfa við álverið í upphafi, en líklegt er að þeim fjölgi í um 150 innan fárra missira.
    Hráefni til álvinnslunnar er einkum súrál og kolaskaut úr koksi og biki. Hráefnisþörf álvers með 60.000 árstonna framleiðslu er:

Súrál
 120.000 tonn á ári

Kolaskaut
   33.000 tonn á ári

Steypujárn, olíur, gas o.fl.
    5.000 tonn á ári


    Við framleiðsluna falla til um 7.000 tonn á ári af skautaleifum sem nýtast við framleiðslu á kolaskautum.
    Columbia hefur tryggt sér aðföng vegna framleiðslunnar sem og sölu á hrááli sem framleitt verður í álverinu. Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu vegna samkomulags við VAW Aluminium í Þýskalandi um að fyrirtækið láti álverinu á Grundartanga í té kolaskaut. Samkomulagið er til 10 ára. Skautin verða framleidd í Neuss-álverinu sem er í nágrenni við Düsseldorf í Þýskalandi. VAW mun einnig taka við notuðum skautaleifum og endurvinna þær. Columbia hefur sömuleiðis gert samning til 10 ára við Billiton Marketing and Trading BV um kaup á súráli. Billiton mun jafnframt kaupa allt hráál sem framleitt verður í álverinu á Grundartanga. Billiton sem er hollenskt að uppruna er dótturfyrirtæki Gencor, fjölþjóðlegs málm- og námavinnslufyrirtækis í Suður-Afríku. Fyrirtækið á hlut í álverum í Suður-Ameríku og báxitnámur og súrálsvinnslur í Ástralíu, Surinam og Brasilíu.
    Álverinu og framkvæmdum vegna þess er nánar lýst í fylgiskjali V.

4. Samningar.
    Samkomulag við Columbia og hlutafélag þess um álbræðslu á Grundartanga felur í sér fjóra samninga, þ.e. fjárfestingarsamning, lóðarsamning, hafnarsamning og rafmagnssamning. Samningar þessir munu að stofni til byggja á sömu grundvallaratriðum, m.a. varðandi lausn ágreiningsmála, óviðráðanleg ytri öfl, samningstíma, framlengingu samnings, framsal réttinda, uppsögn, breytingar og endurskoðun. Í hafnarsamningi eru þó nokkur ákvæði með öðrum hætti en í hinum samningunum. Samningarnir eru í upphafi miðaðir við 20 ára rekstur, en gert er ráð fyrir framlengingu þeirra og er kveðið á um að aðilar skuli áður en um þrjú ár eru eftir af samningstímanum hafa lokið viðræðum um framlengingu í ekki minna en 10 ár. Ákvæði í lóðarsamningi tryggir þó hlutafélaginu einhliða rétt til að framlengja samninginn. Hér verður þessum samningum lýst í örstuttu máli, en nánari lýsingu á þeim er að finna í fylgiskjölum I til IV.
     Í fyrsta lagi verður gerður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Columbia og hlutafélags, sem það hefur stofnað hér á landi, Norðuráls hf., hins vegar. Lagafrumvarp þetta er nauðsynleg forsenda þess að unnt verði að gera þennan samning. Í fylgiskjali I er meginatriðum fjárfestingarsamningsins lýst. Fjárfestingarsamningurinn mun verða birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í öðru lagi lóðarsamningur milli ríkissjóðs og Norðuráls hf. Samkvæmt samningnum leigir ríkissjóður hlutafélaginu rúmlega 80 hektara landsspildu úr landi jarðanna Klafastaða og Kataness (Vestra-Kataness) undir bræðsluna. Samningnum er lýst í fylgiskjali II.
     Í þriðja lagi hafnarsamningur milli hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls hf. Samningurinn kveður m.a. á um rétt hlutafélagsins til að nota höfnina, hafnarlandið og hafnarmannvirki, og um greiðslur fyrir þessi not. Samningnum er lýst í fylgiskjali III.
     Í fjórða lagi rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. Gert er ráð fyrir að raforkuþörf álversins verði 930 GWh á ári, 90% á tryggðum grundvelli (forgangsorka) og 10% á ótryggðum grundvelli. Í samningnum mun hlutafélagið skuldbinda sig til þess að greiða Landsvirkjun fyrir stærstan hluta þessarar orku óháð því hvort fyrirtækið nýtir orkuna eða ekki. Miðað við að einum ofni verði bætt við hjá Íslenska járnblendifélaginu, svo og til að fullnægja hinni árlegu aukningu í raforkueftirspurn hins almenna markaðar, er gert ráð fyrir eftirtöldum framkvæmdum vegna orkuöflunar og orkuflutnings á vegum Landsvirkjunar:
    Stækkun Kröfluvirkjunar,
    aflaukningu í Búrfellsvirkjun,
    gerð Hágöngumiðlunar,
    byggingu Sultartangavirkjunar,
    Sultartangalínu 1 (Sultartangi – Búrfell) og
    Búrfellslínu 3A (Búrfell – Sandskeið).
    Auk þessara framkvæmda mun Hitaveita Reykjavíkur reisa Nesjavallavirkjun (tveir áfangar) og leggja háspennulínu frá Nesjavöllum að Korpu. Samtals er gert ráð fyrir að fjárfesting í orkumannvirkjum nemi um 22 milljörðum króna án vaxta á framkvæmdatíma.
    Umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðan rafmagnssamning er í fylgiskjali IV. Í henni kemur fram að áætlað er að núvirtur hagnaður af orkusölunni geti verið um 1.300 milljónir króna miðað við grundvallarforsendur en það svarar til um 6,8% innri vaxta að raungildi af nauðsynlegri fjárfestingu.

5. Umhverfismál.
5.1. Almennt.
    Viðhorf til umhverfismála í heiminum hafa breyst mikið á síðustu áratugum, einkum í kjölfar starfa Bruntlandsnefndarinnar svokölluðu og heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfis- og þróunarmál sem haldin var í Ríó de Janeiro árið 1992. Breytt viðhorf hafa leitt til þess að margar þjóðir hafa endurskoðað stefnu sína og löggjöf í umhverfismálum.
    Hér á landi hafa verið gerðar miklar breytingar á löggjöf á sviði umhverfismála á síðustu árum. Meðal annars hafa verið sett lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, nr. 21/1993, og lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Með þessum breytingum hefur almenningi verið veittur greiðari aðgangur að upplýsingum um umhverfismál. Jafnframt er kveðið á um að áður en ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér skuli kynna framkvæmdina og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir sem skipulagsstjóri skuli taka tillit til þegar hann úrskurðar hvort framkvæmd skuli leyfð. Meðal framkvæmda sem lögin um mat á umhverfisáhrifum taka til eru orkufrek iðjuver, orkuver og háspennulínur.
    Undirbúningur álvers á Grundartanga hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa áhrif á undirbúningsstigi. Undirbúningurinn hefur jafnframt farið fram á grundvelli aðalskipulags fyrir sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar sem staðfest var snemma á árinu 1994. Hér verður gerð nokkur grein fyrir þessu skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og undirbúningi starfsleyfis.

5.2. Skipulag.
    Í árslok 1988 óskuðu forsvarsmenn sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, þ.e. Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur og Skilmannahreppur, eftir því við Skipulag ríkisins að gert yrði svæðisskipulag sem næði til allra þessara sveitarfélaga. Í samræmi við ákvæði skipulagslaga var skipuð samvinnunefnd sveitarstjórna og Skipulagsstjórnar ríkisins til að hafa umsjón með verkefninu. Nefndin réð Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt til að annast skipulagsvinnuna. Henni til aðstoðar voru Magnús Ólafsson arkitekt og VT-teiknistofan á Akranesi, auk þess sem leitað var aðstoðar fjölmargra sérfræðinga og stofnana.
    Tillaga að svæðisskipulagi fyrir svæðið sunnan Skarðsheiðar var auglýst samkvæmt skipulagslögum 24. september 1993 og lá frammi almenningi til sýnis í öllum sveitarfélögunum til 4. nóvember 1993 eins og lög mæla fyrir um. Frestur til að gera athugasemdir rann út 19. nóvember 1993 og höfðu fyrir lok hans borist 19 athugasemdir. Samvinnunefndin fjallaði um athugasemdirnar eftir að sveitarstjórnir einstakra sveitarfélaga höfðu tekið þær til meðferðar og lokið umfjöllun sinni um þær. Í skipulaginu kemur fram að tekið var tillit til fjölmargra athugasemda, en öðrum hafnað. Í riti, sem samvinnunefndin gaf út um skipulagið í október 1994, er gerð grein fyrir helstu atriðum sem athugasemdir voru gerðar við. Ekki er vikið að iðnaðarsvæðinu á Grundartanga í þeirri upptalningu.
    Á fundi samvinnunefndarinnar 31. janúar 1994 undirritaði samvinnunefndin uppdrætti og samþykkti að óska eftir staðfestingu umhverfisráðherra á svæðisskipulagsáætluninni. Skipulagsstjórn ríkisins tók málið til lokaafgreiðslu 2. febrúar 1994, undirritaði uppdrætti og afgreiddi þá ásamt greinargerð til staðfestingar í umhverfisráðuneytinu með fyrirvara vegna ráðgerðrar veglagningar yfir Leggjabrjót. Þann 24. apríl 1994 staðfesti umhverfisráðherra skipulagsáætlunina.

5.3. Helstu ákvæði svæðisskipulags.
    Í 2. kafla svæðisskipulagsgreinargerðarinnar er fjallað um helstu forsendur. Kafli 2.3.5.4, sem ber heitið iðnaður og byggingarstarfsemi, er tvískiptur: „A: Stóriðja, orkufrekur iðnaðar“ og „B: Annar iðnaður“. Undir þeim síðarnefnda er fjallað um sementsframleiðslu, byggingariðnað, málm- og skipasmíði, prentiðnað og prjóna- og saumaiðnað. Undir þeim fyrrnefnda er fjallað um iðnaðarsvæðið á Grundartanga og núverandi starfsemi á Grundartanga. Um iðnaðarsvæðið á Grundartanga segir svo:
    „Iðnaðarsvæðið á Grundartanga býður að mörgu leyti upp á ákjósanleg skilyrði fyrir frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Flutningsgeta núverandi raforkukerfis til svæðisins er t.d. 300 MW, en járnblendiverksmiðjan nýtir aðeins um 70 MW. Þá getur núverandi Grundartangaveita flutt mun meira vatnsmagn en nú er nýtt. Hafnaraðstaða er fyrir hendi á Grundartanga, sem þjónað getur frekari iðnaðarstarfsemi en þar er nú og stækkun hafnarinnar er mjög auðveld.
    Samgönguæðar á landi að og frá svæðinu eru greiðfærar, þannig að fólk af öllu svæðinu getur auðveldlega notfært sér atvinnutilboð á Grundartanga. Nýr vegur frá Brennimel að Grundartanga mundi gera aðgengið að iðnaðarsvæðinu enn betra. Veggöng undir Hvalfjörð mundu og tengja þetta svæði enn betur höfuðborgarsvæðinu og trúlega gera það að fýsilegasta kostinum fyrir stóriðju og orkufrekan iðnað sem völ er á hérlendis.
    Þegar tekin er afstaða til stóriðju og orkufreks iðnaðar verður að sjálfsögðu að gæta þess að starfsemin valdi ekki spjöllum á náttúru svæðisins og að framkvæmdir séu felldar vel að landi og umhverfi. Einnig þarf að líta til þess hvaða félagsleg áhrif starfsemin leiðir af sér. Sennilegt er að frekar ætti að sækjast eftir minni en fleiri fyrirtækjum inn á svæðið þar sem starfsmannafjöldinn væri á bilinu 10–50 manns. Hættan á félagslegri röskun er þá minni ef fyrirtæki hættir starfsemi og fjölbreytni í starfsemi hugsanlega meiri.“

    Í 3. kafla greinargerðarinnar er gerð grein fyrir meginniðurstöðum, stefnumörkun og markmiðum. Þar er meðal annars bent á að Grundartangasvæðið verði með tilkomu Hvalfjarðarganga með best staðsettu iðnaðarsvæðum landsins. Undir liðnum „Atvinnumál“ segir meðal annars: „34. Stefnt er að öflugri kynningu á Grundartangasvæðinu og kostum þess sem iðnaðarsvæðis.“ Og undir liðnum „Staðsetning einstakra landnotkunarflokka“ segir meðal annars: „48. Lóðum undir iðnaðarstarfsemi er fyrst og fremst ætlaður staður á Akranesi og Grundartanga, en svæðið við Litla-Sand og Miðsand getur þó þróast sem sérhæfður atvinnukjarni.
    Í fjórða kafla skipulagsgreinargerðarinnar er skipulagstillögunni lýst og gerð grein fyrir fyrirhugaðri framtíðarlandnotkun á svæðinu. Á skipulagsuppdrætti kemur fram að stórt svæði á Grundartanga er ætlað sem atvinnusvæði til annars en landbúnaðar. Um þetta segir meðal annars í kaflanum:
    „Gerð er tillaga um að iðnaðarsvæðið á Grundartanga verði stærra en nú er og hafa mörk þess á uppdrætti verið færð til austurs inn í Hvalfjarðarstrandarhrepp. Þetta er gert vegna þess að svæðið hentar vel sem iðnaðarsvæði og þar hefur nú þegar verið varið miklum fjármunum t.d. í hafnaraðstöðu sem nýst gæti öflugu athafnasvæði mjög vel. Því er gott að tryggja nú þegar möguleika á meira landsvæði fyrir slíka starfsemi. Ganga þarf út frá því að mat á umhverfisáhrifum fari fram í tengslum við ákvörðun um ný iðnfyrirtæki þar.“
    Á grundvelli þessa skipulags mátti ætla að álver á Grundartanga félli að þeirri stefnumörkun um þróun sveitarfélaganna sem mótuð var á fyrri hluta þessa áratugar og kynnt var íbúum þeirra fyrir rúmlega þremur árum um leið og þeim var gefinn kostur á að gera athugasemdir.

5.4. Mat á umhverfisáhrifum álvers.
    Eftir að fulltrúar Columbia höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þeir mundu óska eftir að reisa álverið á Grundartanga, ef ákveðið yrði að það yrði byggt á Íslandi, var málið kynnt fyrir fulltrúum sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar á fundi sem MIL boðaði til og haldinn var á Akranesi 5. október 1995. Af hálfu heimamanna var málinu vel tekið og ekki komu fram nein andmæli. Í framhaldi af þessum fundi var Hönnun hf. ráðin til þess að vinna að frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, og reglugerð nr. 179/1994. Lögformlegum umsagnaraðilum voru send bréf í byrjun október og þeim gefið tækifæri til að gera athugasemdir þegar í upphafi vinnu að matinu. Haldinn var fundur með fulltrúum aðliggjandi sveitarfélaga í Fannahlíð í Skilmannahreppi 6. nóvember 1995 þar sem ráðgjafar framkvæmdaraðila kynntu fyrirhugaðar framkvæmdir. Þær voru jafnframt kynntar á borgarafundi að Hlöðum 28. nóvember 1995. Á þeim fundi voru frummælendur, auk ráðgjafa framkvæmdaraðila, fulltrúar frá Skipulagi ríkisins og Hollustuvernd ríkisins.
    Tilkynning um fyrirhugað álver á Grundartanga var formlega móttekin hjá skipulagsstjóra ríkisins 14. desember 1995 ásamt skýrslu Hönnunar: „ÁLVER Á GRUNDARTANGA. Mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar álvers, lagningar háspennulína og stækkunar Grundartangahafnar. Frumathugun. Skipulagsstjóri birti tilkynningu um framkvæmdina opinberlega með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 22. desember 1995 og í Morgunblaðinu og í auglýsingablaðinu Pésanum 20. desember s.á. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 22. desember 1995 til 29. janúar 1996 hjá embætti skipulagsstjóra ríkisins, Reykjavík, Teiknistofu Magnúsar H. Ólafssonar, Akranesi, Bókasafni Akraness og á skrifstofum Skilmannahrepps, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Leirár- og Melahrepps eftir samkomulagi við viðkomandi oddvita. Sex athugasemdir bárust á kynningartíma. Skipulagið leitaði einnig umsagna hjá Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráði, Vita- og hafnamálastofnun, Veiðimálastofnun, sveitarstjórnum Skilmannahrepps, Hvalfjarðarstrandahrepps og Leirár- og Melahrepps og loks hjá Íslenska járnblendifélaginu hf.
    Skipulagsstjóri kvað upp úrskurð 19. febrúar 1996 þar sem fallist var á byggingu fyrsta áfanga álvers á Grundartanga með 60.000 tonna ársframleiðslu og annars áfanga með stækkun í allt að 180.000 tonna ársframleiðslu, ásamt hafnarmannvirkjum og háspennulínum, eins og þeim er lýst í frummatsskýrslunni með tilteknum skilyrðum í sex liðum.
    Sjö aðilar kærðu úrskurð skipulagsstjóra til umhverfisráðherra. Umhverfisráðuneytið kvað upp úrskurð sinn 20. júní 1996 þar sem úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um að fallist væri á framkvæmdina var staðfestur með nokkrum breytingum.

5.5. Starfsleyfi.
    Þann 6. desember 1995 sótti markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar fyrir hönd Columbia um starfsleyfi til Hollustuverndar ríkisins fyrir álver á Grundartanga miðað við 180.000 tonna framleiðslu á ári.
    Starfsmenn Hollustuverndar unnu að gerð starfsleyfistillagna í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, með síðari breytingum. Í fylgiskjali VI er greinargerð stofnunarinnar, dags. 11. nóvember 1996, með tillögu að starfsleyfi fyrir álverið. Opinber auglýsing um starfsleyfistillögurnar var birt í Lögbirtingablaðinu 6. nóvember 1996. Upphaflega áttu tillögurnar að liggja frammi til kynningar á hreppsskrifstofum Skilmannahrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps og afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Akranessvæðis í sex vikur eða frá 11. nóvember 1996 til 23. desember s.á. og var frestur til að skila athugasemdum til Hollustuverndar ríkisins til þess dags. Hinn 12. desember 1996 var skilafrestur á skriflegum athugasemdum framlengdur til 13. janúar 1997. Starfsleyfistillögurnar lágu því frammi til kynningar í níu vikur. Hinn 9. janúar 1997 hélt heilbrigðisnefnd Akranessvæðisins opinn fund í Heiðarborg í Leirár- og Melahreppi um starfsleyfistillögurnar. Á fundinum kynnti Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarnasviðs hjá Hollustuvernd ríkisins, tillögurnar og Trausti Baldursson hjá Náttúruvernd ríkisins gerði grein fyrir líklegum athugasemdum stofnunarinnar við tillögurnar.
    Alls bárust Hollustuvernd ríkisins 54 athugasemdir (margar þeirra samhljóða) við tillögurnar. Starfsmenn stofnunarinnar hafa kannað málið í ljósi þessara athugasemda og lagt fyrir stjórn Hollustuverndar endurskoðaða tillögu að starfsleyfi. Stjórn Hollustuverndar samþykkti á fundi 21. febrúar 1997 starfsleyfistillögu sem send hefur verið til umhverfisráðherra sem gefur út starfsleyfi fyrir fyrirtæki af þeirri stærð sem hér um ræðir. Jafnframt hefur stofnunin gert þeim sem sendu inn athugasemdir grein fyrir niðurstöðu sinni.

6. Áhrif á þjóðarhag.
    Þjóðhagsstofnun hefur metið þjóðhagsleg áhrif byggingar álvers Columbia Ventures Corporation á Grundartanga, Norðuráls hf., með 60.000 tonna framleiðslugetu á ári (sjá fylgiskjal VII). Í athugun stofnunarinnar er miðað við áætlanir Landsvirkjunar og Hitaveitu Reykjavíkur um framkvæmdir til orkuöflunar og við flutningslínur og áætlanir frá Columbia um álversframkvæmdir.
    Í greinargerð stofnunarinnar eru borin saman tvö tilvik, þ.e. með og án stóriðjuframkvæmda. Hafa ber í huga að mat stofnunarinnar er háð ýmsum forsendum sem óvissa ríkir um og raktar eru í greinargerð stofnunarinnar. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir árin 1997–2000 og nái hámarki árið 1998. Alls er gert ráð fyrir að fjárfesting án vaxta á byggingartíma verði um 30 milljarðar króna. Til samanburðar var fjárfesting hér á landi árið 1996 um 91 milljarður króna.
    Gert er ráð fyrir að ársverk við framkvæmdirnar verði alls um 1.300. Búist er við að þar verði að mestu um innlent vinnuafl að ræða.
    Eftir að rekstur er hafinn er gert ráð fyrir tæplega 150 frambúðarstörfum við álver og raforkuvinnslu. Auk þess koma til afleidd störf.
    Gert er ráð fyrir að álverið verði rekið á fullum afköstum árið 1999 og útflutningur þess nemi þá um 6,8 milljörðum króna á ári, eða 3,5% af heildarútflutningi vöru og þjónustu. Heildarútflutningur stóriðjuafurða áætlast þá verða um 14% af útflutningi í stað 11%.
    Áhrifin á hagsveifluna á næstu 3–4 árum verða töluvert mikil ef af þessu verkefni verður. Þannig aukast fjárfestingar í heild um 12% meira en ella á þessu ári og allt að 21% árið 1998. Hagvöxtur 1997 verður tæp 3,5% í stað rúmlega 2,5%, eða 1% meiri en ella. Áhrif fjárfestinganna fjara út árin 1999–2000, en samtímis hefst álframleiðsla.
    Eftir að tekið hefur verið tillit til innfluttra aðfanga til framleiðslu áls má ætla að eftir standi um 3,5 milljarðar króna á ári sem eru um 0,6% af landsframleiðslunni. Varanleg heildaraukning landsframleiðslunnar vegna þessara verkefna er um 0,8% eða sem svarar rúmlega 4 milljörðum króna á ári.
    Til lengri tíma litið má reikna með að erlendar vaxta- og arðgreiðslur vegna framkvæmdanna verði að jafnaði um 2 milljarðar króna árlega. Eftir standa því rúmlega 1,5–2 milljarðar króna, eða um 0,3% af vergri þjóðarframleiðslu, sem beint framlag til viðskiptajafnaðar og vergrar þjóðarframleiðslu. Með traustri hagstjórn á framkvæmdaskeiðinu, eins og gert er ráð fyrir í áliti stofnunarinnar, telur hún að varanleg heildaraukning þjóðarframleiðslunnar geti orðið um 0,5%.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er iðnaðarráðherra heimilað að ganga til samninga á grundvelli frumvarps þessa við hlutafélag og stofnanda þess, en hlutafélagið verður stofnað samkvæmt íslenskum lögum í þeim tilgangi að reisa og reka álbræðslu hér á landi. Gert er ráð fyrir að félagið verði í eigu Columbia Ventures Corporation. Í samningi við félagið skal kveðið á um skuldbindingar ríkisins og félagsins sem hin fyrirhugaða starfsemi gefur tilefni til. Þar skal einnig fjallað um framkvæmd ákvæða laganna, eftir því sem nauðsynlegt er talið. Í samningnum skal kveðið á um gildistíma ákvæða hans sem ekki skal vera skemmri en 20 ár. Er í því efni miðað við sambærilegan gildistíma og fram kemur í öðrum áþekkum samningum sem gerðir hafa verið af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Gert er ráð fyrir að samningur um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda að undirskrift lokinni. Þá skal hlutafélagið starfrækt samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefni það sem lögin heimila, en því er ítarlega lýst í almennum athugasemdum. Verkefnið er skilgreint sem bygging verksmiðju á Grundartanga í Hvalfjarðarstrandar- og Skilmannahreppi, til framleiðslu á áli og skyldri starfsemi, stækkun hafnarmannvirkja og hafnarbúnaðar, og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu, eins og nánar verður um samið í samningi sem gerður verður innan ramma þessara laga annars vegar á milli iðnaðarráðherra og félagsins og hins vegar á milli félagsins og hafnarsjóðs Grundartangahafnar. Álverið verður hannað til að framleiða í upphafi um það bil 60.000 tonn af áli á ári með möguleikum á aukinni framleiðslugetu.

Um 3. gr.

    Í samningum, sem gerðir verða innan ramma þessa frumvarps, er m.a. kveðið á um ýmsar skuldbindingar sem aðilar hafa gengist undir í tengslum við verkefnið. Efndir þessara skuldbindinga eru með þeim hætti að ekki er óeðlilegt að félagið njóti trygginga þegar um er að ræða aðra aðila en ríkið sjálft. Er því eðlilegt að ríkið taki á sig ábyrgð í sambandi við ákveðnar efndir í tengslum við verkefnið. Þær ábyrgðir sem hér um ræðir eru annars vegar vegna skuldbindinga Skilmannahrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps varðandi ákvörðun um gjöld til sveitarfélaganna og hins vegar vegna skuldbindinga hafnarsjóðs Grundartangahafnar í tengslum við kostnað við viðbótarhafnaraðstöðu í þágu bræðslunnar, en heimild Alþingis vegna hins síðarnefnda liggur þegar fyrir í nýsamþykktum lánsfjárlögum. Gerðir verða sérstakir samningar af hálfu ríkisins við sveitarfélögin tvö og hafnarsjóð Grundartangahafnar í sambandi við framangreint.

Um 4. gr.

    Eðlilegt þykir, með tilliti til aðildar hins erlenda aðila að hlutafélagi því sem ráðgert er að stofna vegna reksturs álversins og annarra aðstæðna, að ekki séu lagðar hömlur á tölu stofnenda eða hluthafa í félaginu. Á sama hátt er eðlilegt að heimila frávik frá þeim ákvæðum hlutafélagalaga, iðnaðarlaga og laga um verslunaratvinnu er fjalla um persónu stofnenda eða þjóðerni. Samkvæmt gildandi lögum er það á færi viðkomandi ráðherra að veita undanþágur en með tilliti til þess að um stórverkefni er að ræða þykir eðlilegt að fjalla um þessar undanþágur í frumvarpi þessu. Enn fremur er nauðsynlegt að heimila frávik frá lögum um eignarrétt erlendra aðila að fasteignum hér á landi og ákvæðum um skyldutryggingar fasteigna með tilliti til brunatjóns og viðlaga. Gert er ráð fyrir að eignirnar verði tryggðar á þann hátt sem venjulegt telst í álframleiðslu.

Um 5. gr.

    Í þessari grein samningsins er að finna ákvæði um skattamál félagsins. Ólíkt fyrri samningnum um álframleiðslu og aðra stóriðju hér á landi er nú ekki samið um heildstæða sérmeðferð á sköttum félagsins heldur eru íslensk skattalög lögð til grundvallar og gilda um starfsemi félagsins með tilteknum frávikum sem nauðsynlegt var að gera. Ákvæði íslenskra skattalaga hafa verið að breytast í átt til samræmis við það sem almennt er í nálægum löndum sem ásamt stöðugleika í efnahagslífinu hefur dregið úr þörf á sérstakri skattalegri meðferð fyrirtækja í eigu erlendra aðila, enda er ekki samið um hana nema í undantekningartilvikum.
    Ástæðurnar fyrir því að taka þurfti ákvæði um skatta í samninga vegna þess félags sem hér um ræðir eru tvíþættar. Annars vegar var nauðsynlegt að tryggja hagsmuni íslenska ríkisins vegna sérstaks ákvæðis í íslenskum skattalögum um frádrátt arðs frá skattskyldum tekjum og hins vegar eiga ákvæði um smágjöld og markaða tekjustofna, svo og fasteignagjöld, illa við um stórfyrirtæki sem njóta takmarkaðrar þjónustu.
    Ákvæði tekjuskattslaganna um að hlutafélögum sé heimilt að draga útborgaðan arð, allt að 7% af nafnverði hlutafjár, frá skattskyldum tekjum kemur illa við hagsmuni ríkisins þegar um er að ræða erlendan eignaraðila að hlutafélagi hér á landi. Getur það leitt til þess að verulegur hluti af rekstrarhagnaði af starfseminni sleppi að fullu við skattlagningu hér á landi. Er það reyndar svo að oft kemur þessi skattaívilnun ekki viðkomandi félagi eða eigendum þess til góða heldur því landi þar sem þeir hafa heimilisfestu. Not innlendra eigenda af þessu ákvæði eru takmarkaðri þar sem móttekinn arður myndar skattskyldar tekjur hjá þeim sem borið geta skatt og hækkun á nafnverði hlutabréfa í þeim tilgangi að ná út skattfrjálsum arði leiðir til eignarskattlagningar hjá hlutafjáreigendunum. Af þessum ástæðum var samið við félagið um að það mundi ekki geta notað þessa frádráttarheimild. M.a. vegna skuldbindinga í tvísköttunarsamningum um jafnræði við skattalega meðferð varð að jafna þetta gagnvart fyrirtækinu með öðrum hætti eins og fram kemur í greininni og eru tilslakanir í öðrum liðum gerðar með tilliti til þess. Í heild var við það miðað að skattlagning félagsins yrði nokkurn veginn sú sama og hún hefði orðið samkvæmt almennum reglum íslenskra skattalaga.
    Í upphafi 5. gr. er sett fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna álbræðslunnar samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning á frávikum frá aðalreglunni.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt félagsins. Félagið mun greiða 33% tekjuskatt, óháð því hvort breyting verður gerð á skatthlutfalli laganna síðar. Er þetta m.a. gert með tilliti til þess að breyting á skatthlutfallinu í lögunum kynni að tengjast breytingum sem eru í samningnum, svo sem afnámi frádráttarheimildarinnar sem félagið hefur fengið uppbætt með öðrum hætti. Félagið á hins vegar skv. 4. tölul. rétt á endurskoðun skattaákvæðanna komi til breytinga á tekjuskattslögunum.
    Meginfrávik frá almennum skattlagningarreglum lögaðila er í a-lið 1. tölul. Þar er afnumin gagnvart félaginu heimild til að draga útborgaðan arð frá skattskyldum tekjum. Eins og að framan greinir er þetta gert til að tryggja hagsmuni ríkissjóðs sem hefði getað orðið fyrir miklu tekjutapi að öðrum kosti. Til að bæta þetta upp eru félaginu veittar ívilnanir í öðrum atriðum sem ekki skipta ríkið eins miklu fjárhagslega. Þau eru undanþága frá staðgreiðsluskatti af arðgreiðslum til erlendra eigenda, sbr. b-lið, skattfrjálst framlag í fjárfestingarsjóð, sbr. e-lið, undanþága frá eignarskatti, sbr. 2. tölul., og undanþága frá því að greiða iðnlánasjóðsgjald, iðnaðarmálagjald og markaðsgjald.
    Samkvæmt tvísköttunarsamningi Íslands og Bandaríkjanna hefði Ísland haft heimild til að leggja 5% staðgreiðsluskatt á arð sem greiddur yrði úr landi til eigenda hérlends félags, væri eignaraðildin 10% eða meira. Í nýrri tvísköttunarsamningum hefur verið farin sú leið að fella þennan staðgreiðsluskatt niður í samræmi við þá meginreglu að réttur til tekjuskattlagningar sé hjá búsetulandinu. Fyrrnefnd regla um arðsfrádrátt hefur gert það að verkum að af Íslands hálfu hefur verið sérákvæði í tvísköttunarsamningunum þess efnis að þetta skattfrelsi ætti ekki við um hagnað sem notið hefði ívilnunar samkvæmt þeirri reglu. Með því að félagið hefur ekki þessa frádráttarheimild þótti eðlilegt að falla frá staðgreiðsluskattinum og láta það ná til hluthafa sem búsettir eru í OECD-ríkjum en Ísland hefur tvísköttunarsamninga við mörg þeirra ríkja og hefur einnig beitt þeim gagnvart öðrum. Er ákvæði um þetta í b-lið.
    Í c-lið er ákvæði um fyrningargrunn eigna. Um hann gilda ákvæði skattalaganna en til einföldunar er gert ráð fyrir að í upphafi verði samið um föst hlutföll á milli bygginga og tækja til að miða afskriftir við.
    Í d-lið er heimild að draga rekstrartap frá skattskyldum tekjum í allt að átta ár eins og nú er þegar heimilt samkvæmt skattalögunum.
    Í stað 7% reglunnar kemur að hluta ákvæði í e-lið sem heimilar félaginu að fresta skattlagningu á fé sem lagt er í fjárfestingarsjóð, allt að 4% af nafnverði hlutafjár. Með þessu frestast skattlagning í allt að sex ár eða þar til sú fjárfesting, sem fénu er varið til, hefur verið afskrifuð. Einnig er kveðið á um heimildir til að jafna tap með fé úr sjóðnum og skattlagningu við úttekt úr honum til annars en fjárfestinga.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er félagið undanþegið eignarskatti skv. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 75/1981 og sérstökum eignarskatti skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1989. Með tilliti til þess að nafnverð hlutafjár kemur til frádráttar frá eignarskattsstofni og að gert er ráð fyrir að hlutafé verði hátt hlutfall af eigin fé við stofnsetningu hefði eignarskattur aðeins lagst á uppsafnaðan hagnað í félaginu.
    Félagið er undanþegið eftirtöldum gjöldum skv. 3. tölul. 1. mgr.: iðnlánasjóðsgjaldi samkvæmt lögum um Iðnlánasjóð, nr. 76/1987, iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990. Þótti það eðlilegt þar sem um er að ræða markaðar tekjur til verkefna sem félagið hefur ekki not af.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er hinum sérstöku ákvæðum í 1.–3. tölul. markaður gildistími. Ákvæðin skulu gilda fyrir fyrsta samningstímabil samningsins eða þar til til uppsagnar kemur. Enn fremur er félaginu veittur réttur til að krefjast endurskoðunar á hinum sérstöku ákvæðum um skattlagningu ef breytingar verða gerðar á lögum nr. 75/1981. Er þetta ákvæði eðlilegt í ljósi þess að skattlagning félagsins á að vera sambærileg skattlagningu samkvæmt almennum reglum íslenskra skattalaga.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er vikið að fyrningarreglum varðandi eignir félagsins. Annars vegar getur það valið að afskrifa eign í hlutfalli við notkunartíma á fyrsta ári hennar í stað þess að nota fulla ársafskrift. Í öðru lagi er félaginu heimilað að afskrifa eignir að fullu í stað þess að bókfæra skrapvirði eins og lögin kveða á um.
    Í 6. tölul. 1. mgr. kemur fram að í stað fasteignaskatts og sérstaks fasteignaskatts skuli félagið greiða Hvalfjarðarstrandar- og Skilmannahreppi 0,85% skatt af umsömdu verðmæti bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja samkvæmt nánari ákvæðum samninga sem gerðir verða innan ramma þessara laga.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er stimpilgjald af ákveðnum tegundum stimpilskyldra skjala ákveðið 0,15%.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til að ákveða að greiða skuli umsamda fjárhæð í stað byggingarleyfisgjalds, gatnagerðargjalds og skipulagsgjalda.
    Í 9. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir að aðilar geti samið um meginreglur við endurskoðun á skattlagningarreglunum með tilliti til þess að halda skuli heildarskattlagningu á félagið óbreyttri.
    Félagið verður háð almennum reglum íslenskra laga varðandi skattframtal, álagningu, viðurlög og málskot.
    Í greininni kemur loks fram að á fyrsta samningstímabilinu sé félaginu heimilt að velja að almenn ákvæði íslenskra skattalaga gildi um það. Beiðni um slíkt er þó fyrst hægt að leggja fram skriflega eigi síðar en 1. júní ári áður en breytingarnar eiga að taka gildi. Slík breyting getur þó fyrst átt sér stað fyrir tekjuárið 2000 en á hverju ári eftir það.

Um 6. gr.

    Í greininni er ákveðið að aðilar geti samið um sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og undanþágum sem taldar eru viðeigandi varðandi félagið. Heimila má félaginu að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, í samræmi við reglur alþjóðlega reikningsskilaráðsins. Reglur þessar geta falið í sér undanþágu frá notkun verðbreytingarstuðuls við ákvörðun söluhagnaðar skv. 10. gr. tekjuskattslaganna, fyrningargrunns skv. 36. gr. og verðbreytingarfærslu skv. 53. gr.

Um 7. gr.

    Gengið er út frá því að farið verði að íslenskum lögum við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma laganna. Heimild til að vísa ágreiningi til gerðardóms er víðtækari en tíðkast hefur í sambærilegum samningum. Er það í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í viðskiptum og samningagerð við erlenda aðila.

Um 8. gr.

    Samkvæmt tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og efnivörum til iðnaðarframleiðslu, svo og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Engin gjöld eru nú á hráefnum og efnivörum. Eins er um fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES-ríkjum og öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Í fyrri málslið greinarinnar er við það miðað að felldir verði niður tollar og vörugjöld af innflutningi og kaupum félagsins á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir verksmiðju félagsins og tengd mannvirki, sem kunna að verða flutt inn frá öðrum löndum og bera tolla eða vörugjöld. Í síðari málslið greinarinnar er veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar bræðslunnar.

Um 9. gr.

    Í greininni kemur fram að semja megi um að félaginu sé heimilt að framselja samninginn. Nánar er í honum vikið að slíku framsali sem komið getur til við sérstakar aðstæður og með tilteknum takmörkunum.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Lýsing á meginatriðum í drögum að fjárfestingarsamningi milli


ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf.



1.0. Inngangur.
    Samkomulag um álbræðslu á Grundartanga, felur í sér fjóra samninga. Í fyrsta lagi fjárfestingarsamning, sem verður aðalsamningur verkefnisins, milli ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures Corporation (hér eftir nefnt Columbia) og hlutafélags (hér eftir nefnt félagið) sem Columbia stofnar hér á landi. Í öðru lagi gerir félagið rafmagnssamning við Landsvirkjun. Í þriðja lagi verður gerður lóðarsamningur um staðsetningu álbræðslunnar, milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og félagsins. Loks verður í fjórða lagi um að ræða hafnarsamning, milli hafnarsjóðs Grundartangahafnar og félagsins.
    Markmið verkefnisins er að reisa og starfrækja álbræðslu með upphaflegri framleiðslugetu sem nemur u.þ.b. 60.000 tonnum af áli á ári.
    Hér á eftir fer lýsing á hinum svokallaða fjárfestingarsamningi, en hann er alls 24 greinar.

2.0. Lýsing á einstökum ákvæðum fjárfestingarsamningsins.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.
    Í 2. gr. er fjallað um uppbyggingu verkefnisins, markmið félagsins og undanþágur frá lögum. Í greininni kemur fram að Columbia skuli stofna hlutafélag hér á landi um rekstur álbræðslunnar í samræmi við íslensk lög. Í greininni er enn fremur kveðið á um að markmið félagsins.
    Þá er og fjallað um stofnanda félagsins og þær undanþágur sem honum skulu veittar frá lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.
    Þá er í 2. gr. einnig kveðið á um undanþágu frá lögum nr. 19/1966, um eignar- og afnotarétt fasteigna. Samkvæmt henni má veita félaginu heimild til að eiga og hafa afnot af fasteignum hér á landi.
    Í 2. gr. kemur fram að félaginu skuli veitt undanþága frá ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, og lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, en það skilyrði jafnframt sett að félagið sjái um að eignirnar séu tryggðar á þann hátt sem teljist venjulegur í álframleiðslu.
    Loks er kveðið á um útgáfu iðnaðar- og verslunarleyfa til félagsins.
    Í 3. gr. er fjallað um framsal hluta í hlutafélaginu. Þar er kveðið á um að þar til álbræðslan hefur framleiðslu geti yfirfærsla hluta í félaginu ekki átt sér stað nema með samþykki ráðherra. Ekki skal synja um slíkt samþykki með ósanngjörnum hætti þegar um er að ræða (a) framsal til samstarfsaðila stofnanda sem hefur aðsetur í OECD-landi eða (b) ef hlutabréf hafa verið sett að veði til tryggingar láni sem félagið hefur tekið til fjármögnunar á verkefninu. Í greininni er einnig kveðið á um að framselja megi minni hluta hlutabréfa ef framsalshafi hefur aðsetur í OECD-ríki.
    Í greininni kemur loks fram að ef ekki er á annan hátt um samið milli aðila geti hluthafar í félaginu, eftir að byggingu álbræðslunnar er lokið, frjálst selt hluti sína í því til annars félags sem hefur aðsetur í öðru OECD-ríki. Einnig er kveðið á um að félag, sem eignast hluti í félaginu með þeim hætti sem nánar er um rætt í greinum 3.1 og 3.2, skuli talið aðili samningsins.
    Í 4. gr. samningsins er fjallað um verkframkvæmdir og leyfisveitingar vegna þeirra. Í greininni er kveðið á um að félagið skuli hefja framkvæmdir í samræmi við samningana með það fyrir augum að vinnsla geti hafist á árinu 1998.
    Í 5. gr. samningsins er fjallað um umhverfismál. Í henni kemur fram að álbræðslan og starfsemi félagsins við höfnina skuli rekin í samræmi við starfsleyfi sem umhverfisráðherra gefur út til félagsins.
    Í 6. gr. er fjallað um meginreglur skattlagningar. Þar segir að félaginu skuli skylt að greiða þá skatta og gjöld sem lögð eru á samkvæmt íslenskum lögum á hverjum tíma, nema öðruvísi sé um samið í samningnum.
    Í 7. gr. er fjallað um skatta sem ríkið leggur á. Í greininni kemur fram að þrátt fyrir hugsanlegar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt skuli félagið greiða 33% tekjuskatt samkvæmt ákveðnum sérákvæðum sem talin eru upp í samningnum. Helstu atriði sérákvæðanna eru:
        (a)    Ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 um að draga megi 7% af nafnverði hluta frá skattskyldum tekjum skal ekki eiga við um félagið.
        (b)    Þrátt fyrir ákvæði laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur skal skattur ekki lagður á arð erlendra hluthafa sem uppfylla tiltekin skilyrði.
        (c)    Fastafjármunir samanstanda af byggingum, vélum og tækjum í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um.
        (d)    Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári það tap sem orðið hefur á undangengnum átta árum.
        (e)    Félaginu er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan fjárfestingarsjóð upphæð sem samsvarar 4% af nafnverði hlutafjár.
    Í greininni kemur einnig fram að félagið skuli vera undanþegið bæði eignarskatti og sérstökum eignarskatti.
    Þá er og kveðið á um að félagið skuli vera undanþegið iðnlánasjóðsgjaldi, iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
    Einnig kemur þar fram að þrátt fyrir hugsanlegar breytingar á lögum nr. 75/1981 skuli hin sérstöku ákvæði hér að framan vera í gildi fyrir upphafstímabil samningsins, þ.e. til ársins 2018. Þá segir enn fremur að verði breytingar á lögunum skuli félagið eiga rétt á endurskoðun skattaákvæða samningsins í því skyni að félagið verði ekki skattlagt umfram það sem það yrði samkvæmt lögunum án sérákvæða samningsins.
    Í greininni er kveðið á um að félagið megi skrá viðskipti sín í bandaríkjadölum. Þá er einnig kveðið á um að til útreiknings á skattskyldum hagnaði félagsins skuli umbreyta fjárhæðum á fjárhagsyfirlitum úr bandaríkjadölum í íslenskar krónur í samræmi við tilteknar reglur.
    Í 8. gr. er fjallað um fasteignaskatta sveitarfélaga og gatnagerðargjöld. Í greininni er kveðið á um að félagið skuli greiða 0,85% í fasteignaskatt til sveitarfélaganna af öllum byggingum, aðstöðu og mannvirkjum sem félagið á eða leigir á grundvelli umsamdrar fjárhæðar og byggingarvísitölu fyrir desember undangengins árs.
    Enn fremur er kveðið á um að félagið skuli hvorki greiða gatnagerðargjöld samkvæmt lögum nr. 17/1996 til sveitarfélaganna vegna upphaflegrar framleiðslugetu né aðra skatta, gjöld eða þóknun sem kunna að verða lögð á í stað þeirra.
    Í 9. gr. samningsins er fjallað um byggingarleyfisgjald. Þar kemur fram að sveitarfélögin muni gefa út byggingarleyfi til byggingar bræðslunnar og nauðsynlegra mannvirkja í samræmi við byggingarreglugerð.
    Í 10. gr. samningsins er fjallað um gjöld á innflutning og útflutning. Þar segir að innflutningur eða kaup innan lands, sé undanþeginn tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987.
    Í greininni kemur einnig fram að félaginu verði veittur frestur samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á greiðslu virðisaukaskatts þar til endurgreiðsla hvers uppgjörstímabils er gjaldfallin.
    Í 11. gr. er fjallað um aðra skatta og gjöld. Í greininni er kveðið á um að stimpilgjöld af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins og af fjárfestingarlánum sem félagið kann að taka í sambandi við byggingu og rekstur bræðslunnar skuli vera 0,15%. Einnig er kveðið á um að öll skjöl í sambandi við endurfjármögnun félagsins og hluti í því skuli undanþegin stimpilgjöldum.
    Einnig er kveðið á um að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð vegna skipulagsgjalda fyrir upphaflega framleiðslugetu upp á u.þ.b. 60.000 tonn.
    Í 12. gr. er fjallað um reikningsskilareglur. Þar kemur fram að við gerð fjárhagsyfirlita í bandaríkjadölum skuli beita þeim reikningsskilareglum sem gefnar eru út af „International Accounting Committee“, enda séu þær ekki í andstöðu við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur segir að félaginu sé heimilt að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum.
    Í greininni er einnig kveðið á um að almenn ákvæði íslenskrar löggjafar skuli gilda um skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu og aðrar uppgjörsreglur vegna tekjuskatts, virðisaukaskatts og gjalda sem sveitarfélög leggja á.
    Í 13. gr. er fjallað um endurskoðun skattfyrirkomulags. Í greininni er kveðið á um að á samningstímabilinu geti félagið valið að íslensk skattalög gildi um það. Slík beiðni þurfi að vera skrifleg og verði að vera komin fram fyrir 1. júní, ári áður en slíkar breytingar eiga að koma til framkvæmda. Slík breyting getur fyrst átt sér stað vegna tekna ársins 2000.
    Í 14. gr. er fjallað um þjónustu sveitarfélaganna. Í greininni er kveðið á um að þar sem sveitarfélögin veiti félaginu ákveðnar undanþágur frá sköttum og gjöldum skv. 8. og 9. gr. samnings þessa veiti sveitarfélögin enga þjónustu nema félagið og sveitarfélögin séu sammála um það.
    Í 15. gr. er fjallað um lagalega stöðu samninganna. Þar er kveðið á um að samningurinn skuli birtur í heild sinni á íslensku og ensku í B-deild Stjórnartíðinda, en tekið fram að samningurinn öðlist gildi samkvæmt ákvæðum sínum óháð birtingunni.
    Í 16. gr. er fjallað um ábyrgðir ríkisstjórnarinnar. Þar segir að ríkisstjórnin skuli gera allt sem nauðsynlegt er til að tryggja að stofnandinn og félagið njóti allra þeirra réttinda og hlunninda sem þeim eru veitt samkvæmt þessum samningi og að ekkert verði gert sem takmarki eða á annan hátt hafi óhagstæð áhrif á framkvæmd verkefnisins, rekstur félagsins eða stofnandans.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um að ríkisstjórnin ábyrgist efndir og skyldur sveitarfélaganna og hafnarsjóðs í samræmi við ákvæði þar að lútandi í hafnarsamningnum.
    Í 17. gr. er fjallað um lög þau sem farið skal eftir og lausn deilumála. Þar segir að samningurinn fari að íslenskum lögum, nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    Í greininni segir að sérhvern ágreining skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa máli til gerðardóms.
    Þrátt fyrir ofangreint getur hvor aðilinn sem er vísað máli til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna „Arbitration Institute of the Stockholm Chamber of Commerce“ eins og þær eru þegar samningur þessi er undirritaður. Gerðardómur skal skipaður þremur dómendum, einum tilnefndum af sækjanda, öðrum af varnaraðila og einum tilnefndum af aðilunum sameiginlega, en hann skal gegna stöðu formanns. Ef annar hvor aðilinn neitar að tilnefna dómendur skal hinn aðilinn leita til héraðsdóms Reykjavíkur sem tilnefnir gerðardómsmann. Ef þessir tveir gerðardómsmenn geta ekki komið sér saman um þriðja gerðardómsmanninn skal hann einnig tilnefndur af héraðsdómi Reykjavíkur. Hann skal hvorki vera af sama þjóðerni og aðilarnir né heldur Columbia Ventures eða annarra hluthafa í félaginu. Dómendur skulu uppfylla skilyrði í 6. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Gerðardómsmálið skal fara fram í Reykjavík en tungumál gerðardómsins er enska.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað. Aðilarnir eru sammála um að niðurstöður gerðardóms skuli vera endanlegar og bindandi frá þeim degi sem þær eru gerðar.
    Í 18. gr. er fjallað um óviðráðanleg öfl og áhrif þeirra á ábyrgð aðila vegna vanefnda af völdum slíkra atvika. Er þar kveðið á um hvers konar atvik teljist til óviðráðanlegra atvika.
    Enn fremur er kveðið á um að sá sem heldur því fram að brest á efndum megi rekja til slíkra atvika hafi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.
    Loks er kveðið á um að gildistími samningsins skuli lengjast um þann tíma sem samsvarar töf vegna óviðráðanlegra afla.
    Í 19. gr. er fjallað um samningstíma og framlengingu samningsins. Þar segir að 6.–14. gr. samningsins skuli teljast gildar sama dag og rafmagnssamningur Landsvirkjunar og félagsins tekur gildi frá þeim degi er félagið var stofnað. Aðrar greinar samningsins teljast hafa gildi frá því að rafmagnssamningurinn er undirritaður.
    Enn fremur segir að ef samningurinn taki gildi skuli hann gilda til 31. október 2018 (fyrsta samningstímabilið) og falli þá úr gildi án tilkynningar. Innan 17 ára frá undirritun samningsins skulu aðilar hafa lokið viðræðum um framlengingu samningsins til ekki skemmri tíma en 10 ára frá lokum upphaflega samningstímans.
    Loks segir í greininni að ef rafmagnssamningnum er af einhverjum ástæðum sagt upp á fyrsta samningstímabili samningsins skuli félagið hafa möguleika á að segja þessum samningi upp með skriflegri tilkynningu þar um til gagnaðilanna.
    Í 20. gr. er fjallað um viðurkennda texta samningsins. Samningurinn er bæði á ensku og íslensku og hafa báðir jafnt gildi. Þó er tekið fram að ef ósamræmis eða árekstra gæti milli textanna skuli tekið tillit til þess að samningaviðræður fóru fram á ensku.
    Í 21. gr. er fjallað um framsal réttinda. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningnum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Í greininni er einnig kveðið á um að þrátt fyrir ofangreint skuli félaginu heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis ríkisstjórnarinnar til fjármögnunaraðila sem tryggingu vegna fjármögnunar á verkinu. Það er þó háð því samkomulagi sem gera á milli ríkisstjórnar og fjármögnunaraðila.
    Í 22. gr. er fjallað um breytingar og endurskoðun samningsins. Þar kemur fram að aðeins sé heimilt að breyta samningnum með skriflegum viðaukasamningi.
    Einnig er þar að finna ákvæði um gagnkvæma sanngirni samningsaðila við framkvæmd samningsins og breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar á honum vegna breyttra aðstæðna. Hvorugur samningsaðila getur þó beitt þessu ákvæði fyrir 1. júní 2008 og ekki oftar en einu sinni á samningstímabilinu.
    Í 23. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins.    
    Í 24. gr. er fjallað um fjölda samningseintaka, lögfræðiálit aðila og tilkynningu ríkisstjórnarinnar til Eftirlitsstofnunar EFTA.



Fylgiskjal II.


Lýsing á drögum að lóðarsamningi milli fjármálaráðherra


f.h. ríkissjóðs Íslands og Norðuráls hf.



1. Inngangur.
    Einn þeirra samninga sem gera verður vegna verkefnisins er lóðarsamningur vegna lands undir væntanlega álbræðslu. Slíkur lóðarsamningur verður milli ríkissjóðs Íslands og Norðuráls hf. (hér eftir nefnt félagið).
    Samningurinn er 11 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á drögum að fjárfestingarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum atriðum lóðarsamningsins.
    Í 1. gr. samningsdraganna eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.
    Í 2. gr. er kveðið á um leigu á lóð undir bræðsluna. Í greininni kemur m.a. fram að ríkissjóður samþykki að leigja félaginu 82,2 hektara landrými í landi jarðanna Klafastaða og Kataness (Vestra-Kataness) undir bræðsluna.
    Þá kemur einnig fram í greininni að lóðin sé leigð út af fjármálaráðuneytinu, að ríkissjóður ábyrgist að eiga landið, það sé fallið til þeirra nota sem því eru ætluð og að það sé ekki háð neinum takmörkunum eða kvöðum.
    Í greininni segir að landsvæði verði afhent félaginu án allra kvaða eða veðbanda og í því ástandi sem það var þegar það var selt ríkissjóði. Í greininni er kveðið á um að félagið taki að sér allan nauðsynlegan undirbúning á lóðinni sem ríkissjóður á, fjármagnar og útvegar, eins og nánar er kveðið á um í sérstökum viðauka með samningnum.
    Þá er og kveðið á um að til fjármögnunar á undirbúningsframkvæmdum sem félagið tekur að sér fyrir ríkissjóð skuli ríkissjóður greiða félaginu fjárhæð, að hámarki 7 milljónir bandaríkjadala, með fjórum jöfnum greiðslum. Enga greiðslu skal þó inna af hendi fyrr en rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og félagsins hefur tekið gildi.
    Í greininni er einnig fjallað um hvernig ríkissjóður muni fjármagna undirbúningsframkvæmdir á svæðinu. Þar segir að ríkissjóður taki þrjú lán til næstu 23 ára. Fyrsta lánið er til tíu ára, frá 1. júlí 1997, annað frá árinu 2007 til næstu tíu ára og þriðja lánið frá 2017 til síðustu þriggja áranna. Félagið skuli síðan endurgreiða ríkissjóði leigu fyrir undirbúningskostnaðinn með vöxtum og kostnaði eins og hér segir:
    a)    Höfuðstóll og vextir samkvæmt b-lið skulu greiddir með jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum á tuttugu ára tímabili frá 1. júlí árið 2000.
    b)    Vextir skulu vera þeir sömu og vextir af láni sem ríkissjóður mun taka til að fjármagna verkefnið, auk greiðslu 0,35% þóknunar vegna kostnaðar og ríkisábyrgðargjalds.
    Greiðslum félagsins er nánar lýst og þær áætlaðar í leigu- og greiðsluáætlun í viðauka D sem fylgir lóðarsamningnum.
    Í greininni er einnig kveðið á um lagalegar skyldur félagsins og rétt þess til að fjarlægja allar byggingar og mannvirki af hinu leigða landi án ábyrgðar félagsins gagnvart ríkissjóði, svo framarlega sem slíkt samrýmist starfsleyfinu.
    Þá er kveðið á um að félagið taki við vörslu leigulóðarinnar við undirritun samningsins og haldi þeim og afnotum af henni meðan lóðarsamningurinn er í gildi. Einnig kemur fram í greininni hver afnot félaginu skuli heimilt að hafa af lóðinni.
    Í greininni segir enn fremur að félagið skuli á eigin kostnað sjá um að halda lóðinni og öllum endurbótum, sem á henni verða gerðar, í góðu ástandi og í samræmi við starfsleyfi, auk tilheyrandi laga og reglugerða meðan á leigutímanum stendur.
    Í greininni er að finna ákvæði um rétt félagsins til að færa út starfsemi sína á lóðinni, að fengnum tilskildum leyfum.
    Þá er einnig fjallað um leigugreiðslur. Þar kemur fram að félagið skuli árlega greiða ríkissjóði 15.000 bandaríkjadali. Leigugjald skal samkvæmt greininni reiknast frá 1. júlí 1997, en leigugjaldið skal greitt 2. janúar ár hvert. Fyrsta greiðsla vegna tímabilsins frá 1. júlí 1997 til 30. júní 1998 gjaldfellur 2. janúar 1998.
    Í greininni er auk þessa kveðið á um forkaupsrétt félagsins á leigulóðinni. Undantekningu er þó að finna varðandi hugsanlega sölu til sveitarstjórna Hvalfjarðarstrandar- og Skilmannahrepps eða hafnarsjóðs Grundartangahafnar.
    Í greininni er kveðið á um rétt félagsins til að leggja rör, leiðslur, strengi og rafmagnslínur um hafnarsvæðið, eftir því sem þörf krefur vegna starfrækslu bræðslunnar, að fengnu samþykki hafnarsjóðs hvað varðar gerð og staðsetningu slíkra mannvirkja. Þá er einnig kveðið á um rétt félagsins til að taka vatn úr sjó og flytja til bræðslulóðarinnar yfir hafnarsvæðið, að fengnu samþykki hafnarsjóðs. Þessi réttindi skulu ekki háð greiðslu af hálfu félagsins, en allar framkvæmdir vegna þeirra skulu á kostnað þess.
    Þá er einnig vikið að ábyrgð ríkissjóðs gagnvart hugsanlegum kröfum á hendur félaginu. Í greininni segir að ríkissjóður skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur félaginu í tengslum við bræðslulóðina, hvort sem þær eru til staðar fyrir eða eftir undirritun samningsins, vegna þess sem gert er eða reynt að gera fyrir undirritun og hefur á einhvern hátt áhrif á lóðina.
    Í greininni er einnig vikið að ábyrgð félagsins gagnvart ríkissjóði. Þar segir að félagið skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur ríkissjóði í tengslum við vanrækslu félagsins á að viðhalda bræðslulóðinni í samræmi við ákvæði starfsleyfis og/eða önnur svipuð leyfi sem kunna að verða veitt til viðbótar eða í staðinn fyrir starfsleyfið.
    Loks er í greininni kveðið á um að ríkisstjórnin skuli útvega eða afla félaginu:
    a)    öll ítök, leigusamninga eða önnur eignarréttindi sem nauðsynleg eru til flutnings á hráefni með færibandi frá höfninni til bræðslunnar,
    b)    nægilegan aðgang að bræðslulóðinni frá næsta almenningsvegi, þar með talin lagning nýrra vega ef nauðsynlegt verður talið, og
    c)    öll ítök, leigusamninga eða önnur eignarréttindi vegna hafnarsvæðisins til bræðslulóðarinnar sem nauðsynleg eru til að félagið hafi meðal annars óheftan aðgang að rafmagni, vatni og eldsneyti sem nauðsynlegt er til að félagið geti framkvæmt verkefnið.
    Í 3. gr. er fjallað um uppsögn samningsins. Þar er kveðið á um að ef samningi þessum sé af einhverjum ástæðum sagt upp af hálfu félagsins skuli það greiða ríkissjóði að fullu og í samræmi við skuldbindingar þess og ábyrgðir samkvæmt samningnum allar fjárhæðir sem það hefur fengið, bæði höfuðstól og áfallna vexti sem ekki eru þegar greiddir þegar samningnum er sagt upp.
    Í greininni kemur einnig fram að ef um endanlega stöðvun á starfrækslu er að ræða skuli ekki gerðar neinar kröfur um lagfæringar eða endurbætur á bræðslunni eða bræðslulóðinni, að því tilskildu að félagið eða sá aðili, sem tekið hefur við starfseminni, ábyrgist að öll hættuleg úrgangsefni frá bræðslunni verði fjarlægð. Félaginu skal ekki skylt að hreinsa urðaðan úrgang af svæðinu að svo miklu leyti sem slíkur úrgangur var meðhöndlaður í samræmi við starfsleyfið. Þá er félaginu gert skylt að fjarlægja innan sanngjarnra tímamarka bræðsluna og tilheyrandi mannvirki en að öðrum kosti flytjist eignarráð yfir slíkum mannvirkjum til ríkissjóðs. Í greininni segir einnig að ríkissjóður geti sagt upp samningnum ef greiðslur, sem félagið átti að inna af hendi samkvæmt samningnum, hafa ekki verið greiddar innan 90 daga frá gjalddaga. Í greininni er loks gert að skilyrði að ríkissjóður sendi afrit af tilkynningu um uppsögn til fulltrúa lánveitanda. Lánveitandinn hefur 60 daga til að inna af hendi greiðslur fyrir hönd félagsins, en með greiðslu lánveitanda fellur réttur ríkissjóðs til uppsagnar úr gildi.
    Hvað varðar 4. gr. (lög sem farið skal eftir og lausn deilumála) og 5. gr. (um óviðráðanleg öfl) vísast til lýsingar á 17. og 18. gr. í fjárfestingarsamningi sem eru efnislega samhljóða.
    Í 6. gr. er fjallað um samningstímann. Samkvæmt greininni öðlast samningurinn gildi við undirskrift aðilanna og heldur gildi til 1. júlí 2020 en rennur þá úr gildi án uppsagnar. Í greininni er skilyrði gildistöku að rafmagnssamningur félagsins og Landsvirkjunar hafi tekið gildi fyrir 1. júní 1997, nema skriflegt samkomulag sé milli ríkissjóðs og félagsins um annað. Þá er einnig kveðið á um rétt félagsins til að framlengja samninginn til tíu ára í senn. Slíkar framlengingar lúta sömu skilyrðum og ákvæðum og gilda um upprunalega samningstímann, nema að leiga skal ákveðin í samræmi við eftirfarandi jöfnu:












Ri = 15,000 x LMEi-1
1,650

    þar sem
    R i = leigan í bandaríkjadölum á ári „i“,
    LME i-1 = meðalverð fyrir eitt tonn af hrááli í bandaríkjadölum með lágmarkshreinleika upp á 99,7 prósent og þriggja mánaða afhendingarfresti, eins og það er uppgefið af Metal Bulletin fyrir árið á undan „i“.





    7. gr. fjallar um viðurkenndan texta, en þar er kveðið á um að íslenski og enski textinn skuli hafa jafnt gildi. Þó er tekið fram að ef ósamræmis eða árekstra gæti milli textanna skuli tekið tillit til þess að samningaviðræður fóru fram á ensku.
    Hvað varðar 8. gr. (framsal), 9. (breytingar og endurskoðun samningsins), 10. (tilkynningar) og 11. gr. (ýmis ákvæði) vísast til umfjöllunar um 21., 22., 23. og 24. gr. í fjárfestingarsamningnum sem eru efnislega samhljóða þessum greinum.
    Samningnum fylgja einnig fjórir viðaukar, þ.e. bræðslulóðarkort (A), afsöl (B), framkvæmdaáætlun (C) og leigu- og greiðsluáætlun (D).



Fylgiskjal III.


Lýsing á drögum að hafnarsamningi milli
hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls hf.

1. Inngangur.
    Vegna verkefnisins þarf að gera samning um stækkun og breytingu á aðstöðu við höfnina á Grundartanga. Sá samningur verður á milli hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls hf. (hér eftir nefnt félagið).
    Samningsdrögin eru 19 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á drögum að fjárfestingarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum ákvæðum.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði varðandi samninginn.
    Í 2. gr. er fjallað um höfnina og hafnarmannvirki. Í greininni kemur fram að hafnarsjóður skuli á eigin kostnað sjá um að viðhalda höfninni og hafnarmannvirkjum. Þá er enn fremur kveðið á um skyldur hafnarsjóðs, vegna tjóns eða eyðileggingar sem kann að verða á höfninni eða hafnarmannvirkjum.
    Í 3. gr. er fjallað um búnað, sem félagið kann að þurfa að setja upp vegna starfsemi sinnar, notkun á honum og fjármögnun. Í greininni er kveðið á um að félagið hafi heimild til að setja upp og starfrækja á eigin kostnað búnað, eins og tilgreint er í viðauka C, en félagið hafi einnig fullt eignarhald á hafnarbúnaði sínum og sé heimilt að fjarlægja hann hvenær sem er. Þegar gildistími samningsins er runninn út eða samningnum sagt upp skal félagið fjarlægja hafnarmannvirki sín eða eignarráð slíkra mannvirkja flytjast yfir til hafnarsjóðsins enda samþykki hafnarsjóðurinn það.
    Í greininni er einnig kveðið á um heimild hafnarsjóðs til að nota krana þá, sem félagið setur upp, í þágu annarra notenda hafnarinnar, með samþykki félagsins.
    Í greininni segir að félagið skuli ekki greiða lóðarleigu eða önnur sambærileg gjöld til hafnarsjóðs fyrir afnot af hafnarlandinu undir hafnarbúnað sinn.
    Einnig er kveðið á um að hafnarsjóður skuli lána félaginu upphæð, sem nemur allt að þremur milljónum bandaríkjadala, til að mæta kostnaði við byggingu hafnarbúnaðarins. Í greininni er einnig kveðið á um endurgreiðslur félagsins til hafnarsjóðs af lánunum.
    Loks segir í greininni að til að fjármagna kostnað við byggingu hafnarbúnaðar félagsins muni hafnarsjóðurinn taka tvö lán með ríkisábyrgð til 15 ára. Hið fyrra mun fjármagna þessar greiðslur þar til 1. júlí 2000, en seinna lánið frá 1. júlí 2000 til tólf ára. Félagið skal síðan endurgreiða hafnarsjóðnum kostnaðinn með vöxtum og kostnaði miðað við eftirfarandi skilmála:
    a)    Vextir fyrra lánsins skv. c-lið hér að neðan skulu leggjast við höfuðstól lánsins árlega.
    b)    Afborganir og vextir skv. c-lið skulu greiddar í jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum í tíu ár frá 1. júlí 2000.
    c)    Vextir skuli ákveðnir í samræmi við vexti af lánum sem hafnarsjóður tekur til að fjármagna verkefnið auk 0,35% þóknunar til greiðslu kostnaðar og ríkisábyrgðargjalds.
    d)    Lánin skulu tiltekin í bandaríkjadölum eða öðrum gjaldmiðli sem aðilarnir eru sammála um.
    Nánar er fjallað um endurgreiðslur félagsins í viðauka með samningnum.
    Í 4. gr. er fjallað um afnot félagsins af höfn og hafnarmannvirkjum. Í greininni er kveðið á um fullan aðgang og afnot af höfninni og hafnarmannvirkjum, að teknu tilliti til forgangsréttinda Íslenska járnblendifélagsins hf. Þá er einnig kveðið á um forgangsrétt félagsins næst á eftir Íslenska járnblendifélaginu hf., til afnota og aðgangs umfram aðra notendur, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Þá er og kveðið á um að félagið skuldbindi sig til þess að nota aðeins höfnina til alls venjulegs innflutnings á helstu hráefnum til bræðslunnar og til alls útflutnings á áli sem framleitt er í bræðslunni, enda séu hafnargjöld samkeppnishæf við gjöld sem lögð eru á í öðrum höfnum við Faxaflóa.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um að félagið skuli gæta almennra reglna um öryggi og góða reglu í afnotum sínum af höfninni.
    Í 5. gr. er fjallað um skipulag og rekstur hafnarinnar. Samkvæmt greininni er höfnin og hafnarmannvirki í eigu og umsjón hafnarsjóðsins. Höfnin er rekin sem almenn höfn í samræmi við hafnarlög. Í greininni kemur einnig fram að stjórnun og rekstur hafnarinnar er í höndum hafnarstjórnar, fyrir hönd og á ábyrgð fulltrúaráðs eigenda hafnarsjóðsins. Hafnarstjóri sér um daglegan rekstur hafnarinnar fyrir hönd hafnarstjórnar.
    Í greininni er kveðið á um að rekstur hafnarinnar af hálfu hafnarsjóðs nái hvorki til lestunar og losunar skipa í þágu félagsins, né reksturs eða viðhalds á búnaði sem félagið reisir á eigin ábyrgð.
    Í greininni er að endingu kveðið á um að félagið skuli leggja til starfsfólk sem sjái um afgreiðslu skipa sem til hafnarinnar koma á vegum félagsins.
    Í 6. gr. er kveðið á um samráð. Í greininni segir að samhliða undirritun samningsins sé gert samkomulag milli hafnarsjóðsins, Íslenska járnblendifélagsins hf. og félagsins þar sem tekið sé á eftirfarandi atriðum:
    a)    Aðgangi og afnotum af höfninni og hafnarmannvirkjum með það fyrir augum að draga úr hættu á hugsanlegum árekstrum notenda hafnarinnar.
    b)    Fyrirkomulagi búnaðar sem félögunum er heimilt að reisa og reka á hafnarsvæðinu.
    c)    Hvernig og við hvaða aðstæður skuli standa að framkvæmdum við stækkun hafnarinnar og búnað.
    d)    Stofnun samráðsnefndar sem fjalla skuli um sameiginleg málefni samkomulagsaðilanna er tengjast höfninni.
    Í 7. gr. er fjallað um hafnagjöld. Þar kemur fram að hafnagjöld (skipagjöld og vörugjöld) vegna nota félagsins af höfninni skuli ákveðin í samræmi við hafnagjaldskrána og þessa grein.
    Samkvæmt greininni skulu skipagjöld vegna skipa á vegum félagsins ekki vera hærri eða víðtækari en tíðkast í öðrum höfnum á Íslandi.
    Í greininni segir einnig að vörugjöld skuli vera þau sömu og Íslenska járnblendifélagið hf. greiðir samkvæmt samningi þess við hafnarsjóð.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um stækkun hafnarinnar. Í greininni segir að ef ekki næst samkomulag um þau grundvallaratriði sem sett eru fram í 6. gr. til að mæta þörfum bræðslunnar skuli hafnarsjóður stækka höfnina og hafnarmannvirkin.
    Þá segir enn fremur í greininni að báðir aðilar hafi áhuga á stækkun hafnarinnar og hafnarmannvirkjanna og séu sammála um að tekin skuli skref til að hafa áhrif á stækkun hafnarinnar, þegar flutningur um höfnina nemur meiru en 700.000 tonnum á ári og/eða ef vart verður við truflanir á umferð um hana.
    Í 9. gr. er kveðið á um útvegun á vatni til hafnarinnar. Þar segir að hafnarsjóður muni afhenda vatn handa skipum og til annarrar notkunar. Þá segir einnig að gjöld skuli ákvörðuð með eðlilegri hliðsjón af kostnaði hafnarsjóðs af fyrirkomulaginu.
    Í 10. gr. er fjallað um önnur réttindi félagsins. Í greininni er kveðið á um rétt félagins til að leggja rör, leiðslur, strengi og rafmagslínur um hafnarsvæðið og höfnina að fengnu samþykki eiganda hafnarlandsins og að áskildu samþykki hafnarsjóðs. Þá er einnig kveðið á um að félagið skuli eiga rétt til að taka vatn úr sjó og flytja það til bræðslulóðarinnar yfir hafnarsvæðið og byggja dælustöð fyrir sjó á hafnarsvæðinu.
    Auk áðurgreinds kemur einnig fram í greininni að félagið eigi rétt til að losa skolp og affallsvatn auk vatns frá framleiðslutækjum yfir hafnarsvæðið og í sjó út fyrir utan höfnina, að því tilskildu að fylgt sé til hlítar lögum, reglugerðum og starfsleyfi félagsins.
    Þá er einnig kveðið á um að réttindi sem félaginu eru veitt samkvæmt þessari grein skuli vera án greiðslu til hafnarsjóðs.
    Í 11. gr. er að finna uppsagnarákvæði. Samkvæmt greininni skal félagið greiða hafnarsjóði innan þrjátíu daga frá uppsögn, að fullu og í samræmi við þær skuldbindingar og ábyrgðir sem það hefur gengist undir samkvæmt samningnum, allar þær upphæðir sem félagið hefur fengið hjá hafnarsjóði (samkvæmt 3. gr) auk ógreiddra hafnargjalda.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um frágang félagsins ef til endanlegrar stöðvunar á starfrækslu bræðslunnar kemur. Þá er einnig kveðið á um að félagið skuli fjarlægja innan sanngjarnra tímamarka hafnarmannvirki sín eða eignarráð yfir slíkum mannvirkjum flytjast til hafnarsjóðsins samkvæmt skilyrðum sem báðir aðilar samþykkja.
    Í greininni segir einnig að hafnarsjóður geti sagt upp samningnum með því að gefa félaginu skriflega tilkynningu með 90 daga fyrirvara ef greiðslur, sem félagið á að inna af hendi samkvæmt samningnum, hafa ekki verið inntar af hendi innan 90 daga frá gjalddaga.
    Í greininni er loks gert að skilyrði að hafnarsjóður sendi afrit af tilkynningu um uppsögn til fulltrúa lánveitanda. Lánveitandinn hefur 60 daga til að láta af hendi greiðslur fyrir hönd félagsins, en með greiðslu lánveitanda fellur réttur hafnarsjóðs til uppsagnar úr gildi.
    Í 12. gr. er kveðið á um lög þau sem farið skuli eftir og lausn deilumála. Í greininni segir að um samning þennan og skýringu á honum skuli farið eftir íslenskum lögum.
    Í greininni kemur fram að ágreining í sambandi við samninginn skuli farið með fyrir íslenskum dómstólum, nema annar aðilanna vísi málinu til gerðardóms og tilkynni hinum aðilanum um það skriflega.
    Þrátt fyrir framangreint er mögulegt að vísa öllum deilumálum til gerðardóms. Gerðardómur skal skipaður þremur gerðarmönnum, einum tilnefndum af sóknaraðila, öðrum af varnaraðila og þriðja gerðarmanninum af aðilunum sameiginlega. Ef aðilar tilnefna ekki gerðarmann skal héraðsdómur Reykjavíkur tilnefna gerðarmann. Gerðarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði 6. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Málflutningur fyrir gerðardómi skal fara fram í Reykjavík og á íslensku.
    Í greininni segir enn fremur að aðilarnir samþykki að framfylgja gerðardómi og afsala sér rétti til hvers konar áfrýjunar á grundvelli staðreynda eða laga, að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað. Enn fremur segir að aðilarnir samþykki að gerðardómur sé endanlegur og bindandi frá þeim degi sem þeir eru uppkveðnir.
    Hvað varðar lýsingu á 13. gr. (um óviðráðanleg öfl) vísast til lýsingar á sambærilegum ákvæðum í 18. gr. í fjárfestingarsamningi sem eru efnislega samhljóða þessari grein.
    Í 14. gr. er fjallað um samningstíma sem er í megindráttum samhljóða 6. gr. lóðarsamnings.
    Í 15. gr. er fjallað um viðurkenndan texta. Í greininni segir að samningurinn skuli vera á íslensku og ensku. Þó er tekið fram að ef ósamræmis eða árekstra gæti milli textanna skuli íslenski textinn gilda.
    Hvað varðar 16.–19. gr. (um framsal, breytingar og endurskoðun, tilkynningar og ýmis ákvæði) vísast til lýsingar á sambærilegum ákvæðum í 21., 22., 23. og 24. gr. í fjárfestingarsamningi.
    Hafnarsamningnum skulu fylgja fimm viðaukar, bræðslulóðarkort (A), hafnaráætlun (B), hafnarbúnaðurinn (C), greiðsluáætlun – endurgreiðsluáætlun (D) og stækkun hafnarinnar (E).



Fylgiskjal IV.


Umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar


varðandi fyrirhugaðan rafmagnssamning Landsvirkjunar


og Columbia Ventures Corporation.



(Repró, 4 síður.)




Reykjavík, 21. febrúar 1997.



Halldór Jónatansson,

Jóhann Már Maríusson,


forstjóri.

aðst.forstjóri.





Fskj. 1.

(Repró, 1 síða.)



Fskj. 2.

(Repró, 1 síða.)





Fylgiskjal V.

Markaðsskrifstofa
iðnaðarráðuneytisins
og Landsvirkjunar:


Lýsing á fyrirhugðu álveri á Grundartanga.


    

(Repró, 15 síður.)

Fylgiskjal VI.


Hollustuvernd ríkisins:

Greinargerð með tillögu að starfsleyfi samkvæmt mengunarvarnareglugerð


fyrir 180.000 tonn/ár álver á Grundartanga.


(11. nóvember 1996.)



(Repró, 5 síður.)





Fylgiskjal VII.


Þjóðhagsstofnun:

Þjóðhagsleg áhrif álvers Columbia Ventures Corporation.


(7. mars 1997.)



(Repró, 4 síður.)





Fylgiskjal VIII.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til


samninga um álbræðslu á Grundartanga.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að veitt verði heimild til samninga við Columbia Ventures Corporation um byggingu álvers á Grundartanga.
    Í 3. gr. er lagt til að ríkisstjórninni verði heimilt að tryggja efndir af hálfu hreppsnefnda Skilmanna- og Hvalfjarðarstrandarhreppa samkvæmt samningnum. Hér er átt við að fasteignaskattur og byggingarleyfisgjald sveitarfélaganna tveggja skuli ekki vera annað en það sem getið er í 6. og 8. tölul. 5. gr. frumvarpsins. Ábyrgð ríkissjóðs felst í því að þessi tvö ákvæði frumvarpsins gangi eftir. Hrepparnir taka ekki að sér neinar framkvæmdir í tengslum við byggingu álversins.
     Í sömu grein ábyrgist ríkissjóður efndir hafnarsjóðs Grundartangahafnar eins og kveðið er á um í hafnarsamningi. Hafnarsjóður tekst á hendur að lána félaginu þrjár milljónir dollara til að mæta kostnaði við byggingu hafnarbúnaðar. Á móti tekur hafnarsjóður lán með ríkisábyrgð og eiga endurgreiðslur félagsins að ganga á móti endurgreiðslum hafnarsjóðs.
    Hliðstætt ákvæði er að finna í lóðarsamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Norðuráls hf. þar sem ríkissjóður lánar félaginu 7 milljónir dollara. Útlánsvextir til félagsins eru í báðum tilfellum jafnháir lántökuvöxtum að viðbættri 0,35% þóknun vegna kostnaðar og ríkisábyrgðargjalds. Heimild er fyrir hvorutveggja láninu í lánsfjárlögum 1997.
    Ríkissjóður hefur þegar keypt land undir álverið og nemur kaupverðið 18,8 m.kr.
    Ekki verður séð að aðrir þættir þessa frumvarps né samninga þeirra er því fylgja hafi áhrif á kostnaðarhlið ríkissjóðs. Fjallað er um skattahlið frumvarpsins í greinargerð þess.