Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 493 . mál.


830. Frumvarp til laga



um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að viðgangi og hagkvæmri nýtingu nytjastofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

2. gr.

    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.
    Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

    Erlendum skipum eru bannaðar allar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með ákvæði þessu eru ekki skert þau réttindi sem veitt hafa verið eða kunna að verða veitt öðrum ríkjum samkvæmt milliríkjasamningum.

4. gr.

    Aðeins þeim íslensku skipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er heimilt að stunda veiðar í fiskveiðilandhelginni.

5. gr.

    Íslenskum skipum eru bannaðar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi Íslands nema á þeim veiðisvæðum og veiðitímum sem tilgreind eru í þessari grein, enda undanþiggi ráðherra ekki tiltekin svæði slíkum veiðum. Þegar rætt er um viðmiðunarlínu er átt við línu sem dregin er umhverfis landið á milli eftirtalinna staða:
    Horn (grp. 1)  66°27'4 N – 22°24'3 V
    Selsker (viti)  66°07'5 N – 21°30'0 V
    Ásbúðarrif (grp. 2)  66°08'1 N – 20°11'0 V
    Siglunes (grp. 3)  66°11'9 N – 18°49'8 V
    Flatey (Skjálfanda) (grp. 4)  66°10'3 N – 17°50'3 V
    Mánáreyjar (Lágey) (grp. 5)  66°17'8 N – 17°06'8 V
    Rauðinúpur (grp. 6)  66°30'7 N – 16°32'4 V
    Rifstangi (grp. 7)  66°32'3 N – 16°11'8 V
    Hraunhafnartangi (grp. 8)  66°32'2 N – 16°01'5 V
    Langanes (grp. 9)  66°22'7 N – 14°31'9 V
    Skálatáarsker  65°59'7 N – 14°36'4 V
    Almenningsfles  65°33'1 N – 13°40'5 V
    Glettinganes (grp. 10)  65°30'5 N – 13°36'3 V
    Norðfjarðarhorn (grp. 11) 65°10'0 N – 13°30'8 V
    Gerpir (grp. 12)  65°04'7 N – 13°29'6 V
    Hólmur (Seley) (grp. 13)  64°58'9 N – 13°30'6 V
    Skrúður (Þursi) (grp. 15)  64°54'1 N – 13°36'8 V
    Papey (viti)  64°35'5 N – 14°10'5 V
    Hvítingar (grp. 18)  64°23'9 N – 14°28'0 V
    Stokksnes (grp. 19)  64°14'1 N – 14°58'4 V
    Hrollaugseyjar (grp. 20)  64°01'7 N – 15°58'7 V
    Ingólfshöfði (grp. 22)  63°47'8 N – 16°38'5 V
    Hvalsíki (grp. 23)  63°44'1 N – 17°33'5 V
    Meðallandssandur I (grp. 24)  63°32'4 N – 17°55'6 V
    Meðallandssandur II (grp. 25)  63°30'6 N – 17°59'9 V
    Mýrnatangi (grp. 26)  63°27'4 N – 18°11'8 V
    Kötlutangi (grp. 27)  63°23'4 N – 18°42'8 V
    Lundadrangur (grp. 28)  63°23'5 N – 19°07'5 V
    Bakkafjara (skúr við sæstreng)  63°32'3 N – 20°10'9 V
    Knarrarós (viti)  63°49'4 N – 20°58'6 V
    Hafnarnes  63°50'6 N – 21°23'5 V
    Selvogur (viti)  63°49'3 N – 21°39'1 V
    Krýsuvíkurberg (viti)  63°49'8 N – 22°04'2 V
    Reykjanes (aukaviti)  63°48'0 N – 22°41'9 V
    Önglabrjótsnef  63°49'0 N – 22°44'3 V
    Stafnes (viti)  63°58'3 N – 22°45'5 V
    1. sjm. r/v V af Garðskagavita  64°04'9 N – 22°43'6 V
    Malarrif (viti)  64°43'7 N – 23°48'2 V
    Dritvíkurtangi  64°45'0 N – 23°55'3 V
    Skálasnagi  64°51'3 N – 24°02'5 V
    Öndverðarnes viti)  64°53'1 N – 24°02'7 V
    Skor (viti)  65°24'9 N – 23°57'2 V
    Bjargtangar (grp. 33)  65°30'2 N – 24°32'1 V
    Kópanes (grp. 34)  65°48'4 N – 24°06'0 V
    Barði (grp. 35)  66°03'7 N – 23°47'4 V
    Straumnes (grp. 36)  66°25'7 N – 23°08'4 V
    Kögur (grp. 37)  66°28'3 N – 22°55'5 V
    Horn (grp. 38) 66°27'9 N – 22°28'2 V
    Heimildir fiskiskipa til veiða með botnvörpu, flotvörpu og dragnót innan fiskveiðilandhelgi Íslands miðast við stærðir skipa og aflvísa þeirra. Er skipum skipt niður í þrjá flokka miðað við stærðir þeirra og aflvísa þannig:
1. flokkur:    Fiskiskip 42 metrar og lengri. Enn fremur öll fiskiskip með aflvísa 2.500 eða hærri.
2. flokkur:    Fiskiskip lengri en 29 metrar en stytti en 42 metrar með aflvísa lægri en 2.500. Enn fremur fiskiskip styttri en 29 metrar en með aflvísa 1.600 og hærri.
3. flokkur:    Fiskiskip styttri en 29 metrar, enda séu þau með lægri aflvísa en 1.600.
    Þar sem í lögum þessum er rætt um aflvísi skips er miðað við reiknaðan aflvísi þess. Sé skip búið skrúfuhring er aflvísir þess reiknaður þannig: HÖ x ÞS. Sé skip ekki búið skrúfuhring er aflvísir þess reiknaður þannig: 0,60 x HÖ x ÞS. HÖ merkir hér skráð vélarafl skipsins í hestöflum, ÞS merkir þvermál skrúfu í metrum.
    Fiskistofa skal halda skrá yfir aflvísa íslenskra fiskiskipa og skal sú skráning lögð til grundvallar við ákvörðun veiðiheimilda samkvæmt þessari grein.
    Þar sem í lögum þessum er rætt um lengd skipa er miðað við mestu lengd þeirra samkvæmt mælingum Siglingastofnunar Íslands.
    Botnvarpa og flotvarpa samkvæmt þessari grein merkir fiskivörpur sem notaðar eru til veiða á helstu botnfisktegundum hér við land og tekur ekki til varpna sem notaðar eru til veiða á humri, rækju eða uppsjávarfiskum. Setja skal nánari ákvæði í reglugerð um gerð og útbúnað fiskivarpna og dragnótar.
    Stundi tvö eða fleiri skip veiðar með sömu botnvörpu, flotvörpu eða dragnót skulu heimildir þeirra samkvæmt þessari grein miðast við samanlagða lengd þeirra og samanlagða aflvísa þeirra.
    Hér á eftir eru tilgreind þau svæði og tímar þar sem einstökum flokkum fiskiskipa, sbr. 2. mgr. þessarar greinar, er heimilt að stunda veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót:

A.         Norðurland.
             Allir flokkar:
A.1.    Allt árið frá línu réttvísandi norður frá Horni (vms. 1) að línu réttvísandi norðaustur frá Langanesi (vms. 10), utan línu sem dregin er 12 sjómílur utan við viðmiðunarlínu.
A.2.    Allt árið utan línu sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki Grímseyjar.
A.3.    Allt árið utan línu sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki Kolbeinseyjar (67°08'80 N – 18°40'60 V).

B.            Austurland.
             Allir flokkar:
B.1.    Allt árið frá línu réttvísandi norðaustur frá Langanesi (vms. 10) að línu réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19), utan línu sem dregin er 12 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
B.2.    Allt árið utan línu sem dregin er í 5 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki Hvalbaks (64°35'80 N – 13°16'60 V).
              Flokkar 2 og 3:
B.3.    Allt árið utan línu sem dregin er 6 sjómílur utan viðmiðunarlínu milli lína réttvísandi norðaustur frá Langanesi (vms. 10) og réttvísandi austur frá Glettinganesi (vms. 13).

C.         Suðausturland.
            
Allir flokkar:
C.1.    Allt árið frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19) að línu réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28), utan línu sem dregin er 12 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
C.2.    Tímabilið 1. maí – 31. desember frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19) að línu réttvísandi suður frá Hvalnesi (64°24'10 N – 14°32'50 V), utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
C.3.    Tímabilið 1. maí – 31. janúar á svæði milli lína réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19) og réttvísandi suður frá Ingólfshöfða (vms. 22), utan línu sem dregin er 9 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
C.4.    Tímabilið 15. september – 31. janúar á svæði milli lína réttvísandi suður frá Ingólfshöfða (vms. 22) og réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28), utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
              Flokkar 2 og 3:
C.5.    Allt árið utan línu sem dregin er í 4 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá línu austur frá Hvítingum (vms. 19) að 18°00'00 V.
                       Á svæði milli línu sem dregin er réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19) og að 15°45'00 V er þó ekki heimilt að stunda veiðar innan 6 sjómílna frá landi tímabilið 1. maí til – 30 september.
C.6.    Allt árið utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu frá 18°00'00 V að línu réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28).
             Flokkur 3:
C.7.    Allt árið utan línu sem dregin er í 3 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum (vms. 19) að 18°00'00 V.
C.8.    Allt árið utan línu sem dregin er í 3 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá 18°00'00 V að línu réttvísandi suður af Lundadrangi (vms. 28).

D.        Suðurland.
            
Allir flokkar:
D.1.    Allt árið utan línu sem dregin er úr punkti í 12 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28) í punkt 63°08'00 N – 19°57'00 V og þaðan í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Surtsey (63°17'60 N – 20°36'30 V).
D.2.    Allt árið utan línu sem dregin er úr punkti í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Surtsey í punkt í 5 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Geirfugladrangi.
D.3.    Tímabilið 1. ágúst – 31. desember utan línu sem dregin er úr punkti í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28) í punkt í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Surtsey.
                  Flokkar 2 og 3:
D.4.    Allt árið utan línu sem dregin er úr punkti í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28) í punkt í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Surtsey.
D.5.    Tímabilið 16. maí – 31. desember utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu frá línu réttvísandi suður úr Lundadrangi (vms. 28) að línu réttvísandi suður frá Reykjanesaukavita (vms. 34).
              Flokkur 3:
D.6.    Allt árið utan línu, sem dregin er í 3 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá línu réttvísandi suður frá Lundadrangi (vms. 28), að línu réttvísandi suðvestur frá Reykjanesaukavita.
                       Á svæði, þar sem vatnsleiðsla og rafstrengur liggur milli Vestmannaeyja og meginlandsins, eru fiskveiðar með öllum veiðarfærum bannaðar allt árið. Svæði þetta takmarkast að austan af línu sem dregin er þannig að Bjarnarey að vestan beri í Elliðaey að austan og að vestan takmarkast það af línu sem dregin er þannig að austurkant Ystakletts og Faxaskersvita beri saman.

E.            Reykjanes- og Faxaflóasvæði.
            
Allir flokkar:
E.1.    Allt árið utan línu sem dregin er 5 sjómílur utan við Geirfugladrang í punkt í 5 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Geirfugladrangi í punkt 64°43'70 N – 24°12'00 V.
E.2.    Tímabilið 1. nóvember – 31. desember utan línu sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu á svæði sem að sunnan markast af línu dreginni réttvísandi suður frá Reykjanesaukavita (vms. 34) og að vestan af línu sem dregin er réttvísandi vestur frá Reykjanesaukavita.
                  Flokkar 2 og 3:
E.3.    Allt árið utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu frá línu réttvísandi suðvestur frá Reykjanesaukavita (vms. 34) að línu réttvísandi vestur frá Malarrifi (vms. 38).

F.            Breiðafjörður.
             
Allir flokkar:
F.1.    Allt árið utan línu sem dregin er frá punkti 64°43'70 N – 24°12'00 V í punkt 64°43'70 N – 24°26'00 V og þaðan í punkt í 12 sjómílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Bjargtöngum (vms. 43).
             Flokkar 2 og 3:
F.2.    Tímabilið 1. júní – 31. desember utan línu sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu frá línu réttvísandi vestur frá Malarrifi (vms. 38) að línu réttvísandi vestur frá Skálasnaga (vms. 40) og þaðan í punkt í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Bjargtöngum (vms. 43).
             Flokkur 3:
F.3.    Tímabilið 1. janúar – 31. maí utan línu, sem dregin er 4 sjómílur utan viðmiðunarlínu, frá línu réttvísandi frá Malarrifi (vms. 38) að línu réttvísandi vestur frá Skálasnaga (vms. 40) og þaðan í punkt í 4 sjómílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Bjargtöngum (vms. 43).

G.         Vestfirðir.
             
Allir flokkar:
G.1.    Allt árið frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum (vms. 43) að línu réttvísandi norður frá Horni (vms. 48), utan línu sem dregin er 12 sjómílur utan viðmiðunarlínu.
             Flokkar 2 og 3:
G.2.    Tímabilið 1. nóvember – 31. janúar utan línu, sem dregin er 4 sjómílur utan við viðmiðunarlínu, frá línu sem dregin er réttvísandi 317° frá Hólavita í Ísafjarðardjúpi að línu sem dregin er réttvísandi í norður frá Kögri (vms. 47).

6. gr.


    Þrátt fyrir 5. gr. er heimilt að leyfa veiðar með dragnót nær landi en um ræðir í 5. gr. samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Aðeins er heimilt að veita leyfi skipum styttri en 42 metrar, enda séu þau með aflvísi lægri en 2.500, en ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein. Getur ráðherra sett almennar og svæðisbundnar reglur í því skyni að stuðla að hagkvæmri nýtingu fiskstofna, að teknu tilliti til veiða með öðrum veiðarfærum sem stundaðar eru á viðkomandi svæðum. Getur ráðherra m.a. ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip sem áður hafa stundað dragnótaveiðar. Þá getur ráðherra, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveðið að dragnótaveiðar á ákveðnu svæði miðist við nýtingu ákveðinnar fisktegundar.
    Sé talin þörf á að takmarka notkun tiltekins veiðarfæris til að tryggja skynsamlega nýtingu þess stofns sem veiðarnar beinast að eða vegna þeirrar skaðsemi sem notkun þeirra kann að hafa í för með sér fyrir nýtingu annarra stofna getur ráðherra með reglugerð ákveðið að veiðar með því veiðarfæri séu háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Um skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa skal kveðið á í reglugerð og gilda ákvæði 1. mgr. um þau eftir því sem við á.

7. gr.


    Grásleppuveiðar skulu háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og eiga þeir bátar einir kost á slíku leyfi sem rétt áttu til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997 samkvæmt reglum þar um. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma samkvæmt þessari málsgrein. Getur ráðherra m.a. ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði skip sem skráð eru á því svæði. Þá getur ráðherra sett reglur um heimildir til flutnings leyfa til grásleppuveiða milli báta.
    Sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, óeðlilegan meðafla af öðrum tegundum en veiði beinist að eða önnur óæskileg áhrif veiða getur ráðherra ákveðið að veiðar úr tilteknum nytjastofni eða á tilteknu svæði séu háðar leyfi Fiskistofu. Sama á við ef þörf er á að skipuleggja veiðar úr stofnum sem ekki er stjórnað með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa, sbr. 7. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum, t.d. vegna óvissu um veiðiþol viðkomandi stofns. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein. Getur ráðherra sett almennar og svæðisbundnar reglur og m.a. ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip sem áður hafa stundað tilteknar veiðar.

8. gr.


    Ráðherra er heimilt með reglugerð að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra með því að banna notkun ákveðinna veiðarfæra á ákveðnum svæðum í tiltekinn tíma. Áður en ákvarðanir um slíka skiptingu veiðisvæða eru teknar skal leita álits samtaka þeirra útgerðar- og sjómanna sem ætla má að slík skipting veiðisvæða varði mestu hverju sinni.
    Þá er ráðherra heimilt að banna notkun allra eða tiltekinna gerða veiðarfæra á svæðum þar sem veiðarfæri geta valdið skemmdum á neðansjávarstrengjum og vatnslögnum.

9. gr.


    Ráðherra skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Getur ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum eru bannaðar. Ráðherra ákveður hvort reglugerðir um friðunarsvæði gildi um ákveðinn tíma eða séu ótímabundnar. Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari grein skal að jafnaði leita umsagnar Hafannsóknastofnunarinnar.
    Heimilt er að banna tímabundið allar veiðar eða notkun tiltekinna veiðarfæra á ákveðnu svæði sé þess talin þörf vegna tilrauna eða vísindalegra rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar.

10. gr.


    Veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu er heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og er skipstjórum þeirra skylt að veita þeim alla aðstoð og aðstöðu um borð í skipum sínum til þess að þeir geti sinnt eftirliti með veiðum. Í erindisbréfum til eftirlitsmanna, sem útgefin eru af ráðuneytinu, skal nánar kveðið á um starfsskyldur veiðieftirlitsmanna um borð í veiðiskipum.
    Verði veiðieftirlitsmenn Fiskistofu, leiðangursstjórar skipa, sem eru á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, eða starfsmenn Landhelgisgæslunnar varir við að stundaðar séu skaðlegar veiðar skv. 3. mgr. skulu þeir þegar tilkynna það til Hafrannsóknastofnunarinnar eða þeirra aðila sem stofnunin tilnefnir í því skyni.
    Skaðlegar veiðar skv. 2. mgr. teljast veiðar þegar smáfiskur í afla fer yfir þau viðmiðunarmörk sem ráðherra hefur ákveðið að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sama gildir um veiðar á smáhumri, smárækju eða öðrum tegundum nytjastofna, enda hafi verið sett viðmiðunarmörk varðandi nýtingu hlutaðeigandi stofns. Þá teljast það enn fremur skaðlegar veiðar í þessu sambandi ef telja verður að veiðarnar séu ekki í samræmi við aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið um hagkvæma nýtingu viðkomandi nytjastofna.
    Að fengnum upplýsingum skv. 2. mgr. getur Hafrannsóknastofnunin bannað tilteknar veiðar á ákveðnum svæðum í allt að 14 sólarhringa með tilkynningu til strandstöðva og í útvarpi. Jafnframt skal veiðieftirliti Fiskistofu og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt um skyndilokanir. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd slíkra skyndilokana.
    Sjávarútvegsráðuneytið skal, í samráði við Hafrannsóknastofnunina, áður en skyndilokun fellur úr gildi, ákveða til hvaða ráðstafana skuli grípa ef ástæða er talin til frekari friðunar á viðkomandi svæði. Hafrannsóknastofnuninni er þó heimilt að grípa til skyndilokunar svæðis aftur í allt að sjö daga sé þess talin þörf þar sem ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um ástand svæðisins eða ef talið er að skyndilokun svæðisins aftur tryggi að ekki verði um að ræða frekari skaðlegar veiðar á því svæði. Ákvörðun um til hvaða ráðstafana verði gripið í framhaldi af lokun skv. 4. mgr. skal tilkynnt a.m.k. einum sólarhring áður en fyrri skyndilokun fellur úr gildi.
    Heimilt er ráðuneytinu að leyfa einstökum fiskiskipum að stunda tilraunaveiðar á svæðum sem lokað hefur verið tímabundið skv. 4. mgr. Slíkt skal þó jafnan gert undir eftirliti Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar eða Landhelgisgæslunnar og skal skipstjórnarmönnum skylt að fara að fyrirmælum eftirlitsaðila varðandi tilraunaveiðarnar.

11. gr.


    Heimilt er að grípa til skyndilokana veiðisvæða skv. 10. gr. vegna upplýsinga sem komnar eru frá skipstjórum um að skaðlegar veiðar fari fram á ákveðnu svæði. Skilyrði þess eru eftirfarandi:
    Að upplýsingar berist frá a.m.k. þremur skipstjórum, sem telji að skaðlegar veiðar séu stundaðar á tilteknu svæði.
    Upplýsingarnar séu studdar nýjum mælingum á aflasamsetningu hjá viðkomandi skipum sbr. 1. tölul., enda séu mælingarnar framkvæmdar á fullnægjandi hátt, að mati Hafrannsóknastofnunarinnar og fyrir liggi ákveðnar tillögur frá skipstjórunum um mörk þess svæðis sem lagt er til að lokað verði.
    Ekki verði viðkomið að staðreyna upplýsingarnar án tafar með mælingum frá eftirlitsaðilum skv. 10. gr.
    Skyndilokanir samkvæmt þessari grein gilda í allt að viku. Að öðru leyti gilda ákvæði 10. gr. um skyndilokanir þessar eftir því sem við á.

12. gr.


    Sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í veiðiskipi getur hann óskað eftir því að skipstjóri láti kasta eða leggi veiðarfæri á tilteknu svæði í tilraunaskyni, enda hafi hann rökstudda ástæðu til að ætla að önnur skip stundi skaðlegar veiðar á því svæði. Skipstjóri skal verða við tilmælum veiðieftirlitsmannsins, enda verði tilraunin gerð með þeim hætti að hún tefji veiðar skipsins sem minnst og valdi útgerðinni sem minnstu óhagræði. Skal framkvæmd tilraunarinnar ákveðin í samráði við skipstjóra skipsins.

13. gr.


    Ráðherra getur, að fengnu áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, veitt tímabundnar heimildir til veiðitilrauna og annarra vísindalegra rannsókna í fiskveiðilandhelgi Íslands og þurfa þær heimildir ekki að vera bundnar við íslenska aðila. Slíkar tilraunir eða rannsóknir skulu að jafnaði fara fram undir eftirliti Hafrannsóknastofnunarinnar eða Fiskistofu. Verði því ekki viðkomið að hafa sérstakan eftirlitsmann um borð í skipi því er heimild fær samkvæmt þessari grein skal heimildin veitt með því skilyrði að Hafrannsóknastofnunin fái nákvæmar upplýsingar um niðurstöður þessara tilrauna eða rannsókna. Heimilt er að ákveða að leyfishafi skuli greiða allan kostnað sem leiðir af veru eftirlitsmanns um borð í skipi samkvæmt þessari grein.

14. gr.


    Ráðherra getur sett reglur um hvaðeina er varðar framkvæmd laga þessara. Getur hann m.a. sett allar reglur um útbúnað, gerð og frágang veiðarfæra og takmarkað notkun þeirra. Þá getur ráðherra sett reglur um lágmarksstærðir sjávardýra sem heimilt er að veiða og leyfilegan veiðitíma.

15. gr.


    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða viðurlögum skv. 16.–17. gr. laga þessara, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau þar að auki varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.
    Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota á lögum þessum eftir því sem við á.

16. gr.


    Við brotum gegn 3.–5. gr. laga þessara skal sekt ekki nema lægri fjárhæð en 600.000 kr. og ekki hærri fjárhæð en 6.000.000 kr., eftir eðli og umfangi brots. Sama gildir sé skip staðið að veiðum á svæðum þar sem veiðar hafa verið bannaðar með stoð í 1. mgr. 8. gr. og 9.–11. gr. laga þessara.
    Brot samkvæmt framansögðu skulu, auk refsingar, varða upptöku á þeim veiðarfærum skipsins sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með töldum dragstrengjum, svo og afla þess, enda sé sennilegt að aflinn hafi fengist með ólögmætum hætti. Upptöku má framkvæma án tillits til þess hvort jafnframt er krafist refsingar.
    Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 2. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

17. gr.


    Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt lögum þessum eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og ekki hærri fjárhæð en 4.000.000 kr., eftir eðli og umfangi brots.

18. gr.


    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. má ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn, starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga er í þágu hans starfa enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

19. gr.


    Heimilt er að leggja löghald á skip sem fært er til hafnar vegna brota á lögum þessum. Sé slíkt gert er dómara heimilt að láta það laust ef sett er bankatrygging eða önnur jafngild trygging, að hans mati, fyrir greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skv. 3. mgr. 16. gr.
    Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skal vera lögveð í skipinu.
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    Sektarfé samkvæmt lögum þessum, svo og andvirði upptæks afla og veiðarfæra skal renna í Landhelgissjóð Íslands.

20. gr.


    Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra, sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

21. gr.


    Frá gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum. Jafnframt eru felld úr gildi ákvæði 2. mgr. 4. gr., 20. gr. og 21. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Reglugerðir, sem settar hafa verið með stoð í framangreindum lögum, halda gildi sínu.

22. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Ákvæði til bráðbirgða.


    Skip, sem samkvæmt lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, hafa notið veiðiheimilda sem skip 26 metrar og styttri og 39 metrar og styttri skulu til 1. janúar 2003 njóta sömu veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum og skip 29 metrar og styttri með lægri aflvísa en 1.600 og skip 42 metrar og styttri með lægri aflvísa en 2.500. Þetta tekur þó ekki til þeirra tilvika þegar tvö eða fleiri skip stunda veiðar með sömu botnvörpu, flotvörpu eða dragnót, sbr. 6. mgr. 5. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þann 26. maí 1994 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að endurskoða ákvæði laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að þau atriði, sem starf nefndarinnar muni einkum beinast að, séu heimildir til togveiða innan fiskveiðilögsögunnar og önnur skipting veiðisvæða milli veiðarfæra, framkvæmd skyndilokana og annarra svæðisbundinna friðunaraðgerða og viðurlög við fiskveiðilagabrotum. Í nefndina voru skipaðir Bjarni Sveinbjörnsson frá Vélstjórafélagi Íslands, Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands og Magnús Kristinsson, Sævar Friðþjófsson og Þorsteinn Vilhelmsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Formaður nefndarinnar var skipaður Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneytinu. Í nóvember 1994 tók Hólmgeir Jónsson sæti Óskars Vigfússonar.
    Nefndin skilaði tillögum sínum til sjávarútvegsráðherra í lok október 1996 og er lagafrumvarp þetta í samræmi við tillögur nefndarinnar að öðru leyti en því að hér er gert ráð fyrir nokkuð rýmri og mótaðri reglum til dragnótaveiða auk þess sem kveðið er skýrar á um framkvæmd leyfisbindingar veiða. Þessar breytingar eru til komnar vegna þeirrar afstöðu sem fram kom hjá hagsmunaaðilum við kynningu tillagna nefndarinnar um skipulag dragnótaveiða auk þess sem nýlegur dómur Hæstaréttar þykir benda til að nauðsynlegt sé að kveða skýrar á um þær meginreglur sem leggja beri til grundvallar þegar veiðar eru leyfisbundnar.
    Lög nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, voru samþykkt á Alþingi í maí 1976. Lög þessi leystu af hólmi lög nr. 102, 27. desember 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, og síðari lög um breytingar á þeim lögum, sbr. lög nr. 14, 26. mars 1974 og lög nr. 72, 15. október 1975. Samþykkt laga nr. 81/1976 var á sínum tíma einn veigamesti þátturinn í þeirri endurskoðun laga og reglna um fiskveiðistjórn sem fylgdi í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Í lögum nr. 81/1976 voru ýmis nýmæli og merkust þeirra má e.t.v. telja ákvæði um heimildir Hafrannsóknastofnunarinnar til skyndilokana veiðisvæða og víðtækar heimildir fyrir ráðherra til setningar reglna um friðunarsvæði og notkun og útbúnað veiðarfæra. Með lögunum voru enn fremur gerðar nokkrar breytingar á togveiðiheimildum fiskiskipa en veigamesta breytingin á þeim fólst í því að horfið var frá því að miða togveiðiheimildir fiskiskipa við brúttórúmlestatölu þeirra en í stað þess var sú viðmiðun tekin upp í lögum nr. 81/1976 að miða við mestu lengd fiskiskipanna.
    Núgildandi lög nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, og lög nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru þau lög sem stjórn og skipan fiskveiða í fiskveiðilögsögu Íslands byggist að langmestu leyti á.
    Lög nr. 38/1990 lúta fyrst og fremst að rétti fiskiskipa til að stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og úthlutun aflaheimilda til þeirra og nýtingu aflaheimilda.
    Fyrirferðarmestu ákvæði laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru hins vegar um togveiðiheimildir fiskiskipa. Þá eru í lögunum ákvæði sem lúta að heimildum Hafrannsóknastofnunarinnar til skyndlokunar veiðisvæða. Loks eru í þeim ákvæði varðandi heimildir ráðherra til setningar reglna um friðunarsvæði og önnur atriði sem beinast að verndun og nýtingu fiskstofnanna.
    Þegar ákveðið var að taka upp aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða haustið 1983 var lagaheimild til þess fengin með breytingu á lögum nr. 81/1976. Sú lagaheimild gilti aðeins fyrir árið 1984 en með sams konar breytingu á lögunum haustið 1984 var enn fengin lagaheimild fyrir aflamarkskerfinu fyrir árið 1985.
    Með lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, sem tóku gildi í ársbyrjun 1985, voru ákvæði um aflamarkskerfið felld í sérstök lög. Síðan tóku við lög nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, og loks núgildandi lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem tóku gildi í ársbyrjun 1991 en þau lög eru ótímabundin.
    Frá því að lög nr. 81/1976 tóku gildi hafa verið gerðar á þeim nokkrar breytingar, auk breytinga þeirra sem áður eru nefndar og tengjast aflamarkskerfinu, sbr. lög nr. 42/1977, 67/1979 og 38/1981. Breytingar þessar hafa ekki verið stórfelldar, en þær veigamestu lúta að rýmkun heimilda til dragnótaveiða og ákvæðum um skyndilokanir.
    Meginástæður þess að þörf er talin á því að endurskoða nú lög nr. 81/1976 eru þessar:
    Eins og áður er getið var við gildistöku laga nr. 81/1976 horfið frá því að miða togveiðiheimildir skipa við brúttórúmlestir og ákveðið að miða þess í stað við mestu lengd þeirra. Ástæða þessarar breytingar var sú að brúttórúmlestaviðmiðunin þótti ekki heppileg þar sem tiltölulega litlar breytingar á skipi, sem engin áhrif höfðu á afkastagetu þess, gátu haft mjög mikil áhrif á skráða brúttórúmlestastærð skipanna. Í gildistíma laga nr. 102/1972 hafði skipum verið skipt upp í þrjá stærðarflokka miðað við viðmiðunarstærðirnar 105 og 350 brl. Með lögum nr. 81/1976 voru fiskiskipin einnig flokkuð í þrjá stærðarflokka en miðað var við 39 metra og 26 metra mestu lengd. Auk segir í lögum nr. 81/1976 að þegar rætt sé um skip 39 metrar og styttri séu undanskildir skuttogarar með aflvél 1.000 brennsluhestöfl eða stærri og nutu því slík skip togveiðiheimilda sem skip stærri en 350 brl. Í ákvæði til bráðabirgða við lögin var hins vegar ákveðið að ekkert skip skyldi missa í neinu togveiðiréttindi þrátt fyrir framangreinda breytingu. Þannig hefur skip haldið togveiðiheimildum sínum þótt það sé lengra en 26 metrar sé það undir 105 brl. Sama gildir um skip stærra en 39 metrar sé það undir 350 brl. Ákvæði þetta til bráðabirgða var ekki tímabundið og hefur verið túlkað svo að skipin haldi réttindum sínum fari stærð þeirra í brl. ekki yfir tilgreind mörk. Þar sem auðvelt er, eins og áður sagði, að hafa áhrif á brúttórúmlestastærð skips hefur þessi skipan með árunum leitt til þess að togveiðiheimildum sambærilegra skipa er mjög misjafnt skipað. Jafnhliða þessu hefur sú þróun orðið að byggð hafa verið mjög afkastamikil skip sem mælast aðeins styttri en 26 metrar. Þessi skip eru miklum mun breiðari en eldri jafnlöng skip voru og eru auk þess búin mun stærri vélum. Mælast þau yfir 105 brúttórúmlestir og er afkastageta þeirra miklu meiri en þeirra skipa sem höfð voru til hliðsjónar þegar togveiðiheimildir minnstu togveiðiskipanna voru ákveðnar með lögum nr. 81/1976. Loks má nefna að sérákvæðið um skuttogara, með vél stærri en 1,000 hestöfl, hefur valdið nokkrum túlkunarvanda því ekki er í lögunum skilgreining á því hvað teljist skuttogari og hafa breytingar í gerð og búnaði skipa á undanförnum árum aukið skilgreiningarvandann. Þessar reglur laga nr. 81/1976, sem hér hafa verið raktar, hafa því valdið miklu misræmi í togveiðiréttindum fiskiskipa, auk þess sem allt eftirlit með því hvaða togveiðiréttindi einstök skip hafa er mjög erfitt. Þykir því rík ástæða til að koma á annarri og betri skipan mála.
    Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 81/1976, um heimild ráðherra til setningar reglugerða um svæðalokanir til að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar, eru nokkuð óljós að sumu leyti, enda þótt þau séu ítarleg. Jafnframt eru þau þannig orðuð að deila má um gildissvið þeirra, t.d. varðandi veiðar á öðrum tegundum nytjastofna en fiski. Þykir ástæða til að einfalda þær og jafnframt gera þær skýrari og ótvíræðari.
    Á sínum tíma þóttu ákvæði 8. gr. laga nr. 81/1976, um heimildir til handa Hafrannsóknastofnuninni til þess að skyndiloka veiðisvæðum með tilkynningum í útvarpi eða strandstöð, merk nýjung. Á þeim tæpu 20 árum, sem liðin eru frá því að lögin öðluðust gildi, hefur fengist mikil reynsla af framkvæmd skyndilokana og þykir ástæða til að taka mið af henni og breyta ákvæðunum í samræmi við hana. Auk þess hafa á þessu sviði orðið breytingar, t.d. í fjarskiptatækni, sem eðlilegt er að taka tillit til.
    Þá þykir ástæða til að endurskoða viðurlagakafla laga nr. 81/1976, enda má segja að hann sé ekki í samræmi við þá lagaþróun sem almennt hefur orðið. Verður að telja að sum ákvæði hans séu úrelt, enda má rekja þau óbreytt til eldri laga sem miðuðust við aðrar aðstæður. Er rétt í þessu sambandi að benda á að með lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, voru samþykktar verulegar breytingar á viðurlagakafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Er samræmi milli viðurlagaákvæða laga nr. 38/1990 og laga nr. 57/1996. Þessi tvenn lög eru ásamt lögum nr. 81/1976 veigamestu lögin á sviði fiskveiða og nýtingar fiskstofna hér við land. Þykir því nauðsynlegt að viðurlagaákvæði laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu samræmd viðurlagakafla áðurnefndra laga.
    Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir ýmsum breytingum frá gildandi lögum nr. 81/1976. Eðli máls samkvæmt hljóta þær breytingar að lúta að þeim atriðum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og sem jafnframt eru skilgreind í skipunarbréfi nefndarinnar. Veigamestu breytingarnar, sem lagt er til að gerðar verði, eru þessar:
    Fallið verði frá ótímabundnu bráðabirgðaákvæði laganna varðandi togveiðiheimildir fiskiskipa. Miðað verði við mestu lengd fiskiskipa sem meginreglu en jafnframt verði litið til toggetu þeirra við ákvörðun togveiðiheimilda. Í því skyni verði tekinn upp til viðmiðunar svonefndur aflvísir en hann er samsettur af þeim kröftum sem mestu ráða um toggetu fiskiskipa. Heimilt verði skipum að stunda dragnótaveiðar á þeim svæðum þar sem togveiðar eru þeim heimilar án sérstaks veiðileyfis. Aðeins verði heimilt að veita bátum undir tiltekinni stærð heimildir til dragnótaveiða innan togveiðilína. Aðlögunartími fyrir báta sem missa togveiðiheimildir við þessa breytingu verði til 1. janúar 2003.
    Ákvæði um heimildir til handa ráðherra til setningar reglugerða, sem lúta að friðun og nýtingu fiskstofnanna, verði gerð bæði ótvíræðari og einfaldari. Jafnframt verði heimild ráðherra til setningar slíkra reglugerða og leyfisbindingar veiða í sérstökum tilvikum skilgreindar.
    Heimildum Hafrannsóknastofnunarinnar til skyndilokana verði breytt nokkuð, með hliðsjón af fenginni reynslu. Skyndilokanir gildi í allt að 14 sólarhringa í stað sjö sólarhringa. Auk þess verði heimilt að framlengja þær við sérstakar aðstæður. Þá verði heimilað að grípa til skyndilokana á grundvelli tillagna frá skipstjórum fiskiskipa að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.
    Viðurlagakaflanum verði breytt. Er í því sambandi tekið mið af viðurlagakafla laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og þeim breytingum sem urðu á viðurlagakafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Ábyrgð verði gerð hlutlæg og lögð á lögaðila. Fallið verði frá skilyrðislausri upptöku afla og veiðarfæra vegna landhelgisbrota og refsirammi vegna sekta einfaldaður.
    Í athugasemdum við einstakar greinar verður gerð ítarlegri grein fyrir þessum breytingartillögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um þessa grein þarf ekki að fjölyrða. Hér er um að ræða almenna yfirlýsingu um tilgang laganna. Yfirlýsingar svipaðs efnis eru í 1. gr. laga nr. 81/1976, 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og 1. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um gildissvið frumvarpsins. Í fyrri málsgreininni er kveðið á um til hvaða nytjastofna frumvarpið tekur. Með þessu orðalagi, sem er efnislega samhljóða ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, taka lögin til nýtingar á lífrænum auðlindum innan fiskveiðilandhelgi Íslands, hvort sem er úr jurtaríkinu eða dýraríkinu, á hafsbotni eða í hafinu yfir honum. Hins vegar tekur það ekki til nýtingar á þeim tegundum sjávardýra sem sérlög gilda um, t.d. hvala eða sela. Í lögum nr. 81/1976 er ekkert slíkt ákvæði og orðalag nokkurra ákvæða þeirra laga er með þeim hætti að efast má um hvort þau taki til stjórnar eða nýtingar á nytjastofnum, sem ekki teljast til fiska.
    Í síðari málsgrein þessarar greinar er fiskveiðilandhelgin skilgreind sem hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og þau eru skilgreind á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Fiskveiðilandhelgin nær því yfir tvö belti umhverfis landið. Annars vegar hina eiginlegu landhelgi næst landinu og hins vegar efnahagslögsöguna sem tekur við utan landhelginnar. Þessi skilgreining er í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.
    Í lögum nr. 81/1976 er fiskveiðilandhelgin skilgreind með tilvísun í reglugerð nr. 299 15. júlí 1975, um fiskveiðilandhelgi Íslands, en eðlilegra þykir nú að vísa til laga nr. 41/1979 þótt það breyti engu varðandi gildissvið laganna að því leyti. Rétt er að árétta, að lög þessi taka eingöngu til nýtingar nytjastofna innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Samhliða frumvarpi um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var á árinu 1976 lagt fram frumvarp um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Það frumvarp varð síðan að lögum nr. 34, 17. maí 1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Nú er til meðferðar hjá Alþingi nýtt lagafrumvarp um veiðar utan fiskveiðilandhelginnar.

Um 3. gr.


    Ákvæði 1. málsl. þessarar greinar um bann við veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands er efnislega samhljóða ákvæði 2. gr. laga nr. 81/1976. Í 2. gr. laga nr. 81/1976 er vísað til laga nr. 33, 19. maí 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi. Lög nr. 33/1922 voru felld úr gildi með lögum nr. 13, 30. mars 1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Í lögum nr. 13/1992 er gert ráð fyrir að brot á þeim lögum varði viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 81/1976. Af því leiðir að rétt er að kveða hér afdráttarlaust á um bann við veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hér er lagt til, og vísa ekki til laga nr. 13/1992 í því sambandi. Veiðar erlendra skipa í bága við þetta ákvæði munu því sæta viðurlögum samkvæmt viðurlagakafla þessara laga.
    Í síðari málsgreininni er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. verði heimilt að gera milliríkjasamninga um veiðiheimildir erlendra skipa innan fiskveiðilandhelginnar og að ákvæðið felli ekki niður gildandi samninga. Ákvæði þetta er að miklu leyti efnislega samhljóða ákvæði 5. gr. laga nr. 13/1992, en þó má segja að ákvæðið sé nokkru rýmra í lögum nr. 13/1992 þar sem það tekur t.d. einnig til vinnslu afla innan lögsögunnar. Ljóst er að nauðsynlegt er að hafa heimild til þess að víkja í tilteknum tilvikum frá banni við veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni, en rétt þykir jafnframt að slíkt verði ekki gert nema með milliríkjasamningi við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Slíkir samningar eru ávallt háðir samþykki Alþingis. Á liðnum árum hafa slíkir milliríkjasamningar verið gerðir t.d. við norsk, grænlensk og færeysk stjórnvöld og Evrópubandalagið.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, má enginn stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Veiðileyfi þessi skulu gefin út til árs í senn. Í þessari grein er lagt til að þetta verði áréttað, auk þess sem ákvæðið er gert nokkru ótvíræðara með skilgreindara gildissviði. Slíkt hefur einnig þýðingu að því leyti að samræmi verður í viðurlögum við brotum erlendra skipa og skipa sem skráð eru íslensk en hafa ekki veiðiheimildir innan fiskveiðilandhelginnar. Sú þróun sem orðið hefur innan íslenska fiskiskipaflotans og rekja má bæði til aukinna úthafsveiða og breyttra reglna um úreldingu og endurnýjun fiskiskipa hefur leitt til þess að nokkur hluti íslenska fiskiskipaflotans hefur ekki veiðiheimildir innan fiskveiðilandhelgi Íslands.

Um 5. gr.


    Heimildir til togveiða í fiskveiðilögsögu Íslands hafa um langan aldur verið lögbundnar. Við endurskoðun laga, bæði fyrri laga og þessara, hefur um það verið rætt hvort ástæða væri til að víkja frá þessu og binda togveiðiheimildir ekki í lög heldur veita ráðherra heimild til að marka þær í reglugerð. Með þeim hætti yrðu þær vissulega sveigjanlegri en á hinn bóginn hafa flestir verið sammála um það að nokkur festa verði að ríkja varðandi togveiðiheimildir skipa, enda sé hér um að ræða atriði sem skipti miklu máli varðandi útgerð þeirra. Er hér lagt til að togveiðiheimildirnar verði áfram lögbundnar.
    Í 1. mgr. þessarar greinar er lagt til að ákvæði um togveiðiheimildir taki einnig til dragnótaveiða. Samkvæmt gildandi lögum eru dragnótaveiðar háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og eru ekki neinar sérstakar takmarkanir á veitingu slíkra leyfa. Hafa reglur um úthlutun dragnótaleyfa verið ákveðnar af ráðuneytinu, að jafnaði að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Jafnframt hefur verið leitast við að taka tillit til hagsmunaaðila, en eins og kunnugt er hafa skoðanir þeirra verið skiptar í þessu máli. Má segja að við mótun reglna um dragnótaveiðar innan togveiðilína hafi verið litið til nýtingar á kolastofnum. Eru heimildir til dragnótaveiða veittar óháð heimildum skipa til togveiða. Í frumvarpinu er lagt til að skipum verði heimilt að stunda dragnótaveiðar, án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi Fiskistofu, á þeim svæðum þar sem þeim er heimilt að stunda togveiðar. Með því mætti losna við veitingu sérstakra leyfa til dragnótaveiða á þeim svæðum. Hins vegar yrði heimilt að veita sérstök leyfi til dragnótaveiða á svæðum þar sem þeim eru ekki heimilar togveiðar, sbr. 6. gr.
    Þar sem ekki eru lagðar til meiri háttar breytingar á skipan togveiðihólfa við landið er áfram miðað við óbreytta viðmiðunarlínu eins og hún var ákveðin í lögum nr. 81/1976.
    Í 2. mgr. er lagt til að fiskiskip verði flokkuð í þrjá flokka með tilliti til heimilda þeirra til togveiða og dragnótaveiða. Ef flokka á skip með tilliti til togveiðiheimilda þeirra vakna ýmsar spurningar um hvaða atriði beri að leggja til grundvallar slíkri flokkun. Eins og áður er rakið var fyrir gildistöku laga nr. 81/1976 miðað við brúttórúmlestir en í þeim lögum er miðað við mestu lengd. Ástæða þessara viðmiðana er vafalaust sú að það hefur þótt eðlilegt að smærri og afkastaminni skip fengju togveiðiheimildir nær landi en þau stærri og afkastameiri. Hér er lagt til að áfram verði hin almenna regla sú að miðað verði við mestu lengd fiskiskipa, en hins vegar verði einnig litið til afkastagetu þeirra eða toggetu að hluta. Jafnframt er lagt til að í stað þess að miða við 26 metra og 39 metra mestu lengd skipa, eins og gert er í lögum nr. 81/1976, skuli miða við 29 metra og 42 metra. Ástæða þessarar tillögu er sú að mörg þeirra skipa sem undanþágu nutu varðandi togveiðiheimildir samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 81/1976 eru litlu lengri en 26 metrar eða 39 metrar. Með því að breyta viðmiðuninni þannig halda þessi skip óbreyttum togveiðiheimildum.
    Í 3. mgr. er lagt til að við ákvörðun afkastagetu verði miðað við það sem í greininni er nefnt aflvísir, sem sýnir í raun hina reiknuðu toggetu skipsins. Ástæða þess að hér er lagt til, að miðað verði við nýja einingu, sem nefnd hefur verið aflvísir, er sú að aflvísir er fundinn með mjög einfaldri formúlu sem öllum er aðgengileg og auðreiknuð en sýnir jafnframt vel hina raunverulegu toggetu fiskiskips. Niðurstaðan úr slíkri formúlu, sem hér er nefnd aflvísir, er að vísu ekki sú eining sem fæst úr þeirri formúlu sem almennt er notuð til að reikna togkraft skipa í tonnum. Sú formúla er öllu flóknari og ekki á allra færi að beita henni. Hins vegar eru sömu þættirnir í báðum þessum formúlum og það eru þeir þættir sem ráða togkrafti fiskiskips. Þessir þættir eru hestöfl vélar, þvermál skrúfuhrings og það hvort skip er búið skrúfuhring eða ekki. Formúlan fyrir aflvísi fiskiskips samkvæmt því sem hér er lagt til er einföld. Ef skip er búið skrúfuhring er aflvísir þess hestaflafjöldi vélar margfaldaður með þvermáli skrúfu í metrum, en ef skip er ekki búið skrúfuhring skal margfalda útkomuna með 0,60 til að finna aflvísi þess. Er í 2. mgr. lagt til að skipum verði skipt upp í þrjá eftirfarandi flokka miðað við stærðir þeirra og aflvísa:
    Fiskiskip 42 metrar og lengri. Jafnframt yrðu í þessum flokki öll fiskiskip sem hefðu aflvísa 2500 eða hærri.
    Fiskiskip lengri en 29 metrar en styttri en 42 metrar með lægri aflvísa en 2.500. Enn fremur skip styttri en 29 metrar með hærri aflvísa en 1.600.
    Fiskiskip styttri en 29 metrar enda séu þau með lægri aflvísa en 1.600.
    Rétt er að benda á í þessu sambandi að þróunin hefur orðið sú að togkraftur skipa hefur aukist gífurlega undanfarin ár. Varðandi flokk skipa undir 26 metrum má benda á að þegar lög nr. 81/1976 voru samþykkt var mesti togkraftur skipa sem voru tæpir 26 metrar á bilinu 6–7 tonn (aflvísir 600–700). Togkraftur jafnlangra skipa, sem smíðuð hafa verið á undanförnum árum, er 15–16 tonn (aflvísir 2.100–2.500).
    Í frumvarpinu er lagt til að miðað verði við mestu lengdir skipa en þó geti skip farið upp um flokk ef togveiðikraftur þess er mikill. Ljóst er að ef ekki yrði breyting gerð á gildandi lögum þá héldi sú þróun áfram að smíðuð yrðu stutt en æ afkastameiri togskip. Slík hefur raunin orðið varðandi gildistíma laga nr. 81/1976 og hefur það vissulega valdið misræmi og óánægju. Vitanlega verður aldrei hjá því komist að útgerðaraðilar taki við ákvarðanir sínar um smíði fiskiskipa mið af reglum og reyni að ná sem ríkustum togveiðiheimildum með sem afkastamestum skipum, en með því að miða einnig við aflvísa skipa má vænta þess að koma megi í veg fyrir verulegar breytingar að þessu leyti.
    Í 4. mgr. er lagt til að Fiskistofa haldi skrá yfir aflvísa íslenskra fiskiskipa. Tæknideild Fiskifélags Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands hefur fyrir nefndina annast mælingar og athuganir á togkrafti skipa enda hefur tæknideildin yfir að ráða viðamiklum upplýsingum á þessu sviði. Hins vegar þykir rétt að Fiskistofa haldi skrá yfir aflvísa og til þess getur komið að Fiskistofa annist einnig útreikning togkrafts þegar festa hefur fengist í framkvæmdina.
    Í 5. mgr. er lagt til að að Siglingastofnun Íslands mæli og skrái mestu lengd skipa og er það í samræmi við gildandi lög og lögbundna framkvæmd þeirrar stofnunar.
    Í 6. mgr. er áréttað að togveiðiheimildir samkvæmt þessu frumvarpi taki aðeins til veiða með botn- og flotvörpu á botnfisktegundum en ekki til veiða á uppsjávarfiskum, síld og humri. Um slíkar veiðar og veiðisvæði gilda aðrar reglur sem markaðar eru ýmist í leyfum eða reglugerðum.
    Loks er í 7. mgr. lagt til að ef tvö eða fleiri skip eru saman um eina vörpu eða dragnót þá verði miðað við samanlagða lengd þeirra eða aflvísa þegar metið er hvar þau megi stunda togveiðar eða dragnótaveiðar. Um þetta hefur ekki verið ákvæði til þessa. Hins vegar þekkist það nú að tvö skip séu saman um eina vörpu og þykir þá eðlilegast að fara þessa leið.
    Í 8. mgr. er ekki lagt til að miklar breytingar verði gerðar á skipan togveiðihólfanna sjálfra. Hins vegar er uppsetning þessa kafla með öðrum hætti en samkvæmt lögum nr. 81/1976 og er það gert til hægðarauka. Þó er lagt til að þessar breytingar verði gerðar á skipan togveiðihólfa:
    Felld verði niður eftirfarandi togveiðisvæði:
         Svæði D.8 og D.9. Á þeim svæðum var skipum styttri en 26 metrar heimilt að stunda veiðar allt upp að suðurströnd meginlandsins hluta úr ári. Veiðar með vörpu hafa nú í nokkur ár verið bannaðar út að 3 sjómílum fyrir suðurströndinni að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar. Þykir rétt að festa þá skipan mála í lög.
         Svæði F.3. Á því svæði sem nær inn á Breiðafjörð, hefur skipum styttri en 26 metrar verið heimilað að stunda veiðar seinni hluta árs. Samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar er iðulega bæði smáýsa og smáþorskur á þessu svæði og hefur komið til skyndilokana af þeim sökum.
         Svæði G.2. Þessi liður tekur til tveggja svæða fyrir Vestfjörðum þar sem skipum styttri en 20 metrar er heimilað að stunda togveiðar að hausti upp að fjórum sjómílum. Hér er um sérstakt ákvæði að ræða og eru þetta einu togveiðisvæðin sem miðast við 20 metra skip og styttri. Þetta svæði var sett með sérstökum lögum nr. 67/1979 til aðstoðar rækjubátum fyrir Vestfjörðum þar sem rækjuveiðar féllu að mestu niður það ár vegna lélegs ástands innfjarðarækjustofnsins. Rækjubátar hafa lítið nýtt þessi svæði og þykir ekki ástæða til að halda þessum sérstöku heimildum.
    Lagt er til að breytingar verði gerðar á togsvæðunum, sem tilgreind eru í gildandi lögum sem C.4 og C.5 en í frumvarpinu sem svæði C.5 og C.7 þannig að svæðið milli Hvítinga og 18°V verði opið bátum undir 42 metrum allt árið, en samkvæmt gildandi ákvæðum eru togveiðar bannaðar á svæðunum í mars og apríl á hverju ári. Í þessu sambandi skal þess getið, að undanfarin ár hafa allar veiðar verið bannaðar á þessum svæðum í allt að fimm vikur á vorin til verndar hrygningarþorski. Má við því búast að svo verði enn um sinn.
    Lagt er til að sett verði nýtt togsvæði, sem tilgreint er í frumvarpinu sem G.2, þar sem skipum í tveimur minni flokkunum verði heimilt að stunda veiðar allt upp að fjórum sjómílum út af norðanverðum Vestfjörðum frá 1. nóvember til 31. janúar. Ástæða þessarar tillögu er að á þessu svæði má á haustin finna bæði kola og ýsu og eru svæðin lítið nýtt af öðrum fiskiskipum þennan tíma.

Um 6. gr.


    Eins og segir í athugasemdum við 5. gr. er gert ráð fyrir að skipum sé heimilt, án sérstaks leyfis Fiskistofu, að stunda dragnótaveiðar á þeim svæðum þar sem þeim eru togveiðar heimilar skv 5. gr. Í 1. mgr. þessarar greinar er hins vegar gert ráð fyrir að heimilt sé að veita leyfi til dragnótaveiða nær landi en heimilt er að stunda togveiðar og dragnótaveiðar skv. 5. gr. Gert er ráð fyrir að aðeins eigi kost á slíkum dragnótaleyfum bátar sem eru styttri en 42 metrar, enda séu þeir með lægri aflvísi en 2.500. Lögum samkvæmt annast Fiskistofa útgáfu leyfanna, en gert er ráð fyrir að ráðherra gefi út reglugerð þar sem kveðið verði nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa auk þess sem kveðið verði nánar á um skipan veiðanna.
    Samkvæmt 14. gr. laga nr. 81/1976, eins og þau voru samþykkt í upphafi, var aðeins heimilt að veita bátum styttri en 20 metrar leyfi til dragnótaveiða á tímabilinu 15. júní til 30. nóvember ár hvert. Óheimilt var þó að veita slík leyfi til dragnótaveiða á Faxaflóa. Með lögum nr. 38/1981, um breytingu á lögum nr. 81/1976, var opnuð heimild til að leyfa dragnótaveiðar á Faxaflóa og með lögum nr. 82/1983 var fallið frá takmörkun á leyfilegum bátastærðum og veiðitíma. Engin ákvæði eru í gildandi lögum um dragnótaveiðar og hafa þær veiðar verið leyfisbundnar með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Engin sérstök takmörkun hefur verið á veitingu dragnótaleyfa og hefur skipan þeirra mála verið með ýmsum hætti undanfarin ár.
    Ekki þarf að fara í grafgötur með það að dragnótaveiðar hafa lengi verið umdeildar. Dragnótaveiðar hafa undanfarin ár aukist nokkuð enda hefur það sýnt sig að slíkar veiðar eru mjög hagkvæmar auk þess sem þær skila mjög góðu hráefni. Á síðari árum hefur gagnrýnin einkum beinst að því að æ stærri bátar eru útbúnir til slíkra veiða og þykir ekki eðililegt að þeim séu veittar heimildir til veiða langt innan þeirra svæða sem þeim er heimilt að stunda togveiðar á. Hins vegar verður að hafa í huga að veiðar á ýmsum tegundum kola verða vart stundaðar án dragnótar og æ stærri hluti kolaaflans kemur í dragnót. Má benda á að stærstur hluti skarkolaaflans fæst nú í dragnót og næstum allur sandkola- og langlúruaflinn. Í mörgum tilvikum verður að stunda slíkar veiðar nærri landi og innan almennra togveiðisvæða ef nýta á þá stofna. Með þeirri skipan sem hér er lögð til væri unnt að skipuleggja veiðarnar með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni en þær eru mjög mismunandi. Dragnótaleyfi hafa ávallt verið svæðisbundin og hafa nokkuð mismunandi reglur gilt um veiðarnar eftir svæðum. Á ákveðnum svæðum hafa leyfin verið takmörkuð í fjölda til þesss að koma í veg fyrir ofnýtingu ákveðinna miða eða fiskstofna. Á ákveðnum veiðisvæðum er dragnótin einkum notuð til veiða á ýmsum kolategundum en annars staðar hafa dragnótaveiðar að mestu tekið við af netaveiðum og einkum beinst að þorski. Oft eru dragnótaveiðar stundaðar inni á fjörðum og því getur verið þörf á að setja frekari reglur um stærðir þeirra báta sem leyfi fá þar.
    Í 2. mgr. þessarar greinar er almenn heimild til að leyfisbinda tilteknar veiðar sé til þess talin nauðsyn til að tryggja skynsamlega nýtingu þess stofns sem veiðar beinast að eða til að koma í veg fyrir skaðsemi sem notkun veiðarfæris getur haft fyrir nýtingu annarra stofna. Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna að það kann að vera nauðsynlegt að takmarka notkun skelplógs til að tryggja að ekki verði um ofnýtingu ákveðins svæðis að ræða og sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna takmörkun á notkun rækjuvörpu á ákveðnu svæði til að koma í veg fyrir seiðadráp. Er þá heimilt að grípa til sömu úrræða og heimilt er við skipan dragnótaveiða.

Um 7. gr.


    Í fyrri málsgrein þessarar greinar er lagt til að grásleppuveiðar verði háðar sérstökum leyfum og að aðeins þeir eigi kost á leyfum sem rétt áttu til slíkra leyfa samkvæmt gildandi reglum. Í reglugerð nr. 58, 18. janúar 1996, um hrognkelsaveiðar, er kveðið á um skipulag grásleppuveiða hér við land og hvaða bátar eigi rétt til grásleppuleyfis. Hefur útgáfa leyfa verið takmörkuð í mörg ár og er bundin við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Rétt er að nefna hér að fiskifræðingar hafa ekki lagt til að grásleppuveiðarnar verði takmarkaðar en hins vegar hefur þótt ástæða til að setja takmarkanir á veiðarnar, fyrst og fremst vegna þess að fjöldi smábáta er orðinn slíkur að án þeirra gætu veiðarnar farið algerlega úr böndunum á skömmum tíma. Hér ber einnig að líta til markaðsaðstæðna og réttar þeirra manna sem stundað hafa þessar veiðar og sem vegna þeirra hafa minni aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Reglugerð um hrognkelsaveiðar hefur verið gefin út með stoð í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, en hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um að veiðarnar verði leyfisbundnar og jafnframt um heimildir ráðherra til að skipa þeim málum með þeim hætti sem gert hefur verið til þessa.
    Í 1. málsl. 2. mgr. segir að ráðherra geti leyfisbundið veiðar á tilteknum stofni í því skyni að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu hans, óeðlilegan meðafla af öðrum tegundum en veiðin beinist að eða önnur skaðleg áhrif veiða. Ákvæði þetta tæki bæði til stofna, sem veiðum er stjórnað á með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa og annarra stofna. Slík takmörkun getur verið nauðsynleg og má hér sem dæmi nefna innfjarðaveiðar á rækju og ýmsum skeltegundum. Meginreglan er því sú að sé veiðum úr stofni stjórnað með kvótum og skiptingu þeirra milli skipa beri aðeins í þeim tilvikum sem ríkar ástæður, sem greindar eru í 1. málsl., eru fyrir hendi, að setja frekari takmarkanir á um nýtingu viðkomandi stofns. Í 2. málsl. þessarar málsgreinar segir hins vegar að sé stofni ekki stjórnað með skiptingu kvóta milli einstakra skipa þá geti ráðherra leyfisbundið veiðar úr þeim stofni sé þess talin þörf, t.d. vegna óvissu um veiðiþol stofnsins. Þykir nauðsyn bera til að hafa slíkt ákvæði því ella væri ekki unnt að hafa stjórn á veiðum, t.d. úr stofnum sem lítil vitneskja væri um. Að lokum eru ákvæði um að ráðherra beri að kveða á í reglugerð um skilyrði fyrir veitingu þessara sérstöku leyfa og heimildir hans í því efni.
    Varðandi leyfisbindingu veiða almennt skal á það bent að á liðnum árum hefur þróunin orðið sú að reynt hefur verið í ýmsum tilvikum að einfalda veiðileyfakerfið og hefur verið fallið frá sérstakri leyfisbindingu veiða eins og t.d. netaveiða, loðnuveiða, úthafsrækjuveiða, síldveiða og humarveiða. Í flestum tilvikum þarf aðeins hið almenna veiðileyfi í atvinnuskyni. Þrátt fyrir það er ljóst að stundum skapast þörf á að binda veiðar á tilteknum tegundum eða veiðar í tiltekin veiðarfæri sérstökum leyfum vegna einhverra sértilvika og hafa þau tilvik verið sérgreind í 6. og 7. gr. frumvarps þessa. Eins og áður hefur komið fram hefur leyfisbinding veiða og veiðiaðferða á síðustu árum byggst á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, en orðalag hennar er mjög rúmt. Hér er í raun lagt til að heimildir ráðherra til þess að leyfisbinda veiðar verði þrengdar jafnframt því sem settar verði ákveðnari viðmiðanir um alla framkvæmd leyfisbindingarinnar. Er því lagt til í frumvarpi þessu að ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990 verði úr gildi fellt.

Um 8. gr.


    Ákvæði fyrri málsgreinar er samhljóða ákvæði 5. gr. laga nr. 81/1976 að öðru leyti en því að áður en ákvarðanir eru teknar um skiptingu veiðisvæða milli veiðarfæra með banni á notkun tiltekinna veiðarfæra á ákveðnu svæði er gert skylt að leita umsagnar samtaka þeirra útgerðar- og sjómanna sem ætla má að skipting veiðisvæðisins varði mestu hverju sinni. Hér er ekki um að ræða að slík skipting sé gerð í fiskverndunarskyni heldur fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir að veiðar með mismunandi veiðarfærum leiði til árekstra. Sams konar ákvæði laga nr. 81/1976 hefur einkum verið beitt varðandi setningu sérstakra línu- og netasvæða yfir vertíðarmánuðina fyrir Suðausturlandi.
    Í seinni málslið er lagt til að ráðherra verði heimilt að banna veiðar á tilteknum svæðum vegna neðansjávarstrengja og vatnslagna neðan sjávar. Í 3. gr. laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru ákvæði sem bönnuðu allar veiðar á ákveðnu svæði milli meginlandsins og Vestmannaeyja og við sæsímastrenginn sem liggur frá Vestmannaeyjum til útlanda. Um aðra strengi og lagnir voru ekki ákvæði í gildandi lögum en með brot á þessum tilgreindu svæðum skal farið eins og með almenn fiskveiðilagabrot. Þykir rétt að hafa almenna heimild í lögum til að kveða á um slík veiðibönn vegna slíkra strengja og lagna í reglugerð. Jafnframt þykir rétt að brot á slíkum veiðibönnum sæti ekki sömu viðurlögum og fiskveiðilagabrot almennt heldur viðurlögum skv. 17. gr.

Um 9. gr.


    Gert er ráð fyrir að 1. og 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins komi í stað 6. og 7. gr. laga nr. 81/1976. Eins og rakið er í almennri greinargerð hér á undan eru ákvæði gildandi laga um setningu friðunarsvæða ekki ótvíræð og er hér lagt til að þau verði gerð einfaldari og jafnframt markvissari.
     Eins og ákvæði 9. gr. er sett fram í frumvarpinu er í raun gert ráð fyrir að ráðherra geti sett friðunarsvæði samkvæmt umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, þegar nauðsynlegt er talið, til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Geta friðunarsvæðin bæði verið með því móti að á þeim séu bannaðar allar veiðar eða veiðar með tilteknum veiðarfærum, eftir því sem þörf er talin á hverju sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að friðun slíkra svæða sé ekki úr gildi felld nema fyrir liggi umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Slík friðunarsvæði eru oftast sett til friðunar ungfiski, ungrækju eða unghumri. Einnig eru stundum sett tímabundin friðunarsvæði til friðunar á hrygnandi stofnum eða til þess að koma í veg fyrir aðrar óæskilegar veiðar. Mjög oft eru friðunarsvæði ákveðin í framhaldi af skyndilokunum, sbr. 10. gr.
    Í lokamálsgrein þessarar greinar er það nýmæli að heimilt er að banna veiðar eða notkun ákveðinna tegunda veiðarfæra sé þess talin þörf vegna tilrauna eða vísindalegra rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar. Slík heimild hefur ekki verið fyrir hendi en upp hafa komið tilvik þar sem hana hefur skort.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. er gert ráð fyrir að allverulegar breytingar verði gerðar á ákvæði um skyndilokanir sem nú er í 8. gr. laga nr. 81/1976. Breytingarnar sem hér er lagt til að gerðar verði eru eftirfarandi:
    Í 8. gr. laga nr. 81/1976 er ákvæði um að stefnt skuli að rekstri sérstakra eftirlitsskipa. Lagt er til að þetta ákvæði verði fellt út, enda hefur þetta ákvæði ekki komið til framkvæmda á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan lögin voru samþykkt og vandséð að svo verði á næstunni. Það að fella niður þetta ákvæði útilokar þó vitanlega ekki að hægt yrði að koma upp slíkum skipum yrði ákvörðun tekin um slíkt og fjárveiting fengist til þess.
    Í 8. gr. laga nr. 81/1976 er gert ráð fyrir að eftirlitsmenn séu sérstakir trúnaðarmenn ráðherra. Verður til þess að líta að þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma hafði veiðieftirliti með þeim hætti sem starfar á vegum Fiskistofu ekki verið komið á. Í frumvarpinu er því lagt til að hér verði um veiðieftirlitsmenn Fiskistofu að ræða enda hefur sú raunin orðið á.
    Í 8. gr. laga nr. 81/1976 er gert ráð fyrir að heimilt sé að grípa til skyndilokana á grundvelli upplýsinga frá skipstjórum eftirlitsskipa, leiðangursstjórum rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunarinnar eða sérstökum trúnaðarmönnum. Í samræmi við breytingar, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, er gert ráð fyrir því hér að byggt verði á upplýsingum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu og leiðangursstjóra hafrannsóknaskipa auk þess sem upplýsingar frá starfsmönnum Landhelgisgæslu geti orðið grundvöllur ákvörðunar um skyndilokun. Orðalag 8. gr. laga nr. 81/1976 um að skipstjórar eftirlitsskipa hafi hlutverki að gegna í þessu sambandi hefur verið túlkað þannig að það taki til Landhelgisgæslunnar en ástæða þykir til að taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Í 8. gr. laga nr. 81/1976 er gert ráð fyrir því, að Hafrannsóknastofnunin geti bannað veiðar á tilteknum svæðum í allt að sjö sólarhringa. Í frumvarpinu er lagt til að stofnunin geti bannaðar veiðarnar í allt að 14 sólarhringa. Þá er í þessari grein það nýmæli að heimilt er við tilteknar aðstæður að skyndiloka svæði aftur í allt að sjö daga ef ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um ástand svæðisins eða ef ætla megi að breytingar verði á svæðinu innan þess tíma. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að stundum hefur sú staða komið upp að ástand tiltekins svæðis hefur breyst eftir að skyndilokun tók gildi en hins vegar er svæðið ekki orðið þannig að rétt sé að opna það strax. Þykir því rétt að unnt sé að grípa til skyndilokunar aftur ef ætla má að með því náist sá árangur sem að var stefnt án þess að svæðinu sé lokað með reglugerð, en það er umfangsmeiri ráðstöfun.
    Í 8. gr. laga nr. 81/1976 er sagt að skyndilokanir taki gildi um leið og þær eru tilkynntar í útvarpi eða í fjarskiptatæki af viðkomandi skipstjórum eftirlitsskipa, leiðangursstjórum eða trúnaðarmönnum ráðherra. Framkvæmdin hefur orðið með þeim hætti að Hafrannsóknastofnunin hefur að jafnaði tilkynnt um skyndilokanir í ríkisútvarpinu og hefur í þeim tilkynningum verið tilgreindur upphafstími lokunarinnar. Jafnframt hafa strandstöðvar sinnt upplýsingaþjónustu varðandi skyndilokanir. Í frumvarpinu er lagt til að tilkynningar um skyndilokanir séu sendar strandstöðvum og útvarpi en gert er ráð fyrir að nánari reglur séu settar um framkvæmd skyndilokana. Hröð þróun í fjarskiptatækni skapar aukna möguleika á að koma upplýsingum, til að mynda um slíkar ákvarðanir, á framfæri og því þykir rétt að njörva framkvæmdina ekki niður í lögum heldur hafa hana í reglugerð þannig að auðveldara verði að laga framkvæmdina að breyttum aðstæðum og tækni hverju sinni. Jafnframt verður að leggja áherslu á að tryggt sé að hlutaðeigendur geti leitað slíkra upplýsinga með tryggum hætti.
    Í þessari grein er lagt til að þess verði að jafnaði gætt að ákvörðun um ráðstöfun í framhaldi af skyndilokun liggi fyrir a.m.k. einum sólarhring áður en skyndilokun fellur úr gildi. Nokkuð hefur borið á því að skip sigldu í átt til svæðis sem hafði verið skyndilokð í því skyni að hefja þar veiðar strax og skyndilokun félli úr gildi. Oft hefur það síðan gerst að svæðinu hefur fyrirvaralaust verið lokað áfram með reglugerð þar sem ástandið á svæðinu hefur ekki batnað. Með því að ákveða að ráðstafanir skuli liggja fyrir með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara er talið að komast megi hjá slíkum óþörfum siglingum.
    Varðandi þessa grein eru enn fremur þau nýmæli að heimilt er að leyfa einstökum fiskiskipum að stunda tilraunaveiðar tímabundið á lokuðum svæðum í tilraunaskyni, enda fari slíkar tilraunir fram undir eftirliti Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar eða Landhelgisgæslu og að skipstjórnarmönnum sé skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsaðila varðandi tilraunaveiðarnar. Er þetta gert til þess að hægara sé að taka ákvarðanir um framhaldsaðgerðir eftir að skyndilokun fellur úr gildi.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. frumvarpsins er það nýmæli að lagt er til að heimilt sé að grípa til skyndilokana vegna upplýsinga sem komnar eru frá skipstjórnarmönnum um að skaðlegar veiðar fari fram á ákveðnum svæðum. Heimild þessi er eftirfarandi skilyrðum háð:
    Að upplýsingarnar berist frá a.m.k. þrem skipstjórnarmönnum sem veiðar stunda á viðkomandi svæði.
    Að upplýsingarnar séu studdar mælingum sem framkvæmdar eru á fullnægjandi hátt að mati Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Ekki verði viðkomið að staðreyna upplýsingarnar með öðrum hætti án tafar.
    Oft hefur komið upp sú staða að skipstjórnarmenn telja ástæðu til þess að banna eða takmarka veiðar á ákveðnu svæði vegna ástands þar. Ef ekki hefur verið hægt að koma eftirlitsmanni Fiskistofu eða Landhelgisgæslunni á svæðið til þess að staðreyna ástandið hefur til þessa ekki verið fyrir hendi lagaheimild til þess að loka svæðum. Hafa margir skipstjórnarmenn lýst sig reiðubúna til þess að taka þátt í verndun auðlindarinnar með þessum hætti og þykir full ástæða til að mæta þeim vilja. Hins vegar er ljóst að hér er um nokkuð vandmeðfarið mál að ræða og nauðsynlegt er að setja mótaðar reglur um þessa framkvæmd. Gert er ráð fyrir því að skyndilokanir samkvæmt þessari grein gildi í allt að viku eða helmingi skemur en skyndilokanir skv. 10. gr.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er það nýmæli að veiðieftirlitsmaður um borð í veiðiskipi geti mælt fyrir um að skip kasti eða leggi veiðarfæri á tilteknu svæði í tilraunaskyni, enda hafi hann ástæðu til að ætla að önnur skip stundi skaðlegar veiðar á því svæði. Skipstjóri skal verða við tilmælum eftirlitsmannsins, enda fari tilraunin fram með þeim hætti að hún hindri veiðar skipsins sem minnst og framkvæmdin verði ákveðin í samráði við skipstjóra veiðiskipsins.
    Við venjulega framkvæmd veiðieftirlits fer veiðieftirlitsmaður með veiðiskipi í veiðiferð og ræður skipstjórnarmaður eðlilega alfarið hvar veiðar eru stundaðar o.s.frv. Því er ekki að neita að upp hafa komið tilvik þar sem skip siglir fram hjá skipum sem eru að veiðum á önnur mið þar sem síður má ætla að komið geti til lokana veiðisvæða. Komið hefur fram meðal skipstjórnarmanna að þeir forðist ákveðin veiðisvæði þar sem þeir vita að aðstæður eru þannig að búast megi við lokun svæðanna sé eftirlitsmaður um borð í skipum þeirra.
    Enda þótt ljóst sé að ákvörðunarvald um veiðisvæði og annað er lýtur að stjórnun skips hljóti ávallt að vera í höndum skipstjóra þykir rétt að reyna með þessum hætti að komast hjá því að skip sigli fram hjá svæði ef ástæða er til að ætla að þar séu stundaðar skaðlegar veiðar. Vissulega verður ekki dregið úr því að framkvæmd og mat á slíku geti verið erfið en hins vegar er ljóst að ef vel tekst til og samvinna við skipstjórnarmenn verður góð er unnt að efla veiðieftirlit verulega með þessum hætti.

Um 13. gr.


    Ákvæði þetta lýtur að sérstökum veiðitilraunum og vísindalegum rannsóknum innan fiskveiðilögsögu Íslands. Ákvæði svipaðs efnis er í 15. gr. laga nr. 81/1976 en í 13. gr. frumvarpsins er þó gert ráð fyrir að Fiskistofa geti einnig haft eftirlit með slíkum rannsóknum eða tilraunum, enda er það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur. Þykir og rétt að heimilt sé að ákveða að leyfishafi skuli greiða allan kostnað sem af eftirlitinu leiðir. Má í því sambandi nefna þau tilvik þegar erlend skip fá leyfi til tilraunaveiða eða rannsókna í lögsögunni og ástæða þykir til að hafa eftirlitsmenn um borð í þeim skipum. Þykir eðlilegt að leyfishafi greiði þann kostnað sem af eftirlitinu leiðir.
    Loks er í ákvæðinu áréttað að verði eftirliti ekki við komið skuli heimildin til veiðitilrauna eða rannsókna bundin því skilyrði að Hafrannsóknastofnunin fái nákvæmar upplýsingar um gang tilraunarinnar eða rannsóknarinnar. Slíkt ákvæði er ekki í gildandi lögum en nauðsynlegt þykir að árétta að Hafrannsóknastofnunin fái slíkar upplýsingar.

Um 14. gr.


    Hér er um að ræða almenna heimild til setningar reglugerðar um framkvæmd þessara laga og þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 15.gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er áréttað að brot sé refsivert, hvort sem það er framið af ásetningi eða gáleysi auk þess sem hlutlæg refsiábyrgð er lögð á lögaðila í 18. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir því að stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot geti auk sektar varðað refsivist.
    Í 2. mgr. segir að beita skuli ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota á lögum þessum eftir því sem við á. Samkvæmt frumvarpi þessu er aðeins gert ráð fyrir að afli verði gerður upptækur vegna brota á ákvæðum 16. gr. sem tekur til þeirra tilvika þegar veiðar eru stundaðar á einhverjum þeim svæðum þar sem þær eru bannaðar. Hins vegar getur í ýmsum tilvikum komið til þess að Fiskistofa beiti ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota á reglum sem settar yrðu með stoð í þessum lögum. Má í því sambandi nefna tilvik eins og þegar skip stunda veiðar án tilskilinna leyfa eða nota til veiða ólögleg veiðarfæri.

Um 16. gr.


    Þessi grein tekur til þeirra tilvika, þegar skip stundar veiðar á svæði þar sem því eru þær veiðar bannaðar. Koma hér til þau tilvik þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar samkvæmt ákvæðum 3.–5. gr. laga þessara eða hafa verið bannaðar með stoð í 8.–11. gr. þeirra. Hér er lagt til að slík brot varði eigi lægri sektum en 600.000 kr. og eigi hærri en 6.000.000 kr. og að dómari meti sektarfjárhæð eftir eðli og umfangi brots. Í gildandi lögum miðast sektir við gullkrónur og segir í 17. gr. að sektir skulu nema 4.000–20.000 gullkrónum ef skip er 39 metrar að lengd eða minna, en 14.000-40.000 gullkrónum, ef skip er lengra en 39 metrar. Hér er lagt til að fallið verði frá því að miða við gullkrónur og þessari skiptingu refsirammans.
    Í gildandi lögum segir að vegna sambærilegra brota skuli gera upptæk veiðarfæri svo og allan afla um borð. Ákvæði þetta hefur verið túlkað þannig að öll veiðarfæri sem verið hafa um borð í skipinu hafa verið gerð upptæk. Í 2. mgr. segir að brot samkvæmt þessari grein skuli auk refsingar varða upptöku veiðarfæra, þar með talinna dragstrengja, og afla, enda sé sennilegt að hann hafi fengist með ólögmætum hætti. Hér er lagt til að sú breyting verði gerð að aðeins verði heimilt að gera aflann upptækan að sennilegt sé að hann hafi fengist með ólögmætum hætti. Jafnframt er lagt til að aðeins þau veiðarfæri verði gerð upptæk sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar. Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að skilyrðislaus upptaka afla og veiðarfæra getur í ákveðnum tilvikum verið óeðlilega hörð viðurlög. Í afla skipa og veiðarfærum þeirra eru oft slík verðmæti falin að upptaka þessara hluta getur orðið miklu þungbærari en sektin. Má sem dæmi nefna fullvinnsluskip sem staðið er að veiðum á svæði þar sem veiðar hafa verið bannaðar. Það hefur nýhafið veiðar á svæðinu en er með verulegan afla innanborðs auk mikilla birgða veiðarfæra. Í slíku tilviki myndu viðurlögin, að óbreyttum lögum, verða mun þyngri en eðlilegt getur talist. Hins vegar er ljóst að til þess getur komið að erfitt reynist að staðreyna bæði hvaða veiðarfæri voru notuð við veiðarnar og eins hvaða afli fékkst við þær.
    Í 3. mgr. þessarar greinar segir að heimilt sé að gera andvirði veiðarfæra og afla upptækt í stað aflans og veiðarfæranna sjálfra. Hér er fyrst og fremst um hagkvæmt atriði að ræða því að öðrum kosti má ætla að verðmæti þessara hluta rýrni mikið við almenna sölu. Þetta er einnig í samræmi við framkvæmdina hin síðari ár.

Um 17. gr.


    Hér eru tilgreind viðurlög vegna brota á öðrum ákvæðum laganna en þeim sem tilgreind eru í 16. gr. auk brota á reglugerðum settum samkvæmt lögunum og á ákvæðum leyfisbréfa sem gefin eru út á grundvelli slíkra reglugerða. Með stoð í þessari grein yrði t.d. refsað fyrir brot á reglugerðum um möskvastærðir og útbúnað veiðarfæra.

Um 18. gr.


    

Hér er hlutlæg refsiábyrgð lögð á lögaðila og er það til samræmis við ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar, og laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Um 19. gr.


    Í gildandi lögum nr. 81/1976 er kveðið svo á um í 17. gr. að leggja skuli löghald á skip sem staðið er að ólöglegum veiðum þegar það kemur til hafnar og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt og sekt og kostnaður verið greidd að fullu. Heimilt er þó samkvæmt gildandi lögum að láta skipið laust fyrr ef sett er bankatrygging eða önnur trygging jafngild að mati dómara. Í þessari grein er lagt til að sú breyting verði gerð að heimilt sé að leggja löghald á skip sem fært er til hafnar vegna brota á lögum þessum. Það er hins vegar á valdi dómara að meta nauðsyn á slíku og er honum jafnframt heimilt að láta það laust ef trygging er sett fyrir greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku. Með þessu er að því stefnt að ekki verði gerður greinarmunur á málsmeðferð eftir því gegn hvaða ákvæði laganna hefur verið brotið, heldur fari um málsmeðferðina að lögum um meðferð opinberra mála
    Ákvæði þessarar greinar um að lögveð stofnist í skipi til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 20. gr.


    Með þessu ákvæði er kveðið skýrt á um að ólögleg veiðarfæri skuli upptæk gerð. Með ólöglegum veiðarfærum er átt við veiðarfæri sem ekki eru gerð í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið um þau. Má sem dæmi nefna veiðarfæri með ólöglegum möskvum og vörpur sem klæddar eru með ólögmætum hætti. Í gildandi lögum eru ekki ákvæði um þetta efni og hefur það leitt til þess að óljóst er hvernig með slík veiðarfæri skuli farið.

Um 21.–22. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir er í frumvarpi þessu lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á togveiðiviðmiðunum. Ljóst er að með samþykkt þessa frumvarps kæmu því einhver skip til með að missa togveiðiheimildir. Þykir rétt að veita þeim skipum nokkurn aðlögunartíma vegna þessa. Hér því er lagt til að skip þau, sem vegna þessara breytinga koma til með að missa veiðiréttindi, fái aðlögunartíma til 1. janúar 2003.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um veiðar


í fiskveiðilandhelgi Íslands.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að eldri lög um fiskveiðilandhelgina verði yfirfarin og endurnýjuð með breytingum í ljósi breyttra krafna til laga og valdsviðs framkvæmdarvaldsins. Meðal annars er kveðið skýrar á um skilgreiningar á stærð skipa, heimild ráðherra til setningar reglugerða, vald Hafrannsóknastofnunarinnar til svæðalokunar og viðurlög.
    Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.