Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 452 . mál.


766. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson.



1. gr.

    Í stað orðanna „hvorki tekjuskatt né eignarskatt“ í 4. gr. laganna kemur: ekki tekjuskatt.


2. gr.

    Við 74. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú rís ágreiningur um mat á eignum skv. 1.–7. tölul. 1. mgr. og skal þá eiganda heimilt að krefjast þess að ríkissjóður kaupi viðkomandi eign á 85% matvirðis ríkissjóðs gegn s taðgreiðslu.

3. gr.

    Á eftir orðinu „skattaðila“ í 1. málsl. 1. mgr. 76 gr. laganna kemur: þó ekki skuldbindingar skv. 75. gr.

4. gr.

    Á eftir orðunum „nafnskráð stofnfé“ í 77. gr. laganna kemur: enda teljist þau til eignar hjá hluthafa eða stofnfjáreiganda.

5. gr.

    78. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Í stað orðanna „77. og 78. gr.“ í 1. mgr. 80. gr. laganna kemur: og 77. gr.

7. gr.


    Síðari málsliður 1. mgr. 82. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    83. gr. laganna orðast svo:
    Eignarskattur skal vera 0,35% af eignarskattsstofni. Þó skal eignarskattur manna, dánarbúa, sbr. 5. tölul. 2. gr., og manna sem takmarkaða skattskyldu bera skv. 3. gr. reiknast þannig: Af fyrstu 3.651.749 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af eignarskattsstofni yfir 3.651.749 kr. greiðist 0,35%.
    Eigi skal tvígreiða skatt af neinni eign.

9. gr.

    84. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

11. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er mönnum að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., eftirfarandi verðbréf, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi: Markaðsverðbréf gefin út af ríkissjóði, ríkisvíxla, ríkisbréf, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins, enda hafi verðbréf þessi verið gefin úr fyrir gildistöku laga þessara. Enn fremur þann hluta hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða, sbr. lög nr. 20/1989, sem myndaður er af framangreindum skuldaviðurkenningum. Heimild þessi gildir til ársloka 2002.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að eignarskattar á einstaklinga og fyrirtæki verði lækkaðir umtalsvert og að tekin verði upp heilsteypt skattlagning á allar eignir, t.d. eignir lífeyrissjóða, sjúkrasjóða, sjálfseignarstofnana, opinberra fyrirtækja og eignir líknarfélaga. Horfið verði frá eignarskattsfrelsi spariskírteina og bankainnstæðna. Allar eignir verði skattlagðar með sama hætti. Þó verði hluti af eign fólks skattfrjáls eða 3,7 millj. kr. hjá einstaklingi og 7,3 millj. kr. hjá hjónum. Svarar það til skuldlausrar meðalíbúðar.
    Eignarskattar hér á landi eru með því hæsta sem gerist í OECD–ríkjum. Aðeins Noregur er með hærri eignarskatta. Auk þess eru stærstu eignir í landinu undanþegnar skattskyldu og er þar átt við opinberar eignir ríkis og sveitarfélaga, lífeyrissjóðina og spariskírteini ríkissjóðs. Í flestum ríkjum OECD eru fyrirtæki undanþegin eignarskattlagningu.
    Líta má á eignarskatta sem kröfu um arðsemi eigna. Eignir eru skattlagðar án tillits til þess hvort þær gefa af sér arð eða ekki. Ef eignin gefur ekki af sér arð verður eigandinn að borga með eigninni. Þannig veldur eignarskattur því að eigandinn geri kröfu til eignarinnar að hún gefi af sér arð. Stór hluti eigna hefur ekki verið eignarskattsskyldur og því hefur skort á að gerð sé krafa til arðsemi, t.d. bankainnstæður. Annar hluti hefur verið ofskattaður og því lækkað í verði. Nauðsynlegt er að gerð sé sama og hógvær krafa um arðsemi allra eigna.
    Háir eignarskattar hafa lengi verið rökstuddir með því að tekjur af eignum væru skattfrjálsar. Það hefur átt við um stærsta hluta eignatekna, vexti og arð undir frítekjumörkum. Aðrar eignatekjur, leiga og söluhagnaður, hafa verið skattskyldar. Nú þegar allar tekjur af eignum hafa verið skattaðar er rökrétt að lækka eignarskatta umtalsvert. Það er því lagt til í þessu frumvarpi.
    Núgildandi reglur um skattfrelsi spariskírteina og ríkisvíxla án tillits til skulda gera það að verkum að eigendur mikilla eigna geta komist hjá því að greiða eignarskatt. Þeir þurfa einungis að kaupa spariskírteini með því að taka lán með veði í þeim sömu spariskírteinum. Vaxtamunurinn er minni en eignarskatturinn. Þessu gati verður að loka hið fyrsta. Það er gert með fyrirliggjandi frumvarpi.
    Þá felst í eignarskattsfrelsi spariskírteina og bankainnstæðna óæskileg stýring á fjármagni frá atvinnulífinu til banka og ríkisins. Þannig verður hlutabréfaeign að gefa 1,45% hærri ávöxtun en spariskírteini að öðru jöfnu vegna eignarskattanna. Þessi stýring veldur því að íslensk fyrirtæki byggja frekar á lánsfé en áhættufé (hlutafé). Afleiðingin er hættulega veik eiginfjárstaða íslenskra fyrirtækja sem gerir þeim erfitt fyrir í alþjóðlegri samkeppni og veldur því að þau þola mjög illa mótbyr og verða fljótt gjaldþrota.
    Háir eignarskattar undangenginna ára hafa valdið verðfalli á eignum til mikils tjóns fyrir eigendur þeirra en einnig hefur verðfallið valdið veðhöfum og sveitarfélögum tjóni. Færa má rök fyrir því að lækkun eignarskatts geti stöðvað verðlækkunina.
    Að meðaltali á hver vinnandi Íslendingur 2 millj. kr. hlut í lífeyrissjóði. Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að þessi eign skuli vera eignarskattsfrjáls en ekki aðrar eignir. Því er hér lagt til að eignir lífeyrissjóða verði skattskyldar. Sama á við um eignir sjúkrasjóða og annarra sjálfseignarfélaga. Hér er lagt til að þessar eignir verði skattaðar og gerð til þeirra arðsemiskrafa eins og til annarra eigna.
    Eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og annarra lífeyrissjóða ríkisins munu í reynd ekki verða skattlagðar þar sem réttindin eru fastákveðin en iðgjald ríkisins breytilegt. Þannig mun ríkið bera byrðar af eignarskattlagningunni en ekki opinberir starfsmenn. Sjóðfélagar annarra lífeyrissjóða munu hins vegar bera þessa eignarskattlagningu að fullu. Hér er enn aukið á mun á milli þessara hópa og hækkar því launaígildi lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna enn frekar. Ekki er hægt að komast hjá þessu en þetta ætti að koma til skoðunar við ákvörðun á launakostnaði ríkisins.
    Líknarfélög eru orðin mjög umsvifamikil í eign á íbúðarhúsnæði. Eru þau stærstu íbúðaeigendur á landinu. Þau eru í samkeppni við einkaaðila um útleigu á húsnæði. Fjöldi fólks með bágar aðstæður greiðir eignarskatta. Á það sérstaklega við um eldra fólk sem býr í eigin húsnæði en hefur lágar tekjur. Ekki verður séð af hverju það á að greiða eignarskatta á meðan aðrir geta búið í húsnæði sem fellur ekki undir eignarskattlagningu. Enda má spyrja sig hvort líknarfélög eigi að safna eignum sem enginn á.
    Engin rök, hvorki réttlætis- né jafnréttisrök, eru fyrir því að eignir erlendra sendiráðsmanna eða forseta Íslands séu undanþegnar skattskyldu.
    Mjög fá lönd leggja eignarskatta á eignir fyrirtækja. Sennilega er hugsunin sú að mikilvægt sé að byggja upp eigið fé í fyrirtækjum til þess að þau verði betur fær um að taka á erfiðleikum. Þetta hefur líka óneitanlega áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja á milli landa og það skerðir möguleika íslenskra fyrirtækja í samkeppni við erlend hvað eignarskattar eru háir hér á landi. Ekki er þó lagt til í frumvarpi þessu að eignarskattar fyrirtækja verði felldir niður heldur er gert ráð fyrir að þeir verði lækkaðir umtalsvert og að fyrirtæki greiði sama eignarskatt og allir aðrir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 4. gr. laganna eru taldir upp þeir aðilar sem núna greiða hvorki eignarskatt né tekjuskatt. Þeir eru forseti Íslands og maki hans, ríkissjóður, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, svo og Fiskifélag Íslands, sýslu- og sveitarfélög og fyrirtæki og stofnanir þeirra, erlend ríki og alþjóðastofnanir vegna fasteigna sinna hér á landi, lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla, félög, sjóðir og stofnanir og sjálfseignarstofnanir sem ekki reka atvinnu og aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu með sérstökum lögum.
    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að stofn til eignarskatts verði altækur og nái til allra. Eignarskatturinn verði almennur og þannig náist sú lækkun á skatthlutfallinu sem að er stefnt. Ekki verður heldur sýnt með réttlætis- eða jafnréttisrökum að framangreindir aðilar séu verr til þess fallnir að greiða lágan skatt af eignum sínum en einstaklingar sem búa við mjög misjöfn kjör og hafa jafnvel mjög lágar tekjur til þess að greiða skattinn.

Um 2. gr.


    Hið opinbera framkvæmir mat á eignum fólks og leggur síðan á það skatta og skyldur. Þó að ákvæði hafi verið um það að taka skuli mið af markaðsvirði eigna og annarra þátta til þess að vernda einstaklinginn fyrir ofríki ríkisvaldsins eru engin afdráttarlaus úrræði sem skattborgarinn getur gripið til sér til varnar. Hér er lagt til úrræði sem er sanngjarnt og ætti að koma í veg fyrir of hátt mat á eignum.
    Lagt er til að kaupverðið sé 85% af matsvirði vegna þess að eignin er staðgreidd og eigandinn getur tekið ákvörðun um kaupskyldu ríkisins einhliða. Eins má reikna með nokkrum kostnaði ríkisins af því að selja eignina aftur.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um það að kröfur, sem t.d. sjóðfélagi á til lífeyris hjá lífeyrissjóði, teljist ekki til eignar hjá honum og í samræmi við það ekki til skuldar hjá lífeyrissjóðnum. Þannig verði tryggt að þessar eignir verði skattaðar einu sinni. Það yrði mjög flókið mál að reikna út allar slíkar kröfur og því er þessi leið farin til einföldunar. Skattskyldan flyst frá sjóðfélaganum til lífeyrissjóðsins en jafnframt leiðir þessi aðferð til þess að greiddur er eignarskattur af eign manna sem eru undir fríeignamörkum, sbr. 7. gr.

Um 4. gr.


    Hér er skilgreint nánar hvaða hlutafé, stofnsjóði og nafnskráð stofnfé lögaðilum er heimilt að draga frá eignum sínum en það eru eignir sem taldar eru til eignar hjá eigendum sínum, hluthöfum eða stofnfjáreigendum lögaðilanna. Þetta er í samræmi við það að eignarskattinum er ætlað að vera altækur en jafnframt er komið í veg fyrir tvísköttun þessara eigna.

Um 5. gr.

    Hér lagt til að bankainnstæður og hlutabréfaeign umfram skuldir, sem nú eru skattfrjálsar, verði eignarskattsskyldar. Enn fremur að spariskírteini, ríkisvíxlar og húsbréf, sem eru skattfrjáls óháð skuldum, verði eignarskattsskyld. Eins og áður hefur verið nefnt er markmið frumvarps þessa að eignarskattlagningin verði almenn og að greiddur verði eignarskattur af öllum eignum jafnt, þ.e. sama arðsemiskrafa sé gerð til allra eigna, líka til bankainnstæðna og ríkisverðbréfa. Enn fremur er verið að loka löglegri leið til þess að komast hjá því að greiða eignarskatt sem er til staðar í dag með því að kaupa húsbréf eða spariskírteini og taka til þess lán.
    Ríkisverðbréf, sem þegar hafa verið gefin út, eiga þó að halda eignarskattsfrelsi til ársloka 2002, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Vegna þess að spariskírteini og húsbréf hafa verið seld með tilvísun til eignarskattsfrelsis er gert ráð fyrir að þau bréf sem útgefin hafa verið haldi eignarskattsfrelsi sínu næstu fimm árin.

Um 6. gr.


    Felld er niður tilvísun í 78. gr. sem felld hefur verið brott, sbr. 5. gr.

Um 7. gr.


    Felld er niður tilvísun í 78. gr. sem felld hefur verið brott, sbr. 5. gr.

Um 8. gr.

    Eignarskattur verði 0,35% af eignarskattsstofni. Þó skulu einstaklingar og dánarbú hér eftir sem hingað til njóta skattfrelsis vegna eigna sem eru undir ákveðnum mörkum, fríeignarmörkum.
    Miðað við upplýsingar, sem fjármálaráðuneytið hefur veitt, má gera ráð fyrir að heildareign Íslendinga hafi árið 1995 numið (í milljörðum króna):
    Fjármunaeign (fixed assets)
     1.429

    Erlendar eignir
         55

    Eignir lífeyrissjóða
       262

    Peningalegar eignir einstaklinga
   um 200

    Peningalegar eignir annarra aðila
    um 50

    Samtals
um 2.000

    Til frádráttar komi skuldir en samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands námu eignir (útlán) lánakerfisins að meðtöldum erlendum skuldum 827 milljörðum kr. í árslok 1995. Nettóeign einstaklinga undir fríeignarmörkum, þ.e. 3,7 millj. kr. á einstakling, nam samtals 300 milljörðum kr. í árslok 1995. Miðað við þessar tölur er nýr eignarskattsstofn (= nettóeign þjóðarinnar) um 900 milljarðar kr.
    Ef gert er ráð fyrir að 2 / 3 af áætluðum tekjum ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti verði varið til þess að lækka eignarskatta lítur dæmið þannig út:
    Samkvæmt ríkisreikningi nam eignarskattur og sérstakur eignarskattur á einstaklinga og fyrirtæki alls 3.562 millj. kr. 1995. 2 / 3 af áætluðum tekjum ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti árið 1998 (en þá kemur hann fyrst til greiðslu sem og þessi nýi eignarskattur) verða um 500 millj. kr. Þannig verður hinn nýi eignarskattur að gefa um 3,1 milljarð kr. sem er 0,344% af áætluðum stofni.
    Gera má ráð fyrir að lægri eignarskattur laði fram betri skil á eignum. Hins vegar mun áframhaldandi skattfrelsi húsbréfa og spariskírteina lækka skatttekjurnar eitthvað til að byrja með.
    Síðari málsgreinin, um að ekki skuli tvígreiða skatt af neinni eign, er til að koma í veg fyrir tvísköttun og undirstrika jafnframt að skattur er altækur.

Um 9. gr.


    Ekki er talin ástæða til þess að hafa sérstök ákvæði um eignarskatt einstaklinga og lögaðila. Er hvort tveggja skilgreint í 83. gr. Því er lagt til að 84. gr. laganna falli brott.

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin taki þegar gildi. Eignarskattar samkvæmt þeim verða því lagðir á og greiddir seinni hluta árs 1998 á sama tíma og fyrsta álagning fjármagnstekjuskattsins. Fyrsta almenna staðgreiðslan mun eiga sér stað í ársbyrjun 1998 og skattur á söluhagnað er fyrst lagður á seinni hluta ársins 1997. Því er samræmi á milli upptöku eignartekjuskatta og lækkunar eignarskatta, sjá umfjöllun um 7. gr. Þá er lagt til að við gildistöku laganna falli úr gildi lögin um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum, í stað þess að þau falli úr gildi 31. desember 1999.

Um ákvæði til bráðbirgða.


    Hér er gert ráð fyrir að ríkisverðbréf, sem þegar hafa verið gefin út, verði eignarskattsfrjáls næstu fimm ár. Sjá umfjöllun um 5. gr.