Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 450 . mál.


841. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Svanhildar Árnadóttur um björgunarlaun Landhelgisgæslunnar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver voru björgunarlaun Landhelgisgæslunnar sl. sex ár?
    Hvað er það hátt hlutfall af heildartekjum Landhelgisgæslunnar?
    Hvernig er þessum fjármunum ráðstafað?


    Björgunarlaun til Landhelgisgæslu Íslands sl. sex ár, þ.e. árin 1991–96, námu samtals 81.865.294 kr., sundurgreint þannig eftir árum:

    1991                    
7.970.588
    kr. (5 skipum bjargað)
    1992                    
16.784.940
    kr. (12 skipum bjargað)
    1993                    
13.121.802
    kr. (10 skipum bjargað)
    1994                    
13.036.000
    kr. (4 skipum bjargað)
    1995                    
8.524.832
    kr. (7 skipum bjargað)
    1996                    
22.427.132
    kr. (14 skipum bjargað)
    Samtals          
81.865.294
    kr. (52 skipum bjargað)

    Björgunarlaun renna ekki til Landhelgisgæslunnar sem tekjur heldur skiptast þau lögum samkvæmt (sjá 2. mgr. 169. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, og 12. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands) milli áhafna varðskipanna og Landhelgissjóðs, þannig að skipverjar þess skips sem í hlut átti hverju sinni skiptu með sér 2 / 5 hlutum framangreindrar heildarfjárhæðar á umræddu tímabili, en 3 / 5 hlutar, eða 49.119.176 kr. samkvæmt framansögðu, gengu til Landhelgissjóðs.
    Fjármunum Landhelgissjóðs hefur verið varið til að koma upp strandgæsluskipum eða öðrum varanlegum tækjum til þarfa Landhelgisgæslunnar. Er það í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. fyrrnefndra laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands.